Fara í efni

Spurt og svarað

Hvaða þjónustu býður VIRK upp á?

VIRK býður einstaklingum upp á starfsendurhæfingarþjónustu samkvæmt lögum 60/2012 í samstarfi við stéttarfélög, atvinnurekendur, lífeyrissjóði, þjónustuaðila í starfsendurhæfingu og stofnanir velferðarkerfisins.

Starfsendurhæfingarþjónusta VIRK er til staðar á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins, er einstaklingsmiðuð og einstaklingum að mestu að kostnaðarlausu.

Eiga allir rétt þjónustu VIRK?

Til að eiga rétt á þjónustu hjá VIRK þarf einstaklingur að vera með vottaðan heilsubrest og beiðni frá lækni um þjónustu hjá VIRK.

Sjá nánar hér Réttur til þjónustu VIRK. 

Getur VIRK hjálpað starfsmanni mínum?

Fyrirtæki getur ráðlagt starfsmanni sem hefur verið fjarverandi frá vinnu að hluta eða öllu leiti vegna heilsubrests að leita til læknis til að kanna hvort starfsendurhæfing geti stuðlað að endurkomu hans til vinnu. Meti læknir það svo getur hann sent beiðni um starfsendurhæfingu til VIRK.

Sérfræðingar VIRK meta í framhaldinu hvort starfsendurhæfing sé sá vettvangur sem henti best á þessum tímapunkti eða hvort önnur þjónusta gæti átt betur við. Sjá nánar hér Réttur til þjónustu hjá VIRK.

Hvernig getum við stutt við starfsfólk sem verður fyrir áföllum?

Almennt gildir þegar áföll dynja yfir að sýna starfsmönnum samúð og hluttekningu. Mikilvægt er að stjórnendur séu til taks en virði að einstaklingurinn gæti viljað halda persónulegum málum fyrir sig. 

Gott er að hafa í huga að hlusta vel á starfsmanninn í stað þess að gefa óbeðnar ráðleggingar því oft er starfsmaðurinn sjálfur með góðar lausnir. Þá er ráðlagt að vera í reglulegu sambandi við starfsmanninn og létta á vinnuálagi ef hann óskar þess eða finna aðrar viðeigandi lausnir.

Á velvirk.is er fjallað nánar um hvernig stjórnendur geta mætt starfsfólkinu sínu í kjölfar áfalla.

Hvernig getur stjórnandi stuðlað að aukinni vellíðan á vinnustað?

Við berum öll sameiginlega ábyrgð á vellíðan á vinnustað en stjórnandi getur með sínum stjórnunarstíl haft mikil áhrif á vellíðan starfsmanna. Þegar stjórnandi er styðjandi fyrirmynd sem nýtir styrkleika starfsmanna eykur hann líkur á vellíðan og á möguleika á að ná fram árangri umfram væntingar.

Á velvirk.is geta stjórnendur nálgast frekari upplýsingar um helstu einkenni vinnustaða þar sem starfsmenn upplifa vellíðan og ná að fyrirbyggja streitu. Þá er þar líka að finna ágætt efni um geðheilsu og vinnustaði.

Hvernig er æskilegt að taka á móti starfsmanni sem er að ljúka starfsendurhæfingu?

Mikilvægt er að þegar tekið er á móti starfsmanni sem er að ljúka starfsendurhæfngu að samtal eigi sér stað á milli vinnustaðarins og einstaklingsins. Þar gefst færi á að fara yfir stöðuna og starfsmaður fær tækifæri til að hafa áhrif á vinnuaðstæður sínar með því að skoða verkefni, vinnufyrirkomulag, vinnutíma og fleira. Slíkt samtal og opin og hrein samskipti auðvelda endurkomu til vinnu. Sjá upplýsingar um endurkomu til vinnu á velvirk.is.

Hvernig má auðvelda endurkomu til vinnu úr veikindaleyfi?

Fyrirtæki geta auðveldað starfsmönnum sem eru að koma úr veikindaleyfi endurkomu til vinnu með því að vera sveigjanleg, sýna góðan skilning og veita starfsmanninum stuðning. Endurkoma til vinnu getur verið nauðsynlegur hluti af bataferli einstaklings.

Mikilvægt eru að vinnuaðstæður séu styðjandi, vinnutilhögun sé sveigjanleg og að einstaklingurinn fái tíma til að aðlaga sig. Þá skiptir stuðningur samstarfsfólks einnig máli.

Sjá nánar á velvirk.is.

Getur atvinnurekandi haft samband við einstakling í veikindaleyfi?

Atvinnurekandi getur haft samband við starfsmann í veikindaleyfi og er raunar mjög æskilegt að vera í sambandi til að sýna umhyggju og áhuga og flýta þannig fyrir endurkomu til vinnu. Stjórnandi ætti þó að varast ágengar spurningar um veikindi starfsmanns beint en getur talað um hvernig þau hafi áhrif á vinnuna og bjóða stuðning við endurkomu, mögulega með hlutastarfi ef á þarf að halda. 

Sjá frekari upplýsingar um veikindafjarvistir hér. 

Hvernig getum við unnið gegn streitu?

Mikilvægt er að yfirmenn bregðist við þegar þeir verða varir við streitueinkenni hjá starfsmönnum. Það tilheyrir hlutverki stjórnenda að axla þá ábyrgð og oft á tíðum gerir starfsmaður sér ekki grein fyrir stöðunni eða reynir að fela hana.

Á velvirk.is má finna ýmsar góðar hugmyndir sem stjórnendur geta nýtt sér til að draga úr streitu meðal starfsmanna eða eigin streitu. Streitustiginn sem er eitt þeirra verkfæra sem fyrirtæki geta notað til að fjalla um streitu á vinnustað, einnig má finna uppskrift að streituviðtali, forgangsröðunarverkefna, áætlun um skipulag tíma og verkefna og fjölmörg önnur ráð.

Hvað er kulnun?

Kulnun í starfi er alvarlegt ástand sem lýsir sér í tilfinningalegri, sálrænni og líkamlegri örmögnun. Ástandið kemur í kjölfar langvarandi streitu sem hefur verið viðvarandi, jafnvel árum saman. Ekki er til ein algild skilgreining á kulnun en flestir eru sammála um helstu einkenni.

Sjá nánar um kulnun á velvirk.is

Býður VIRK upp á fræðslu fyrir fyrirtæki eða stofnanir?

VIRK býður upp á kynningu á starfsemi og árangri VIRK auk þess að kynna sérstök verkefni eins og t.d. VelVIRK forvarnarverkefnið og VIRK atvinnutenging.

Býður VIRK upp á fræðslu fyrir stjórnendur?

VIRK býður upp á kynningu á starfsemi og árangri VIRK auk þess að kynna sérstök verkefni eins og t.d. VelVIRK forvarnarverkefnið og VIRK atvinnutenging.

Hver er munurinn á VIRK og Vinnumálastofnun?

Munurinn á VIRK og Vinnumálstofnun er aðallega sá að VIRK þjónustar fólk sem er í starfsendurhæfingu vegna veikinda eða slysa og greiðir enga framfærslu. Vinnumálastofnun þjónustar þá sem eru atvinnulausir og eru umsækjendur um atvinnuleysisbætur og/eða óska eftir aðstoð við atvinnuleit.

Einnig annast Vinnumálastofnun umsýslu atvinnuleysisbóta og getur það gerst að einstaklingur sem er á atvinnuleysisbótum þiggi þjónustu um starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Báðar vinna þessar stofnanir að því að aðstoða fólk við að komast til starfa eftir fjarveru frá starfi eða vinnumarkaði og getur það því gerst að einstaklingar sækja um þjónustu á báðum stöðum en þó ekki á sama tíma.

Hvernig greiði ég iðgjaldið til VIRK?

Öllum atvinnurekendum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi er skylt að greiða iðgjald vegna sjálfra sín og launamanna er starfa hjá þeim til starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. 2 mgr. 4 gr. laga 60/2012 um Atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Framlagið nemur 0,1% af heildarlaunum.

Iðgjald skal greitt í hverjum mánuði til þess lífeyrissjóðs sem lífeyrisiðgjald vegna launamanns eða þess er stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er greitt til. Lífeyrissjóður skal skila innheimtu iðgjaldi til starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðs að frádreginni þóknun.

Sjá nánar hér. 

Fær einstaklingur greidd laun eða framfærslu frá VIRK?

VIRK hefur ekki með framfærslu að gera og ber ekki ábyrgð á framfærslu einstaklinga.

Staða á vinnumarkaði ræður því hvaðan framfærslan kemur. Ef einstaklingar eru ekki vissir um stöðu sína getur stéttarfélagið viðkomandi veitt nánari upplýsingar um réttindi, upplýsingar um framfærslu má einnig finna á virk.is. 

Hvað er VIRK atvinnutenging?

VIRK atvinnutenging er samstarf VIRK og fyrirtækja og stofnana í tengslum við ráðningar starfsfólks. Megintilgangurinn er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingunum áhugaverð störf og fyrirtækjunum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi.

VIRK atvinnutenging aðstoðar einstaklinga með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem leita að starfi í lok starfsendurhæfingar. Áhugasama einstaklinga sem búa yfir lærdómsvilja og aðlögunarhæfni, hafa tileinkað sér hagnýt ráð í starfsendurhæfingunni og stefna markvisst á að hasla sér völl á vinnumarkaði að nýju.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar. Atvinnulífstenglar VIRK hafa samband í framhaldinu og veita nánari upplýsingar.

Hvað gera atvinnulífstenglar?

Atvinnulífstenglar aðstoða einstaklinga við endurkomu til vinnu og tengja saman einstaklinga og fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja aðila.

Þeir veita fyrirtækjum og einstaklingum fræðslu og stuðning eftir þörfum í upphafi starfs, gera vinnuáætlun í samráði við fyrirtæki og einstakling um fyrstu vikur í starfi og fylgja einstaklingum eftir, aðstoða við að yfirstíga hindranir og leysa úr málum.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar. Atvinnulífstenglar VIRK hafa samband í framhaldinu og veita nánari upplýsingar. 

Geta öll fyrirtæki nýtt sér VIRK atvinnutengingu?

Öll fyrirtæki geta leitað til VIRK atvinnutengingar þegar þau hafa hug á að ráða til sín starfsfólk. Atvinnulífstenglar starfa á Höfuðborgarsvæðinu og eru að mestu að vinna með fyrirtækjum og einstaklingum sem eru staðsettir þar. Dæmi eru hins vegar um að einstaklingar séu opnir fyrir að starfa úti á landi eða jafnvel flytja þangað.

Berist erindi frá fyrirtæki sem er staðsett utan Höfuðborgarsvæðisins skoða atvinnulífstenglar hvort þeir geti þjónustað fyrirtækið og hafa jafnframt samband við ráðgjafa VIRK á því svæði þar sem fyrirtækið er staðsett, en ráðgjafar VIRK á landsbyggðinni hafa góða reynslu af að leiða saman einstaklinga og fyrirtæki og landa ráðningum.

Nánari upplýsingar um atvinnutengingu og skráningu hér. 

Fær fyrirtækið greitt fyrir að ráða starfsmenn sem lokið hafa starfsendurhæfingu?

Nei, fyrirtæki og stofnanir fá ekki greitt fyrir að ráða starfsmenn í gegnum VIRK. VIRK atvinnutenging leggur megináherslu á að aðstoða einstaklinga með skerta starfsgetu sem eru í starfsendurhæfingu hjá VIRK við endurkomu inn á vinnumarkaðinn með markvissum stuðningi sérfræðinga í starfsendurhæfingu.

Þetta er gert með því að tvinna markvissa aðlögun inn á vinnumarkaðinn inn í starfsendurhæfingu einstaklingsins. Um tvíhliða nálgun er að ræða þar sem VIRK aðstoðar einstaklinginn en ekki síður vinnustaðinn við aðlögun að endurkomu til vinnu.

Hvað er vinnusamningur?

Vinnusamningur er vinnumarkaðsúrræði í samstarfi við Vinnumálastofnun þar sem atvinnurekendur geta ráðið atvinnuleitanda tímabundið að uppfylltum vissum skilyrðum. Þá greiðir atvinnurekandi laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings en á móti þeim greiðslum greiðir Vinnumálastofnun atvinnurekanda styrk.

Sjá nánar hér. 

Hvað er vinnuprófun/vinnuprufa?

Um er að ræða starfsendurhæfingu í formi endurhæfingar á vinnustað undir handleiðslu tengiliðs vinnustaðar. Markmið með starfsendurhæfingu á vinnustað er að meta vinnugetu þátttakanda og auka framtíðar möguleika hans á atvinnuþátttöku í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið starfar innan. Ekki er um að ræða starf eða ráðningu á þátttakanda heldur einungis formlega vinnuprufu sem er hluti af starfsendurhæfingu viðkomandi einstaklings. Atvinnulífstenglar VIRK veita nánar upplýsingar.

Hvað er stigvaxandi endurkoma til vinnu?

Stigvaxandi endurkoma til vinnu er góð leið til að mæta þeirri þörf sem einstaklingur kann að hafa til að vinna upp þrek og átta sig á starfsgetu sinni. Þá er miðað við að einstaklingur byrji í hlutastarfi og jafnvel léttari verkefnum og auki svo við sig vinnu stigvaxandi þar til hann er kominn í viðeigandi starfshlutfall.

Atvinnurekandi og starfsmaður gera saman áætlun um hvernig endurkomunni skuli háttað, ákveða starfshlutfall, verkefni, samskipti, breytingar á vinnuaðstöðu ef þarf og stuðning frá fyrirtækinu. Einnig rætt hvernig fyrirhugað sé að auka starfshlutfall og hvenær eigi að endurmeta áætlunina.

Með stigvaxandi endurkomu til vinnu viðheldur fyrirtækið dýrmætri þekkingu og reynslu starfsmannsins innan fyrirtækisins, sparar kostnað við ráðningar, minnkar starfsmannaveltu, skapar jákvæða fyrirtækjamenningu og góðan starfsanda auk þess að styrkja ímynd fyrirtækisins.

Hvernig fólk er í starfsendurhæfingu hjá VIRK?

Til VIRK leitar fjölbreyttur hópur fólks úr öllum starfsstéttum og með mismunandi menntun. Um mitt árið 2021 hafa tæplega 21.000 einstaklingar leitað til VIRK frá upphafi. 2.500 einstaklingar eru í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK um allt land.

Tæplega 80% þeirra 13.000 einstaklinga sem útskrifast hafa frá VIRK eru virkir á vinnumarkaði við útskrift; þ.e. í vinnu, í atvinnuleit eða lánshæfu námi.

Sjá nánar hér.

Hver er ávinningur fyrirtækisins af samstarfi við VIRK?

Megintilgangurinn með VIRK atvinnutenging er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingunum áhugaverð störf og fyrirtækjunum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi.

Ávinningur fyrirtækja er einfalt ráðningarferli, ráðning byggð á góðum upplýsingum, fræðsla og stuðningur við ráðningar og þjálfun auk þess að hafa jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar. Atvinnulífstenglar VIRK hafa samband í framhaldinu og veita nánari upplýsingar.  

Uppfært 2. september 2021

 

Hafa samband