Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

VIRK var mitt björgunarskip

VIRK var mitt björgunarskip

„Ég segi allt fínt,“ segir Gunnlaugur Hólm Torfason sem býr nú í Reykholti í Borgarfirði en vinnur í Keflavík. Í samtali við Gunnlaug kemur fram að hann hafi nýlega lokið starfsendurhæfingu hjá VIRK sem hafi bjargað honum frá örvæntingu og sjálfsvígshugsunum til andlegrar og líkamlegrar heilsu. 

Gunnlaugur Hólm Torfason

„Ég segi allt fínt,“ segir Gunnlaugur Hólm Torfason sem býr nú í Reykholti í Borgarfirði en vinnur í Keflavík. Í samtali við Gunnlaug kemur fram að hann hafi nýlega lokið starfsendurhæfingu hjá VIRK sem hafi bjargað honum frá örvæntingu og sjálfsvígshugsunum til andlegrar og líkamlegrar heilsu. 

Við hjónin keyptum okkur einbýlishús hér í Reykholti eftir kulnunarástandið. Hér er sú friðsæld og fegurð sem sálin þarfnast eftir langvarandi stríð við kvíða og heilsuleysi,“ bætir hann við.

En hvenær fór Gunnlaugur Hólm að finna fyrir kulnunareinkennum?
„Þetta vatt upp á sig. Upphafsins er kannski að leita allt til þess tíma þegar ég sem vélstjóri hóf störf árið 1999 hjá fiskeldisfyrirtæki í Öxarfirði. Á Kópasker fluttum við hjónin með ung börn og vorum þar í sex ár. Smám saman fór ég að finna fyrir þreytueinkennum sem ég taldi vera vegna vinnunnar. Við ákváðum því að flytja aftur til Keflavíkur, þar sem ég fæddist 1965 og ólst upp,“ segir Gunnlaugur.

„Ég fékk vinnu hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja í Keflavík. Samhliða stofnaði ég fljótlega fyrirtæki sem þjónustaði fiskeldisstöðvar. Í sjö og hálft ár vann ég eina viku í mánuði vaktavinnu hjá sorpeyðingarstöðinni og samhliða því vann ég fullt starf í fyrirtækinu mínu. Þetta tók á. Næturvaktir reyndust mér erfiðar og síminn gekk á fullu næstum allan sólarhringinn. Til þess að slaka á fór ég að fá mér í glas um helgar.“

Mér fannst sem ég myndi aldrei geta unnið neitt framar. Þetta var svakalegt tímabil. Líklega bjargaði fjölskyldan hreinlega lífi mínu þegar verst horfði.

Ég gekk gjörsamlega á vegg

Hvenær gerðir þú þér grein fyrir ofálaginu?
„Ekki strax. Ég hætti að vinna hjá sorpeyðingarstöðinni árið 2013. Þá kom inn meðeigandi og jafnframt tók fyrirtækið að sér æ meiri þjónustu varðandi fiskeldið. Kvíði minn óx smám saman, ég gerðist félagsfælinn og fullur vanlíðunar. Svo kom að því einn daginn að ég gat ekki risið upp. Lá bara í rúminu og sá ekki leið til þess að vera áfram til. Ég hafði þá þurft að fara á bráðadeild vegna þess að ég var með allt of háan blóðþrýsting, þjáðist einnig af ofþreytu, ofsakvíða og þunglyndi. Allur pakkinn. Ég gekk svo gjörsamlega á vegg. Ótrúlegt að upplifa þetta.“

Hvað kom þér til hjálpar?
„Konan mín gerði sér grein fyrir hve illa ég var á mig kominn. Hún gekk í málið, fór beinlínis með mig á Heilsugæslu Suðurnesja í Keflavík. Þar fékk ég viðtal við góðan lækni sem lagði til að ég myndi sækja um þjónustu hjá VIRK. Ég samþykkti það og hann sótti um fyrir mig. Mér leið þó áfram mjög illa og fannst dálítið erfiður tíminn þar til ég fékk samþykki fyrir þjónustu hjá VIRK. Samt tók það aðeins tvo mánuði. Þá var ég orðinn svo illa á mig kominn að ég gat engan veginn komið nálægt starfinu hjá fyrirtækinu. Ég hafði reyndar selt töluvert í því þegar þarna var komið sögu. Ég talaði því við meðeigendur mína sem sýndu líðan minni skilning. Eigi að síður sótti kvíðinn að mér sem aldrei fyrr.

Ég hafði lengi átt erfitt með að sofa, vakti á nóttunni og fann fyrir vaxandi spennu. Ég forðaðist eftir megni að svara í síma og átti í mestu erfiðleikum með að svara tölvupósti. Ég einangraði mig líka æ meira. Loks kom sem sagt að því að ég gafst upp. Ég hafði vakað alla nóttina og lá bara í rúminu algjörlega búinn að vera. Það var í febrúar 2019 sem erfiðleikarnir urðu mér óyfirstíganlegir. Þess skal þó getið að vetrarmyrkrið átti ekki neinn þátt í vanlíðan minni né heldur hafði ég þjáðst af neinni geðröskun fram til þess að kulnunin heltók mig.“

Var kominn með sjálfsvígshugsanir

Hvernig stóðu fjármálin og einkalífið á þessum tíma?
„Vel. Ég var ágætlega settur í einkalífi og fármálin voru líka í góðu lagi, bæði hjá mér sjálfum og fyrirtækinu. En þótt konan mín og börnin styddu mig og sýndu ástandi mínu skilning og hlýju var ég samt kominn með sjálfsvígshugsanir þegar ég fór í þjónustu hjá VIRK vorið 2019. Mér fannst sem ég myndi aldrei geta unnið neitt framar. Þetta var svakalegt tímabil. Líklega bjargaði fjölskyldan hreinlega lífi mínu þegar verst horfði. Við hjónin eigum fjögur börn og ellefu barnabörn sem gerðu sitt til að gleðja mig. Jákvætt var líka að í upphafi fékk ég greitt veikindaleyfi hjá fyrirtækinu, síðan kom stéttarfélagið til skjalanna og í lok þjónustutímabilsins hjá VIRK var ég kominn með endurhæfingarlífeyri.

Ráðgjafi VIRK reyndist frábærlega

Strax þegar ég komst í þjónustu hjá VIRK ákvað ég með sjálfum mér að neyta allra úrræða til þess að að ná mér á strik á ný. Ráðgjafi VIRK hjá mínu stéttarfélagi reyndist mér frábærlega. Við mótuðum saman áætlun. Ég hóf þegar meðferð hjá sálfræðingi og áttaði mig til fulls á að áfengi var ekki leið til slökunar. Ég hætti því að fá mér í glas en fór í staðinn að stunda hugleiðslu, jóga og fór í heilsurækt. Það var gríðarlega erfitt að stíga fyrstu skrefin og ég vildi í fyrstu sjálfur reyna að vinda ofan af hinu slæma ástandi án lyfja. Smám saman tók ég þó að átta mig á að lyf gætu hjálpað. Ég gæti þannig fyrr losnað við streituna og kvíðann. Í framhaldi af þessari niðurstöðu fór ég á heilsugæslustöðina í Keflavík þar sem læknirinn minn ávísaði mér kvíðastillandi lyfi. Ég var þá enn þannig stemmdur að ég sat bara út í horni og ef einhver hringdi bjöllunni gat ég varla farið til dyra. Ég var sannarlega gjörsamlega búinn á því þegar ég komst í þjónustu hjá VIRK.“

Mér hefur aldrei liðið eins vel á ævinni eins og nú. Ýmislegt hefur þó breyst, ég er ekki eins mannblendinn og ég var, einbeitingin er ekki alveg komin, ég les minna og horfi minna á sjónvarp í frítímum. Áður hafði ég áhuga á ljósmyndun en sinni því lítt nú. Ég á því eitt og annað óunnið ennþá.

Var líklega lengi í afneitun

Áttir þú erfitt með að lýsa ástandi þínu þegar verst var?
„Líklega var ég nokkuð lengi í afneitun. En þegar ég fór til læknisins og síðan til VIRK tókst mér að tala af hreinskilni um líðan mína. Þrátt fyrir að ég væri á þeim tíma lokaður inn í eigin ruglingslegum heimi. Ég stríddi við ólýsanlegan kvíða vegna fyrirtækisins. Mér fannst ég ekki gera skyldu mína. Síðast en ekki síst dró ég ekki undan sjálfsvígshugsanirnar sem ásóttu mig. Vafalaust þess vegna var tekið fast á málum.

Það var ekki fyrr en síðla árs 2019 sem ég fór að sjá til sólar. Úrræðin sem ég og ráðgjafinn settum stefnuna á voru fyrst og fremst sálfræðiþjónusta, heilsurækt, hugleiðsla og jóga. Hugleiðslan hjálpaði mér heilmikið, ég tók að róast og í framhaldinu að hugsa minn gang. Hægt og bítandi byggði ég þannig upp andlega og líkamlega heilsu.“

Ákvað að leita á nýjar slóðir

Hvenær fannst þér tímabært að hefja vinnu á ný?
„Ég stefndi á að fara aftur til starfa hjá fyrirtækinu mínu í upphafi árs 2020. En við þá tilhugsun eina versnaði mér aftur og kvíðinn tók að sækja á mig á ný. Fljótlega varð því ljóst að sú fyrirætlun að fara aftur til vinnu í fyrirtækinu myndi ekki ganga.

Ég hélt áfram í þjónustunni hjá VIRK og þremur mánuðum síðar tók ég ákvörðun um að selja það sem ég átti eftir í fyrirtækinu og leita á aðrar slóðir. Annað var bara ekki í boði.“

Hvert stefndir þú á atvinnumarkaði eftir sölu fyrirtækisins?
„Ég ákvað að sækja um afleysingavinnu hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja í Keflavík um sumarið og fékk hana. Ekki var um að ræða möguleika á að byrja í hálfu starfi. Ég varð að kasta mér út í djúpu laugina, ef svo má segja, fara í hundrað prósent starf seinnipartinn í maí 2020. Það voru mikil viðbrigði en það hjálpaði mér mikið að ég þekkti staðinn og samstarfsfólkið og kunni til verka. Mér jókst sjálfstraust, fékk aftur trú á sjálfan mig.“

Aldrei liðið eins vel og nú

Hvað kom til að þú ákvaðst að flytja búferlum, kaupa hús í Reykholti í Borgarfirði?
„Í markþjálfun sem ég sótti á vegum VIRK var eitt þeirra markmiða sem ég setti mér að flytja á friðsælan stað. Þann draum höfðum við hjónin lengi átt. Við ókum jafnan framhjá Reykholti á leiðinni í sumarbústaðinn okkar í Fljótstungulandi og smám saman mótaðist sú hugmynd að þar væri eftirsóknarvert að búa. Þegar okkur stóð svo til boða að kaupa hús í Reykholti slógum við til. Við höfðum engu að tapa. Ég sæki nú þaðan vinnu í sorpeyðingarstöðina í Keflavík viku í senn og held þá til í hjólhýsi. Þetta er ekki löng leið að keyra – flutningurinn í Reykholt er ein besta ákvörðun sem við höfum tekið hjónin.“

Ertu búinn að ná fullri heilsu?
„Mér hefur aldrei liðið eins vel á ævinni eins og nú. Ýmislegt hefur þó breyst, ég er ekki eins mannblendinn og ég var, einbeitingin er ekki alveg komin, ég les minna og horfi minna á sjónvarp í frítímum. Áður hafði ég áhuga á ljósmyndun en sinni því lítt nú. Ég á því eitt og annað óunnið ennþá. Ég var kominn á þann myrka stað að hugsa um að taka eigið líf. Allt sem fyrir mig var gert hjá VIRK kom mér til heilsu og vinnu á ný. VIRK var mitt björgunarskip.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2021.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband