Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Batnaði fyrr vegna frábærra úrræða

Batnaði fyrr vegna frábærra úrræða

Ung kona í Breiðholtinu var óvinnufær sökum fæðingarþunglyndis, tókst á við það og snéri aftur inn á vinnumarkaðinn.

Ung kona í Breiðholtinu

,,Þegar ég fór loks til ráðgjafans í starfsendurhæfingu gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði auðvitað átt að fara um leið og ráðgjafinn hringdi í mig. Ég var hins vegar svo vitlaus að ég taldi mig ekki þurfa á þessari aðstoð að halda. Öll úrræðin sem boðið var upp á og samtölin við ráðgjafann hafa styrkt mig gríðarlega mikið. Ég hefði ekki náð bata jafnfljótt án þeirra,“ segir ung kona í Breiðholtinu sem óskar nafnleyndar.

Unga konan, sem eignaðist dóttur í mars í fyrra, greindist með fæðingarþunglyndi í júlí í fyrrasumar. ,,Fljótlega eftir að ég kom heim af fæðingardeildinni fór mér að líða rosalega illa, ég grét mikið, lokaði mig af og vildi ekkert gera. Samt fannst mér í raun ekkert vera að mér en aðrir í kringum mig fullvissuðu mig um að þessi líðan mín væri ekki í lagi. Tveimur vikum áður en ég átti að byrja aftur að vinna fór ég til læknis. Ég fékk lyf við þunglyndinu og var skráð óvinnufær þar til í maí á þessu ári.“

Vildi ekki fara til ráðgjafa

Að sögn ungu konunnar hringdi ráðgjafinn í starfsendurhæfingu hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands, Sigrún Sigurðardóttir, í hana fyrir síðustu áramót. ,,Sigrún bað mig um að koma og spjalla við sig en ég vildi það ekki. Ég sagðist samt myndu koma. Það tók hana svolítið langan tíma til þess að fá mig til þess. Það var svo ekki fyrr en í febrúar að mig minnir sem ég lét mig loksins hafa það að fara til hennar og hún benti mér þá meðal annars á nauðsyn þess að byggja upp bæði líkama og sál til þess að öðlast heilsu svo að ég kæmist sem fyrst út á vinnumarkaðinn á ný.“

Unga konan kveðst hafa fengið kort í líkamsrækt, næringarráðgjöf og viðtöl hjá sálfræðingi. ,,Viðtölin við ráðgjafann og öll úrræðin sem boðið var upp á gerðu mér mjög gott. Þetta spilaði allt mjög vel saman. Ég hafði ekki verið í líkamsrækt áður þar sem ég hafði ekki áhuga á því. Ég hafði þyngst mikið á meðgöngunni og það var einnig þess vegna sem mér leið illa andlega. Ég varð miklu jákvæðari eftir að ég fór að hreyfa mig og nú er ég loksins farin að klæða mig í eitthvað annað en bara lopapeysu og íþróttabuxur. Áður vildi ég aldrei fara neitt eða gera neitt. Mér þótti leiðinlegast í heimi að klæða mig upp ef við hjónin vorum að fara eitthvað, eins og til dæmis í afmæli. Mér fannst ég alltaf ógeðsleg og leið illa.“

„Þetta starf á mjög vel við mig, ég tók tvö fög í sumarskóla nú í júní og ég ætla í sjúkraliðann í haust. Ég stefni að því að ljúka stúdentsprófi. Þvínæst ætla ég í hjúkkuna. Mig hefur alltaf langað til þess að vera í gefandi starfi og langað í hjúkkuna en ekki treyst mér til þess. Nú hugsa ég á þann veg að ég geti það alveg eins og allir aðrir.“

Jákvæðar hugsanir sigruðu

Hún segir að sálfræðingurinn hafi hjálpað sér að breyta hugsanamynstrinu. ,,Lyfin sem ég fékk í fyrrasumar stöðvuðu grátköstin en þau breyttu ekki þunglyndishugsununum sem voru í gangi í höfðinu á mér. Það tókst sálfræðingnum sem ég fékk að ræða við fyrir tilstilli VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar að gera. Ég var vön að fara í kerfi ef maðurinn minn sagðist ætla að kíkja til vinar síns og velti því fyrir mér hvort hann vildi ekki vera hjá okkur mæðgunum vegna þess að við værum svo leiðinlegar og svo framvegis. Núna finnst mér frábært að hann skuli fara að hitta vin sinn og óska honum góðrar skemmtunar. Öll úrræðin sem ég hef fengið að njóta hafa hjálpað mér miklu meira en lyfin þótt þau hafi vissulega líka hjálpað mér mjög mikið. Ég hefði aldrei reynt að fá bata með því að kaupa kort í ræktina. Mér hefði heldur aldrei dottið í hug að fara til sálfræðings til þess að reyna að vinna bug á neikvæðum hugsunum mínum.“

Í viðtölunum við ráðgjafann áttaði unga konan sig á því að hana langaði til þess að skipta um vinnu. ,,Ég hafði verið í þjónustustarfi áður en ég eignaðist dóttur mína. Mig langaði ekki til þess að sitja á stól við tölvu og rukka fólk um peninga. Kvíðinn fyrir því að fara aftur í vinnu að loknu fæðingarorlofinu í fyrrasumar var svo hrikalegur að ég var hætt að sofa á nóttunni. Það var meðal annars vegna hans sem ég fór læknis í fyrrasumar.“

Í nám og nýja vinnu

Í maí síðastliðnum hóf unga konan störf á dvalarheimili fyrir aldraða. ,,Ég er í 40 prósenta starfi við aðhlynningu og bæði starfsmenn og vistmenn eru yndislegir. Þetta starf á mjög vel við mig, ég tók tvö fög í sumarskóla nú í júní og ég ætla í sjúkraliðann í haust. Ég stefni að því að ljúka stúdentsprófi. Þvínæst ætla ég í hjúkkuna. Mig hefur alltaf langað til þess að vera í gefandi starfi og langað í hjúkkuna en ekki treyst mér til þess. Nú hugsa ég á þann veg að ég geti það alveg eins og allir aðrir.“

Að mati ungu konunnar er VIRK afar merkilegt framtak. ,,Það er frábært að svona úrræði skuli vera í boði og að ráðgjafar skuli halda svona vel utan um mann. Sigrún bauðst meira að segja til þess að koma með mér í ræktina ef mér þætti það betra. Ég get alltaf leitað til hennar með allt sem mér liggur á hjarta í sambandi við veikindin og réttindi mín.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband