Fara í efni

Rannsóknir á vegum VIRK

Gagnreyndar rannsóknir eru mikilvæg forsenda þekkingarþróunar í þverfaglegri starfsendurhæfingu. Í lögum nr. 60/2012 um starfsendurhæfingarsjóði er VIRK heimilt að styrkja og stuðla að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu á eigin vegum eða í samstarfi við aðra sérfræðinga.

Hornsteinn rannsókna á vegum VIRK er árangur einstaklinga og hópa í starfsendurhæfingu og hefur eftirfylgdarrannsókn VIRK verið burðarásinn í þeirri vinnu. Í eftirfylgd er gögnum um stöðu einstaklinga á vinnumarkaði og framfærslu safnað með reglubundnum hætti í allt að þrjú ár eftir að þjónustu lýkur.

Þátttaka í rannsókninni er algjörlega valkvæð og geta þátttakendur hætt í henni hvenær sem er. Til að tryggja persónuleynd er gögnum safnað í samstarfi við vottuð gagnaöflunarfyrirtæki og þeim síðan skilað til verkefnastjóra rannsókna og greininga hjá VIRK sem greinir þau og vinnur úr þeim. Gögnin eru aðeins aðgengileg þeim sem vinna úr þeim og ekki varðveitt lengur en þörf er á.

Samkvæmt venju eru einungis þrjár spurningar í eftirfylgdarkönnuninni og er þátttaka því ekki tímafrek. Spurt er um meginstöðu einstaklings á vinnumarkaði (launþegi, í námi, annað) og í framhaldi af því er spurt um framfærslustöðu viðkomandi. Einnig gefst þátttakendum kostur á að svara opinni spurningu um stöðu sína og heilsufar, ef þeir kjósa.

Fyrirkomulag rannsóknarinnar er í samræmi við persónuverndarlög nr. 90/2018 og rannsóknarstefnu VIRK.

Hafa samband