Fara í efni

Starfsendurhæfing samhliða vinnu

Vinnan sjálf getur oft verið besta úrræðið í starfsendurhæfingunni og rannsóknir hafa sýnt að úrræði sem tengjast vinnustaðnum eru oft árangursríkari. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á mikilvægi þess að gefa kost á vinnuaðlögun til að auðvelda starfsmönnum að snúa aftur til vinnu og skila vinnu sinni á fullnægjandi hátt. Þess vegna býður VIRK upp á starfsendurhæfingu samhliða vinnu.

Þjónustuþegar VIRK sem nýta sér starfsendurhæfingu samhliða vinnu þurfa að hafa tíma til að sækja viðeigandi úrræði auk þess sem mikilvægt er að geta hvílt sig og safnað kröftum. Því er ekki mögulegt að vera í fullri vinnu eða námi samhliða starfsendurhæfingunni. Að taka virkan þátt í starfsendurhæfingu þarf sinn tíma og það er erfitt ef viðkomandi er í fullu starfi eða námi.

Ef einstaklingar vilja og hafa fengið samþykki á sínum vinnustað til að taka þátt í starfsendurhæfingu samhliða vinnu þá er mikilvægt að þeir láti starfsendurhæfingarráðgjafa sinn vita en einnig getur þetta komið fram í beiðninni um starfsendurhæfingu frá lækni viðkomandi.

Stefnt er að sama markmiði hvort sem fólk er að sækja starfsendurhæfingu með vinnu eða hefur farið alveg af vinnumarkaðinum – að ná heilsu aftur til að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Nánari upplýsingar má finna hér. Einnig er hægt að hafa samband við sérfræðinga í atvinnuteymi VIRK - með því að senda póst á atvinnutenging@virk.is eða hringja í 535 5700.

Hafa samband