Fara í efni

Reglur VIRK um úthlutun styrkja til rannsóknarverkefna

Reglur um úthlutun styrkja vegna rannsóknarverkefna eða annarra verkefna tengdum starfsendurhæfingu

1 Inngangur

Úthlutun styrkja frá VIRK - Starfsendurhæfingarsjóði (VIRK) á sér grundvöll í stofnskrá Starfsendurhæfingarsjóðs og í lögum 60/2012 þar sem Starfsendurhæfingarsjóði er heimilt að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í starfsendurhæfingu, einn og sér eða í samstarfi við aðra aðila. Heildarfjárveiting til styrkjaúthlutunar er ákveðin árlega í fjárhagsáætlun VIRK sem samþykkt er af stjórn sjóðsins.

2 Markmið og áherslur

Þegar umsókn er metin er horft sérstaklega til þess hvort viðkomandi rannsókn eða verkefni stuðli að uppbyggingu í starfsendurhæfingu og séu til þess fallin að auka almennt þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi. Einnig er styrkhæfni rannsókna og verkefna metin út frá því
hvort þau inniberi mat af árangri á vinnuferlum og úrræðum í starfsendurhæfingu ásamt því að vinna almennt að rannsóknum og fræðaskrifum sem hafa gildi fyrir þróunstarfsendurhæfingar á Íslandi.

Eftirfarandi atriði vega þungt við mat á styrkumsóknum:

  • Verkefnið miði að vel skilgreindum ávinningi fyrir starfsendurhæfingu á Íslandi.
  • Verkefnið stuðli að uppbyggingu á faglegri þekkingu og reynslu í starfsendurhæfingu.

Verkefnið þarf að vera vel skilgreint faglega og tímaáætlun rökstudd. Einnig er nauðsynlegt að umsækjendur sýni fram á vísindalega hæfni sína og nægilega góða aðstöðu til þess að vinna fyrirhugað verk (sjá einnig umsóknareyðublað).

3 Ýmis skilyrði

VIRK fer fram á að í umsókn um styrk sé sett fram á þar til gert umsóknareyðublað (EYÐ-07 Umsóknareyðublað vegna styrkja til rannsókna- og þróunarverkefna) þar sem fram kemur ítarleg aðferðalýsing, fræðilegt yfirlit þar sem staða innlendrar/alþjóðlegrar þekkingar á því sviði sem rannsóknin byggir á kemur fram og hugmynd og skipulag rannsóknar/verkefnis er sett upp þannig að allir þættir eru sýnilegir og skiljanlegir. Skilyrði fyrir styrkveitingu eru einnig að viðeigandi siðanefndir og Persónuvernd hafi veitt leyfi þar sem það á við.

Styrkþegar skulu afhenda VIRK framvinduskýrslu ef þess er krafist og afrit af rannsóknaskýrslu/skýrslu að verkefni loknu. Þeir skulu jafnframt kynna niðurstöður fyrir starfsmönnum, framkvæmdastjórn og stjórn VIRK ef þess er óskað. 

4 Umsóknir og ákvörðun

Umsóknir um styrki skal skilað rafrænt til sjóðsins á netfangið styrkir@virk.is á tilgreindu umsóknareyðublaði sem nálgast má á heimasíðu VIRK. Á eyðublaðinu skal gerð grein fyrir því verkefni sem um ræðir og lagður fram rökstuðningur fyrir styrkveitingu.

Við mat á verkefnum sem njóta styrkja skal farið eftir faglegu gildi og notagildi verkefna fyrir VIRK.

Ákvarðanir um styrkveitingar eru teknar af framkvæmdastjórn VIRK í mars/apríl ár hvert að fenginni umsögn frá sérfræðingum sjóðsins. Umsóknir þurfa að berast í síðasta lagi 15. febrúar ár hvert til þess að hægt sé að taka afstöðu til þeirra á fundum framkvæmdastjórnar.

Ganga þarf frá samningi við VIRK vegna styrkveitingar innan árs frá dagsetningu úthlutunar, nema ef um annað er samið, annars fellur styrkur niður.

5 Fjárhæðir

Heildarfjárhæð til styrkjaúthlutunar er ákveðin árlega af stjórn sjóðsins. Einstakar styrkfjárhæðir skulu vera á bilinu 100 til 600 þúsund krónur allt eftir eðli verkefna. Hver einstakur styrkur skal að jafnaði ekki nema hærri fjárhæð en 600 þúsund krónum. Heimilt er þó að veita hærri styrki en 600 þúsund krónur ef verkefnið er þess eðlis að niðurstaða þess geti aukið verulega árangur í starfsemi sjóðsins eða stuðlað að aukinni hagkvæmni í rekstri hans.

VIRK styrkir eftirfarandi, einn eða fleiri þætti allt eftir eðli og umfangi verkefnisins:

  • Útlagðan kostnað vegna verkefnisins s.s. póstburðargjöld og aðkeypta tölfræðiúrvinnslu.
  • Vinnuframlag umsækjanda og/eða annarra sem koma að verkefninu að fullu eða hluta.
  • Kaup á nauðsynlegum tækjum til verkefnisins. Ekki fæst styrkur til kaupa almenns skrifstofubúnaðar og tækja eins og tölvu o.þ.h.

6 Afhending styrkja

Styrkur frá VIRK er greiddur út í tveimur áföngum. Við afhendingu styrksins er greiddur út fyrri helmingur hans og seinni helmingur við skil á þeim hluta sem styrkurinn náði til, áfangaskýrslu eða við skil lokaskýrslu verkefnis. Til að fá seinni helminginn greiddan þarf styrkhafi að senda tilskilin gögn til VIRK. Fjármálastjóri VIRK hefur umsjón með styrkgreiðslum.

7 Endurgreiðsla

Verði ekki af verkefni eða því ekki lokið af einhverjum ástæðum innan þess tíma sem gert var ráð fyrir skal styrkþegi gera VIRK grein fyrir ástæðum og endurgreiða þann hluta styrksins sem ekki hefur verið notaður til verkefnisins.

Ef gögnum vegna seinni hluta styrks hefur ekki verið skilað 2 árum eftir áætluð verkefnislok og Starfsendurhæfingarsjóði hefur ekki verið gerð grein fyrir ástæðunni fellur styrkurinn niður.

Reglur þessar voru samþykktar af stjórn VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs 11. september 2018 og tóku gildi 1. janúar 2019.

Hafa samband