Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Líkamleg heilsa

Endurheimti vilja til að lifa

Endurheimti vilja til að lifa

„Það eru vissir kostir við það að hafa hrunið heilsufarslega, svo einkennilega sem það kann að hljóma. Einmitt vegna þess hófst uppbyggingarstarf sem stendur raunar enn yfir. Fátt er svo með öllu illt," segir Linda Guðmundsdóttir sem lauk þjónustu hjá VIRK fyrir rösku ári en leið hennar hefur legið upp á við síðustu tvö árin.

Linda Guðmundsdóttir

„Það eru vissir kostir við það að hafa hrunið heilsufarslega, svo einkennilega sem það kann að hljóma. Einmitt vegna þess hófst uppbyggingarstarf sem stendur raunar enn yfir. Fátt er svo með öllu illt," segir Linda Guðmundsdóttir og býður mér nýbakaðar vöfflur með heimagerðri rabarbarasultu. Linda lauk þjónustu hjá VIRK fyrir rösku ári og leið hennar hefur legið upp á við síðustu tvö árin.

„Mér leið óskaplega illa í mörg ár, það er varla hægt að lýsa þeirri líðan öðruvísi en sem svartnætti. En ég sótti mér aðstoð hjá Hugarafli og síðar VIRK. Þannig gat ég endurnýjað viljann til að lifa sem var gjörsamlega farinn frá mér,“ segir Linda.

Kötturinn hennar Lindu kallar á athygli og fær klapp og loforð um að fljótlega verði honum sinnt. Með það hverfur kisa kurteislega úr augsýn í bili.

Linda er fædd og uppalin í sveit og þess sér stað á heimili hennar. Meðan ég drekk kaffið og borða vöffluna mína þá horfi ég á mynd af brosmildri ömmu Lindu sem situr við að mjólka kú, þessi kona var mikilvæg í lífi Lindu þegar hún var að alast upp á fremur afskekktum bæ í Árneshreppi á Ströndum.

„Eitt af því sem var mér áfall í bernsku var hvað mamma var mér fjarlæg, ég er enn að vinna úr höfnunartilfinningu sem það olli mér. Foreldrar mínir skildu og ég varð eftir í sveitinni þegar mamma fór. Ég fékk á margan hátt gott uppeldi og átti sterkt bakland en eigi að síður þjáðist ég af kvíða sem ekki vildi yfirgefa mig. Kvíðinn leiddi til svefnleysis og vefjagigtar. Ég man varla eftir mér verkjalausri. Séð í baksýnisspeglinum þá fór ég beinlínis á hnefanum í gegnum skólanám. Ég var send til ættfólks míns á Austfjörðum fjórtán ára til þess að ljúka grunnskólaprófi.

Eftir það lá leiðin í framhaldsskólann að Laugum í Reykjadal, þaðan varð ég stúdent árið 2001 – varð sem sagt fertug í sumar. Eftir stúdentsprófið fór ég með skólasystur minni í hússtjórnarskóla á Hallormsstað. Ég hóf síðar kennaranám við Háskólann á Akureyri en ég fann mig ekki í háskólanámi. Var sennilega ekki tilbúin til þess. Núna myndi ég gjarnan vilja fara í háskólanám, en þá hef ég bara ekki efni á því. Það lifir enginn á námslánum í dag.“

Lagði frá mér hnífinn

Hversu alvarleg var líðan þín orðin þegar þú leitaðir þér aðstoðar hjá VIRK?
„Eiginlega á ég þessum ketti líf mitt að launa,“ segir Linda og strýkur kisu sinni sem aftur er komin fram á sjónarsviðið.

„Ég var orðin svo langt leidd af lífsleiða að ég íhugaði að láta mig hverfa. Mér leið hörmulega og sá engan tilgang í að lifa lengur. Þannig hugsandi sat ég við eldhúsborðið og ætlaði að fara að skera sundur appelsínu. Allt í einu, nánast ósjálfrátt, var hnífurinn kominn að úlnliðnum á mér. Ég er sem fyrr sagði alin upp í sveit og vissi nákvæmlega hvernig ég ætti að skera og hve djúpt.

Það var eins og dýrið skynjaði hvernig mér liði. Ég fann að ég gat ekki yfirgefið kisu mína, við höfum þraukað saman í mörg ár. 

En þar sem ég sat þarna með hnífinn við slagæðina hoppaði kisa aldrei þessu vant upp á borðið, settist fyrir framan mig og horfði beint í augun á mér. Það var eins og dýrið skynjaði hvernig mér liði. Ég fann að ég gat ekki yfirgefið kisu mína, við höfum þraukað saman í mörg ár. Hún kom til mín á Akureyri ársgömul og þurfti sannarlega á umhyggju að halda. Nú var eins og hún vildi endurgjalda mér. Ég lagði frá mér hnífinn og fann að ég yrði að berjast áfram til þess að ná heilsu á ný. Annað væri ekki í boði.

Í framhaldi af þessu leitað ég til Hugarafls. Einhver hafði sagt mér frá starfinu þar. Hugarafl eru félagasamtök sem hafa opið frá níu til fjögur á daginn. Þar er iðjuþjálfi og sálfræðingur og fullt af fólki með reynslu. Þegar ég varð að hætta að vinna árið 2018 vegna andlegrar og líkamlegrar vanlíðunar nýtti ég mér veikindarétt minn í fyrstu. Þegar það úrræði var þrotið og ég enn illa á vegi stödd beindi fólk í Hugarafli mér til VIRK sem reyndist mikið gæfuspor. Heimilislæknirinn minn sótti um fyrir mig þar.“

Vildi fara á mínum hraða

„Ráðgjafi VIRK hjá BSRB tók mér vel og í sameiningu lögðum við upp áætlun um endurkomu til vinnu. Ég hélt áfram að vera hjá sálfræðingnum mínum hjá Hugarafli en VIRK borgaði fyrir mig tíma í heilsurækt sem gerði mér afskaplega gott. Ráðgjafinn benti mér á alls konar námskeið sem hann taldi að hentaði mér. Ég var dálítið þrjósk, vildi fara þessa vegferð á mínum hraða og fékk að ráða því. Það var afskaplega gott að ræða við ráðgjafann og þar fékk ég ýmis ráð sem sannarlega gáfu mér kjark og þor og ég notfæri mér enn í dag.

Við hvað vannstu þegar þú yfirbugaðist heilsufarslega?
„Ég kom til Reykjavíkur árið 2015. Fyrst vann ég við skúringar hjá Þjóðminjasafninu í hálfri vinnu og var svo í hálfri vinnu hjá Bílastæðasjóði. Síðar var ég stöðuvörður í fullri vinnu. Það var oft ekki skemmtilegt í því starfi. Ýmsir tóku því illa að þurfa að borga gjald. Ég var skömmuð, slegið til mín og ég jafnvel tekin haustaki og klóruð af reiðum bíleigendum. Merkilegt hvernig fólk getur látið út af peningum.

Ég á ekki góðar minningar frá viðskiptavinum Bílastæðasjóðs í Reykjavík. En ég reyndi að pína mig áfram. Það varð mér æ erfiðara.

Svo einn daginn var eins og sjálfsmynd mín keyrði á vegg og ég beinlínis fann sjálfið mitt splundrast í þúsund mola eins og það væri úr postulíni. Innri kvölin var ólýsanleg. En nú er þetta að mestu að baki.“

Það tekur greinilega á Lindu að rifja upp þessa dapurlegu reynslu. Nokkur þögn verður. Ég litast um. Inni í stofunni eru hljóðfæri – hljómborð, magnari, gítarar hanga upp á vegg og gömul harmónika er í heiðurssæti upp á bókahillu. Linda sér að ég virði fyrir mér hljóðfærin.

Ég hef þó þann fyrirvara að ég geti minnkað við mig aftur reynist mér þetta of mikið. Ég tek ekki sénsinn á að missa heilsuna aftur, það kemur ekki til greina – en ég verð samt að prófa og sjá hvað ég get.

Tónlistin var athvarf

„Þegar mér leið sem verst þá var tónlistin athvarf mitt. Þegar myrkrið ríkti í huga mér settist ég niður og spilaði og söng og gleymdi mér rétt á meðan,“ segir hún.

Ertu menntuð í tónlist?
„Ég lærði söng í Tónlistarskólanum á Akureyri og síðar hjá FÍH. Ég lærði líka á saxófón – mér finnst jassinn æðislegur. Tilfinningar mínar fengu útrás í tónlistinni. Þar fékk ég hvíld og gat afvegaleitt hugann, ef svo má segja. Tónlistin hefur lengi verið mér mikilvæg. Ég söng minn fyrsta einsöng sjö ára gömul í kirkjunni heima í sveitinni og þegar öll sund virtust lokuð reyndist söngurinn og hljóðfæraleikurinn mín björgun. Ég fór líka að leika í Laugaskóla, lék mörg hlutverk en leiklistin reyndist mér ekki athvarf eins og tónlistin,“segir Linda.

Hvers vegna fórstu svona langt niður heilsufarslega?
„Auk tengslarofsins við mömmu í æsku þá hef ég orðið fyrir ýmsum áföllum á vegferðinni eins og gengur og hef alltaf verið kvíðin. Þegar maður vinnur ekki úr áföllum þá safnast þau upp. Ég hef ekki ennþá getað unnið til fullnustu úr erfiðri reynslu minni í æsku – þetta er stórt. Í afskekktri sveit var ekki verið að hugsa mikið um viðbrögð við áföllum eða kvíða. Neikvæð lífsreynsla á borð við ástvinamissi og ofbeldi dró mig æ lengra niður og smám saman varð þessi byrði mér nær óbærileg.“

Án VIRK væri ég ekki þar sem ég er nú

„Án aðstoðar VIRK og Hugarafls væri ég ekki þar sem ég er nú. Ég þáði þá aðstoð sem mér var boðin hjá VIRK – en á mínum hraða. Ég þarf að taka mér tíma í hlutina, þannig hef ég unnið alla mína vinnu. Á vegum VIRK fór ég í sjúkraþjálfun og alls konar námskeið í sambandi við heilsurækt. Einnig fór ég á námskeið sem sálfræðingar voru með þar sem kenndar voru ýmsar aðferðir til að kljást við kvíða.“

Hvernig gekk að ráða við svefnleysið?
„Illa. Mjög illa. Félagi minn kvíðinn var alltaf á fullu. Ég vildi ekki svefnlyf því þau fara svo illa í mig, en ég fékk kvíðastillandi lyf til að hjálpa mér að sofna. Einnig prófað ég alls konar hugleiðslu og fleira í þeim dúr en fannst það ekki virka mjög vel. Ég fór í jóga hjá Hugarafli – ég nýtti mér þjónustu hjá Hugarafli að hluta jafnframt því að vera hjá VIRK.“

Lagaðist þú af vefjagigtinni?
„Vefjagigtin er ólíkindatól. Það er erfitt að feta hinn gullna meðalveg. Maður þarf að hreyfa sig en ekki of mikið og mataræði skiptir máli. Veðrið hefur líka ótrúleg áhrif – maður finnur á sér bæði lægðir og kuldaköst. Þeir sem eru með gigt þurfa lítið á veðurfréttum að halda. Sjúkraþjálfunin nýttist mér einstaklega vel og raunar allt það sem laut að líkamlegri styrktarþjálfun. Hreyfing gerði mér líka gott, ég hef lengi verið of þung og léttist talsvert. Einnig komst ég í félagsskap við skemmtilegt fólk.

Ég fékk endurhæfingarlífeyri hjá TR þegar veikindaréttinum lauk. Mér fannst dálítið erfitt að vera titluð sem öryrki, það er ekki gott fyrir sálina. En ég var komin á endastöð og þegar maður er kominn þangað er ekki um annað að ræða en nýta öll úrræði ef ekki á illa að fara.“

Varstu í samskiptum við atvinnulífstengil á vegum VIRK?
„Já. Á vegum ráðgjafans míns hjá VIRK og atvinnulífstengils komst ég í þriggja mánaða vinnuprófun hjá Storytel síðla árs 2019. Þar las ég yfir handrit, hlustaði á upplestur og gerði athugasemdir. Það var skemmtilegt. Ég byrjað smátt hjá Storytel en var komin upp í 30-40 prósent vinnuframlag þegar yfir lauk. Ég fékk ekki laun, var á endurhæfingarlífeyri – þetta var eiginlega sjálfboðavinna og góð fyrir sálina. Ég hef lesið mikið allt frá barnæsku.“

Gengur vel að starfa með börnum

Hvernig gekk þér að komast aftur út á vinnumarkaðinn?
„Ég fann mér vinnu sjálf. Það var í febrúar 2020 og ég enn í þjónustu hjá VIRK. Ég gat ekki hugsað mér að fara að vinna aftur hjá Bílastæðasjóði. Ég hafði reynt að koma aftur en það gekk alls ekki. Reyndar dálítið fáránlegt að ég skyldi yfirleitt fara að vinna þar því ég var ný í borginni þegar ég hóf störf hjá Bílastæðasjóði og rataði ekki neitt – eina sem ég vissi var að Hallgrímskirkja stóð uppi á Skólavörðuholti.

VIRK er byggt upp sem ákveðið kerfi og fólk þarf að vera tilbúið til að ganga inn í það til að geta tileinkað sér það sem upp á er boðið. 

Þegar ég fór að þoka mér á ný út á vinnumarkaðinn byrjaði ég í fjórðungs starfi sem heimilishjálp en fékk svo vinnu sem stuðningsfulltrúi í fyrsta bekk í grunnskóla. Fyrst í hálfu starfi en er nú á öðrum vetri komin í níutíu prósent vinnu. Þetta er allt saman prýðilegt nema launin, sem eru ekkert sérstaklega góð. Þótt ég sé ekki kennaramenntuð hef ég mikla reynslu. Ég hef líka farið á alls konar námskeið – var til dæmis fyrir skömmu heila helgi á námskeiði sem heitir skapandi tónlistarstjórnun – hvernig maður kennir tónlist án þess að nota nótur. Með þessu er ég að færa mig í ríkari mæli yfir í tónlistarkennslu.

Ég er að vissu leyti kominn á svipaðar slóðir og þegar ég ætlaði að verða kennari frá Háskólanum á Akureyri. Það kom mér á óvart hversu vel mér gengur að starfa með börnum, ég hef aldrei verið nein barnakona – er ógift og barnlaus. En ég er bara nokkuð góð í þessu. Lífsreynsla mín hjálpar mér, ég hef ákveðið innsæi í líf krakkanna í skólanum.

Auk stuðningskennslunnar kenni ég tónmennt í fimmta bekk og til stendur að ég taki við barnakór skólans. Einnig er ég að fara að halda tónleika. Ég er því komin með töluvert verksvið og má passa mig að það verið ekki of mikið. Ég hef þó þann fyrirvara að ég geti minnkað við mig aftur reynist mér þetta of mikið. Ég tek ekki sénsinn á að missa heilsuna aftur, það kemur ekki til greina – en ég verð samt að prófa og sjá hvað ég get.“

Hvaða úrræði nýttust þér best hjá VIRK?
„Heilsuræktin og öll þau ráð sem ráðgjafinn gaf mér. Þótt það tæki smá tíma fyrir mig og ráðgjafann að stilla okkur saman tókst það á endanum mjög vel. VIRK er byggt upp sem ákveðið kerfi og fólk þarf að vera tilbúið til að ganga inn í það til að geta tileinkað sér það sem upp á er boðið. Til þess að það sé hægt þarf maður að vera kominn á ákveðinn stað í bata. En þannig er það vafalaust með alla endurhæfingu. Ég er afskaplega þakklát fyrir allt sem VIRK gerði fyrir mig.“

Sjálfsvinnan byrjar hægt en gengur svo hraðar

Hvernig er svo staðan hjá þér núna?
„Bara nokkuð góð. Heilsan hefur lagast heilmikið, eina sem ég þarf að passa er að gera ekki of mikið. Lífsgleðin var alveg horfin en ég hef endurheimt hana og lífsviljann. Sumir kalla svona ástand „kulnun“ en mér finnst það ekki komast nálægt því að lýsa minni líðan. Það er ekki langt síðan ég var að lesa í gömlum dagbókum um það svartnætti sem þá ríkti í huga mér – það var beinlínis dauðaþrá. Eftir slíkt þarf maður að finna sjálfan sig aftur.

Ég var afskaplega heppin með ráðgjafann minn hjá VIRK. Hún stóð sig frábærlega vel, alltaf boðinn og búinn að svara ef ég leitaði til hennar og sýndi mér mikla þolinmæði. 

Þegar maður lendir í svona tilfinningalega slímugri þarabendu þarf maður afskaplega langan tíma til að vinna sig út úr henni. Stundum er talað um að það taki jafn langan tíma að vinda ofan af erfiðri reynslu eins og að verða fyrir henni – samkvæmt því ætti ég að verða sæmileg rúmlega sjötug. Í raun er þetta þó ekki þannig. Sjálfsvinnan byrjar hægt en gengur svo hraðar og hraðar. Maður verður hugrakkari og hugrakkari og fær kjark til að horfast í augu við allt það erfiða sem maður hefur upplifað. Þannig þroskast maður með sjálfum sér.

Ég var afskaplega heppin með ráðgjafann minn hjá VIRK. Hún stóð sig frábærlega vel, alltaf boðin og búin að svara ef ég leitaði til hennar og sýndi mér mikla þolinmæði. Hún sagði reyndar þegar ég lauk þjónustunni hjá VIRK að í samskiptum við mig hefði hún lært ýmislegt sem hún gæti nýtt sér áfram.

Ég er glöð yfir að vera ég sjálf aftur eftir að hafa verið týnd í þunglyndi og kvíða í mörg ár – næstum grafin. Ég þakka þessa uppbyggingu aðstoðinni sem ég fékk hjá VIRK, Hugarafli og svo sjálfri mér.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Ljósmynd: Lárus Karl Ingason

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband