Fara í efni

Atvinnutenging 2021

Atvinnutenging einstaklinga sem luku þjónustu hjá atvinnulífstenglum VIRK árið 2021

Á hverju ári lýkur stór hópur einstaklinga starfsendurhæfingu hjá VIRK og fer aftur inn á vinnumarkaðinn eða í nám. Margir fara aftur til sinna fyrri starfa eða finna sér nýjan starfsvettvang.

Undanfarin ár hafa um 78–80% einstaklinga sem ljúka þjónustu hjá VIRK verið með vinnugetu og virkir á vinnumarkaði þ.e. farið í vinnu, í nám eða í atvinnuleit. Það eru ráðgjafar VIRK í starfsendurhæfingu sem aðstoða þessa einstaklinga við að snúa aftur á vinnumarkaðinn en hluti þeirra ljúka þjónustu með skerta starfsgetu og margir snúa aftur á vinnumarkaðinn í hlutastörf.

Aukin aðstoð inn á vinnumarkaðinn

Í sumum tilfellum þurfa einstaklingar aukna aðstoð við að komast inn á vinnu markaðinn á farsælan hátt og í þeim tilfellum senda ráðgjafar VIRK tilvísun til atvinnulífstengla VIRK sem veita sértæka atvinnutengda þjónustu. Þjónustan hjá þeim er einstaklingsmiðuð og sniðin að þörfum hvers og eins.

Atvinnulífstenglar aðstoða meðal annars við að gera starfsleitaráætlanir, gerð ferilskrár og kynningarbréfs og leiðbeina og æfa atvinnuviðtöl. Lögð er áhersla á að undirbúa þjónustuþegana sem best fyrir atvinnuleitina og síðan fylgja þeim eftir ef með þarf inn í starfið.

Árið 2021 bárust 480 tilvísanir til atvinnulífstengla en 503 einstaklingar luku þjónustu hjá þeim. Við lok þjónustu voru 61% þeirra með vinnugetu þ.e. fóru í vinnu, nám eða atvinnuleit. Einstaklingar sem vísað er í þjónustu hjá atvinnulífstenglum eru með skerta starfsgetu og stefna margir á hlutastörf við lok starfsendurhæfingar.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, sem sýnir hlutfallslega skiptingu starfa eftir starfshlutfalli, þá eru 73% þeirra 294 starfa sem fundust árið 2021 hlutastörf. Ef borin eru saman störfin sem fengust árið 2020 og 2021, þá hefur hlutastörfum fjölgað sem er mikilvægt því það eykur möguleika einstaklinga með skerta starfsgetu á að komast inn á vinnumarkaðinn.

Atvinnulífstenglar nýta sér ýmis úrræði til að auka líkur þjónustuþega á að komast aftur inn á vinnumarkaðinn eins og t.d. vinnuprófanir og vinnusamninga. Árið 2021 voru 65 vinnuprófanir skipulagðar og af þeim urðu 38% að áframhaldandi störfum en vinnuprófanir eru mikilvægar í mörgum tilfellum til að fá betri mynd af vinnugetu einstaklingsins. Atvinnulífstenglar nýttu sér einnig vinnusamninga árið 2021 og voru 45 slíkir samningar gerðir og urðu 36% þeirra að áframhaldandi störfum. Einstaklingar í þjónustu hjá atvinnulífstenglum fóru einnig í tímabundin störf en 32 slík fóru af stað og urðu 22% þeirra að áframhaldandi störfum.

Yfir 1400 fyrirtæki eru skráð inni í upplýsingakerfi VIRK í dag og eru mörg þeirra með skráða tengiliði sem auðveldar allt samstarf. Um 350 þessara fyrirtækja hafa undirritað sérstakan samstarfssamning við VIRK.

Mikilvægt hlutverk atvinnulífstengla VIRK er að halda virku sambandi við fyrirtæki og stofnanir og skipulögð eru regluleg samskipti og heimsóknir til þeirra, þar sem þjónusta VIRK er kynnt og sóst er eftir samstarfi um atvinnutengingu einstaklinga sem eru að ljúka starfsendurhæfingu. Yfir 1400 fyrirtæki eru skráð inni í upplýsingakerfi VIRK í dag og eru mörg þeirra með skráða tengiliði sem auðveldar allt samstarf. Um 350 þessara fyrirtækja hafa undirritað sérstakan samstarfssamning við VIRK.

Á myndum hér að ofan og neðan má sjá áhugaverðar upplýsingar sem tengjast einstaklingum sem luku þjónustu hjá atvinnulífstenglum VIRK árið 2021.

Hafa samband