Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Verðlaun fyrir frábæran námsárangur

Verðlaun fyrir frábæran námsárangur

„Niðurstaða mín eftir allt þetta ferli og reynsluna af þjónustu VIRK er að ég kem sterkari frá erfiðleikunum en ég hef nokkurn tíma verið. Lesblinduleiðréttingin, sjálfsstyrkingarnámskeiðin og sálfræðiþjónustan hjálpuðu mér mest af öllum þeim úrræðum sem ég tók þátt í á vegum VIRK.“

Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir háskólanemi

„Það er vissulega margt erfitt í gangi hjá mér ennþá en ég höndla það með þeim tækjum og tólum sem ég hef fengið meðal annars með tilstilli VIRK, andlega líður mér prýðilega núna segir Herdís Ósk Sveinbjörnsdóttir sem lauk þjónustu hjá VIRK sumarið 2018 eftir tveggja ára vinnu þar. Hún var greind með lesblindu sem barn en stundar nú nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Sambúðarslit, veikindi og fleiri erfiðleikar gerðu leiðina í HR ekki auðvelda en fjölbreytt aðstoð VIRK skipti sköpum að sögn Herdísar.

„Upphaflega leitaði ég til VIRK vegna minna andlegu veikinda. Ég var þá að vinna í Nettó – hafði starfað þar í nokkra mánuði þegar ég fékk ofsakvíðakast. Það gerðist í framhaldi af langvinnum kvíða, þunglyndi og erfiðleikum í einkalífi. Ég hafði verið í sambúð í sjö ár sem mér leið mjög illa í af ýmsum ástæðum. Í október 2016 tókst mér að binda enda á sambúðina sem hófst þegar ég var sautján ára. Það tók á. Ég á tvö börn með fyrrum sambýlismanni mínum og held heimili með þeim í Reykjanesbæ,“ segir Herdís Ósk þegar hún er spurð um aðdraganda þess að hún fór í þjónustu hjá VIRK.

„Ég fór til heimilislæknis og bað í nokkur skipti um veikindavottorð til að fá veikindaleyfi. Heimilislæknirinn taldi loks að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum og skráði mig á námskeið í HAM, hugrænni atferlismeðferð, á Heilsugæslunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Jafnframt sótti hann um þjónustu hjá VIRK fyrir mig.“

Hvernig leist þér á þessa ráðagerð læknisins?
„Ég átti reyndar sjálf upptökin að því að sækja um hjá VIRK, vinkona mín hafði bent mér á þá lausn í bágindum mínum. Hún hafði sjálf notið þjónustu VIRK og það gekk vel.“

„Ég átti reyndar sjálf upptökin að því að sækja um hjá VIRK, vinkona mín hafði bent mér á þá lausn í bágindum mínum. Hún hafði sjálf notið þjónustu VIRK og það gekk vel.“

Á hættusvæði varðandi þunglyndi og kvíða

Hver voru næstu skref?
„Ég byrjaði fyrst á HAM-námskeiðinu og svaraði þar í upphafi spurningalista. Sálfræðingurinn sem fór yfir svör mín taldi mig vera stadda á hættusvæði hvað varðaði þunglyndi og kvíða. Sálfræðingurinn hafði í framhaldi af þessu samband við mig og tók mig í sálfræðitíma hjá sér á vegum Heilsugæslunnar í Reykjanesbæ.“

Hvernig gekk að ná betra jafnvægi í sálarlífinu?
„Það gekk brösuglega fyrst þar sem ég var í sambúð sem mér leið ekki vel í. Sálfræðingurinn náði að hjálpa mér að halda mér á floti, ef svo má segja. Það var ekki fyrr en ég loksins komst inn hjá VIRK og þaðan í Samvinnu hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum að ég náði að „vinna í sjálfri mér“. Ég fékk aðstoð við að finna það út að ég gæti alveg spjarað mig án sambýlismannsins og losnað úr sambúðinni. Ég áttaði mig á að ég yrði hamingjusamari án mannsins og þannig yrði líf mitt og barnanna betra.“

Hvernig tókst þér að fóta þig í nýrri tilveru?
„Foreldrar mínir stóðu þétt við bakið á mér ásamt ömmu og afa í móðurætt. Þetta fólk studdi mig, ég fékk að búa með börnin heima hjá ömmu og afa. Ég var búin að fá endurhæfingarlífeyri áður en sambúðinni lauk. Ráðgjafi VIRK hjálpaði mér að sækja um hjá Tryggingastofnun og ég hafði því eitthvað til að lifa á.“

Lesblinduleiðréttingin virkaði

Hver voru helstu úrræðin sem þú sóttir á vegum VIRK?
„Ég byrjaði í alls konar sjálfsstyrkingarnámskeiðum sem eru hjá Samvinnu. Meðan ég var í því fékk ég tækifæri til að fara í lesblinduleiðréttingu, hún virkaði vel. Ég var greind með lesblindu mjög snemma í grunnskóla en fékk ekki aðstoð vegna þess. Ég gleymi aldrei því sem námsráðgjafi sagði við mig í grunnskólanum. Ég er fædd 1992 og var tólf ára þegar þessi námsráðgjafi spurði mig hvað mig langaði til að læra. Ég sagði að ég vildi verða barnalæknir. Þá sagði námsráðgjafinn: „Það getur þú aldrei orðið, þú ert of vitlaus til þess.“ Þessi orð námsráðgjafans brutu mig mjög mikið niður. Eftir þetta komst ég að þeirri niðurstöðu að ástæðulaust væri að leggja mig fram við nám, það myndi ekkert þýða.“

Hvernig gekk þér þá í Miðstöð símenntunar?
„Ég fékk tækifæri til að fara í svokallaðan Grunnmenntaskóla. Þar er maður í raun að „læra að læra“. Þá áttaði ég mig á að ég gæti vel lært. Í grunnskóla og þær tvær annir sem ég sótti í Fjölbrautaskóla Suðurnesja var ég yfirleitt með þrjá í einkunn og datt því fljótlega út úr námi. Í Grunnmenntaskólanum áttaði ég mig á að ég gæti fengið góðar einkunnir. Ég fékk ítrekað níu og tíu í fögum, það var sannarlega ný reynsla. Ég ákvað þarna að ég ætlaði mér ekki að hætta námi heldur halda áfram. Eftir útskrift úr Grunnmenntaskólanum fór ég í Menntastoðir sem líka er á vegum Miðstöðvar símenntunar. Allt þetta gerði ég í samráði við ráðgjafa VIRK sem studdi mig áfram í náminu og bauð mér upp á sálfræðitíma sem greiddir voru fyrir mig.“

„Ég fór á Háskóladaga til þess að skoða hvað mig langaði að gera. Ég var með í huga að læra lögfræði, ég skoðaði aðallega slíkt nám í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og var fljót að ákveða að læra lögfræðina í HR. Ég er að ljúka fyrsta árinu þar í vor. Mér hefur gengið rosalega vel þótt ég segi sjálf frá."

Sjálfsmynd mín styrktist

Hjálpuðu sálfræðitímarnir þér?
„Já þeir gerðu það verulega. Ég hélt áfram hjá sama sálfræðingnum eftir að ég hafði lokið þjónustu hjá VIRK. Ég er tiltölulega nýlega útskrifuð frá þessum sálfræðingi en ég get leitað til hans ef ég þarf. Ég leitaði af sjálfsdáðum í heilsurækt og hún gerði mér mjög gott. Meðfram náminu, sálfræðitímum og heilsuræktinni sótti ég námskeið á vegum VIRK, ráðgjafinn sótti um fyrir mig hjá Samvinnu þar sem ég tók þátt í alls konar sjálfsstyrkingarnámskeiðum sem fyrr greindi. Þau námskeið hjálpuðu mér að finna sjálfa mig aftur.

Sjálfsmynd mín styrktist og það veitti ekki af. Ég bý í litlu samfélagi þar sem allt fréttist og það tekur á að lenda í erfiðleikum við slíkar aðstæður. Hins vegar gerðist smám saman ýmislegt jákvætt, ég lauk námi í Menntastoðum og lauk stúdentsprófi frá Keili. Þaðan útskrifaðist ég með 9,1 í meðaleinkunn. Þá var ég mjög stolt af sjálfri mér.“

Hvað tók svo við eftir stúdentsprófið?
„Ég fór á Háskóladaga til þess að skoða hvað mig langaði að gera. Ég var með í huga að læra lögfræði, ég skoðaði aðallega slíkt nám í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík og var fljót að ákveða að læra lögfræðina í HR. Ég er að ljúka fyrsta árinu þar í vor. Mér hefur gengið rosalega vel þótt ég segi sjálf frá.

Verðlaun og sjónvarpsviðtal

Ég get ekki stillt mig um að segja frá verðlaunum sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitti mér fyrir framúrskarandi námsárangur í námi fyrir fullorðna. Mér þætti mjög gott ef námsráðgjafinn frétti um þessa verðlaunaveitingu. Mér varð hugsað til hans þegar ég var beðin að halda ræðu við verðlaunaveitinguna. Í umræddri ræðu nefndi ég hin niðurdrepandi orð námsráðgjafans sem hann lét falla þegar ég, ung stelpa í grunnskóla, sagðist vilja verða barnalæknir. Þess má einnig geta að ég fór nokkru áður í sjónvarpsviðtal á Hringbraut fyrir Menntastoðir sem óskuðu eftir að ég segði frá minni reynslu af náminu hjá þeim. Ástæða þess að ég valdi lögfræðina voru flækjur í kerfinu sem ég hef þurft að kljást við. Mig langaði að skilja lögin og geta hjálpað öðrum í framtíðinni. Ég tel mig hafa sterka réttlætiskennd – mér finnst ýmislegt í kerfinu sem þarf að laga og langar að leggja mitt af mörkum til þess ef ég get.“

„Ég lifi nú eftir hugmyndafræði sem ég hef sjálf mótað mér. Hún er á þessa leið: „Við lendum öll í einhverjum áföllum í lífinu, það er bara í okkar höndum hvort við ætlum að láta þau styrkja okkur eða brjóta okkur niður.“

Kem sterkari frá erfiðleikunum

Hvernig eru aðstæður þínar núna?
„Ég bý í ágætri íbúð ásamt börnunum mínum og stunda fullt háskólanám. Ég fékk námslán og tekst að ná endum saman en ekkert meira en það. Ég er samt ótrúlega heppin. Foreldrar mínir búa núna í sama stigagangi og ég og strákarnir. Ég fæ því mikla hjálp.

Seinast þegar ég var skimuð fyrir þunglyndi kom í ljós að það hrjáði mig ekki lengur. Ég er hins vegar haldin almennum kvíða sem stafar af streituvöldum í lífi mínu. Þá losna ég því miður varla við í bili. Ég hef ýmis ráð til að létta lundina. Frá barnæsku hef ég sett tilfinningar mín fram í ljóðaformi. Nú á fullorðinsárum hef ég í ljóðagerðinni fengið útrás fyrir sárar tilfinningar vegna þeirra erfiðleika sem ég hef þurft að glíma við í einkalífi. Ég fæ líka mikið út úr því að syngja. Ég var strax sem smábarn söngelsk, stundað tónlistarnám og söng í kórum. Söngurinn hefur gefið mér mikið.

Þess má geta að auk þess að hafa foreldra mína í sama stigagangi þá býr þar líka ein af mínum bestu vinkonum. Þessi vinkona mín er jafnan til staðar fyrir mig og ég fyrir hana. Ég lifi nú eftir hugmyndafræði sem ég hef sjálf mótað mér. Hún er á þessa leið: „Við lendum öll í einhverjum áföllum í lífinu, það er bara í okkar höndum hvort við ætlum að láta þau styrkja okkur eða brjóta okkur niður.“

Niðurstaða mín eftir allt þetta ferli og reynsluna af þjónustu VIRK er að ég kem sterkari frá erfiðleikunum en ég hef nokkurn tíma verið. Lesblinduleiðréttingin, sjálfsstyrkingarnámskeiðin og sálfræðiþjónustan hjálpuðu mér mest af öllum þeim úrræðum sem ég tók þátt í á vegum VIRK.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband