Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

Svo kom kjarkurinn

Svo kom kjarkurinn

„Í baksýnisspeglinum sé ég að umsókn mín um þjónustu hjá VIRK átti sér töluverðan aðdraganda,“ segir Maren Brynja Kristinsdóttir er við sitjum saman í fallegri stofu hennar á fjórðu hæð á Seltjarnarnesi. Fyrir utan gluggann blasir hafið við í öllum sínum margbreytileika og himininn þessa morgunstund er baðaður morgunsól en fyrir Maren Brynju var útlitið ekki alltaf bjart þegar hún glímdi við kulnun.

Maren Brynja Kristinsdóttir

„Í baksýnisspeglinum sé ég að umsókn mín um þjónustu hjá VIRK átti sér töluverðan aðdraganda,“ segir Maren Brynja Kristinsdóttir er við sitjum saman í fallegri stofu hennar á fjórðu hæð á Seltjarnarnesi. Fyrir utan gluggann blasir hafið við í öllum sínum margbreytileika og himininn þessa morgunstund er baðaður morgunsól en fyrir Maren Brynju var útlitið ekki alltaf bjart þegar hún glímdi við kulnun.

„Fyrir mér er kulnun samspil margra þátta. Þar spilar inn í starfið sjálft, eiginleikar fólks, starfsandinn, umhverfið í vinnunni, stjórnun og menningin hjá fyrirtækinu – og svo auðvitað einkalífið. Allir þessir þættir höfðu eitthvað að segja hjá mér en mismikið. Ég hafði unnið tæplega 20 ár hjá sama fyrirtækinu, sem er stórt og alþjóðlegt. Ég hafði verið í mismunandi hlutverkum þessi ár. En síðustu árin áður en ég veiktist var ég í mjög krefjandi verkefnum. Ég hef alltaf verið staðsett á Íslandi en unnið mikið í alþjóðlegum verkefnum, einkum síðustu ár,“ segir Maren Brynja.

„Ég er viðskiptafræðingur að mennt, með stúdentspróf frá MR, en alin upp á Seltjarnarnesi. Ég fékk starf hjá þessu stóra fyrirtæki strax eftir að háskólanámi lauk. Svo þróaðist ég áfram í starfi, hef unnið sem verkefnastjóri síðustu ár. Ég fékk sem sagt framgang,“ bætir hún við og brosir.

„Hluti af mínum karakter er að ég er viljug til verka og fljót að segja já. Hið jákvæða við það er að ég hef þroskast í starfi og fengið víðari sýn, en skuggahliðin er að ég átti erfitt með að setja mörk. Ég hef hefðbundinn borgaralegan bakgrunn og vandist því að reyna að vinna vel, kem úr, ef svo má segja, úr venjulegum kringumstæðum og ég held að margar konur á mínum aldri þekki þessa tilfinningu, að þær eigi að gera hlutina vel. Það hefur alla jafna reynst mér vel. En mér finnst samt að ég hafi óþarflega seint á lífsleiðinni lært að setja sjálfri mér og öðrum mörk.

Ég hef líklega alltaf verið, það sem kallað er á ensku „people pleaser“ – vil að öllum líði vel. Mér finnst svolítið eins og ég hafi verið froskur í sjóðandi vatni. Ég hafði verið undir álagi, streitu í svo langan tíma að það var orðið venjulegt ástand. Þetta gilti mestmegnis um starfsumhverfið og vinnuna.

Ég gifti mig 27 ára og eignaðist þrjú börn. Smám saman varð því meira að gera og ég vildi standa mig á öllum vígstöðvum. Framan af gekk ágætlega að hafa skil á milli einkalífs og starfs en ég sé núna að áður en ég veiktist og fór í veikindaleyfi þá voru þessi mörk orðin miklu óskýrari.“

Var orðin full af vanlíðan

Hvað varð til þess að þú tókst af skarið og leitaðir til VIRK?
„Ég var orðin full af vanlíðan og samdauna álaginu og stressinu. Þótt ég ynni bara lágmarksvinnu heima utan vinnutíma þá var hugur minn alltaf við vinnuna. Verkefni mín voru ólík og mér fannst ég vera dálítið tætt. Smám saman fór boltinn að stækka hjá mér, ég fór að vakna fyrr á morgnana til að reyna að græða tíma og undirbúa daginn.

Ég sá það ekki þá, en ég var á hræðilega vondum stað. Ég var orðin illa haldin af verkkvíða og frestunaráráttu. Smám saman fór ég líka að þjást af „loddaralíðan“ – fannst allt sem ég gerði „feik“ og allir hlytu að sjá það. Samt vissi ég að þetta var bara tilfinning sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum. Ég var góður starfskraftur, metnaðarfull og gerði allt eins vel og ég gat – samt hafði ég alltaf á tilfinningunni að einhver færi brátt að fatta að þetta væri allt „feik“ – að ég væri í raun ömurleg.

Núna held ég að þetta hafi verið skýrt kulnunareinkenni. Það var ekki ástæða fyrir þessu en þó eitthvað í starfsumhverfinu sem skapaði þessa tilfinningu. Samt vissi ég að ég var vel metin – þetta var mjög óþægileg tilfinning.

Vanlíðan mín tengdist að stærstum hluta vinnunni en það fór þó ekki hjá því að þetta smitaði aðeins yfir á heimilislífið. Maðurinn minn fann að ég var vanstillt, stressuð og kvíðin. Það var stundum stuttur í mér þráðurinn, sem var óvenjulegt með mig, því ég er að eðlisfari jafnlynd og róleg. Smám saman jukust þessi einkenni en jafnframt var ég samdauna því sem var að gerast. Ég upplifði marga daga þar sem ég var með tárin í augunum í bílnum á leiðinni í vinnuna. Ég kveið fyrir að fara á vinnustaðinn. En ég áttaði mig ekkert endilega á hverju þetta tengdist. Ég hugsaði með mér: „Af hverju er ég að skæla á leiðinni í vinnuna?“

Sú hugsun kom endurtekið upp hjá mér þegar ég sat í bílnum að mig langaði bara að keyra framhjá. Vildi helst vera bílstjóri, aka um bæinni, fara með pakka hingað og þangað og hlusta á útvarpið. Núna held ég að þetta hafi verið skýr flóttatilfinning. Ég var stundum að hlæja að þessu með vinkonun mínum en núna sé ég kristalstært að ég náði ekki utan um það sem var að gerast en gat alls ekki séð mig utanfrá.“

Þegar ég var að undirbúa mig fyrir reglulegt starfsmannasamtal varð mér ljóst að ég gæti ekki farið í þetta samtal og endurtekið það sem ég hafði sagt árin á undan.

Starfsmannasamtalið sem öllu breytti

Hvað varð til þess að þú fórst að gera eitthvað í þessu máli? 
„Þegar ég var að undirbúa mig fyrir reglulegt starfsmannasamtal varð mér ljóst að ég gæti ekki farið í þetta samtal og endurtekið það sem ég hafði sagt árin á undan. Í mér bjó vanlíðan sem ég þurfti að tala um. Ég tók að punkta niður hjá mér atriði eins og svefnleysi, kvíða, ójafnvægi milli einkalífs og vinnunnar, minnkaða ánægu af hlutum – svo var það loddaratilfinningin! Þetta varð á endanum nokkuð langur listi. Þegar ég las hann yfir settist að mér óhugur og ég hugsaði: „Þetta er alvarlegt. Það sem ég hef skrifað niður bendir til kulnunar.“

Ég hringdi í mjög góða vinkonu mína sem hafði slíka reynslu. Ég las fyrir hana það sem ég hafði skrifað. Hún sagði: „Þarna eru öll rauðu flöggin!“ Ég varð dálítið hissa, ekki síst vegna þess að ég hafði verið nálæg henni þegar hún gekk í gegnum sína erfiðu reynslu og hafði einsett mér að læra af hennar reynslu svo þetta kæmi ekki fyrir mig.

Vinkona mín stappaði í mig stálinu og sagði: „Ekki draga neitt undan í þessu starfsmannasamtali. Vertu hundrað prósent hreinskilin og segðu allt sem þú hefur verið að segja mér núna.“ Ég fékk ómetanlegan styrk frá henni. Áður hafði ég í starfsmannaviðtölum látið glitta í vanlíðan og var því ekki alveg heiðarleg við sjálfa mig né stjórnendur.“

Hvernig var þessu tekið?
„Mjög vel. Viðbrögð stjórnenda voru hárrétt. Auðvitað var þetta visst áfall fyrir þá og þeir sem unnu með mér voru leiðir yfir því hvernig komið var fyrir mér en eigi að síður fékk ég mikinn stuðning. Í umræddu starfsmannaviðtali var ég viss um að ég og stjórnendur værum að grípa inn í atburðarás sem ég gæti stoppað áður en ég færi fram af brúninni. En þá var ég í raun löngu dottin niður af brúninni.

Kom einhver og hjálpaði þér?
„Já. Það komu samstarfsmenn sem tóku mig afsíðis og ég var send heim. Fólkið sem ég átti samtal við vikuna áður áttaði sig á hvað var að gerast. Ég fékk strax leiðbeiningar um að hafa samband við lækni. Ég fékk ekki tíma hjá heimilislækni mínum fyrr en mörgum vikum seinna. Ég lá í rúminu grátandi, mjög verkjuð um alla líkamann, var lasin, alls staðar. Ég var í miklu áfalli og fannst þetta allt saman mjög óraunverulegt. Ég trúði ekki að svona væri komið fyrir mér.

Ég var í daglegu sambandi við fyrrnefnda vinkonu mína. Hún benti mér á að það þýddi ekkert að bíða svona lengi eftir tímanum hjá heimilislækninum. Ég yrði að komast til læknis strax. Það tókst og ég fékk læknisvottorð. Þetta var í byrjun árs 2021. Ég var með grímu vegna kóvíd í þessari læknisheimsókn og átti mjög erfitt með að tala við lækninn um þetta. Kom varla orðunum frá mér. Læknirinn skynjaði hvernig mér leið og setti mig strax í fjögurra vikna veikindaleyfi og lét mig hafa svefntöflur, því ég var hætt að geta sofið. Ég fékk svo annan tíma hjá lækninum. Þetta voru mjög erfiðar vikur. Áfallið var mikið, ég átti erfitt með svefn og að borða – bara allt þetta venjulega.“

Þegar leið á þá átta mánuði sem ég var í þjónustu hjá VIRK fór ég að fara í heimsókn á vinnustaðinn til að halda sambandi við fólkið.

Ákvað að gera allt til að komast til heilsu

Hvernig tók maðurinn þinn þessu?
„Hann skildi þetta að ákveðnu marki. Þeir sem ekki hafa upplifað þetta á eigin skinni eiga erfitt með að skilja þetta fullkomlega. En vinkona mín skildi mig vel. Eigi að síður sýndi maðurinn minn mér mikinn stuðning og var mjög góður við mig.“

Hvenær komstu að hjá VIRK?
„Strax og ég hafði jafnað mig á versta áfallinu var ég staðráðin í að nýta úrræði sem til væru, gera allt til að komast aftur til heilsu. Þegar ég hitti svo lækninn aftur bað ég sjálf um að lögð yrði inn beiðni um starfsendurhæfingu hjá VIRK. Eg vissi að vinnustaðurinn minn væri í samstarfi við VIRK og þar væru að finna margvísleg úrræði. Ég komst að eftir fjórar vikur. Ég hitti ráðgjafa VIRK hjá VR. Ráðgjafinn var yndisleg kona, sem tók mér rosalega vel. Um leið og ég hitti hana þá fann ég mikla hlýju og fékk góða tilfinningu fyrir þessu samstarfi.

Ráðgjafinn var með mér í liði og það var rosalega gott að hitta hann en ég var eigi að síður sú sem stjórnaði ferðinni. Það kom mér á óvart. Ég hafði ímyndað mér að ég færi bara í sama prógram og allir aðrir, kannski í svona tuttugu manna hóp í einhverjum sal þar sem allir væru með kulnun. En þessu reyndist allt öðruvísi farið. Um er að ræða einstaklingsmiðaða þjónustu sem sniðin er að styrkleikum og þörfum hvers og eins.

Ég hafði hitt sálfræðing áður en ég fór í þjónustu hjá VIRK vegna þessarar vanlíðunar minnar. Hann hafði bent mér á að ég væri að stefna í kulnun en ég trúði því bara ekki. Eftir að ég var komin í VIRK hélt ég áfram að hitta sálfræðinginn og hann gaf mér verulega góð ráð. Sagði mér að kynna mér vel hvað væri í boði. Ég vildi klárlega halda áfram að hitta sálfræðinginn, það gerði mér gott og hjálpaði mér mikið.

Svo hafði vinkona mín bent mér á námskeið hjá Primal Iceland í Skeifunni. Námskeiðið heitir: „Sigrum streituna“, það reyndist mér frábærlega. Ég mæli eindregið með þeirri stöð fyrir alla þá sem upplifa streitu. Ég er ennþá að mæta þar í tíma.

Á fyrrnefndri stöð er tengd saman hreyfing og andleg líðan og metið hvers konar hreyfing hentar hverjum og einum hverju sinni. Ég stundaði mikið sund þegar ég var krakki og hef jafnan synt meira og minna, það hjálpar alltaf. Og svo voru það gönguferðir. Ráðgjafinn benti mér á það í fyrsta tíma að það væri gott fyrir mig að fara út að ganga. Og með tárin í augunum fór ég út að ganga meðfram sjónum fyrstu dagana. Þetta dugði vel.

Um haustið fór ég á tvö námskeið í samráði við ráðgjafann. Annað heitir: „Að setja mörk í lífi og starfi“ og var á vegum Steinunnar Ingu Stefánsdóttur. Ég fann að þetta var eitthvað sem mig vantaði og vildi vera góð í. Það námskeið gagnaðist mér mjög vel. Ég fékk þar tæki og tól en það var algerlega undir mér sjálfri komið hvort ég gæti nýtt þau. Ég byrjaði á að nýta kunnáttuna í að setja mörk og segja nei við mitt nánasta fólk sem þekkir mig vel. Og svo stækkuðu verkefnin.

Síðasta námskeiðið sem ég sótti var „ACT-að bættri líðan“ hjá Rúnari Helga Andrasyni sálfræðingi. Það var frábært. Þar fékk ég fleiri tól til að nýta mér og geri enn. Einkum fannst mér hjálplegur undirbúningur fyrir það að fara aftur að vinna.“

Þegar ég kom aftur til starfa sat ég svo í bílnum úti á bílastæði heillengi og felldi nokkur tár – svo kom kjarkurinn. Það var sérstök tilfinning að koma aftur.

Stuðningsnet og úrræði VIRK skiptu sköpum

Stefndir þú frá upphafi að því að fara aftur á sama vinnustað?
„Ég fann frekar fljótt að ég hafði þörf fyrir að fara aftur á sama stað. Ég var búin að vera þar svo lengi og átti svo þar marga góða vini. Þegar leið á þá átta mánuði sem ég var í þjónustu hjá VIRK fór ég að fara í heimsókn á vinnustaðinn til að halda sambandi við fólkið. Ég sótti líka deildarfundi. Loks byrjaði ég í 20 prósent starfi í byrjun nóvember 2021.

Ég viðurkenni að ég var dálítið kvíðin að koma til baka. Ég fór ekki fyrr en ég fann að ég var tilbúin og þá í samráði við ráðgjafinn og stjórnendur á vinnustaðnum. Ég fékk mikinn stuðning og það var lykilatriði í mínum bata. Einnig það að fá að stýra sjálf hvenær ég kæmi til vinnu og hversu mikið starfshlutfall ég treysti mér í. Ég fór ekki í þau verkefni sem ég hafði áður verið að sinna en er eigi að síður áfram verkefnastjóri og í sama umhverfi.

Þegar ég kom aftur til starfa sat ég svo í bílnum úti á bílastæði heillengi og felldi nokkur tár – svo kom kjarkurinn. Það var sérstök tilfinning að koma aftur. Ég upplifði sterkt að ég var á sama stað, innan um sama fólkið en ég sjálf var breytt. Einkum fann ég þetta þegar frá leið og starfshlutfallið jókst.

Ég hafði þroskast mikið og farið í rækilega sjálfsskoðun, sjálfstraust mitt hafði vaxið og sjálfsmyndin batnað. Ég hef aldrei verið í jafn góðu jafnvægi og ég er núna. Ég held að ég sé miklu betri starfskraftur fyrir vikið heldur en ég var áður. Þótt þetta hafi verið óskaplega erfitt og ég myndi ekki óska neinum að ganga í gegnum þessa reynslu þá er ég samt mjög þakklát því ég græddi heilmikið. Það gerðist ekki síst fyrir tilstilli VIRK. Stuðningsnet og úrræðin þar skiptu sköpum, ég gat nýtt mér þau afskaplega vel.

Varstu lengi í sambandi við ráðgjafann eftir að þú fórst að vinna?
„Við vorum í sambandi í tvo mánuði eftir að ég hóf störf og í boði var að hittast áfram en mér fannst kominn tími til að standa á eigin fótum. Ég ákvað hins vegar að halda áfram að hitta sálfræðinginn minn.“

Og hvernig er þá staðan hjá þér núna?
„Miklu, miklu betri. Í hugum annarra snjóar fljótt yfir þetta en fyrir mig var starfsendurhæfingarferlið hjá VIRK umbylting. Ég hef verið ófeimin að ræða hvað mér líður miklu betur og hvað ég er þakklát. Þá finn ég sterka samkennd og hvað fólk samgleðst mér.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtal úr ársriti VIRK 2024.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband