Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

VIRK og sálfræðiþjónustan breytti öllu

VIRK og sálfræðiþjónustan breytti öllu

Eftir slys sem Bjarni Reykjalín Magnússon varð fyrir árið 2017 var hann óvinnufær og andlega illa staddur. Hann fékk nokkru síðar þjónustu hjá VIRK sem lauk í byrjun árs 2020. Eftir sársaukafulla reynslu og endurhæfingu í kjölfar slyssins er gott hljóð í Bjarna þegar spjallað er við hann um þessa afdrifaríku viðburði í lífi hans.

Bjarni Reykjalín Magnússon

Eftir slys sem Bjarni Reykjalín Magnússon varð fyrir árið 2017 var hann óvinnufær og andlega illa staddur. Hann fékk nokkru síðar þjónustu hjá VIRK sem lauk í byrjun árs 2020. Eftir sársaukafulla reynslu og endurhæfingu í kjölfar slyssins er gott hljóð í Bjarna þegar spjallað er við hann um þessa afdrifaríku viðburði í lífi hans.

„Ég er 23 ára og bý í Grímsey, þar er ég fæddur og uppalinn og hingað er ég sem sagt kominn aftur eftir viðburðaríka og erfiða reynslu,“ segir Bjarni Reykjalín.

„Ég flutti frá foreldrum mínum héðan úr Grímsey strax eftir fermingu, ekki orðinn fjórtán ára. Ég stundaði nám í grunnskóla og framhaldsskóla á Akureyri. Ég lærði til vélstjóra en lauk ekki því námi heldur fór í vinnu hér og þar, meðal annars á bílaverkstæði og einnig vann ég í blikksmiðju í nokkra mánuði.

Svo var það, eftir að ég hætti á bílaverkstæðinu, að ég fór að vinna hjá verktakafyrirtæki. Þar lenti ég í slysi, ég var að sinna viðhaldi á steypubíl þegar ég datt og slasaðist alvarlega á baki, ég var inni í tromlunni á bílnum að brjóta niður harnaða steypu. Þetta gerðist í maí 2017 og flokkaðist sem vinnuslys. Ég fór á spítalann á Akureyri, fékk þar skoðun og verkjalyf en ekkert sérstakt fannst að mér nema ég hafði mikinn verk í baki. Hann vildi ekki lagast.

Ef ég hefði ekki farið í þjónustu hjá VIRK væri ég líklega aumingi uppi í rúmi hágrenjandi – í alvöru talað. Það hefði ekkert orðið úr mér ef ég hefði ekki farið til VIRK.

Haustið 2017 var ég sendur í myndatöku í Domus Medica og þar sást að mikið slit var komið í bakið á mér, næstum eins og ég væri fjörgamall maður. Læknirinn sem skoðaði myndina hafði líka tekið mynd af bakinu á afa mínum og nafna, hann sýndi mér báðar myndirnar og ég sá að slitið í bakinu á mér var sambærilegt og hjá afa sem þá var áttatíu og fjögurra ára. Þetta var ekki gott fannst mér.“

Ráðgjafar VIRK reyndust æðislega vel

Hvað var gert þegar þessi niðurstaða lá fyrir?
„Ég hafði sumarið 2017 verið í sjúkraþjálfun á Akureyri sem engu skilaði í raun, ég var jafnvel verri í bakinu við þá meðferð. Eftir myndatökuna um haustið hafði ég farið heim til foreldra minna í Grímsey, ég hafði ekki efni á að vera vinnulaus syðra þótt ég hefði einhverjar sjúkrabætur. Heima í Grímsey var engin þjónusta en nokkru eftir að ég kom þangað sótti heimilislæknirinn minn um þjónustu hjá VIRK fyrir mig. Ég var metinn inn í þjónustuna og hitti ráðgjafa VIRK á Akureyri fyrir stéttarfélagið Einingu-Iðju.

Ráðgjafinn hjá VIRK tók mér vel og reyndist mér æðislega. Ég og ráðgjafinn komum okkur saman um að ég þyrfti að fara til sálfræðings. Ég þurfti sannarlega á því að halda því ég var mjög langt niðri andlega. Einnig fann ráðgjafinn hjá VIRK fyrir mig námskeið hjá markþjálfa sem ég hafði gott af að vera hjá. Ég var svo reglulega í viðtölum hjá þessum ráðgjafa VIRK og síðar öðrum sem tók við mér og hélt mér við efnið. Sá ráðgjafi hvatti mig til að halda áfram að sækja tíma hjá sálfræðingnum sem starfaði á Akureyri og ég fór til með vissu millibili.“

Hvað gerðir þú hjá markþjálfanum?
„Markþjálfinn hjálpaði mér að setja mér markmið, lítil í fyrstu. Svo sem að taka til í herberginu mínu, fara út að ganga – bara að gera eitthvað, hafa eitthvað til að stefna að. Ég þurfti á því að halda að setja mér slík markmið. Þetta hafðist svona skref fyrir skref má segja.“

Hvað með atvinnuþátttöku?
„Ég var óvinnufær meira eða minna í tvö og hálft ár. Á þessu tímabili var ég mikið í Grímsey og var að reyna að vinna öðru hverju. Ég var þá á lyftara sem sinnir því að losa og lesta ferjuna sem gengur á milli Grímseyjar og Dalvíkur. Þetta var mér mjög erfitt á þessum tíma en ég reyndi að halda áfram. Ég var hvattur til þess bæði af VIRK, meðferðaraðilum og fjölskyldu minni.“

Lagðir þú upp með áætlun um nám eða starf til frambúðar hjá markþjálfanum?
„Nei, ég var bara í þessu starfi á lyftaranum. Ég var ekki í sjúkraþjálfun og lokaði mig satt að segja talsvert inni því ég var vonlítill um að ég gæti nokkurn tíma komist til að vinna fulla vinnu. Svo var það veturinn 2018 að ég flutti til Akureyrar og fór að leigja með vini mínum. Þá reyndi ég að vinna á bílaverkstæði en það gekk ekki, ég hafði ekki líkamlega burði til að sinna slíku starfi.

Þess má geta að þegar ég slasaðist þá var ég um sjötíu kíló að þyngd en eftir slysið horaðist ég um tuttugu kíló á sex mánuðum. Ég var var því ekki vel á mig kominn. Þetta var ekki skemmtilegur tími.

Það hefur verið hringt í mig frá VIRK ábyggilega tíu sinnum eftir að ég hætti í þjónustunni þar. Ráðgjafinn hefur þá spurt hvernig gangi í lífinu og satt að segja gengur það bara mjög vel.

Lærði að lifa með verkjunum

Svo var það vorið 2019 að ég fór í svokallaða prufuviku á Reykjalundi. Um haustið fékk ég svo að vera í þjálfun á Reykjalundi í um sex vikur. Heimilislæknirinn, VIRK og mamma mín hvöttu mig til að gera þetta og ýttu á eftir að ég kæmist inn.“

Hvað varstu látinn gera á Reykjalundi?
„Allt milli himins og jarðar má segja. Ég fór í gönguhóp, synti og var í svokölluðum verkjaskóla. Svo fékk ég viðtöl hjá sálfræðingi sem reyndust mér vel. Ég fékk mjög fjölbreytta meðferð og smám saman lærði ég að lifa með þessum verkjum. Allt þetta breytti miklu. Eftir að hafa verið á Reykjalundi þá líður mér ekki lengur eins og ég sé að missa af einhverju í lífinu. Ég hef núna þá tilfinningu að ég geti gert það sem ég vil.“

Hvað vinnur þú við núna?
„Ég er sjómaður – á fyrirtæki sem er með tvo báta, jafnvel þrjá stundum. Sá þriðji er ekki alltaf í notkun. Við erum líka með þrjár vinnuvélar, það er tvær dráttarvélar og einn lyftara til sinna losun ferjunnar og keyra út olíu. Við sinnum einnig snjómokstri. Með mér í þessu eru foreldrar mínir og ég bý hjá þeim.“

Hefði ekki komist langt án aðstoðar

VIRK Hvað viltu segja um þjónustuna hjá VIRK?
„Ef ég hefði ekki farið í þjónustu hjá VIRK væri ég líklega aumingi uppi í rúmi hágrenjandi – í alvöru talað. Það hefði ekkert orðið úr mér ef ég hefði ekki farið til VIRK. Þegar ég kom fyrst til ráðgjafa VIRK þá átti ég beinlínis erfitt með að ganga en nú get ég keppt á snjósleðum, keppti meira að segja í keppninni Snocross. Ég hefði aldrei getað komist almennt svona langt í lífnu án aðstoðar frá VIRK.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Úr einkasafni

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband