Fara í efni

Hvernig gerist ég þjónustuaðili?

Þeir aðilar sem uppfylla kröfur til þjónustuaðila VIRK geta sótt um að gerast þjónustuaðilar - sjá nánar í Hverjir geta gerst þjónustuaðilar hjá VIRK?  

Öll úrræði sem samþykkt eru fyrir einstaklinga í þjónustu VIRK eru skráð inn í nafni þjónustuaðila. Umsókn um að gerast þjónustuaðili fer fram gegnum vefsíðu VIRK. 

Fyrsta skrefið í umsóknarferlinu er að ákveða hvort það úrræði sem bjóða á upp á, sé skráð inn í nafni fyrirtækis eða í nafni þess einstaklings sem er ábyrgur fyrir úrræðinu. 

Fyrirtæki sem þjónustuaðili

Ef bjóða á úrræðið í nafni fyrirtækis þarf að byrja á að gefa tilteknum starfsmanni umboð til að fara inn í kerfið fyrir þess hönd. Starfsmaðurinn sem veitt er umboðið er þar með orðinn tengiliður fyrirtækisins og getur hann þá farið á eigin rafrænum skilríkjum inn í skráningarkerfið fyrir þess hönd.  

Til að veita umboð til tengiliðs þarf forsvarsmaður eða prófkúruhafi fyrirtækis að fara inn á mínar síður fyrirtækisins á island.is.  Ef fyrirtæki er ekki með íslykil er hægt að fá hann sendan í heimabanka og tekur það aðeins nokkrar mínútur. Nánari leiðbeiningar um hvernig umboðum eru veitt eða þeim breytt, má finna hér.

Þegar fyrirtæki sækja um að gerast þjónustuaðilar fer tengiliður fyrirtækisins inn í skráningarkerfi VIRK á rafrænum skilríkjum og fyllir út umsókn. Í umsókninni eru skráðar inn grunnupplýsingar fyrirtækisins og þau úrræði sem fyrirtækið vill bjóða upp á fyrir einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Nánari leiðbeiningar um skráningu fyrirtækja og úrræða á þeirra vegum má finna hér.

Einyrkjar/fagaðilar sem þjónustuaðilar

Þegar einyrkjar/fagaðilar bjóða upp á úrræði í eign nafni geta þeir farið beint inn í skráningarkerfið á eigin rafrænu skilríkjum. 

Í fyrsta skrefi innskráningar eru grunnupplýsingar skráðar inn. Þegar starfsheiti hefur verið skráð birtist listi yfir þau fylgiskjöl sem fylgja þurfa umsókninni. Þetta geta verið skjöl eins og ferilsskrá, staðfesting á námi, undirritaður samningur vegna tiltekinnar þjónustu eða starfsleyfi frá embætti landlæknis þegar um heilbrigðisstarfsmenn er að ræða. 

Í skrefi 2 í umsóknarferlinu eru þau úrræði sem bjóða á upp á skráð inn og umsóknin síðan send inn til VIRK til samþykktar.

Nánari leiðbeiningar um skráningu einyrkja/fagaðila og úrræða á þeirra vegum má finna hér.

Minnum á að umsóknir um að gerast þjónustuaðili þurfa að berast í rafrænu kerfi VIRK inn á Mínar síður - þjónustuaðilar.  

Í báðum tilfellum er farið inn í skráningarkerfi VIRK með rafrænum skilríkjum inn á Mínar síður -þjónustaðilar.  

Meðhöndlun umsókna þjónustuaðila

Allar umsóknir frá þjónustuaðilum sem berast í gegnum skráningarkerfi VIRK eru teknar til skoðunar af úrræðateymi VIRK og afgreiddar að meðaltali innan fjögurra vikna.

Úrræðateymið metur hvort það úrræði sem boðið er upp á, geti talist sem starfsendurhæfingarúrræði samkvæmt þjónustusamningi við velferðarráðuneytið og hvort kaup á úrræðinu samræmist innkaupastefnu VIRK.  Sjá nánar í viðmið þjónustuaðila sem starfa fyrir VIRK. 

Mikilvægt er að umsóknir séu vel fylltar út og þar komi skýrt fram í hverju viðkomandi úrræði er fólgið. Ef um meðferðarúrræði er að ræða er mikilvægt að fram komi hvaða aðferðum er verið að beita. Auk þess er mikilvægt þegar úrræðin eru skráð á fyrirtæki að það komi skýrt fram hvaða fagfólk stendur að og leiðbeinir í úrræðinu. Ekki má gleyma að tiltaka praktísk atriði eins og fjölda skipta, tímalengd og tímasetningar. 

Eins áður segir þá afgreiðir úrræðateymi VIRK umsóknir þeirra sem hafa áhuga á að verða þjónustuaðilar hjá VIRK að meðaltali innan fjögurra vikna.
Áhugasamir eru beðnir að skoða vel viðmið fyrir þjónustuaðila VIRK áður en umsókn er send inn og hafa í huga að öll umbeðin gögn þurfa að fylgja svo hægt sé að afgreiða hana.

Algengt er að úrræðateymi þurfi að leita álits sérfræðinga VIRK á viðkomandi sviði. Vel útfylltar umsóknir með nákvæmum upplýsingum flýta afgreiðslu þeirra.

Úrræðasvið vill benda á að ráðgjafar VIRK gera áætlanir nokkra mánuði fram í tímann og þess vegna bendum við þjónustuaðilum á að senda nýjar þjónustuumsóknir í gegnum upplýsingakerfið tímanlega.
Vor úrræði - senda inn fyrir 1. desember
Sumar úrræði – senda inn fyrir 1. apríl
Haust úrræði – senda inn fyrir 1. ágúst

Fyrir samþykkta þjónustuaðila er í boði að sækja fræðslu hjá VIRK þegar formlegt samstarf hefst. Þar er farið yfir hagnýt atriði er varða samstarfið. Við bjóðum upp á kynningu á því hvernig kerfið virkar eftir þörfum. Ef áhuga er á slíkri fræðslu, sendu þá tölvupóst á urraedi@virk.is og úrræðateymið mun hafa samband.

Hafa samband