Fara í efni

Spurt og svarað

Hvernig kemst ég inn á Mínar síður hjá VIRK?

Til að komast inn í upplýsingakerfi VIRK þarf að aukenna sig með rafrænum skilríkjum. Því þurfa allir þjónustuþegar VIRK að útvega sér slík skilríki til þess að geta komist inn á Mínar síður og til að geta átt í rafrænum samskiptum við VIRK.

Rafræn skilríki eru til í nokkrum útfærslum. Þau geta verið á SIM-korti símans, í Auðkennisappinu eða á auðkenniskorti - sjá hér.  

Rafræn skilríki má nálgast hjá Auðkenni, skilriki.is, í bönkum og hjá Símanum, Hringdu, Nova og Vodafone. Þegar þau eru klár þá er bara að skrá sig inn hér.

Hvernig nýti ég mér Mínar síður VIRK?

Mínar síður VIRK eru mjög mikilvægar í starfsendurhæfingunni. Þar svarar þú m.a. spurningalistum, hefur yfirsýn yfir feril þinn hjá VIRK og getur séð allar tilkynningar sem þú hefur fengið frá VIRK.

Sjá allt um Mínar síður hér.

Hvað gerir VIRK?

VIRK eflir starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði.

Sjá stutt myndband um starfsendurhæfingarferilinn og nánar um starfsemina hér.

Á ég rétt á þjónustu VIRK?

Ef þú hefur ekki getað sinnt starfi þínu að hluta eða öllu leyti, eða ekki tekið þátt á vinnumarkaði í lengri tíma vegna veikinda eða vegna þess að þú hefur orðið fyrir slysi, þá getur þú notið aðstoðar VIRK.

Markmið starfsendurhæfingu á vegum VIRK er að þú verðir virkur þátttakandi á vinnumarkaði á ný eða að þú aukir þátttöku þína á vinnumarkaði. Mikilvægt er að geta og vilji sé til staðar til að taka markvissan þátt í starfsendurhæfingunni.

Meira um þetta hér.

Hentar þjónusta VIRK mér?

Þú þarft að ræða við lækni þinn og ef hann metur svo að þú þurfir starfsendurhæfingu þá sendir hann beiðni til VIRK.

Meira um þetta hér.

Hvað er starfsendurhæfing samhliða vinnu?

Vinnan sjálf getur oft verið besta úrræðið í starfsendurhæfingunni og rannsóknir hafa sýnt að úrræði sem tengjast vinnustaðnum eru oft árangursríkari. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á mikilvægi þess að gefa kost á vinnuaðlögun til að auðvelda starfsmönnum að snúa aftur til vinnu og skila vinnu sinni á fullnægjandi hátt. Þess vegna býður VIRK upp á starfsendurhæfingu samhliða vinnu.

Þjónustuþegar VIRK sem nýta sér starfsendurhæfingu samhliða vinnu þurfa að hafa tíma til að sækja viðeigandi úrræði auk þess sem mikilvægt er að geta hvílt sig og safnað kröftum. Því er ekki mögulegt að vera í fullri vinnu eða námi samhliða starfsendurhæfingunni. Að taka virkan þátt í starfsendurhæfingu þarf sinn tíma og það er erfitt ef viðkomandi er í fullu starfi eða námi.

Sjá nánar hér. 

Er starfsendurhæfing fyrir ungt fólk?

Atvinnutengd starfsendurhæfing er fyrir einstaklinga á aldrinum 16-70 ára. Sjá nánar um rétt til þjónustu hjá VIRK og helstu ástæður frávísana.

Hvað gerist eftir að beiðni læknis hefur verið send til VIRK?

Þegar beiðni læknis hefur borist VIRK færðu sms eða tölvupóst um að þín bíði spurningalisti inni á Mínar síður á vef VIRK. Skýr svör við spurningalistanum nýtast til ákvörðunar hvort að starfsendurhæfing sé sá vettvangur sem henti best á þessum tímapunkti eða hvort önnur þjónusta gæti átt betur við.

Um leið og niðurstaða VIRK liggur fyrir færðu skilaboð um að fara inn á Mínar síður. Þar getur þú kynnt þér niðurstöðuna og fengið leiðbeiningar um næstu skref.

Mikilvægt er að nýta tímann vel meðan beðið er - sjá nánar hér.

Hvernig/hvar fæ ég upplýsingar um stöðu á beiðni um starfsendurhæfingu?

Hægt er að nálgast stöðu beiðni þinnar inn á Mínar síður VIRK.

Þegar læknir hefur sent beiðni um starfsendurhæfingu til VIRK fara sérfræðingar VIRK yfir hana og taka ákvörðun um það hvort að starfsendurhæfing sé sá vettvangur sem henti best á þessum tímapunkti eða hvort önnur þjónusta gæti átt betur við.

Um leið og niðurstaða VIRK liggur fyrir færðu skilaboð, tölvupóst eða SMS, um að fara inn á Mínar síður. Þar getur þú kynnt þér niðurstöðuna og fengið leiðbeiningar um næstu skref.

Hægt er að hafa samband við skrifstofu VIRK í síma 535 5700 til að fá upplýsingar um stöðu á beiðni áður en hún er afgreidd til ráðgjafa.

Ef beiðni þín um starfsendurhæfingu er samþykkt er hún send til ráðgjafa VIRK sem staðsettir eru hjá stéttarfélögum um allt land. Í framhaldinu hefur ráðgjafi samband og boðar þig í viðtal. Inni á Mínar síður VIRK má finna upplýsingar á hvaða stéttarfélag beiðni er send. Hægt er að hafa samband við viðeigandi stéttarfélag til að fá frekari upplýsingar um biðtíma.

Á meðan beðið er eftir viðtali hjá ráðgjafa VIRK, eða eftir ráðleggingum um aðrar leiðir sem í boði eru, er mikilvægt að að vera eins virkur í sínu daglega lífi og heilsan leyfir. Nálgast má ráðleggingar á virk.is undir Undirbúningur fyrir þjónustu.

Hvenær er maður byrjaður í þjónustu hjá VIRK?

Þegar þú ert kominn í fyrsta viðtal við starfsendurhæfingarráðgjafa VIRK hjá stéttarfélagi hefst þjónustan – ekki fyrr.

Sjá upplýsandi myndband fyrir þá sem eru að hefja starfsendurhæfingu.

Hvernig get ég undirbúið mig fyrir þjónustu?

Á meðan beðið er eftir viðtali hjá ráðgjafa VIRK, eða eftir ráðleggingum um aðrar leiðir sem í boði eru, er mikilvægt að að vera eins virkur í sínu daglega lífi og heilsan leyfir.

Sjá gagnleg ráð og góðbendingar sem nýtast til að vera virkur hér.  

Sjá þjónustuaðilar á vegum VIRK um greiningar?

Nei, það er hlutverk heilbrigðiskerfisins. Viðmið um rétt til þjónustu hjá VIRK er að greiningu og grunnmeðferð sé lokið innan heilbrigðiskerfis.

Þjónustuaðilar sem starfa fyrir VIRK starfsendurhæfingarsjóð eiga ekki að framkvæma greiningar á röskunum eða sjúkdómum. Þeirra hlutverk er að kortleggja styrkleika og hindranir einstaklinga til vinnu og/eða náms. Einnig að sinna meðferð/ráðgjöf/fræðslu með það að markmiði að auka starfs-/námsgetu hjá einstaklingum sem glíma við heilsubrest í kjölfar veikinda eða slysa.

Hvernig nýtast Mínar síður mér?

Á Mínar síður hefur þú yfirsýn yfir feril þinn hjá VIRK og getur séð allar tilkynningar sem þú hefur fengið frá VIRK. Sjá allt um Mínar síður hér.

Þar getur þú:
- séð þau markmið sem þú ert að vinna með í starfsendurhæfingu þinni
- séð öll úrræði sem þú ert/hefur verið í og gefið þeim einkunn
- séð hvernig þú svaraðir spurningalistum
- séð öll gögn sem orðið hafa til á þínum starfsendurhæfingarferli
- verið í samskiptum við ráðgjafa þinn
- sent áætlanir til TR - sé þörf á því. 

Af hverju þarf ég rafræn skilríki?

Til að komast inn í upplýsingakerfi VIRK þurfa allir notendur að nota rafræn skilríki.
Notkun rafrænna skilríkja er öruggasta innskráningarleiðin og við viljum aðeins það besta hvað varðar öryggi einstaklinga í þjónustu VIRK.

Upplýsingakerfið færir öll samskipti í rafrænt notendaviðmót sem bætir enn frekar örugg samskipti og upplýsingastreymi milli allra aðila.

Rafræn skilríki eru gjaldfrjáls – svona færðu rafræn skilríki.

Hvernig fæ ég rafræn skilríki?

Til að komast inn í upplýsingakerfi VIRK þarf rafræn skilríki. Því þurfa allir þjónustuþegar VIRK að útvega sér slík skilríki til þess að geta komist inn á Mínar síður og til að geta átt í rafrænum samskiptum við VIRK. 

Rafræn skilríki má nálgast hjá www.audkenni.is, í bönkum og hjá Símanum.

Greiðir VIRK fyrir sjúkraþjálfun?

VIRK greiðir ekki hlut einstaklings í sjúkraþjálfun. Einstaklingar þurfa að leggja sjálfir út fyrir sínum hlut í sjúkraþjálfun.

HIns vegar geta einstaklingar sótt um styrk vegna útlagðs kostnaðar við sjúkraþjálfun og gilda þá ákveðin viðmið sem sjá má hér.

Greiðir VIRK mér bætur á meðan ég er í starfsendurhæfingu?

Nei, VIRK greiðir engar bætur eða aðra framfærslu. Staða þín á vinnumarkaði ræður framfærslu - sjá nánar hér.

Hver greiðir mér framfærslu á meðan ég er í starfsendurhæfingu?

VIRK greiðir ekki framfærslu. Staða þín á vinnumarkaði ræður því hvaðan framfærslan kemur:

a. Veikindaleyfi – greiðsla frá atvinnurekanda. Mismunandi réttur einstaklinga.
b. Veikindaleyfi - greiðsla úr sjúkrasjóði stéttarfélaga. Mismunandi réttur einstaklinga.
c. Endurhæfingarlífeyrir frá Tryggingastofnun Ríkissins. Þú fyllir út umsókn um endurhæfingarlífeyri á www.tr.is (mínar síður) og hefur samband við lækni þinn.
d. Félagsþjónusta sveitarfélaga aðstoðar við grunnframfærslu ef þú átt engan annan rétt.

Stéttarfélag þitt getur upplýst þig nánar um réttindi þín t.d.: VR, BSRB, BHM eða ASÍ. Sjá einnig fróðlega samantekt hér um laun og bætur.

Hverju á ég rétt á?

Þú átt rétt á starfsendurhæfingu sem vinnur með styrkleika þína og yfirvinnur hindranir á endurkomu til vinnu. Gerð er krafa um að þú takir virkan þátt í starfsendurhæfingunni. Þjónustan er þér að mestu að kostnaðarlausu. VIRK greiðir þér ekki peninga. 

Hvernig fæ ég endurhæfingarlífeyri?

VIRK greiðir ekki endurhæfingarlífeyri.

a. Þú þarft að fylla út umsókn um endurhæfingarlífeyri hjá TR (Tryggingastofnun ríkisins) – sjá www.tr.is (mínar síður). Vefir TR eru einnig á ensku og pólsku.
b. Þú þarft að biðja lækni þinn að senda inn læknisvottorð fyrir þig til TR.
c. Þú þarft að skila inn áætlun um starfsendurhæfingu sem þú gerir með lækninum eða ráðgjafa VIRK eftir 2-4 vikur í þjónustu.

Sjá nánar á tr.is

Hvenær fæ ég endurhæfingarlífeyrinn útgreiddan?

Tryggingastofnun ríkisins sér alveg um umsóknir um endurhæfingarlífeyri og greiðslu hans. TR áætlar að það taki 6-8 vikur að afgreiða umsókn frá því að umsókn og áætlun er skilað inn af viðkomandi einstaklingi. Ráðgjafar VIRK hafa ekki tök á að hraða því ferli.

Sjá nánar á www.tr.is

Þarf að borga fyrir þjónustu VIRK? 

Við upphaf starfsendurhæfingarinnar meta þú og ráðgjafinn þinn stöðuna og gerið í sameiningu áætlun um endurkomu þína inn á vinnumarkað. Áætlunin er einstaklingsmiðuð og sniðin að þínum þörfum og getu. Öll þjónusta VIRK miðar að því að efla þig og styrkja til aukinnar þátttöku á vinnumarkaði. 

Í framhaldinu pantar ráðgjafinn viðeigandi þjónustu í samræmi við áætlunina og þjónustan er þér að mestu að kostnaðarlausu. Til að auka líkurnar á þvi að þú náir markmiðum þínum um endurkomu til vinnu er mikilvægt að þú fylgir áætluninni. VIRK gerir kröfu um 80% mætingarskyldu að lágmarki.

Er mætingarskylda hjá VIRK?

Til að starfsendurhæfingin beri árangur er mætingarskylda bæði til ráðgjafa og í þjónustu hjá öðrum fagaðilum sem VIRK greiðir fyrir.

VIRK gerir kröfu um að lágmarki 80% mætingu og í upphafi þjónustu skrifar einstaklingur sem er að hefja starfsendurhæfingu undir þátttökusamning þess efnis. Ef einstaklingur í nær ekki að uppfylla mætingarskyldu þá getur það leitt til brottvísunar úr þjónustu.

Þá greiðir VIRK ekki fyrir einstaklingsþjónustu sem einstaklingurinn mætir ekki í. Ef einstaklingurinn getur ekki mætt í bókaða tíma ber hann sjálfur ábyrgð á að afbóka sig með tilskyldum fyrirvara. Að öðrum kosti er hann sjálfur ábyrgur fyrir greiðslu gagnvart þjónustuaðila.

Skýrt er kveðið á um ofangreint í þátttökusamingi sem einstaklingar undirrita við upphaf starfsendurhæfingar. 

Hvar eru ráðgjafar VIRK staðsettir?

Ráðgjafar VIRK hafa starfstöðvar sínar hjá stéttarfélögum um land allt.

Styrkir VIRK einstaklinga?

VIRK styrkir ekki einstaklinga en veitir árlega styrki til rannsóknarverkefna, þróunarverkefna og virkniúrræða - sjá nánar hér.

Hvað gera ráðgjafar VIRK?

Ráðgjafar VIRK eru sérfræðingar í starfsendurhæfingu, styðja einstaklingana í gegnum ferilinn hjá VIRK og hvetja þá áfram til aukinnar atvinnuþátttöku. Við upphaf starfsendurhæfingarinnar fer ráðgjafinn yfir þær upplýsingar sem liggja fyrir og í samvinnu við þig aflar hann nánari upplýsinga svo betri mynd fáist af þinni stöðu. Ráðgjafar eiga í góðu samstarfi við lækna, fagfólk og stofnanir eftir þörfum.

Sameiginlega gerið þið áætlun um endurkomu þína inn á vinnumarkað sem er sniðin að þörfum þínum og getu. Ráðgjafinn þinn getur einnig nýtt sér sérfræðingateymi VIRK við gerð áætlunarinnar. Ráðgjafar VIRK veita ekki heilbrigðisþjónustu né meðferð af neinu tagi.

Ráðgjafar vinna samkvæmt siðareglum ráðgjafa VIRK.

Ríkir trúnaðarskylda?

Starfsfólk, þjónustuaðilar og ráðgjafar VIRK hafa skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu og eru bundin þagnarskyldu samkvæmt 19. gr. laga 60/2012.

Er hægt að vera bæði hjá VIRK og Vinnumálastofnun?

Það er hægt að vera í þjónustu VIRK samhliða því að vera á skrá hjá Vinnumálastofnun (VMST). Í öllum tilfellum þarf beiðni læknis fyrir starfsendurhæfingu, þó ráðgjafar VMST ráðleggi starfsendurhæfingu vegna þess heilsubrests sem hrjáir atvinnuleitanda.

Ef um er að ræða endurhæfingu sem krefst stuttar aðkomu fagaðila eða allt að þrjá mánuði getur VMST gert hlé á atvinnuleit með gerð endurhæfingarsamnings til 13 vikna meðan á endurhæfingu stendur. Einstaklingur heldur þá atvinnuleysisbótum. Ef endurhæfing krefst lengri tíma þarf einstaklingur að nýta rétt sinn til sjúkradagpeninga eða endurhæfingarlífeyris.

Hvað er VelVIRK?

VelVIRK er forvarnaverkefni á vegum VIRK sem hefur það að markmiði að að styðja við starfsmenn og stjórnendur til að koma í veg fyrir að fólk falli af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Sjá nánar hér.

Hef ég aðgang að „Mínar síður” eftir að ég lýk þjónustu?

Þú hefur aðgang áfram að Mínar síður hjá VIRK að lokinni starfsendurhæfingu ef þú þarft að nálgast gögn eins og t.d þjónustulokaskýrslu og möt. 

Hvað tekur við að lokinni starfsendurhæfingu?

Flestir einstaklingar fara í launað starf, virka atvinnuleit eða lánshæft nám við lok þjónustu hjá VIRK.

VIRK er umhugað um að þjónusta á sviði starfsendurhæfingar skili sem bestum árangri til framtíðar og því munum við hafa samband við þig eftir lok þjónustu og biðja um upplýsingar er varða framfærslu og stöðu á vinnumarkaði. Þessar upplýsingar eru einungis notaðar við tölfræðilega úrvinnslu á árangri þjónustunnar og ekki í öðrum tilgangi.

Uppfært 1. mars 2024

Hafa samband