Sjö góð ráð til að tryggja gott kombakk
Atvinnutenging VIRK vinnur í þéttu samstarfi við atvinnulífið enda er það allra hagur að fólk sem dettur út af vinnumarkaði eigi greiða leið inn á hann aftur – fái tækifæri til að eiga glæsilegt kombakk!
Hér eru sjö mikilvæg atriði og verkfæri sem auðvelda endurkomu á vinnumarkað.
Góð þjálfun og fræðsla í upphafi
Mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir taki vel á móti nýju starfsfólki, veiti þjálfun og skýrar upplýsingar um væntingar og hlutverk.
Einnig getur verið gagnlegt fyrir nýliða að eiga starfsvin á vinnustaðnum.
Verkfæri: Móttaka nýrra starfsmanna
Stigvaxandi innkoma þegar hægt er
Gott er að bjóða fólki að byrja í hlutastarfi og bæta við sig eftir samkomulagi. Gæta þess að álag sé hæfilegt og aðstoða við að forgangsraða verkefnum. Kanna hvort möguleiki sé á léttari verkefnum til að byrja með.
Ef hægt er að bjóða upp á sveigjanlega mætingu fyrstu vikurnar styður það við bata og minnkar líkur á bakslagi.
Eftirfylgd og stuðningur
Æskilegt er að fara reglulega yfir líðan starfsmanns, verkefnastöðu og vinnufyrirkomulag. Stillið væntingar og stuðning í takt við raunveruleikann.
Hvetjum samstarfsfólk til að sýna stuðning og munum að jákvætt viðhorf stjórnenda og stuðningur vinnufélaga stuðlar að farsælli endurkomu. Góð samskipti geta skipt sköpum!
Verkfæri: Samtal um endurkomu og líðan í starfi
Taka mið af fjölbreyttum þörfum
Kanna hvort laga þurfi umhverfið að þörfum nýliðans og meta hvernig stuðningur hentar hverjum og einum.
Virðum upplifun starfsmanns á aðstæðum og höfum augun opin fyrir nýjum möguleikum og leiðum.
Verkfæri: Samtal um endurkomu og líðan í starfi
Upplýsa starfsfólk um úrræði sem standa til boða
Gagnlegt getur reynst að skapa sameiginlegt orðfæri þegar kemur að því ræða um líðan í starfi.
Mikilvægt er að starfsmaður sé upplýstur um þau úrræði sem vinnustaðurinn býður upp á varðandi heilsueflingu. Samskiptaleiðirnar þurfa einnig að vera skýrar.
Verkfæri: Streitustiginn
Leggja áherslu á trausta og heilbrigða vinnustaðamenningu
Heilbrigð vinnustaðamenning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks.
Mikilvægt er að hvetja til heilbrigðs jafnvægis milli vinnu og einkalífs, jákvæðra viðhorfa og samskipta og gera málefni geðheilsu og endurkomu á vinnumarkað að eðlilegum hluta menningarinnar.
Verkfæri: Þættir sem stuðla að heilbrigðum vinnustað – Stjórnendahjólið
Huga að öryggi og vellíðan starfsfólks
Mikilvægt er að byggja upp heilsusamlegt og styðjandi vinnuumhverfi, skoða áhættuþætti og bregðast við þeim. Þannig má koma auga á þá einstaklinga og þær vinnuaðstæður sem þarf að sinna sérstaklega og þarfnast sérstakra aðgerða.
Mikilvægt er að taka tillit til ólíkrar færni fólks og stuðla að því að einstaklingar með minna úthald eða færni haldist í starfi þegar þeir koma aftur til starfa eftir veikindi, hvort sem þau eru andlegs eða líkamlegs eðlis.
Verkfæri: Heilsuefling
Fólk sem snýr aftur á vinnumarkaðinn þarf á þínum vinnustað að halda. Atvinnutenging VIRK aðstoðar þig viðað finna rétta fólkið.
Skráðu vinnustaðinn hér eða sendu póst á atvinnutenging@virk.is og taktu þátt í góðu kombakki.
Það græða öll á góðu kombakki!