Fara í efni

Reglur VIRK um úthlutun styrkja til uppbyggingar- og þróunarverkefna

Reglur um úthlutun styrkja vegna uppbyggingar- og þróunarverkefna í starfsendurhæfingu

 1 Inngangur

Úthlutun styrkja frá VIRK - Starfsendurhæfingarsjóði (VIRK) á sér grundvöll í stofnskrá Starfsendurhæfingarsjóðs og í lögum 60/2012 þar sem Starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í starfsendurhæfingu, einn og sér eða í samstarfi við aðra aðila. Heildarfjárveiting til styrkjaúthlutunar er ákveðin árlega í fjárhagsáætlunVIRK sem samþykkt er af stjórn sjóðsins.

VIRK kaupir starfsendurhæfingarúrræði í samræmi við þarfir þeirra einstaklinga sem njóta þjónustu ráðgjafa stéttarfélaganna. Þessar þarfir eru metnar af ráðgjöfum stéttarfélaganna, sérfræðingum VIRK og utanaðkomandi sérfræðingum og matsaðilum og reynt er að byggja á gagnreyndri þekkingu hvað þetta varðar þegar því verður viðkomið. Þetta er meginstefna VIRK er varðar ráðstöfun á fjármunum til
starfsendurhæfingarúrræða.

Aðstæður geta verið til staðar þar sem ráðstöfun fjármuna til þróunarverkefna er líkleg til að stuða að þróun og árangri starfsendurhæfingarúrræða. Hér eru sett fram viðmið um ráðstöfun fjár af ráðstöfunarfé VIRK í þess konar úrræði eða verkefni.

2 Markmið og áherslur

Markmiðið með styrkveitingum til þróunar- og nýsköpunarverkefna samkvæmt þessum reglum er að stuðla að aukinni fjölbreytni og framboði úrræða í starfsendurhæfingu á Íslandi og þróun þeirra. 

Við mat á verkefnum sem njóta þróunarstyrkja skal farið eftir faglegu mati VIRK á þörf og væntum árangri þessara verkefna út frá markmiðum VIRK. Einnig er það forsenda að verkefnið mæti þörf fyrir úrræði þar sem til staðar er greinilegur skortur hvort sem hann er vegna landfræðilegra aðstæðna eða vegna þess að viðkomandi úrræði hefur ekki áður verið þróað hér á landi eða er ekki til staðar.

3 Ýmis skilyrði

Þeir styrkir sem veittir eru samkvæmt þessum reglum skulu einungis hafa það að markmið að þróa og koma tilteknum úrræðum af stað. Ekki eru veittir styrkir til að fjármagna rekstur úrræða til lengri tíma.

VIRK mun ekki bera neina rekstrarlega ábyrgð á þeim verkefnum sem fá styrki samkvæmt þessum reglum og aðilar sem tengjast VIRK (starfsmenn, stjórnarmenn og ráðgjafar stéttarfélaganna) mega ekki koma að rekstri þessara úrræða sem eigendur, starfsmenn eða stjórnarmenn.

Sú rekstrareining sem fær styrk samkvæmt þessum reglum getur ekki reitt sig á áframhaldandi stuðning eða styrk frá VIRK en getur boðið fram þjónustu til ráðgjafa VIRK eins og aðrir þjónustu- og úrræðaaðilar.

VIRK fer fram á að umsókn um styrk sé sett fram á þar til gert umsóknareyðublað (EYÐ-07 Umsóknareyðublað vegna styrkja til rannsókna- og þróunarverkefna). Þar þarf m.a. að tiltaka eftirfarandi þætti:

 • Ítarleg lýsing á því verkefni sem um ræðir og fræðilegt yfirlit þar sem staða innlendrar/alþjóðlegrar þekkingar á því sviði sem verkefnið byggir á kemur fram.
 • Allir þættir skulu settir þannig fram að þeir eru sýnilegir og skiljanlegir.
 • Verk- og tímaáætlun vegna verkefnisins með skilgreindum verkþáttum, markmiðum og leiðum.
 • Rökstuðningur fyrir því að verkefnið uppfylli markmið, áherslur og skilyrði þessara reglna.
 • Rökstuðningur fyrir því að verkefnið leysi skilgreindan vanda í starfsendurhæfingu á árangursríkan hátt með tilliti til þess að auðvelda fólki endurkomu til vinnu
 • Rökstuðningur fyrir því að um sé að ræða þjónustu/úrræði sem ekki er til staðar á viðkomandi upptökusvæði eða að það fullnægi ekki eftirspurn.
 • Ítarleg viðskiptaáætlun þ.m.t. fjárhagsáætlun vegna verkefnisins þar sem fram koma upplýsingar um einstaka þætti tekna og gjalda. Þessi áætlun skal ná bæði til þróunartíma verkefnisins og einnig skal gera grein fyrir rekstrargrunni verkefnisins til framtíðar – þ.e.  útskýra hvernig verkefnið muni ganga fjárhagslega þegar styrkveitingu er lokið.
 • Ef um er að ræða verkefni sem tengist þróun úrræðis í starfsendurhæfingu þarf enn fremur að gera áætlun um hvað viðkomandi þjónusta mun kosta fyrir hvern einstakling/tímaeiningu þegar úrræðið er komið í hefðbundinn rekstur.
 • Nauðsynleg leyfi fyrir rannsókninni eða þróunarverkefninu eins og við á (s.s. persónuvernd, vísindasiðanefnd).

Styrkþegar skulu afhenda VIRK framvinduskýrslu samkvæmt samkomulagi og lokaskýrslu um árangur
verkefnisins við verklok.

4 Umsókn og ákvörðun

Umsóknir um styrki skal skilað rafrænt til sjóðsins á netfangið styrkir@virk.is á fyrrgreindu umsóknareyðublaði sem nálgast má á heimasíðu VIRK. Á eyðublaðinu skal gerð grein fyrir því verkefni sem um ræðir og lagður fram rökstuðningur fyrir styrkveitingu. Umsókn skal uppfylla þau
skilyrði sem sett eru fram í þessum reglum.

Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar af framkvæmdastjórn VIRK í mars/apríl ár hvert að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi 15. febrúar ár hvert til þess að hægt sé að taka afstöðu til þeirra á fundum framkvæmdastjórnar. Ganga þarf frá samningi við VIRK vegna styrkveitingar innan árs frá dagsetningu úthlutunar, nema ef um annað er samið, annars fellur
styrkur niður.

5 Fjárhæðir

Heildarfjárhæðir til styrkveitinga koma fram í árlegri fjárhagsáætlun sem samþykkt er af stjórn sjóðsins. Einstakar styrkveitingar skulu vera á bilinu fimm hundruð þúsund til sex milljónir króna eftir eðli og stærð verkefna. Hver einstakur styrkur skal að jafnaði ekki nema hærri fjárhæð en sex milljónum króna.

Heimilt er þó að veita hærri styrki en sex milljónir ef verkefnið uppfyllir bæði eftirfarandi skilyrði:

 • Stofnkostnaður vegna verkefnisins er mjög hár og sýnt þykir að rekstur þessa úrræðis muni á næstu 5-10 árum ekki ná að skila tekjum til að mæta þessum kostnaði.
 • Framkvæmd verkefnisins hefur mikla þýðingu fyrir þróun starfsendurhæfingar hér á landi.

6 Afhending styrkja og endurgreiðsla

Styrkur samkvæmt þessum reglum er greiddur út í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og verkog tímaáætlun verkefnisins (sbr. 3. grein). Gerður skal sérstakur samningur milli styrkþega og VIRK um verkefnið, framvindu þess og upplýsingaflæði vegna þess. Styrkþegi skal skila reglulega framvinduskýrslum ef þess er krafist og ef sýnt þykir að verkefninu eða einstökum þáttum þess ljúki ekki í samræmi við framlagða verk- og tímaáætlun skal styrkþegi gera VIRK grein fyrir ástæðum þess. Í þeim tilfellum er VIRK heimilt að stöðva greiðslur til styrkþega.

Verði ekki af verkefninu eða ef því lýkur ekki innan þess tíma sem gert er ráð fyrir er VIRK einnig heimilt að fara fram á að styrkþegi endurgreiði VIRK þann styrk sem greiddur hefur verið.

Samþykkt á stjórnarfundi VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs 11. september 2018 og tók gildi frá og með 1. janúar 2019.

Hafa samband