Fara í efni

Marka stefnu

Þegar kemur að því að velja hvert þú vilt stefna á vinnumarkaði er mikilvægt að þú vitir hvað þig langar gera eða ert tilbúinn að gera núna. Hafir þú lokið Hver ert þú? ertu með haldgóðar upplýsingar um þig og þitt umhverfi til að byggja ákvörðun þína á. Hafir þú ekki lokið Hver ert þú? en hefur ágæta vitneskju um hvað þú vilt gera getur þú nýtt þér þær aðferðir sem eru kynntar hér til að setja þér markmið og leggja af stað í átt að nýju starfi.

Störfin sem þú stefnir að

Hvort sem þér líkar að setja þér markmið og vinna eftir þeim eða þú vilt láta hendingu ráða þá er gagnlegt fyrir þig að setjast niður og velta fyrir þér hvert þú vilt stefna. Það er í þínum höndum að gera góða hluti fyrir þig.

Leiðin að óskastarfinu er ekki alltaf greið og þræðist oftast fram og til baka. Eins og tennisleikari þarf að sveifla hendinni aftur til að ná góðu skoti gæti þú þurft að stíga til baka til að ná góðri fótfestu til að spyrna þér upp í óskastarfið (myndlíking frá Norman E. Amundson).

Eftir langt hlé frá vinnu getur reynst erfitt að landa óskastarfinu og nokkuð algengt að slaka þurfi aðeins á kröfum. Þeir sem hafa gert það tala oft um að það hafi breytt öllu að byrja aftur að vinna, ná rútínu, kynnast nýju fólki og verkefnum og efla vinnugetu á ný. Góður kostur getur því verið að fara í starf sem þér líst vel á þó það sé ekki efst á óskalistanum. Með því gætir þú verið að stíga skref í þá átti sem þú vilt stefna. Um leið öðlast þú starfsreynslu, aflar þér nauðsynlegra tekna og færð tækifæri til að kynna þig á vinnumarkaði.

Hafðu í huga þegar þú velur starf að þú ert ekki endilega að taka ákvörðun fyrir lífstíð. Ný störf eru alltaf að verða til og mjög miklar breytingar eiga eftir að eiga sér stað á vinnumarkaði í framtíðinni. Það er ekki einu sinni víst að það sé búið að finna upp starfið sem þér á eftir að líka best við í framtíðinni.

Markmið og skref í átt að þeim  

Það er hægt að fara ýmsar leiðir við að setja sér markmið og í verkfærakistunni hér neðar á síðunni getur þú nálgast mismunandi efni til þess. Það getur verið gagnlegt að byggja markmiðin á upplýsingum úr Hver ert þú? 

Markmið eru góð og gild til að stefna að og seiglan oft mikilvæg til að ná þeim. Ef markmiðin reynast hins vegar óraunhæf við nánari skoðun eða ekki áhugaverð lengur er í lagi að breyta og byrja upp á nýtt. Það getur verið mun farsælla en að halda til streitu því sem getur ekki gengið upp.

Áhugakannanir

Langi þig að skoða betur hvernig störfum þú ættir að stefna að þá er kjörið að renna í gegnum eins og eina áhugakönnun.

Næsta skref  býður upp á áhugakönnun sem þú getur tekið á netinu. Hún greinir áhugasvið þitt og bendir á hvaða störf henta þér. 

Bendill býður uppá áhugakannanir og upplýsingar um nám og störf. Einungis menntaðir náms- og starfsráðgjafar sem hafa sótt réttindanámskeið í notkun Bendils geta lagt könnunina fyrir.

My Next Move býður áhugakönnun sem gefur hugmyndir að fjölmörgum störfum. Hún er á ensku og getur hentað þeim sem eru enskumælandi eða stefna á alþjóðlegan vinnumarkað. Það getur líka verið gaman að taka hana þó hún eigi ekki alveg við á Íslandi.

Upplýsingar um störf og fyrirtæki

Upplýsingar um störf

Þegar þú hefur valið nokkur áhugaverð störf sem þig langar að stefna að, eða ert að velta fyrir þér störfum, getur verið gott fyrir þig að kynna þér þau betur. 

Á síðunni Hver ert þú? er listi yfir margskonar áhugaverð störf sem getur verið gagnlegt að skoða ef þig vantar hugmyndir að störfum.

Á vefsíðunni Næsta skref  sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins heldur úti er að finna greinagóðar upplýsingar um fjölmörg störf sem getur verið gagnlegt að skoða. 

Einnig er að finna upplýsingar um ýmis störf sem krefjast iðnmenntunar á Nám og störf.

Nokkrar erlendar síður sem gæti verið gaman að skoða

Upplýsingar um fyrirtæki

Þegar hugmyndir eru komnar að störfum gætir þú haft áhuga á að kynna þér fyrirtæki. Ein leið til þess er að skoða vefsíður fyrirtækja. Góður upphafspunktur er að skoða „um fyrirtækið“ þar sem þú finnur helstu upplýsingar um starfsemi þess. Einnig „starfsmenn” til að sjá tegundir starfa innan fyrirtækisins og þá líka „laus störf”.

Þú gætir líka haft áhuga á að skoða þau fyrirtæki sem hafa komið vel út í starfsmannakönnunum á síðustu árum eða hafa verið metin sem fyrirmyndarfyrirtæki vegna stöðugleika í rekstri.

VR leggur fyrir könnun árlega sem mælir vellíðan starfsfólks og ánægju með fyrirtækið í þeim tilgangi að velja Fyrirmyndarfyrirtæki ársins.

Sameyki framkvæmir einnig árlega könnunina Stofnun ársins meðal allra ríkisstofnana.

Creditinfo vinnur árlega greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu fyrir árangurinn.

Nám og námskeið 

Í ljós gæti komið þegar þú hefur fundið starf sem þig langar að stefna á að þig vanti menntun eða færni til að sinna því. Eins gætir þú haft áhuga á að nota tímann meðfram atvinnuleitinni til að bæta við þig þekkingu eða styrkja þig á einhvern hátt.

Fjölmörg fyrirtæki og einkaaðilar bjóða námskeið af ýmsum toga. Flestar símenntunarmiðstöðvar, framhaldsskólar, háskólar og einhverjir einkaaðilar bjóða upp á fjarnám.

Náms- og starfsráðgjafar starfa í skólum og á símenntunarstöðvum um allt land og veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi nám og störf. Ráðgjöfin er alla jafna endurgjaldslaus.

Símenntun

Hlutverk símenntunar og fullorðinsfræðslu er að efla hæfni og þekkingu fólks í starfi og einkalífi.

Fræðslu- og símenntunarstöðvar eru staðsettar um land allt. Hjá þeim er í boði fjölbreytt nám og námskeið ásamt raunfærnimati.

NTV er viðurkenndur af Menntamálastofnun sem fræðsluaðili í fullorðinsfræðslu. Sumar námsleiðir þeirra gefa einingar til stúdentsprófs.

Promennt er viðurkenndur fræðsluaðili hjá Menntamálastofnun. Þar er hægt að stunda hagnýtt nám á einfaldan hátt sem opnar dyr að nýjum tækifærum.

Nám á framhaldsskólastigi

Listi yfir skóla sem bjóða upp á nám á framhaldsskólastigi.

Endurmenntunarskóli Tækniskólans býður fjölda nám­skeiða fyrir almenning. Einnig sérhæfð nám­skeið fyrir starfs­fólk ólíkra atvinnu­greina til sjós og lands sem og und­ir­bún­ings­nám­skeið fyrir sveins­próf.

Undirbúningur fyrir háskólanám

 • Háskólabrú Keilis býður upp á undirbúning fyrir allar deildir háskóla.
 • Háskólagátt á Bifröst býr nemendur undir nám á háskólastigi í greinum hug- og félagsvísinda og veitir einnig undirstöðumenntun á framhaldsskólastigi sem eykur samkeppnishæfni einstaklinga á vinnumarkaði. 
 • University Portal in English - Hákólagátt á ensku. Studies at the University Portal at Bifröst University will be offered in English in the spring semester of 2021. The studies are a reflection of the studies that take place in Icelandic.

Raunfærnimat

Með því að fara í raunfærnimat getur þú fengið metna reynslu þína af vinnumarkaði í þeim tilgangi að stytta mögulegan námstíma. Matið er ætlað fólki 23 ára og eldra með að lágmarki þriggja ára starfsreynslu.

Nám á háskólastigi

Á Ísland.is getur þú séð yfirlit yfir alla háskóla í landinu. Þar eru jafnframt ýmsar aðrar gagnlegar upplýsingar svo sem um lánshæfi hjá LÍN og nám erlendis.

Námsvalshjól Háskóla Íslands getur verið sniðugt að skoða ef þú vilt bæta við þig menntun og ert ekki alveg viss hvað þig langar að gera.

Endurmenntun háskólanna

Hjá endurmenntun háskólanna geta fullorðnir sótt nám með vinnu og oft óháð menntun.

Námskeið á netinu

Fjölbreytileiki og fjöldi námskeiða sem kennd eru í gegnum vefinn er sífellt að aukast. Hægt er með góðu móti að auka og efla þekkingu sína í hinum ýmsu greinum, allt frá bóklegum greinum, yfir í listsköpun, tækni, vísindi, tungumál og sjálfshjálp. Það er vel þess virði að verja tíma í að bæta við þekkingu og gera þig að öflugari umsækjanda.

 • Frami.is býður upp á vefnámskeið í Excel, forritun, hvernig skrifa má bók, photoshop, SQL, líkamsrækt o.fl.
 • Akademias er vettvangur fyrir menntun og þjálfun framtíðarinnar. Akademias vinnur með einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum til þess að efla þekkingu, hugvit og færni með það að markmiði að skapa verðmæti.
 • Netkennsla.is er kennsluvefur með um 600 kennslumyndbönd. Áhersla er lögð á að þjónusta þá sem vilja læra að nýta sér hugbúnað, snjalltæki og tölvur við störf, í skóla eða til skemmtunar.
 • Fræðsluský Promennt er fræðsla án landamæra sem gefur einstaklingum tækifæri til að styrkja stöðu sína í starfi eða á vinnumarkaði.
 • Coursera er vefgátt sem heldur utan um fjölda netnámskeiða frá háskólum um allan heim. Hægt er að taka stök námskeið yfir í sérhæfðari námsbrautir. Lágmarksgjald er tekið fyrir námskeiðin en hægt er að prófa og jafnvel í sumum tilfellum skoða flesta fyrirlestrana án þess að greiða.
 • EdX er svipað og Coursera vefgátt fyrir fjölda erlendra háskóla. Lágmarksgjald er tekið fyrir námskeiðin og hægt að prófa frítt. Einhver námskeið eru gjaldfrjáls.
 • Udemy býður netnám fyrir námsmenn og sérfræðinga. Lágmarksgjald (frá 1.250 kr hvert námskeið).
 • LinkedIn Learning býður upp á ýmis netnámskeið.
 • Khan Academy býður ókeypis netnámskeið með áherslu á stærðfræði og raungreinar, sérstaklega fyrir börn.
 • Masterclass heldur utan um vefnámskeið kennd af reynslumiklum sérfræðingum. Fjöldi námskeiða í skapandi greinum og einnig í pólitík og viðskiptum.
 • Youtube er veita fyrir fjölda tæknileiðbeininga og örnámskeiða.

 

Launamaður eða sjálfstæður atvinnurekandi  

 Þú gætir haft áhuga á að skoða hvaða ráðningarform hentar þér, hvort þú viljir starfa sem launamaður eða vera sjálfstætt starfandi. Tækifærin liggja víða og oft í óljósara starfsumhverfi en við höfum vanist til þessa. 

Töluverð breyting hefur orðið á því hvernig fólk hugsar ráðningar og eru þær oft óformlegri en áður, með óreglulegum vinnutíma og minna atvinnuöryggi en tíðkast hefur. Þú gætir staðið frammi fyrir því að velja hvort þú viljir leggja meira upp úr sveigjanleika og fjölbreytni en föstum og traustum ráðningarsamböndum til langs tíma. Þróunin er á þann veg að fólk sinnir nú orðið mörgum störfum á lífsleiðinni og staðreynd að lífstíðarstarf heyrir sögunni til, svo gott sem. 

Launamaður 

Flestir kjósa að starfa sem launamenn og eru þá í vinnu hjá fyrirtæki sem greiðir þeim laun. Í skilgreiningu ASÍ segir „Launamaður er einstaklingur sem selur vinnuafl sitt á vinnumarkaði og vinnur undir stjórn og á ábyrgð atvinnurekanda gegn endurgjaldi í formi launa og annarra starfskjara samkvæmt kjarasamningi, lögum eða ráðningarsamningi.“ Kynntu þér vel rétt þinn á almennum vinnumarkaði til dæmis á vinnuréttarvef ASÍ.  

Verktaki

Ef þú ert að velta fyrir þér hvort þú ættir að taka að þér verktöku frekar en gera hefðbundinn ráðningarsamning er sniðugt að skoða upplýsingar um verktakasamninga á vef ASÍ.

Sjálfstæður atvinnurekandi

Ein leið inn á vinnumarkaðinn er að búa til eigið starf með því að fara út í sjálfstæðan rekstur. Ef þú hefur þekkingu sem er eftirsóknarverð eða ert með vænlega viðskiptahugmynd getur þú skoðað þann möguleika að fara út í eigin rekstur.

Á vef Ríkisskattstjóra er að finna gagnlegar upplýsingar fyrir sjálfstæðan rekstur og verktöku, einnig á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Ef þér sýnist að sjálfstæður rekstur höfði til þín gætir þú haft gagn af því að velta fyrir þér hvort þú búir yfir þeim styrkleikum eða eiginleikum sem sjálfstæður atvinnurekandi þarf að hafa. Í verkfærakistunni hér að neðan getur þú sótt Ertu efni í sjálfstæðan atvinnurekanda? og skoðað málið. 

Aðferðir við ákvarðanatöku

Fyrir suma er það leikur einn að velja sér starf en mörgum reynist það erfitt, einkum þeim sem eru mjög fjölhæfir eða hafa svo breytt áhugasvið að þeim finnst ótrúlega margt spennandi. Þetta hik við að taka ákvörðun getur komið í veg fyrir að þú breytir til eða haldir áfram að vaxa í starfi og á vinnumarkaði. Það hjálpar að kynna sér vandlega þau störf sem koma til greina og taka síðan upplýsta ákvörðun. Ef það reynist áfram erfitt að velja gæti verið gott að skoða eftirfarandi leiðir til að auðvelda ákvarðanatöku.

Leyfa óvissu við starfsval

Þegar þú ætlar að velja á milli tveggja starfa getur verið gott að tileinka þér jákvæðni gagnvart óvissuþáttum og þora að taka þá áhættu að velja annað starfið umfram hitt. Það auðveldar ákvarðanatökuna að líta svo á að þó þú veljir annað starfið þá sért þú ekki að útiloka hitt. Segjum sem svo að þú sért að velta fyrir þér hvort þú viljir vera leikari eða kennari og getir bara alls ekki valið á milli. Þú einfaldlega velur annað umfram hitt enda bæði störfin áhugaverð fyrir þig.

Síðar meir getur þú svo alltaf bætt hinu starfinu inn í líf þitt ef áhugi reynist áfram fyrir hendi. Þú gætir til að mynda valið að verða leikari og starfað sem slíkur og bætt því seinna inn að taka að þér ýmiskonar kennslu í tengslum við leiklist. Eða þú gætir valið að verða kennari og gætir svo seinna tekið að þér leikslistarstarfið í skólanum. Þannig getur þú fléttað saman það sem þig langar að gera. Lífið er aldrei þannig að við getum séð allt fyrir og það á líka við þegar kemur að því að velja starf. 

Byggt á hugmyndafræðinni um positive uncertainty frá Norman E. Amundson.

Kostir og gallar

Ein leið gæti verið að skrifa upp rök sem mæla með starfinu og rök sem mæla gegn því. Þú einfaldlega skiptir blaði í tvennt og skrifar niður í annan dálkinn kostina við starfið og í hinn gallana við það. Skoðar síðan vandlega, vegur og metur. Kosti og galla er líka gott að nota til að velja milli tveggja starfa.

Velja milli starfa

Ef velja þarf milli nokkurra hugmynda um störf sem þú hefur áhuga á eða þér bjóðast og valið reynist erfitt þá finnur þú í verkfærakistunni hér að neðan aðferð sem er mjög gagnlegt að nota til að taka erfiðar ákvarðanir og kallast Velja milli starfa

 

 

Click on Translation in the top-right corner for English or other languages. It will not be perfect but useful. / Kliknij w tłumaczenie w prawym górnym rogu aby wybrać język angielski lub inny. Nie będzie ono perfekcyjne ale przydatne.

 

 

Verkfærakistan

Velja milli starfa

Velja á milli starfa er verkfæri sem þú getur notað þegar þú þarft að velja milli nokkurra starfa sem þú hefur áhuga á eða þér bjóðast.

Fimman

Með fimmunni setur þú niður skrefin í átt að markinu. Þegar þú hefur tekið ákvörðun um hvert þú vilt stefna reyndu þá að sjá fyrir hvernig þú ætlar að fikra þig í þá átt. Hvað getur þú gert núna strax á næstu 5 klukkustundum, á næstu 5 dögum, en á næstu 5 vikum eða 5 mánuðum? Hvað verður komið eftir 5 ár?

Kostir og gallar

Ef þú þarft að velja milli tveggja starfa gæti þetta verkfæri hentað þér vel. Listaðu upp hverjir þér finnast vera kostir og gallar starfanna sem þú ætlar að velja á milli og skoðaðu þá vandlega. Þannig getur þú fundið út betri valkostinn fyrir þig og tekið ákvörðun á upplýstan hátt.

Ertu efni í sjálfstæðan atvinnurekanda?

Hefur þig dreymt um að reka eigið fyrirtæki? Ef svarið er já þá ættir þú að gefa þér smá tíma til að skoða málið.

Markmið og áætlun

Settu þér markmið, skifaðu þau niður og gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að ná þeim.

Markmiðin mín

Settu þér markmið og veltu fyrir þér hvernig þér muni líða þegar þú ert búin að ná því. Hvernig er lífið betra?

Fyrirtæki til að skoða

Listaðu upp nokkur fyrirtæki sem þú hefur áhuga á að skoða að vinna hjá. Um leið skaltu reyna að átta þig á hvað það er sem vekur áhuga þinn á fyrirtækinu og hvernig störf eru innan fyrirtækisins. Veltu svo fyrir þér hvernig þú fellur að störfum og menningu þess - og skrifa það líka niður. Þegar því er lokið ættir þú að kanna hvernig væri best að nálgast fyrirtækið til að kynna þig og athuga með störf.

Hvaða nám hentar þér?

Ertu að velta fyrir þér hvað þig langar að læra? Námsvalshjól Háskóla Íslands gæti hjálpað þér að finna svarið.

Stafræn hæfni

Hver er þín stafræna hæfni? Á síðu VR getur þú tekið próf sem sýnir hver stafræn hæfni þín er og borið saman við aðra í þinni starfsgrein.

Heimurinn minn

Æfing á myndbandi sem hjálpar þér að safna upplýsingum um þig til að auðvelda þér að horfa til framtíðar. Þú dregur upp sterka mynd af þér um leið og þú áttar þig á hlutverkum þínum og allri þeirri reynslu sem þú býrð yfir. Með þessa skýru mynd af þér verður auðveldara að sjá hvert þú vilt stefna og ákveða næstu skref. Þetta er skemmtileg æfing og sjálfstyrkjandi.
Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband