Sigríður Lárusdóttir
Hún kemur til dyra svo einörð og hreinskiptin í fasi að mér finnst við alltaf hafa þekkst. Sigríður Lárusdóttir lífeindafræðingur, fædd 1964, hefur lent í miklum erfiðleikum undanfarna mánuði. Hennar styrka stoð í þeim vanda er VIRK.
„Ég var að vinna á lítilli einkarekinni rannsóknarstofu, sem sérhæfði sig í því að leita að krabbameinsfrumum. Mitt starf fólst í því að undirbúa og skoða smásjársýni. Við voru upphaflega tveir lífeindafræðingar, svo veiktist hinn af krabbameini og dó. Þá sinnti ég störfum ein, - hraust og dugleg (ofur)kona,“ segir Sigríður og býður mér sæti í fallegri stofu sinni.
„Nokkru síðar þurfi ég að fara tvisvar sinnum í gegnum hjartabrennsluaðgerðir, eftir seinni aðgerðina þurfti ég að leggjast á spítala um tíma vegna bólgu í hjartavöðva. Rétt áður hafði ég látið taka sýni úr lærinu á mér, þykkildi sem hafði farið stækkandi. Ég hafði sýnt læknunum sem ég vann hjá þykkildið en þeir voru ósköp rólegir yfir þessu. Ég lét fjarlægja þennan blett og var enn með sauminn í lærinu þegar ég fór í lokaeftirlitið hjá hjartalækninum. Í ljós kom að bletturinn í lærinu var illkynja æxli. Í framhaldi af því fór ég í mjög erfiða að og sársaukafulla aðgerð, en ég þurfti ekki lyf eða geisla. Ég var tvær vikur á spítala á morfíni en mjög áhyggjufull. Af því vinnustaðurinn var lítill, starfið sérhæft og enginn til að leysa mig af hlóðust verkefni upp; ég leyfði mér að verða stressuð yfir þessu. Ég velti því jafnvel fyrir mér á spítalanum hvort ég gæti unnið úr sýnum meðan lægi þarna. Ég er samviskusöm og vildi vinna vel. Kannski þess vegna réðu atvinnurekendur mínir ekki neinn í afleysingar, vissu að ég myndi bara „hlaupa hraðar“ þegar ég kæmi til baka,“ segir Sigríður.
„Ég þurfti oft að láta skipta á sárinu og læknirinn sagði við mig að ég yrði að vera nokkrar vikur heima. Ég sagði honum að það kæmi ekki til greina, ég þyrfti að komast í vinnuna. Ekki það ég væri hrædd við að missa vinnuna, ég hafði bara áhyggjur af því hve mikið safnaðist fyrir.
Fór of snemma að vinna
Strax og ég fór að geta staulast um lét ég keyra mig í vinnuna, setti kassa undir fótinn, því hann mátti ekki lafa niður, og byrjaði svo að vinna. Og ég vann og vann og vann. Ég var skorin í mars og var komin í vinnu í byrjun maí. Um sama leyti var ég líka að taka framhaldspróf í söngnámi. Í raun held ég að það hafi bjargað geðheilsunni, fékk mig til að hugsa um eitthvað skemmtilegt á meðan á þessu veikindatímabili stóð. Ég vann svo í heilt ár, en þá fór að fjara undan mér. Ég horfðist aldrei í augu við að ég hafði verið með krabbamein. Ég fór alltof snemma að vinna og leyfði atvinnurekendunum að koma svona fram við mig. Þetta var bara aldrei rætt. Ég átti erfitt með að sitja og bað um betri stól. Þegar það var ekki hægt keypti ég sjálf stól. Þegar fyrirtækið flutti fékk ég borð sem hægt var að hækka og lækka en leið þó illa að vera að biðja um slíkt.
Ári eftir að ég hóf vinnu eftir aðgerðina var ég orðin óskaplega þreytt og erfið í samskiptum, einkum heima hjá mér. Þá las ég grein eftir Snorra Ingimarsson lækni í Fréttablaðinu þar sem hann lýsti því þegar hann fékk krabbamein og hvað áhrif það hefði haft á hann. Mér fannst ég sjá lýsingu á minni eigin líðan. Þann 10. apríl 2011 ég til Snorra og maðurinn með mér. Snorri sagði við mig: „þú ferð ekkert aftur að vinna í bráð, þú ferð í veikindaleyfi.“ Ég neitaði fyrst, en hann hringdi á vinnustaðinn og lét vita að ég væri farin í sex vikna leyfi. Við þessi umskipti var eins og stungið væri á blöðru. Ég féll saman, lagðist í þunglyndi sem auðvitað hafði verið að safnast upp vegna álagsins áður.
Hvernig tóku atvinnurekendur þínir þessum veikindum þínum?
Ég verð því miður að segja eins og er að í veikindaferlinu fékk ég engan stuðning frá þeim. Þetta var ekki rætt og ég vann þrotlaust. Með mér starfaði kona sem sá um allt sem snýr að skrifstofuhaldi. Hún hafði átt við veikindi að stríða og nefndi fyrst við mig VIRK. Ég fór inn á Netið til að afla mér upplýsinga um starfsemina og sá að ég gat snúið mér til ráðgjafa frá mínu stéttarfélagi. Í framhaldi af því sendi ég Kristbjörgu Leifsdóttur ráðgjafa tölvupóst. Hún bauð mér að koma í viðtal og sýndi aðstæðum mínum mikinn skilning; byrjaði að leggja plan, sem fólst meðal annars í því að ég hitti sálfræðing á vegum VIRK. En þetta átti eftir að versna áður en það fór að bata.
„Sjálfstraust mitt óx smám saman, ég fann að ég var farin að vinna í mínum málum. Ég hafði farið niður í djúpan dal og fann ég þurfti að fara upp úr honum. Tvær leiðir voru mögulegar, annað hvort að klifra upp klettavegginn, eins og ég hafði löngu gert - eða fara upp grösuga og blómskrýdda brekku. Þá leið kaus ég að fara. Hún er seinfarnari, en það tekur alltaf langan tíma að jafna sig eftir þung áföll."
Uppsögn í miðju veikindaferli
Við allt þetta hafði ég breyst úr svokallaðri ofurkonu í þunglynt hrak, að mér fannst. Ég starfaði um tíma í Ljósinu, það gerði mér gott. Stuttu eftir að Snorri læknir sendi mig í veikindaleyfið fékk ég bréf þar mér var tilkynnt að mér væri sagt upp. Það var óskaplegt áfall. Vinnuveitendur mínir spurðust lítt fyrir um líðan mína og samstarfsmaðurinn fyrrnefndi svaraði aldrei pósti frá mér og henti mér út af Facebook. Ég hringdi í fagfélag mitt til að athuga stöðu mína. Þegar ég heyrði ég að vinnuveitendum mínum hefði beinlínis verið veitt veitt tilsögn hjá mínu stéttarfélagi um hvernig þeir gætu sagt mér upp á löglegan hátt varð ég mjög sár. Í staðinn fyrir að verja félagsmanninn þá svaraði félagið fyrirspurnum sem vinnuveitendur mínir gátu nýtt sér til að reka mig. Mér líkar ekki að stéttarfélög hugsi betur um þá sem vinna hjá ríki og bæ heldur en þá sem vinna hjá einkareknum fyrirtækjum. Starf mitt var fært til Krabbameinsfélagsins og mér borgaður þriggja mánaða uppsagnarfrestur og sumarleyfi.
Maðurinn minn studdi mig í gegnum allt þetta ferli mjög vel og veitti ekki af því um þetta leyti fóru að sækja að mér sjálfsvígshugsanir. Ýmislegt hafði yfir mig dunið áður, ég missti bæði foreldra mína og tengaforeldra frekar ung og lent í miklum hremmingum eftir fæðingu fyrsta barnsins míns af þremur. Líf mitt hafði því langt í frá verið áfallalaus. En þetta var „skvettan“ sem fyllti mælinn. Mér fannst ég fullkomlega vanmáttug og ekkert geta.“
Hvernig fór uppbyggingarstarfið fram í gegnum VIRK?
„Sjálfsmat mitt var eftir uppsögnina orðið lélegt og líkamlegt ástand slæmt. Í þungsinninu fannst mér líf mitt hafa verið tómir erfiðleikar og gleðistundirnar fáar. Það sem var svo frábært við VIRK var að þótt ég ætti nú ekki lengur að neinu starfi að hverfa var haldið áfram að aðstoða mig, sálfræðingurinn Sigrún Ása Þórðardóttir vildi að ég færi í Hveragerði í endurhæfingu og Snorri læknir sótti um fyrir mig. Þar vaknaði sjálfsbjargarviðleitni mín aftur og ég gerðist lausnamiðuð, eins og ég hafði alltaf verið. Maðurinn minn, Þorsteinn Gunnlaugsson aðstoðaði mig. Dvölin í Hveragerði var mér frekar erfið, en ég ákvað að þiggja alla þá hjálp sem í boði væri.
Sigrún Ása sálfræðingur setti upp plan fyrir mig og ég fylgdi því samviskusamlega. Meðal annars var mér gert að halda dagbók um líðan mína. Ég nennti því ekki en gerði það samt. Ég vissi þó að fólk nær sér upp úr áföllum og það veitti mér von. Úr því ég var úrræðalaus sjálf tók ég úrræðum sem aðrir buðum mér uppá.
Ég hafði alltaf unnið mikið og lítinn tíma gefið mér til að hugsa. Nú ræddi ég við börnin mín og leyndi þau ekki hvernig aðstæður mínar væru; það gerði mér gott. Um leið og maður segir hlutinn minnkar vægi hans. Mannskepnan þarf samkennd.
Sem fyrr greindi heyrði ég nánast ekkert frá vinnustaðnum mínum. Fékk að vísu einn vesældarlegan tölvupóst frá öðrum vinnuveitandanum; ég skrifaði langt svarbréf, en sendi það ekki. Annan vinnuveitandann sá ég í bíó, greinilega gladdist hann ekki við endurfundina.
Nú hugsa ég til vinnuveitenda minna með góðum hug og vona að þeim gangi vel. Það er nauðsynlegur hluti í batanum að hanga ekki fastur í fortíðinni og ganga ekki um með reiði.
Sjálfstraust mitt óx smám saman, ég fann að ég var farin að vinna í mínum málum. Ég hafði farið niður í djúpan dal og fann ég þurfti að fara upp úr honum. Tvær leiðir voru mögulegar, annað hvort að klifra upp klettavegginn, eins og ég hafði löngu gert - eða fara upp grösuga og blómskrýdda brekku. Þá leið kaus ég að fara. Hún er seinfarnari, en það tekur alltaf langan tíma að jafna sig eftir þung áföll.
Í Hveragerði kynntist ég dáleiðslu. Hún opnaði margt fyrir mér og ég ákvað að læra dáleiðslu. Sigrún Ásta studdi þá hugmynd. Ég er mjög þakklát fyrir alla þá hjálp sem ég fékk hjá VIRK, og mig langar að hjálpa öðrum. Fyrst hafði ég velt fyrir mér að fara í músíkþerapíu og fékk inngöngu í slíkan skóla, en fimm ára nám fannst of langur tími. Ég ákvað því að halda áfram að stunda nám í dáleiðslu hjá alþjóðlegaum skóla. Kennari frá honum kemur til Íslands með vissu millibili. Ég á sjálfsagt möguleika á að fara í gegnum örorkumat, en mig langar til að skapa mér vettvang og dáleiðslan er það sem ég stefni nú á. Ég les ógrynni af bókum um dáleiðslu og tek fólk í tíma til að æfa mig. Sonur minn er margmiðlunarfræðingur og er að búa til heimasíðu fyrir mig. Sá tímapunktur nálgast að ég hætti að vera í endurhæfingu og hefji nýjan starfsferil. Ég stend á tímamótum og finn að ég er tilbúin að takast á við ný verkefni.“
Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir