Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Áfallaskúffan var yfirfull

Áfallaskúffan var yfirfull

„Ef ég ætti að gera upp samstarfið við VIRK í stuttu máli þá er hægt að draga það saman í eina setningu – ég væri ekki ofan jarðar ef ég hefði ekki notið aðstoðar VIRK.“

Hafdís Priscilla Magnúsdóttir sjúkraliði

„Áfallaskúffan“ mín var orðin full,“ segir Hafdís Priscilla Magnúsdóttir um tildrög þess að hún leitaði til VIRK eftir samstarfi til betri heilsu.

„Ráðist hafði verið á mig árið 2013 í Danmörku af ókunnugum manni. Ég var að fara út í sjoppu til að kaupa gos. Ég var ein á ferð í húsasundi. Maðurinn sparkaði í mig, kýldi mig, þuklaði á mér og hvarf síðan – ég veit ekki hvað honum gekk til. Ég sneri aftur inn til vinkvenna minna, hætti við að drekka gosið, fékk mér heldur í glas og sagði engum frá þessu atviki. Síðan fór ég heim til Íslands en áhrifin af þessu atburði sátu í mér. Ég gat ekki sett meira ofan í „áfallaskúffuna“ mína – hún var orðin yfir full.

Á þessum tíma var ég að vinna sem stuðningsfulltrúi í skóla en maðurinn var í vinnu á Grænlandi. Ég var sinnti dönskukennslu en fann fljótlega eftir þetta atvik að ég gæti ekki unnið við þá kennslu, allt sem minnti mig á Danmörku olli mér kvíða og vanlíðan. Ég hætti að mæta í vinnuna og enginn skildi af hverju. Í framhaldinu ræddi ég við yfirmenn mína og sagði þeim frá málavöxtum. Mér var boðin önnur vinna og mín lausn var að þigga það boð í stað þess að vinna úr hinni slæmu líðan. Ekkert á nýja staðnum minnti mig á Danmörku en eigi að síður entist ég ekki lengi í því starfi. Ég varð veikari og veikari. Ég er með undirliggjandi vefjagigt og hún er þannig að það þarf að vera jafnvægi milli líkama og sálar, annars fer illa. Ég fylltist þunglyndi og kvíða og átti ofsalega erfitt með að sinna því sem ég þurfti að gera.

Loks var líðan mín orðin svo slæm að ég hugsaði með mér að best væri fyrir alla að ég myndi stytta mér aldur. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að best væri að gera það í október, það væri ekki of nærri jólum en eftir sumarfrí.

Ég tók að safna að mér lyfjum sem ég fékk til þess að geta sofið. Ég tók lyfin ekki heldur faldi þau hér og þar í íbúðinni. Þannig undirbjó ég mig fyrir þess aðgerð. Svo gerðist það að vinkona mín, sem er læknir, missti nána vinkonu sína þannig að hún fyrirfór sér á nákvæmlega sama hátt og ég hafði hugsað mér að fyrirkoma mér. Hún sagði mér frá þessu og það fékk mig til að hugsa. Ég fann að ég gat ekki fengið af mér að fyrirfara mér og særa hana þannig enn meira. Svo undarlega sem það hljómar þá velti ég ekki fyrir mér afleiðingum dauða míns fyrir börnin mín þrjú og eiginmann. Mér fannst þvert á móti að þau væru mun betur stödd án mín.

Í framhaldi af þessum hugsunum hringdi ég í vinkonu mína, lækninn, og sagði henni hvað ég hefði verið að undirbúa.

„Þú ferð beint upp á bráðamóttöku geðdeildar strax eftir helgina,“ sagði hún. Fólk getur ekki orðið geðveikt á Íslandi nema á virkum dögum – þetta var um helgi og þá er bráðamóttakan lokuð.

Eftir samtalið ákvað ég að tala við manninn minn. Ég vissi undir niðri að ef ég segði honum þetta ekki myndi ég ekki fara upp á geðdeild og allt héldi áfram í sama farinu.

„Ég er með undirliggjandi vefjagigt og hún er þannig að það þarf að vera jafnvægi milli líkama og sálar, annars fer illa. Ég fylltist þunglyndi og kvíða og átti ofsalega erfitt með að sinna því sem ég þurfti að gera.“

Innlögn á geðdeild

Þetta gerðist í júní 2014. Maðurinn minn ók mér upp á bráðamóttöku geðdeildar strax á mánudegi. Ég fór ein inn og fékk samtal við sálfræðing. Ég var viss um að ég yrði send heim en það var öðru nær. Sálfræðingurinn vildi ræða við manninn minn í einrúmi og fá hans álit. Ég hafði haldið að ég hefði leynt líðan minni vel en hann sagði sálfræðingnum að ég lægi mikið fyrir, eyddi tíma í tölvunni en ekki með fjölskyldunni. Hann hafði þó ekki gert sér grein fyrir hve alvarlega var komið fyrir mér.

Sálfræðingurinn sagði við manninn minn: „Heima hjá þér eru töflur faldir á hinum og þessum stöðum. Þú þarft að fara og sækja þær. Hafdís verður hér áfram.“

Þetta var mér mikið sjokk. Ég átti að leggjast inn á geðdeild! Augljóslega taldi sálfræðingurinn að ég væri sjálfri mér hættuleg. Ég var svo lögð inn og fyrsta manneskjan sem ég sá á ganginum var mamma bekkjarfélaga eins af börnum mínum. Ég fylltist mikilli skömm. Ég skammaðist mín svo mikið og leið svo illa að maðurinn minn spurði hvað væri að. Ég sagði honum það. Hann sagði: „Hafdís, þú ert hvorki fyrsta né síðasta manneskjan sem leggst inn á geðdeild. Hættu þessari vitleysu.“ Það hjálpaði mér mikið að honum skyldi ekki finnast ég minni manneskja eða skammast sín fyrir mig þótt ég væri komin inn á geðdeild. Þessi setning er mér hugstæð enn í dag: „Þú ert hvorki fyrsta né síðasta manneskjan sem leggst inn á geðdeild. „Get over it“.“

Ég var á geðdeildinni í fimm daga og fékk þar góða aðhlynningu. Heimilislæknirinn minn hafði, áður en ég lagðist inn, sótt um fyrir mig hjá VIRK vegna þess hve honum fannst ég langt niðri. Ég komst varla út á leikskóla með dóttur mína og heim aftur. Þá varð ég að leggja mig og var strax komin með mikla verki.

Við útskriftina af geðdeildinni var mér sagt að hringt yrði í mig frá spítalanum eftir nokkra daga til eftirfylgni. En viku síðar hringdi síminn og karlmannsröddin á línunni sagðist vera ráðgjafi frá VIRK. Ég hugsaði: „Á ég að hafa karlmann sem ráðgjafa? Þessi maður mun aldrei geta skilið mig.“

Hið besta samstarf tókst við ráðgjafa VIRK

Ég mjög þurr í bragði og nánast dónaleg í þessu fyrsta símtali við ráðgjafann frá VIRK. Hafði allt á hornum mér og sagðist vera að fara í sumarbústað. Það endaði þó með því að ég féllst á að koma og tala við hann en var þess fullviss að þetta myndi aldrei ganga.

Varla hafði ég þó hitt ráðgjafann þegar ég fann að þetta var rangt mat. Ráðgjafinn hjá VIRK reyndist mér afskaplega vel. Svona var ég fordómafull.

Með mér og ráðgjafanum tókst hið besta samstarf. Við vorum í reglulegu sambandi. Í fyrsta viðtalinu lét hann mig taka próf og gefa sjálfri mér einkunn á allskonar sviðum tilverunnar.

„Þú ætlast til of mikils af þér,“ sagði ráðgjafinn svo að prófinu loknu. Hann útskýrði fyrir mér að með þá verki sem ég var með þá gerði ég alltof miklar kröfur á sjálfa mig. Fyrsta sem við ákváðum svo í sameiningu var að ég skyldi fá tíma hjá sálfræðingi, einnig töldum við að mér kæmi að gagni að fara í Heilsuborg. Aðal vinnan hjá mér í samstarfinu við VIRK var að sækja tíma hjá sálfræðingi, sem ég komst strax að hjá. 

Hjá sálfræðingnum fór ég að vinna í gömlum áföllum og þar var að nógu að taka. Fimm ára gömul þurfti ég að flýja erlendis frá hingað til Íslands með mömmu minni og litla bróður vegna heimilisofbeldis sem blóðfaðir minn beitti. Við flýðum í skjóli nætur og ég man enn vel eftir þeirri ferð. Viðbrigðin við að flytja í nýtt land voru talsverð.

Þegar ég var sex ára fór mamma að búa með yndislegum manni sem alla tíð hefur litið á mig sem sína. Hann er pabbi minn og við hann kenni ég mig. Einhvers staðar innra með mér var samt litla fimm ára barnið, sárt og niðurbarið, vildi fá viðurkenningu frá blóðföðurnum. Hann kom hingað til Íslands fyrir nokkrum árum – þá fann ég að ég hafði ekki misst af neinu.

Ég átti sem sagt eftir flóttann góða æsku, eignaðist fleiri systkini og allt gekk ágætlega. Ég fór ung að heiman, vildi vera sjálfstæð. Ég eignaðist snemma barn og annað barn nokkru síðar. Leiðir mínar og barnsföður míns skildu þegar seinna barnið var nokkra mánaða. Ég vann þó ekki úr því áfalli heldur hélt ótrauð áfram eftir skilnaðinn. Ég vann heldur ekki úr þeirri reynslu að verða nokkru síðar fyrir kynferðisofbeldi. Allt fór í „áfallaskúffuna“. Ég er ekki orðin þrjátíu og fimm ára en hef átt heima á ansi mörgum stöðum. Það hefur líka tekið sinn toll.

„Nú er staðan hjá mér góð. Ég á að vísu ennþá slæma daga en þá segi ég bara við fjölskylduna að ég verði að hvíla mig og geri það. Ég fer í sund og ræktina og er í góðu formi.“

Skil sjálfa mig betur nú en áður

Sálfræðingurinn, sem VIRK fékk tíma fyrir mig hjá, hjálpaði mér að fara í gegnum þessa reynslu alla með þeim afleiðingum að ég skil sjálfa mig miklu betur nú en áður. Ég áttaði mig á að ég hafði alla tíð sóst eftir viðurkenningu, þótt vissulega fengi ég viðurkenningu frá foreldrum mínum – en litla barnið þráði greinilega alltaf viðurkenningu frá blóðföðurnum sem ekki hafði staðið sig. Þeirri tilfinningu átti ég lengi vel erfitt með að verjast.

Aftur og aftur þurftu sérfræðingar hjá VIRK að meta stöðu mína og aftur og aftur varð niðurstaðan sú að ég þyrfti fleiri tíma hjá sálfræðingnum og fékk þá. Hið góða við VIRK er að þar fær maður það sem þarf til að ástandið lagist. Lengi vel fannst ég gæti ekki komist út á vinnumarkaðinn aftur, sá fyrir mér að ég myndi enda á örorku. Ég var þá rétt rúmlega þrítug og menntaður sjúkraliði. Þetta fannst mér sorgleg niðurstaða.

Hjá sálfræðingnum gat ég sagt frá ýmsu sem ég aldrei hafði sagt neinum. Í framhaldi af því lét vefjagigtin smám saman aðeins undan síga. Ég talaði líka við manninn minn og það var gott að vita að þegar sálfræðitímarnir voru búnir hefði ég manninn minn til að tala við.

Ég hafði giftist nokkru eftir að slitnaði upp úr sambúðinni við barnsföður minn. Maðurinn sem ég giftist hefur alla tíð síðan verið stoð mín og stytta. Við eigum saman eina dóttur. Hún fæddist fyrirburi og ég kenndi mér um að hafa ekki getað gengið með hana fullan tíma. Dóttir okkar var í öndunarvél og barðist fyrir lífi sínu vikum saman. Þetta var hræðilega erfið reynsla fyrir okkur foreldrana. Enn bættist í „áfallaskúffuna“. Líka þessu gat ég sagt sálfræðingnum frá.

Ég hitti ráðgjafann minn reglulega þann tíma sem ég var í samstarfinu við VIRK. Hann var í sambandi við sálfræðinginn og niðurstaðan var sem fyrr greindi lengi vel sú að betur þyrfti að gera. Það, að alltaf var samþykkt á fundum sérfræðinga að ég fengi meiri aðstoð, létti af mér mikilli streitu.

Peningar eru ekki allt

Fjármálin voru svo kafli út af fyrir sig. Ég lenti á milli kerfa. Mér var afhent uppsagnarbréf frá vinnuveitenda mínum strax og ég kom út af geðdeildinni. Það var áfall, mér hafði aldrei áður verið sagt upp vinnu. Vinnuveitandinn var sá eini, fyrir utan manninn minn, sem fékk að vita þegar ég lagðist á geðdeildina. Viðbrögð hans voru sem sagt þessi. Ráðgjafinn hjá VIRK aðstoðaði mig við að sækja um endurhæfingarlífeyri en hann kom ekki strax.

Ég komst að því að ég átti ekki rétt hjá stéttarfélagi. Á þeim vinnustað sem ég vann síðast fyrir innlögn var ekki greitt fyrir mig til stéttarfélags. Ég lenti því á milli kerfa fékk aðeins hundrað þúsund krónur á mánuði. Þetta var erfitt, við höfðum keypt okkur íbúð og það þurfti að borga af henni. Ég íhugaði meira að segja að vinna í hálft ár svo ég fengi réttindi og fara svo að „vinna í sjálfri mér“. En maðurinn minn sagði: „Peningar eru ekki allt. Við komumst í gegnum þetta.“ Hálfu ári síðar komst ég á endurhæfingarlífeyrinn, hann var ekki mikið hærri en fyrri greiðslur – en mér leið eins og ég hefði fengið milljónir í hendurnar. Sem betur fer höfðum við hjónin alltaf lagt í eigin varasjóð og hann kom sér vel á þessum tíma.

Þess má geta að hálfu ár eftir að ég var á geðdeildinni var loks hringt frá Landspítalanum og mér boðin sálfræðitími. Ég sagði sem var að ég væri löngu komin í samstarf hjá VIRK og þyrfti ekki á þeim tíma að halda. Mér finnst satt að segja að eftirfylgnin hjá geðdeild Landspítala mætti vera betri.

Nú er staðan hjá mér góð. Ég á að vísu ennþá slæma daga en þá segi ég bara við fjölskylduna að ég verði að hvíla mig og geri það. Ég fer í sund og ræktina og er í góðu formi. Ég fékk tíma í Heilsuborg en fann út að það hentaði mér betur að ganga úti og gera æfingar heima. Mín úrræði í samstarfinu við VIRK voru fyrst og fremst sálfræðitímar. Alls var ég í samstarfinu í fimmtán mánuði.

Ég vinn nú sem sjúkraliði á Hjartarannsóknardeild Landspítala. Ég sá þessa stöðu auglýsta og sótti um en bjóst ekki við að fá hana. Í atvinnuviðtalinu gekk mér vel. Ég fékk stöðuna og er afar ánægð í starfi – er treyst fyrir stórum verkefnum. Þetta er mikill sigur. Þessi vinna er ekki líkamlega erfið þannig að vefjagigtin plagar mig ekki á sama hátt og áður.

Ef ég ætti að gera upp samstarfið við VIRK í stuttu máli þá er hægt að draga það saman í eina setningu – ég væri ekki ofan jarðar ef ég hefði ekki notið aðstoðar VIRK.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband