31.05.2011
Árangur í starfsenduræfingu - dregur úr fjölgun öryrkja
Á heimasíðu ASÍ í gær var fjallað um starfsendurhæfingu hjá VIRK í samhengi við ummæli forstjóra TR um hægari
fjölgun öryrkja undanfarin ár. Þar segir m.a.:
"Aðilar vinnumarkaðarins hafa á undanförnum þremur árum unnið að uppbyggingu á starfsendurhæfingarþjónustu um allt land með
stofnun og rekstri VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs. Eitt af höfuðmarkmiðum sjóðsins er að draga markvisst úr líkum á
því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku með aukinni virkni, eflingu starfsendurhæfingar og öðrum úrræðum.
Nú starfa um 30 sérhæfðir ráðgjafar í starfsendurhæfinguhjá stéttarfélögum um allt land og hafa þeir veitt 2100
einstaklingum ráðgjöf og þjónustu. Einstaklingum sem hafa þurft aðstoð við að komast aftur á vinnumarkaðinn eftir veikindi eða slys.
Þjónustan er opin fyrir alla þá sem búa við skerta vinnugetu og stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði og er notendum að
kostnaðarlausu. Þjónustan er víðtæk og er hún veitt í samstarfi við fagaðila um allt land. Af þessum 2100 einstaklingum hafa um 600
nú lokið þjónustu og stærstur hluti þeirra hefur náð fullri vinnufærni og eru þátttakendur á vinnumarkaði í dag.
Þessi þjónusta hefur fram að þessu eingöngu verið fjármögnuð af atvinnulífinu og hefur hún skilað miklum árangri
bæði fyrir þá sem hennar njóta og fyrir samfélagið í heild sinni. Það er því áhugavert að skoða þessa miklu
uppbyggingu í þjónustu á sviði starfsendurhæfingar í samhengi við þá staðreynd að dregið hefur verulega úr
nýgengi örorku bæði hjá Tryggingastofnun ríkisins og hjá mörgum lífeyrissjóðum.