Fara í efni

Undirbúningur

Í upphafi atvinnuleitar er gott að byrja á nokkrum hagnýtum atriðum til að allt gangi vel fyrir sig. Þú þarft að huga vandlega að því hvernig þú kemur fyrir og skipuleggja það sem framundan er. Það er mjög mikilvægt að þú sýnir þínar bestu hliðar þegar þú ferð að kynna þig og sækja um störf. Hér getur þú kynnt þér góð ráð fyrir atvinnuleitina og undirbúið þig vel. Stundum tekur það nokkurn tíma að finna starf og þá er betra að hafa reglu á hlutunum. Mundu að þrautseigja og jákvæðni eru bestu ferðafélagarnir.

Skipulag, vinnuaðstaða og tími

Þegar þú hefur atvinnuleit er gott að þú gerir þér grein fyrir að hún er tímafrek. Það borgar sig að huga að því strax í upphafi að skipleggja atvinnuleitina. Þú þarft að hafa næði og góða vinnuaðstöðu. Fínt er að ákveða strax í byrjun hvar þú ætlar að sinna atvinnuleitinni og taka frá ákveðinn tíma á dag til að vinna við hana. Með föstum tíma, góðu skipulagi og áreitislausri vinnuaðstöðu eykur þú líkurnar á að ná árangri fyrr en ella. Atvinnuleit er vinna. 

Í verkfærakistunni hér neðar á síðunni finnur þú Vikuáætlun sem þú getur notað til að koma skipulagi á tímann þinn og Tímakönnun ef þig langar að ná tökum á tímanum.

Þeir sem eru í þjónustu hjá VIRK hafa fengið afhenta Dagbók VIRK með fjölmörgum góðum verkfærum sem þeir ættu að nýta sér til að gera lífið einfaldara og betra.

Safnaðu gögnum í möppu

Gott er að safna saman ýmiskonar gögnum svo sem prófskírteinum, staðfestingum á námskeiðum og réttindabréfum. Þegar þú gerir það auðveldar það þér vinnuna við ferilskána og þú getur nálgast gögnin þín þegar á þarf að halda.

Vistun á ferilskrám, kynningarbréfum og atvinnuauglýsingum

 • Geymdu flottu ferilskrárnar þínar og kynningarbréf í sér möppum og merktu þær með nafni fyrirtækisins þegar þú sækir um starf.
 • Vistaðu atvinnuauglýsingar um þau störf sem þú sækir um til að eiga auðvelt aðgengi að þeim seinna, til dæmis ef þér býðst atvinnuviðtal. Auglýsingarnar koma til með að hverfa af auglýsingasíðunni þegar umsóknartíminn er útrunninn og þá er ekki hægt að nálgast þær lengur.
 • Merktu ferilskrár og kynningarbréf með eign nafni auk nafns fyrirtækis þegar þú sendir þau til fyrirtækjanna. Það auðveldar fyrirtækinu vinnuna við að halda utan um umsóknir.
 • Ef þú þekkir vel til Dropbox, Google Drive eða álíka er gott að vera með öll gögnin þar. Þá getur þú nálgast þau hvar og hvenær sem er.
 • Til að hafa góða yfirsýn yfir atvinnuleitina er gagnlegt að útbúa strax í upphafi skjal til að halda utan um þau störf sem þú hefur sótt um, ásamt upplýsingum um hver viðbrögð eða samskipti vegna þeirra hafa verið. Yfirlit yfir umsóknir gæti auðveldað þér vinnuna við það. 

Gerðu ráðstafanir

Þú þarft líka að huga að því hvaða breyting verður á daglegum venjum þínum og samskiptum við aðra í kring um þig þegar þú byrjar í nýju starfi. Ef þú ert með einhverjar skyldur sem aðrir þurfa að taka við þegar þú ferð að vinna er gott að byrja strax að finna út hvernig þú leysir málin til dæmis varðandi barnapössun og/eða umönnun skyldmenna.

Kemur þú vel fyrir?

Nú er mikilvægt að þú sýnir þínar bestu hliðar. Strax í upphafi þarft þú að huga að því hvernig þú birtist á samfélagsmiðlum og gæta þess að netfangið sem þú notar gefi góða mynd af þér. Það sama á við um símsvarann í símanum þínum.

Samfélagsmiðlar gefa upplýsingar um þig

 • Profilmynd á facebook, twitter, instagram og snapchat. Gættu þess að vera með vandaða mynd sem gefur jákvæða mynd af þér.
 • Skoðaðu vandlega hvernig þú kynnir þig á samfélagsmiðlum svo sem Facebook, Twitter, Snapchat, Instagram.
 • Gerðu þér grein fyrir hvað það er sem aðrir geta séð á veggnum þínum. Á Facebook ættir þú t.a.m. að takmarka aðgang við vini og fara vandlega yfir allar öryggisstillingar ásamt því að passa upp á að fjarlægja slakar myndir eða slæma texta sem gefa ekki góða mynd af þér.
 • Hafðu í huga að allt sem þú segir á samfélagsmiðlum getur birst víðar en á síðunni þinni.
 • Þú skalt gera ráð fyrir því að atvinnurekandi sem er að lesa umsóknina þína skoði frekari upplýsingar um þig á samfélagsmiðlum, það er viðtekin venja í dag.
 • Gættu þess að samræmi sé á milli upplýsinganna á samfélagsmiðlunum og í ferilskrá til að atvinnuumsóknin þín sé trúverðug.

Vertu með vandað netfang og góða símsvörun

 • Þú þarft að byrja á því að koma þér upp vönduðu netfangi ef þú átt það ekki til svo sem nafn.eftirnafn@gmail.is.
 • Gættu þess einnig að það sé alltaf hægt að ná í þig og gefðu upp símanúmer á síma sem þú hefur við höndina og svarar í.
 • Gættu þess að biðtónn í símanum þínum gefi jákvæða mynd af þér og virki ekki stuðandi.
 • Forðastu að vera með símsvara á símanum þínum sem ögrar og fælir atvinnurekendur frá.
 • Gættu þess að vanda málfar bæði í töluðu og rituðu máli og gott að hafa í huga frá upphafi að senda einungis frá þér vandað efni.

Jákvætt viðhorf

Jákvætt viðhorf til hlutanna er ómetanlegt í lífinu almennt og alveg nauðsynlegt þegar þú ert að leita þér að starfi. Ef þú hefur verið frá starfi um lengri tíma er til að mynda jákvætt að hugsa atvinnuleitina sem tækifæri til að fara að gera eitthvað nýtt og spennandi.

Æfðu þig í jákvæðni

 • Temdu þér að hugsa jákvætt og tala vingjarnlega við þig og aðra.
 • Byrjaðu daginn jákvætt svo sem með að fara út úr húsi eða hlusta á hressandi tónlist.
 • Þakkaðu fyrir það sem þú hefur. Ein leið til þess gæti verið að skrifa niður þrjá hluti áður en þú ferð að sofa sem þú getur þakkað í dag. Gæti verið "Takk fyrir ilmandi morgunkaffið".
 • Veldu að umgangast fólk sem veitir þér gleði og gerðu hluti sem þú hefur ánægju af.
 • Hugsaðu í lausnum og breyttu aðstæðum þínum til hins betra.
 • Temdu þér að brosa, réttu úr þér og berðu höfuðið hátt. Það getur breytt líðan þinni til hins betra.
 • Rektu burt neikvæðar hugsanir.
 • Hafðu í huga að í erfiðum aðstæðum felast tækifæri. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar.

Seiglan

Þegar við tökumst á við ný verkefni eru það oft spenna og kraftur sem einkenna hegðun okkar í byrjun. Fer auðvitað eftir verkefnum en ef við gerum ráð fyrir að um sé að ræða verkefni sem geti haft jákvæðar afleiðingar fyrir okkur þá gerist það gjarnan að þegar líða fer á verkefnið verður allt erfiðara. Við förum að efast, hugmyndir sem voru spennandi eru það ekki lengur og freistandi að hætta við þetta allt saman.

En úthaldið er það sem skiptir öllu máli. Halda áfram þrátt fyrir að spennan sé farin og óvissa sé um hver og hvernig endapunkturinn verði. Þetta er með öðrum orðum seigla og til þess að takast á við lífið er hún mikilvægur ferðafélagi. Við þurfum seiglu þegar við tökumst á við breytingar, verkefni og áskoranir, en því meiri sem seiglan er því meiri líkur á jákvæðri aðlögun eftir að hafa farið í gegnum þessi tímabil.

Það eru til margar skilgreiningar á hugtakinu seiglu en ein af þeim er að um sé að ræða virkt ferli sem á sér stað þegar einstaklingur nær jákvæðri aðlögun eftir að hafa tekist á við verkefni eða mótlæti.

Við getum öll breytt og bætt líf okkar en það er einmitt í ferli breytinga sem við eflum seigluna. Sjáum fyrir okkur hring þar sem innsti kjarni er öryggissvæði, þá lærdómssvæði og að síðustu hættusvæði. Við eflum seigluna á jaðri lærdómssvæðisins og á hættusvæðinu. Við erum að efla seigluna þegar við tökumst á við verkefni, sjálfviljug eða ekki, verkefni sem reyna á okkur og þar sem við finnum leiðir til að komast í gegnum þau.

Ef þú sem ert að lesa þetta ert að fara í gegnum breytingar þá skiptir máli að vera þolinmóður en líka að skoða hugsanir þínar. Stundum þróum við með okkur nokkurs konar lært hjálparleysi þar sem neikvæðar hugsanir taka yfir; ég hef ekkert um þetta að segja, skiptir engu máli hvað ég reyni, einhvern veginn tekst þetta aldrei eða gat verið að ég lenti í þessu - alveg dæmigert fyrir mig!

Jákvæðar hugsanir skipta því miklu máli og það hvernig við skynjum okkur sem einstaklinga. Skiptir máli að hugsa í lausnum og skoða hvað maður getur gert í stað þess að fresta, vera meðvitaður um styrkleika sína og byggja á þeim.

Seiglan er gríðarlega mikilvæg til að takast á við lífið en um leið og við tökumst á við erfið verkefni og jafnvel mótlæti erum við að koma auga á styrkleika sem við vorum jafnvel ekki meðvituð um að við byggjum yfir. Þannig eflum við seigluna – þannig eflum við trú okkar á eigin getu.

Nýttu tengslanetið

Nú er rétti tíminn til að nota tengslanetið. Ísland er lítið land þar sem fjölskyldu og vinatengsl geta komið að góðum notum við leit að starfi. Staðreyndin er sú að stór hluti starfa eru ekki auglýst. Þú ættir því að velta fyrir þér hvernig þú getir fengið aðstoð hjá þeim sem þú þekkir. Skrifaðu hjá þér hverja þú þekkir og búðu til góða mynd af Tengslanetinu þínu. Þessir einstaklingar gætu opnað leiðir fyrir þig í störfin sem þú hefur áhuga á.

Hér eru hugmyndir að því hvernig þú getur nálgast fjölskyldu, vini og kunningja.

 • Láttu vita að þú sért að leita að starfi.
 • Fáðu þá til að kynna þig fyrir fólki sem er gæti mögulega aðstoðað við að finna starf.
 • Leitaðu upplýsinga hjá þeim um tilteknar starfsgreinar, fyrirtæki eða annað.
 • Athugaðu hvort þeir viti af einhverjum viðburðum sem væri gott að sækja til að sýna þig og sjá aðra.
 • Skipulegðu að hittast og spjalla. Eftir gott samtal gætu opnast leiðir sem voru ekki sýnilegar áður.
 • Biddu þá um að lesa yfir ferilskrána þína og kynningarbréf til að fá góð ráð og ábendingar.
 • Leitaðu ráða um hvernig þú ættir að bera þig að í atvinnuviðtali.
 • Fáðu aðstoð við að velja á milli starfa, fara yfir kosti og galla.
 • Óskaðu eftir aðstoð við að skoða hvort þú getir gert hlutina öðruvísi. Betur sjá augu en auga.
 • Leitaðu eftir nýjum hugmyndum eða ráðleggingum ef þér finnst þú alveg strand.
 • Spyrðu einhvern sem er í starfi sem þér finnst áhugavert að því hvernig hann hafi fengið starfið.
 • Ræddu við meðmælendurna á ferilskránni þinni. Samtalið gæti endað með ráðningu.
 • Sæktu ráðstefnur, fyrirlestra eða aðra viðburði sem tengjast þínu áhugasviði.

 

Frumkvæði

Mikilvægt er að taka frumkvæði í atvinnuleitinni. Litlar líkur eru á að starfið komi fljúgandi til þín á silfurfati. Þú þarft að vera á tánum og með mörg járn í eldinum.

Hér eru nokkrar hugmyndir sem þú getur nýtt þér.

 • Hafðu samband við fyrirtæki með heimsóknum, tölvupósti eða símtali. - Sterkur leikur!
 • Vertu í góðum tengslum við fólk, heimsæktu vini og láttu þá vita að þú sért að leita að starfi. Það er í góðu lagi að minna á sig reglulega.
 • Skoðaðu vefinn og notaðu leitarorð sem gætu leitt þig á slóðir áhugaverðra fyrirtækja.
 • Mættu á samkomur, fundi og kynningar þar sem þú hittir fólk.
 • Hringdu í fyrrum samstarfsfólk eða skólafélaga sem gætu aðstoðað.
 • Tengdu þig við vini og kunningja á samskiptamiðlum.
 • Fylgdu eftir góðum hugmyndum.
 • Taktu þátt í félagsstarfi.
 • Farðu í göngutúr eða bíltúr til að skoða valin svæði og kanna hvaða fyrirtæki eru þar.
 • Vertu almennt á ferðinni og með augun opin fyrir nýjum tækifærum.
 • Búðu þér til tækifæri. Tækifærunum fjölgar því fleiri net sem þú leggur.
 • Gríptu gæsina þegar hún gefst.
 • Skráðu þig hjá ráðningarstofum eða á LinkedIn.
 • Taktu að þér tímabundin verkefni og störf eða sjálfboðaliðastörf þó þau séu ekki endilega á óskalistanum. Sýndu hvað í þér býr og auktu þannig möguleika þína.
 • Vertu almennt á ferðinni og sýnileg/ur í samfélaginu svo sem í íþróttum og félagsstarfi. Sæktu sundlaugar og kaffihús.
 • Hafðu samband við aðila sem eru að auglýsa starf til að spyrja nánar um starfið og kynna þig í leiðinni.
 • Mættu í atvinnuviðtöl til að fá upplýsingar um störf og kynna þig.

 

Hugsaðu vel um þig

Þegar þú ert að leita þér að vinnu er mjög mikilvægt að þú hugsir vel um þig til að þú hafir orku, sjálfstraust og jákvæðni til að sinna atvinnuleitinni. Atriði sem þú ættir að hafa í huga eru að hreyfa þig, borða næringarríkan mat, hafa reglu á svefnvenjum, hvílast og eiga góð samskipti við vini og fjölskyldu. Útivera er líka alltaf góð fyrir líkamlega og andlega líðan.

Á síðu VelVIRK.is getur þú nálgast ýmiskonar áhugavert efni og góð ráð til að bæta heilsu og vellíðan.

Information for foreign citizens

Foreign citizens from within and outside EU and EEA need to be well informed about the Icelandic labour market.

Important information regarding work in Iceland and Icelandic Language Courses can be accessed on the following links.

The Directorate of Labour

The Directorate of Immigration

Multicultural Information Centre

Icelandic Online

If you have difficulty understanding Icelandic right click and select which language you want to translate to and all the pages on www.virk.is will be translated into the chosen language. The translation is not 100% accurate but could make it easier for you to understand.

 

Verkfærakistan

Vikuáætlun

Gerðu áætlun í upphafi hverrar viku um hvað þú ætlar að gera í atvinnuleitinni þinni. Taktu fram hvað þú ætlar að gera, hvar þú ætlar að gera það, hvernig og hvenær.

Tímakönnun

Í hvað fer tíminn þinn? Taktu þér viku í að komast að því. Hér skráir þú niður allt sem þú gerir yfir daginn og skoðar svo í lok vikunnar í hvað tíminn þinn fer. Vertu heiðarleg/ur við þig. Þú getur notað niðurstöðurnar til að meta hverju þú viljir gefa minni tíma og hverju meiri. Í ljós kemur oftast að það er hægt að taka eitthvað út til að koma öðru inn sem þig langar að leggja áherslu á. Í framhaldinu getur þú sett upp skipulag til að ná fram breytingunni sem þú vilt sjá.

Tenglslanetið mitt

Kortlegðu tengslanetið þitt hér. Láttu hugann reika og skrifaðu niður hjá þér lista yfir fjölskyldumeðlimi, vini, fyrri vinnuveitendur, samstarfsfólk, gamla kennara, samnemendur, fólk sem þú hefur kynnst úr félagsstarfi, nágranna. Þetta er fólkið sem myndar tengslanetið þitt. Gefðu þér tíma til að skoða hvernig hver og einn gæti aðstoðað þig. Ekki hika við að nota fjölskyldu og vinatengs. Flestir hafa gaman af að aðstoða.

Hvernig ver ég tíma mínum?

Langar þig að átta þig á hvað verður um tímann þinn? Með því að skrifa niður hvað þú ert að gera í einn sólarhring færð þú hugmynd um það og getur svo metið hvað þú vilt gera með upplýsingarnar. Kemur eitthvað á óvart?

Virkniáætlun

Mörgum finnst alveg frábært að setja upp áætun fyrir hverja viku. Hér er eyðublað sem þú getur prentað út og skrifað í þína áætlun.

Staðan

Hver er staðan í dag og hvað langar þig að gera næst?

Verkefnin mín

Skrifaðu niður verkefnin þín fyrir hvern mánuð ársins. Hver eru markmiðin og hvaða leiðir ætlar þú að fara til að ná þeim? Í lok mánaðar metur þú svo árangurinn og setur þér ný markmið og leiðir að þeim.
Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband