Fara í efni

Starfsendurhæfing samhliða vinnu

Vinnan sjálf getur oft verið besta úrræðið í starfsendurhæfingunni og rannsóknir hafa sýnt að úrræði sem tengjast vinnustaðnum eru oft árangursríkari. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á mikilvægi þess að gefa kost á vinnuaðlögun til að auðvelda starfsmönnum að snúa aftur til vinnu og skila vinnu sinni á fullnægjandi hátt. Þess vegna býður VIRK upp á starfsendurhæfingu samhliða vinnu. 

Þjónustuþegar VIRK sem nýta sér starfsendurhæfingu samhliða vinnu þurfa að hafa tíma til að sækja viðeigandi úrræði auk þess sem mikilvægt er að geta hvílt sig og safnað kröftum. Því er ekki mögulegt að vera  í fullri vinnu eða námi samhliða starfsendurhæfingunni. Að taka virkan þátt í starfsendurhæfingu þarf sinn tíma og það er erfitt ef viðkomandi er í fullu starfi eða námi.

Ef einstaklingar vilja og hafa fengið samþykki á sínum vinnustað til að taka þátt í starfsendurhæfingu samhliða vinnu þá er mikilvægt að þeir láti starfsendurhæfingarráðgjafa sinn vita en einnig getur þetta komið fram í beiðninni um starfsendurhæfingu frá lækni viðkomandi.

Stefnt er að sama markmiði hvort sem fólk er að sækja starfsendurhæfingu með vinnu eða hefur farið alveg af vinnumarkaðinum – að ná heilsu aftur til að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Fyrir hverja?

Starfsendurhæfing samhliða vinnu gæti komið til greina fyrir starfsmenn sem eiga erfitt með að skila vinnu sinni á fullnægjandi hátt vegna heilsubrests. Oft er vinnustaðurinn þegar búinn að koma til móts við starfsmanninn með aðlögunum á vinnustað, vinnutíma og/eða verkefnum sem hefur ekki náð að breyta starfsgetu starfsmannsins. Þá væri kannski gott að skoða starfsendurhæfingu samhliða vinnu.

Starfsendurhæfingin og úrræðin sem standa þjónustuþeganum til boða eru þau sömu í starfsendurhæfingu samhliða vinnu og í hefðbundinni starfsendurhæfingu. Það sem er frábrugðið í þeim tilfellum þar sem vinnustaðurinn tekur þátt í ferlinu að möguleiki er á aðlögun á vinnustað, vinnutíma og/eða verkefnum og vinnustaðurinn styður starfsmanninn í gegnum allt ferlið.

Hvernig?

Sérfræðingur frá VIRK, starfsmaðurinn og yfirmaður hans á vinnustaðnum koma að því að skipuleggja ferlið hvað varðar stigvaxandi endurkomu í fyrra starfshlutfall. Skipulagið þarf að virka fyrir bæði starfsmanninn og vinnustaðinn og saman verður til stigvaxandi virkniáætlun sem allir viðkomandi telja að muni geta gengið upp. Sérfræðingur frá VIRK fylgir síðan þjónustuþeganum eftir á vinnustaðnum.

Þátttaka starfsmanns á vinnustaðnum eftir því sem hann getur er líka mjög mikilvæg til þess að starfsendurhæfingin skili tilhlýðilegum árangri. Þar sem vinnustaðurinn er með í ferlinu, þá skiptir það öllu máli að stjórnendur hafi samþykkt að vera með og séu tilbúnir að koma til móts við stafsmanninn með vinnuaðlögun að getu hans sem stundum þýðir að það þarf að fara tvö skref aftur til þess að taka þrjú skref áfram.

Endurmat á virkniáætlun á vinnustað á sér stað reglulega í gegnum starfsendurhæfingarferlið. Auðvitað koma stundum upp aðstæður sem kalla á endurmat á áætlun og þá er bókaður tími til að fara yfir hlutina. Niðurstaða þessara funda getur verið að halda áætlun eins og sett var upp í byrjun eða gefa í eða draga úr allt eftir því hvernig gengur hjá starfsmanninum í starfsendurhæfingunni.

Hver eru skilyrðin?

Allir sem telja sig þurfa starfsendurhæfingu hjá VIRK þurfa að skila vottorði frá lækni þar sem fram kemur staðfesting á heilsubresti sem hindri fulla þátttöku á vinnumarkaði - sjá nánar rétt til þjónustu hjá VIRK.

Athugið að þjónustuþegar VIRK geta ekki verið í fullri vinnu eða námi samhliða starfsendurhæfingu. Miðað er við 60-70 % starfshlutfall eða lægra ef einstaklingar stefna á starfsendurhæfingu samhliða vinnu. Í sumum tilfellum þarf að byrja í enn lægra starfshlutfalli sem síðan er aukið í ferlinu upp í fullt starfshlutfall eða fyrra starfshlutfall ef einstaklingur var í hlutastarfi.

Nánari upplýsingar veita sérfræðingar í atvinnuteymi VIRK. Hægt er að senda póst á atvinnutenging@virk.is á Þóru Friðriksdóttur, ráðgjafa - thora@virk.is, Þorstein Gísla Hilmarsson, atvinnulífstengil - thorsteinngh@virk.is eða hringja í 535 5700.

Hafa samband