Árangur VIRK
VIRK sendir rafræna þjónustukönnun til þjónustuþega tiltölulega stuttu eftir að starfsendurhæfingu þeirra lýkur með spurningum um þjónustu VIRK og einstaka þætti hennar. Niðurstöðurnar eru teknar saman í lok hvers árs og rýndar í samanburði við stærri og umfangsmeiri þjónustukannanir sem VIRK fær utanaðkomandi aðila eins og Gallup til að vinna fyrir sig.
Í þjónustukönnununum kemur fram mikil ánægja með starf ráðgjafa VIRK og þjónustuþegarnir telja almennt að þjónusta VIRK hafi haft mikil áhrif á stöðu þeirra. Við lok þjónustu sé sjálfsmynd þeirra sterkari, starfsgeta meiri og líkamleg og andleg heilsa betri.
Myndin sýnir hlutfall stöðugilda útskrifaðra einstaklinga með mismunandi framfærslustöðu í lok þjónustu á árunum 2022-2024.
Hafa ber í huga að ekki er um að ræða fjölda einstaklinga heldur stöðugildi því hver einstaklingur getur verið með fleiri en eina tegund framfærslu við útskrift. Ef einstaklingur fer t.d. í hálft starf þegar þjónustu lýkur þá er það skráð sem hálft stöðugildi og önnur framfærsla skráð á móti.
80% þjónustuþega sem lokið hafa starfsendurhæfingu á vegum VIRK eru að öllu eða einhverju leyti virkir í vinnu, atvinnuleit eða námi við útskrift.
Ráðgjafafyrirtækið Talnakönnun hefur reglulega metið ávinning af starfsemi VIRK. Myndin hér að ofan sýnir á árinu 2024 er samfélagslegur ávinningur af starfi VIRK metinn 20,2 milljarðar króna og rekstrarkostnaður sama árs er um 4,6 milljarðar króna.
Matið er byggt á ópersónugreinanlegum gögnum úr upplýsingakerfi VIRK ásamt öðrum upplýsingum og er miðað við tilteknar forsendur um afdrif einstaklinga án þjónustu VIRK. Skýrslu Talnakönnunar með nánari upplýsingum um framkvæmd þessara útreikninga má finna hér.
Samkvæmt niðurstöðum Talnakönnunar er reiknaður meðal ávinningur á hvern útskrifaðan einstakling frá VIRK 14,3 milljónir króna á árinu 2024. Myndin hér að ofan sýnir reiknaðan meðalsparnað á hvern útskrifaðan einstakling hjá VIRK á árunum 2017–2024. Skýrslu Talnakönnunar með nánari upplýsingum um framkvæmd þessara útreikninga má finna hér.
Einstaklingar eru beðnir um að meta heilsu sína við upphaf og lok þjónustu á svokölluðum EQ5D mælikvarða en hann inniheldur 5 spurningar um heilsu og lífsgæði þar sem einstaklingar skrá tölu á kvarðanum 0-100 þar sem 0 er mjög slæmt og 100 er mjög gott.
Myndin hér að ofan sýnir niðurstöðu við upphaf og lok þjónustu og hliðrun línunnar sýnir að einstaklingar meta heilsu sína og lífsgæði mun betri við lok þjónustu en við upphaf hennar.