Fara í efni

Skipulagskrá

 

SKIPULAGSSKRÁ
VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs

eftir samþykktar breytingar á ársfundi 2024
 
 
1. gr.
Heimili og varnarþing
VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður, SES, er sjálfseignarstofnun og sjóður með sérstaka stjórn. Heimili, varnarþing og aðalstarfsstöð hennar er að Borgartúni 18 Reykjavík. VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður er sjálfstæður lögaðili sem ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og er ekki rekinn í ágóðaskyni.
 
2. gr.
Markmið og hlutverk
Markmið VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku. VIRK mótar, samþættir og hefur eftirlit með þjónustu á sviði starfsendurhæfingar sem miðar markvisst að atvinnuþátttöku einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa.
 
3. gr.
Verkefni og framkvæmd þjónustu
Fjármunum VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs skal ráðstafað í eftirtalin verkefni hans og hlutverk:
 að skipuleggja þjónustu og veita úrræði fyrir þá einstaklinga sem veikjast til lengri tíma eða slasast þannig að vinnugeta skerðist
 að koma að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði svo virkur á vinnumarkaði sem vinnugeta hans leyfir 
 að skipuleggja og hafa umsjón með störfum ráðgjafa sem verða aðallega á vegum sjúkrasjóða eða fjölskyldu- og styrktarsjóða stéttarfélaganna og greiða kostnaðinn af störfum þeirra 
 að semja við fagaðila um ráðgjöf við einstaklinga um starfsendurhæfingaráætlun og greiða kostnaðinn af þeirri ráðgjöf
 að greiða fyrir kostnað við úrræði og starfsendurhæfingu til viðbótar því sem veitt er af hinni almennu heilbrigðisþjónustu
 að byggja starfsemi sína á samstarfi einstaklinganna sem í hlut eiga, fyrirtækjanna sem þeir vinna hjá, stéttarfélaganna, ráðgjafanna, fagaðila og heilbrigðisþjónustunnar
 að vinna að gagnaöflun, rannsóknum og þróun starfsendurhæfingar og tryggja að framkvæmd þeirra verði sem árangursríkust 
 að taka þátt í verkefnum sem snúa að eflingu forvarna og velferðar á vinnustöðum. 
 að vinna að öðrum þeim verkefnum sem falla að markmiðum og hlutverki sjóðsins.
 
 
4. gr.
Stofnaðilar

Stofnendur eru Alþýðusamband Íslands, kt. 420169-6209 og Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, BSRB, kt. 440169-0159, Kennarasamband Íslands, kt. 501299-3329, Bandalag háskólamanna, kt. 630387-2569, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs kt. 550169-2829 og Reykjavíkurborg, kt.530269-7609 og Samband íslenskra sveitarfélaga , kt. 550269-4739. Fjárhagslegar skuldbindingar VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs umfram stofnframlag eru stofnendum óviðkomandi.

5. gr.
Aðild og tryggingavernd
Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem eru á aldrinum 16 til 70 ára, skal tryggður réttur til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar með greiðslu iðgjalds í VIRK – Starfsendurhæfingarsjóð. Um aðild að VIRK - Starfsendurhæfingarsjóði fer eftir kjarasamningum stofnaðila sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein. 
Eftirfarandi aðilar njóta tryggingaverndar hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði:
1. Einstaklingar sem iðgjald er greitt fyrir til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs. Einstaklingur er tryggður í allt að tólf mánuði eftir að síðasta greiðsla barst til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs eða lengur ef ástæða þess að hann hefur ekki getað tekið þátt á vinnumarkaði að fullu er í eðlilegu samhengi við þann heilsubrest sem varð til þess að hann hætti störfum.
2. Einstaklingar sem fá greiðslur frá sjúkrasjóði eða fjölskyldu- og styrktarsjóði stéttarfélags, Atvinnuleysistryggingasjóði eða Fæðingarorlofssjóði, tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, tekjutengdar greiðslur samkvæmt lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, örorkulífeyri frá lífeyrissjóðum eða er fjarverandi frá eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi vegna veikinda.
3. Einstaklingar sem njóta tryggingarverndar á grundvelli samnings VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs við ráðherra.
4. Aðrir þeir sem fá greiðslur frá sjúkrasjóði eða fjölskyldu- og styrktarsjóði aðildarfélags VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs eða á grundvelli laga.
 
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður metur hvort lögbundin skilyrði þjónustunnar séu uppfyllt.
 
 
6. gr.
Skilyrði fyrir þjónustu
Skilyrði fyrir þjónustu hjá VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði eru eftirfarandi:
 Einstaklingur búi við heilsubrest sem hindrar fulla þátttöku hans á vinnumarkaði.
 Einstaklingur stefni að endurkomu á vinnumarkað eða að auka þátttöku á vinnumarkaði svo fljótt sem verða má.
 Einstaklingur hafi þörf fyrir þjónustuna, hún sé til þess fallin að auðvelda honum að fara aftur til vinnu og líkleg til árangurs á þeim tíma sem hún er veitt.
 Einstaklingur hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og fylgja þeirri áætlun sem þar er sett fram.
 
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að binda þjónustu við einstakling við það skilyrði að hann skuldbindi sig til virkrar þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu, þar með talið með því að lýsa sig reiðubúinn til þátttöku í atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem getur að hluta farið fram í vinnuumhverfi, með starfskynningum, vinnuprófunum, þátttöku í sjálfboðaverkefnum eða reynsluráðningu á vinnumarkaði.
 
7. gr.
Stjórn

Stjórn VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs er skipuð sjö fulltrúum og sjö fulltrúum til vara. Nánar tiltekið tveimur frá ASÍ, einum frá BSRB, KÍ og BHM sameiginlega, tveimur frá SA, einum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg sameiginlega, og framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir hönd lífeyrissjóða. Skipa skal sjö fulltrúa til vara með sama hætti. Stjórnarmenn eru skipaðir til eins árs í senn. Skipun stjórnarmanna tekur gildi og skal tilkynnt á ársfundi. Hverfi stjórnarmaður úr stjórn skal skipa nýjan stjórnarmann í hans stað og tekur skipun hans þá þegar gildi. Stjórn skiptir með sér verkum. Formaður stjórnar skal skipaður úr hópi fulltrúa atvinnurekenda og stéttarfélaga á almennum og opinberum vinnumarkaði á eftirfarandi máta: Á hverjum sex árum er formennska í höndum ASÍ í tvö ár, SA í tvö ár, stéttarfélögum opinberra starfsmanna eitt ár og loks opinberum vinnuveitendum í eitt ár. Varaformaður kemur úr röðum þeirra samtaka sem næst taka við formennskunni.

 
8. gr.
Fulltrúaráð

Fulltrúaráð samanstendur af 36 aðilum og skal það skipað fulltrúum stofnaðila sem að sjóðnum standa, ásamt fulltrúum lífeyrissjóða og félags- og vinnumarkaðsráðherra og fer það með atkvæði á ársfundum og aukaársfundum í samræmi við ákvæði skipulagsskrár þessarar. Fulltrúar launafólks og atvinnurekenda skipa hvor um sig 15 manns til setu í fulltrúaráðinu og skulu samtök launafólks skipa fulltrúa sína sameiginlega í hlutfalli við stofnfé hvers og eins. Við skipun skal leitast við að endurspegla sem best greiðendur í sjóðinn. Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða á rétt á að skipa fjóra fulltrúa fyrir hönd lífeyrissjóðanna og félags- og vinnumarkaðsráðherra á rétt á að skipa tvo fulltrúa. Hætti fulltrúi í fulltrúaráði skal skipunaraðili samstundis skipa nýjan fulltrúa í hans stað og tekur skipun hans þá þegar gildi. Fulltrúar í fulltrúaráði skulu skipaðir til eins árs í senn. Fulltrúaráð skal koma árlega saman á ársfundi skv. 11 gr. Fulltrúaráðið skal fylgjast með rekstri VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs og hafa eftirlit með því hvernig stjórn og forstjóri ráða málum hans, þar með töldum fjármálum. Fulltrúaráði skal einnig boðið að jafnaði á ársfjórðungslega fræðslu- og upplýsingafundi þar sem meðal annars verður farið yfir starfsemi VIRK og boðið upp á ýmsa fræðslu sem tengist þróun starfsendurhæfingar.

Fulltrúaráð ákveður þóknun til stjórnarmanna VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs.

9. gr
Hlutverk og starfshættir stjórnar

Hlutverk stjórnar VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs er að móta og þróa starfsemi sjóðsins í samræmi við markmið hans. Stjórn ræður forstjóra. Stjórnin ákveður meginþætti í stefnu og starfstilhögun sjóðsins og setur sér og forstjóra nánari starfsreglur á grundvelli skipulagsskrár þessarar og laga nr. 60/2012. Stjórn setur jafnframt reglur um ávöxtun eigna sjóðsins. Stjórnarfundi skal halda að jafnaði mánaðarlega en þó ekki sjaldnar en ársfjórðungslega. Formaður undirbýr stjórnarfundi í samráði við forstjóra sem boðar til þeirra með hæfilegum fyrirvara og með tryggilegum hætti. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda sjóðinn og veitir stjórn prókúruumboð. Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð máls ef málefnið varðar hann persónulega.

Einfaldur meirihluti atkvæða stjórnarmanna gildir á stjórnarfundum. Þó þarf atkvæði fimm stjórnarmanna ef um er að ræða ákvarðanir er varða:

1. Tekjugrunn VIRK og viðræður við stjórnvöld eða lífeyrissjóði vegna þess.

2. Breytingar á samningi milli VIRK og ráðherra skv. 9. gr. laga nr. 60/2012.

3. Ákvarðanir sem geta haft mikil áhrif á grundvallaruppbyggingu og þróun á starfsemi VIRK.

Stjórn ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum sjóðsins, en allar meiriháttar ákvarðanir forstjóra skal leggja fyrir stjórn.

10. gr
Forstjóri
Forstjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs í samræmi við starfslýsingu sem samþykkt skal í stjórninni. Forstjóri annast daglegan rekstur, ræður annað starfsfólk sjóðsins, vinnur að innheimtu samningsbundinna gjalda og ber ábyrgð á fjárreiðum og reikningsskilum. Forstjóri undirbýr fjárhagsáætlun, sem stjórn skal afgreiða fyrir lok nóvember ár hvert. Stjórn skal marka stefnu og ákveða þær reglur sem gilda varðandi samninga VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs við sjálfstæða aðila um rekstur eða þjónustu í þágu starfsendurhæfingar. Leggja skal stærri og stefnumarkandi samninga fyrir stjórn til samþykktar í samræmi við viðmið sem stjórn ákveður. Forstjóri skal sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.
 
11. gr.
Ársfundur
Stjórnin boðar fulltrúaráð og stjórn til ársfundar sem haldinn skal eigi síðar en í lok apríl ár hvert. Á ársfundi gerir stjórnin grein fyrir starfi sjóðsins og leggur fram ársreikninga til samþykktar. Endurskoðaður ársreikningur skal liggja frammi til kynningar minnst viku fyrir ársfund. Á ársfundi skal jafnframt kjósa löggiltan endurskoðanda til að endurskoða reikninga sjóðsins og tilkynna skipan stjórnarmanna. Einfaldur meirihluti atkvæða gildir. Ársfund skal boða skriflega með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta og skal hann opin öllum. Stjórnarmenn, stofnaðilar og fulltrúar í fulltrúaráði eru einir bærir til að leggja til breytingar á skipulagsskrá. Tillagna um breytingar á skipulagsskrá skal getið sérstaklega í fundarboði. Tillögur til breytinga á skipulagsskrá og/eða aðrar tillögur til ársfundar skulu berast formanni stjórnar ekki síðar en 20. mars.
 
Dagskrá ársfundar skal vera sem hér segir:
 
1. Skýrsla stjórnar.
2. Ársreikningur liðins árs kynntur og til samþykktar.
3. Breytingar á skipulagsskrá (ef við á).
4. Tilkynning um skipan stjórnar sbr. 7. gr.
5. Kosning endurskoðenda.
6. Önnur mál.
 
12. gr.
Aukaársfundur
Stjórn getur boðað til aukaársfundar ef nauðsyn krefur. Aukaársfundur skal boðaður með dagskrá með minnst viku fyrirvara.
 
13. gr.
Reikningsskil og endurskoðun
Reikningsár VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs er frá 1. janúar til 31. desember. Um reikningshald fer samkvæmt lögum nr. 33/1999 um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur. Reikningar skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Endurskoðandi skal leggja endurskoðaðan ársreikning fyrir stjórn fyrir lok febrúarmánaðar. Endurskoðaðan reikning ber að senda til Ríkisendurskoðunar þegar hann hefur hlotið samþykki ársfundar og skal honum fylgja skýrsla um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á árinu. Samhliða framlagningu ársreiknings í stjórn skal forstjóri leggja fram skýrslu sína um starfsemi síðasta árs.
 
14. gr.
Stofnfé og tekjur
Stofnfé VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs er framlög ofangreindra stofnaðila, sem leggja fram eftirfarandi stofnfé við undirritun stofnskrár. 
ASÍ 500.000,- 
SA 500.000,-
BSRB 125.000,- 
KÍ 62.500,-
BHM 62.500,- 
Fjármálaráðherra 125.000,-
Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg 125.000,-
 
Þar af er óskerðanlegt stofnfé kr. 1.000.000. Stofnfé skal ávaxtað og varðveitt á bestu kjörum í viðskiptabanka sjóðsins. 
 
Tekjur VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs, auk vaxta af stofnframlagi eru samkvæmt kjarasamningum, lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lögum um tryggingagjald.
 
Ef tap verður á rekstri VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs þannig að fyrirséð verður að sjóðurinn geti ekki greitt fyrir þjónustu sem hann hefur skuldbundið sig að veita ber stjórn sjóðsins að bregðast sérstaklega við og hlutast til um nauðsynlegar breytingar sem tryggja rekstur sjóðsins.  
 
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður skal halda nauðsynlegan varasjóð til að mæta sveiflum í rekstri sjóðsins.
 
15. gr.
Upplýsingaskylda
VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður ber upplýsingaskyldu gagnvart þeim einstaklingum sem teljast tryggðir hjá sjóðnum samkvæmt lögum um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Sjóðurinn getur fullnægt þeirri upplýsingaskyldu með því að halda úti vefsíðu eða annarri sambærilegri kynningu þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi hans koma fram ásamt aðgengi að ársreikningum hans.
 
16. gr.
Samstarf við aðra aðila
VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður getur átt samstarf við aðra aðila og gert við þá samninga til lengri eða skemmri tíma til að vinna að markmiðum og verkefnum sjóðsins.
 
17. gr.
Breytingar á skipulagsskrá
Skipulagsskrá þessari verður aðeins breytt samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða á ársfundi og að fengnu samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir. Til að auka skuldbindingar aðila þarf þó samþykki þeirra allra.
 
Allar breytingar á skipulagsskrá skal tilkynna ráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest þær.
 
18. gr.
Slit sjóðsins
Starfsemi VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs verður einungis slitið með ákvörðun samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða á ársfundi og að fengnu samþykki þeirra aðila sem hafa lagt fram minnst 2/3 hluta þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir stofnaðila sjóðsins. Verði starfsemi sjóðsins lögð niður skal eignum ráðstafað í samræmi við markmið hans.
 
19. gr.
Staðfesting
Þar sem ákvæði samþykkta þessara ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða nr. 60/2012, laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.
 
Skipulagsskráin var upphaflega staðfest á stofnfundi Endurhæfingarsjóðs þann 19. maí 2008 til að efna ákvæði kjarasamninga ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008.
 
Skipulagsskránni var breytt á aukastofnfundi þann 8. janúar 2009, þar sem nafni sjóðsins var breytt í Starfsendurhæfingarsjóð, stofnaðilum fjölgað með aðkomu samtaka launafólks á opinberum vinnumarkaði og opinberra atvinnurekenda, fjölgað í stjórn og tekin inn ákvæði um framkvæmdastjórn.
 
Skipulagsskránni var breytt á ársfundi þann 12. apríl 2011 þar sem nafni sjóðsins var breytt í VIRK – Starfsendurhæfingarsjóður og síðustu málsgrein 5. greinar er varðar tilnefningu í framkvæmdastjórn var breytt.
 
Skipulagsskránni var breytt á ársfundi þann 12. apríl 2012 þar sem 5. og 6. grein var breytt í þá veru að fulltrúi Landssamtaka lífeyrissjóða hefur aðila í stjórn og fulltrúaráði. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða sitji í stjórn og að stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða komi inn í fulltrúaráð VIRK.

7. og 8. grein skipulagsskráarinnar var breytt á ársfundi þann 21. apríl 2015 til samræmis við samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra annars vegar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs sem gert var 4. mars 2015. Bætt var við stjórnarmanni og varamanni skipuðum af félags- og húsnæðismálaráðherra auk þess að ráðherrann skipar 5 fulltrúa í fulltrúaráði. Þá var skipunartími stjórnar og fulltrúaráðs styttur í 1 ár og bætt við ákvæði um að hætti stjórnarmaður eða fulltrúi í fulltrúaráði  skuli skipunaraðili samstundis skipa annan í hans stað.
 

Skipulagsskránni var breytt á ársfundi þann 29. apríl 2024. Efnislegar breytingar voru gerðar á greinum 7, 8, 9, 10 og 11. Breytt var nöfnum aðila og heimilisfangi í takt við þróun í greinum 1, 4, 13 og 14. Með breytingunum var fækkað í stjórn VIRK úr 14 í 7 aðila auk 7 til vara og sérstök framkvæmdastjórn innan stjórnar var lögð niður. Jafnframt er skrifað inn í 7. grein skipulagsskrárinnar hvernig formennsku og varaformennsku er háttað innan stjórnar. Fækkað var í fulltrúaráði úr 74 fulltrúum í 36 og sett inn ákvæði í grein 8 um að fulltrúaráð skuli boðið á reglulega fræðslu- og upplýsingafundi. Grein 9 um hlutverk og starfshætti stjórnar var breytt í samræmi við fækkun í stjórn og auk þess var sett inn ákvæði um aukinn meirihluta stjórnarmanna við tilteknar ákvarðanir í grein 9.

Hafa samband