Fara í efni

Viðhorfskönnun til VIRK

Jákvætt viðhorf almennings til VIRK

Reglulegar viðhorfskannanir eru nýjasti þátturinn í viðleitni VIRK til þess að meta þjónustu og árangur. Viðhorfskannanir koma til viðbótar við þjónustukannanir og aðra árangursmælikvarða sem nýttir eru til þess að þróa starfsemina áfram og gera þjónustu VIRK markvissari og árangursríkari.

Líkt og árið 2022 leitaði VIRK til Maskínu um framkvæmd viðhorfskönnunar á þekkingu almennings á starfi VIRK og afstöðu til starfseminnar. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á svipuðum tíma ársins og síðast, dagana 21.-26. febrúar 2025. Svarendur voru 1.602 talsins, 18 ára og eldri af öllu landinu og endurspegla dreifingu þjóðinnar eftir kyni, aldri og búsetu. Í könnuninni var spurt um eftirfarandi: 

  • Hversu vel eða illa þekkir þú til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs?
  • Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ertu gagnvart VIRK Starfsendurhæfingarsjóði?
  • Hefur þú, skyldmenni þitt, vinnufélagi eða vinur leitað til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs?
  • Hversu mikla eða litla þýðingu telur þú að starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hafi fyrir íslenskt samfélag? 

Niðurstöðurnar sýna áframhaldandi jákvæða afstöðu almennings til VIRK og undirstrika mikilvægi starfseminnar. Um þrír af hverjum fjórum einstaklingum eru jákvæðir í afstöðu sinni til VIRK, 77% árið 2022 og 75% nú árið 2025 eins og sjá á myndinn hér að neðan.

Að sama skapi telur mikill meirihluti svarenda að starfsemi VIRK sé mikilvæg fyrir samfélagið, 81% árið 2022 og 75% árið 2025 eins og kemur fram á í myndinni hér að neðan.

Þessi jákvæða afstaða er ekki gripin úr lausu lofti því hlutfallslega þekkja margir til starfsemi VIRK af eigin raun eða óbeint í gegnum aðra. Árið 2022 höfðu 57% svarenda annað hvort sjálf verið í þjónustu VIRK eða þekkt einhvern tiltölulega nákominn sem hafði gert það eins og myndin hér að neðan sýnir. Þetta hlutfall er nú komið í 60%.

Þá fjölgar hlutfallslega í hópi einstaklinga sem segjast þekkja vel eða miðlungsvel til VIRK, fer úr 65% í fyrri mælingunni í 70% í ár sem er um 5% hækkun á þremur árum eins og myndin hér að neðan sýnir. 

Einnig kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að einstaklingar sem þekkja til sjóðsins af eigin reynslu, eða þekkja einhverja í nærumhverfinu sem hafa verið í þjónustu hjá VIRK, eru talsvert líklegri en aðrir til að segja starfsemi sjóðsins mikilvæga. 

Myndin hér að ofan sýnir að af þeim sem þekkja ekki persónulega til starfsemi VIRK telja 61% hana hafa mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag, borið saman við um 85% þeirra sem hafa annað hvort verið sjálfir í þjónustu eða þekkja til þjónustu VIRK.

Hafa samband