Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Líkamleg heilsa

Leidd út á vinnumarkaðinn

Leidd út á vinnumarkaðinn

Eftir að hafa verið frá vinnu um tveggja ára skeið vegna veikinda var Þóra Sif Sigurðardóttir orðin full kvíða og efins um að nokkur myndi vilja ráða sig til þeirra starfa sem hún er menntuð til. 

Þóra Sif Sigurðardóttir

,,Ég hef alltaf verið glöð og sterk en eftir að hafa verið frá vinnu um tveggja ára skeið vegna veikinda var ég orðin full kvíða og efins um að nokkur myndi vilja ráða mig til þeirra starfa sem ég er menntuð til. Ráðgjafi á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs leiddi mig hins vegar aftur út á vinnumarkaðinn,“ segir Þóra Sif Sigurðardóttir íþrótta- og heilsufræðingur.

Þóra Sif hafði gert hlé á störfum innan líkamsræktargeirans og starfað á skrifstofu í tvö ár þegar hún veiktist alvarlega. ,,Ég hafði byrjað að vinna á skrifstofu af því að ég var orðin svolítið þreytt í skrokknum. Ég ætlaði að hafa íþróttirnar sem aukavinnu og hafði ákveðið að fara í snyrtiskóla. Um það leyti sem ég var að hætta skrifstofustörfunum sumarið 2008 datt ég niður einn daginn þegar ég var heima og gat ekki hreyft hægri handlegg. Ég hafði áður fundið fyrir verk á milli rifja og í handleggnum en ég hélt að þetta væru eftirstöðvar einhverra meiðsla vegna íþróttaiðkunar. Eftir að ég datt niður lá ég mikið veik í þrjár vikur og þessu fylgdi hiti.  Mér var sagt að þetta væru einkenni veirusýkingar sem legðist á taugar og vöðva,“ greinir Þóra Sif frá. 

Þegar hún var nýstaðin upp úr veikindunum  hóf hún fyrirhugað nám í snyrtifræði. ,,Ég var samt langt frá því að vera búin að jafna mig. Ég fann allan veturinn fyrir mikilli vanlíðan í vöðvunum og þreytu.  Læknar sögðu mér að þetta væru eftirstöðvar veirusýkingarinnar og að það gæti liðið heilt ár þar til ég væri búin að jafna mig. Ég yrði bara að fara vel með mig. Ég harkaði af mér yfir veturinn til þess að geta fengið fullt námslán.“

,,Ég hef sagt að þetta hafi verið eins og að vera kýld með hafnaboltakylfu út úr daglegu lífi. En ég ætlaði mér alltaf út á vinnumarkaðinn aftur. Annað kom ekki til greina.“

Eins og kýld með kylfu

Að sögn Þóru Sifjar versnaði henni mikið í júní 2009. ,,Ég gat ekki beygt mig til hliðar vegna bólgu milli rifja og ég gat ekki rétt úr olnboganum. Ég var búin að vera með taugakippi og hafði fengið lyf við þeim. Þegar þeir fóru festist olnboginn og einnig vísifingur og þumalfingur. Vöðvarnir í handleggnum rýrnuðu og þegar ástandið var orðið svona þá hætti ég í skólanum. Niðurstöður rannsóknar gigtarlæknis sem ég fór til leiddu í ljós að ég væri með sjálfsónæmi.“

Þóra Sif kveðst hafa verið meira og minna í rúminu þetta sumar og fram á haust. ,,Ég hef sagt að þetta hafi  verið eins og að vera kýld með hafnaboltakylfu út úr daglegu lífi. En ég ætlaði mér alltaf út á vinnumarkaðinn aftur. Annað kom ekki til greina.“

Í mars í fyrra komst Þóra Sif að í endurhæfingu á Reykjalundi. ,,Ég hafði þurft að bíða í nokkra mánuði eftir plássi og meðan á biðinni stóð gerði ég sjálf æfingar til þess að byggja mig upp. Ég var búin að fá þau lyf sem ég þurfti og verkirnir í vöðvunum höfðu minnkað. Ég var auk þess farin að geta hreyft hægri handlegginn.  Reyndar átti ég erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég þyrfti aðstoð annarra til endurhæfingar en ég ákvað þó að fara á Reykjalund. Ég var þar í endurhæfingu í  9 vikur og ég gerði mér grein fyrir því að ég þurfti virkilega á þessari aðstoð að halda. Mér leið rosalega vel eftir dvölina þar.“

Komin langt áleiðis

Það var á Reykjalundi sem Þóra Sif fékk upplýsingar um starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs. ,,Félagsráðgjafi á Reykjalundi, sem ég hafði átt mjög góð samskipti við, hringdi í Karenu Björnsdóttur, ráðgjafa á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs, og hún hringdi svo í mig. Ég er ekki viss um að ég hefði hringt í hana sjálf. Karen bauð mér að koma og spjalla við sig þegar ég var að útskrifast af Reykjalundi. Hún hefur reynst mér afar vel. Hún mælti með því að ég færi í  sjúkraþjálfun og á námskeið í sjálfstyrkingu fyrir þá sem dottið hafa út af vinnumarkaðnum. Þetta styrkti mig mikið og var mér að kostnaðarlausu.“

Þóra Sif segir Karen jafnframt hafa aðstoðað sig við að fá endurhæfingarlífeyri framlengdan og hvatt sig til þess að fara að leita sér að vinnu. ,,Við ræddum um hvað mig langaði til að gera en ekki um hvað ég væri hrædd við að gera. Karen hjálpaði mér einnig við að gera ferilskrá. Þótt ég hafi ekki dottið niður í þunglyndi  vegna veikindanna fann ég fyrir kvíða og óvissu um hvort einhver vildi ráða íþróttafræðing með hálfbilaðan skrokk til starfa. Það var hins vegar tekið afar vel á móti mér þegar ég sótti um starf á líkamsræktarstöðinni Heilsuborg. Þar eru sérstök námskeið sem kallast heilsulausnir fyrir þá sem þurfa á sérstakri þjálfun og aðstoð að halda og mér var sagt að þar sem ég hefði verið hinum megin við borðið myndi reynsla mín nýtast vel á þessari  líkamsræktarstöð. Ég sé um æfingar fyrir einn flokk á stöðinni auk þess sem ég held fyrirlestra og ég er búin að vera þarna í hlutastarfi frá því  í lok ágúst 2010.“

Í október síðastliðnum hóf Þóra Sif svo störf á leikskólanum Hagaborg. ,,Ég hafði sagt Karen ráðgjafa frá því að mig langaði til þess að starfa með börnum og hún hvatti mig þess vegna til þess að sækja um vinnu á leikskóla. Ég er í hálfu starfi á Hagaborg og sé um hreyfingu barna þar. Ég hefði aldrei trúað því fyrir ári síðan að ég yrði komin svona langt áleiðis nú,“ segir Þóra Sif. 

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband