Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Heiða ráðgjafi var líftaugin mín

Heiða ráðgjafi var líftaugin mín

Ragnheiður Karlsdóttir tókst á við erfið verkefni en sneri aftur inn á vinnumarkaðinn.

 

Ragnheiður Karlsdóttir

„Ég er loksins á leið aftur í vinnu, rúmu ári eftir að mér var sagt upp. Ég var alltaf ákveðin í að halda áfram að vinna, þótt ég eigi ekki mörg ár í eftirlaunin. Stéttarfélagið mitt, VR, hefur staðið eins og klettur við hliðina á mér allan tímann og Heiða Tómasdóttir, ráðgjafinn minn hjá sjúkrasjóði VR, hefur verið óþreytandi að leita lausna fyrir mig. Ég er viss um að ég hefði einangrast heima, ef ég hefði ekki komist aftur út á vinnumarkaðinn.“

Ragnheiður K. Karlsdóttir bókari starfaði hjá íþróttafélaginu Víkingi í 14 ár. „Mér líkaði ákaflega vel að starfa þar, en þegar ný stjórn tók við félaginu haustið 2008 breyttist allt. Þá fékk ég allt í einu símtal heim seint á föstudagssíðdegi og var tilkynnt að ég væri rekin. Engin skýring var gefin á þessu.“

Uppsögnin var Ragnheiði mikið áfall. „Ég upplifði mikla höfnun. Vissulega átti ég ekki mörg ár í eftirlaun, en ég var miður mín að vera látin fara eftir öll þessi ár og án nokkurra skýringa.“

Hvert áfallið rak annað

Síðustu árin hjá Víkingi voru reyndar enginn dans á rósum, þótt ekki væri þar við vinnuveitandann að sakast. Ragnheiður greindist með psoriasis á höndum fyrir þremur árum, og læknar telja að hún sé einnig með pappírsofnæmi. Slíkt reynist bókara ekki auðvelt. En Ragnheiður vildi sinna starfi sínu áfram og gerði það þótt hún væri sífellt þjökuð af þurrki og blæðandi sprungum á höndum og yrði að vinna með bómullarhanska, til að reyna að draga úr áhrifum pappírsins. „Ónæmiskerfið í mér hrundi fyrir þremur árum og læknar telja líklegast að það hafi gerst vegna álags. Maðurinn minn greindist þá með alsheimerz-sjúkdóminn, litlu áður hafði komið í ljós að dóttir mín væri haldin ólæknandi sjúkdómi. Systir mín þurfti að fara til Pittsburg í aðgerð og ég fór með henni, á sama tíma og við vorum að skipta um húsnæði, og þeir gjörningar gengu ekki alveg slétt og fellt fyrir sig. Ég varð að stýra því gegnum síma frá Pittsburg, því dvölin þar lengdist. Nokkru seinna dó svo besta vinkona mín.“

Ragnheiður reyndi öll lyf sem hugsanlega gátu hjálpað, en þegar hún var farin að nota sterk ónæmisbælandi lyf, sem notuð eruð fyrir líffæraþega, í þeirri von að halda ofnæminu í skefjum, sá hún að við svo búið mátti ekki standa; lækningin var orðin alvarlegri en sjúkdómurinn gaf tilefni til. „Ég hef lært að lifa með þessu. Ofnæmið er misjafnlega slæmt. Ég er núna hjá mjög góðum lækni, sem hugsar vel um mig. En ég gat ekki sætt mig við að missa vinnuna. Sú höfnun var alltaf jafn slæm.“

„Mér finnst mjög mikilvægt að tilheyra vinnustað og hitta góða vinnufélaga. Ég er heppin að fá starf sem menntun mín og reynsla nýtist í. Samskiptin við VR á því erfiða ári, sem ég þraukaði eftir uppsögnina, verða mér alltaf ofarlega í huga. Ég er afskaplega þakklát fyrir þau.“

Ekki jákvæð til að byrja með

Hún leitaði til stéttarfélags síns, VR og hitti þar Heiðu ráðgjafa. „Ég var alls ekki jákvæð til að byrja með. Mér fannst eins og ég væri undir eftirliti stéttarfélagsins. En Heiða ráðgjafi reyndist alveg frábær, hún stappaði í mig stálinu við að halda þeim draumi á lífi, að ég fengi einhvern tímann aftur vinnu. Einnig fékk ég mjög góða aðstoð frá fulltrúum VR í kjaramálum. Þeir hjálpuðu mér í deilum við fyrri vinnuveitendur og innheimtu fyrir mig laun og orlof. Ég sótti um fjölmargar stöður, en fékk aðeins einu sinni svar og þar var mér tilkynnt að búið væri að ráða í starfið. Ég hef trú á því að kennitalan mín hafi ekki hjálpað til að ég fengi vinnu. Auðvitað var það erfitt, en ég er þrjósk og ég ætlaði mér út á vinnumarkaðinn aftur. Við Heiða ræddum stundum um að það væri mjög til bóta ef það væri eins konar upplýsingabanki um laus störf hjá stéttarfélögunum. Þá gæti VR fólk fengið allar upplýsingar um laus störf sem í boði væru fyrir félagsmenn og önnur stéttarfélög gætu haft sama háttinn á fyrir sína félagsmenn. Ég veit ekki hvort þetta er framkvæmanlegt, en þetta myndi sannarlega spara fólki sporin við atvinnuleit.“

Margt í boði

Ragnheiður segir að Heiða ráðgjafi hafi ávallt getað leitað til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs eftir upplýsingum ef hún þekkti ekki svörin sjálf. „Sjóðurinn studdi greinilega mjög vel við Heiðu og þess vegna gat hún stutt vel við mig. Hún var líftaugin mín þessa erfiðu mánuði. Ég sótti ýmis styttri námskeið og sótti styrk til Heiðu þegar mér fannst þetta hálf vonlaust. Ef fólk er tilbúið að nýta sér úrræðin, þá kemst það fljótt að því að margt er í boði.“

Eitt af þeim vandamálum, sem Ragnheiður þurfti að kljást við eftir uppsögnina, var að henni var neitað um atvinnuleysisbætur. „Mér fannst vont að fá bréfið um þá höfnun. Ég hef aldrei á lífsleiðinni þurft að þiggja atvinnuleysisbætur, og hafði gert allt rétt, eins og krafist var, skilað inn öllum umbeðnum gögnum, en það virtist ekki nægjanlegt. Það þurfti að funda sérstaklega um mína umsókn í tvígang og var ég því án bóta í liðlega einn og hálfan mánuð. Í bréfinu var ég krafin skýringa á því hvers vegna mér hefði verið sagt upp, en slíkar skýringar hafði ég ekki sjálf. Því var líka velt upp hvort ég hefði kannski sagt upp sjálf, eða brotið af mér í starfi. Mér var líka gert að skila læknisvottorði um að ég væri vinnufær. Mér fannst þetta allt heldur nöturlegt, en lét mig hafa það að krefja Víking skýringa og fékk þá loks svart á hvítu að mér hefði verið sagt upp vegna „hagræðingar“. Þar með fékk ég atvinnuleysisbæturnar.“

Í nýrri vinnu

En Ragnheiður þurfti ekki lengi á bótum að halda. Hún hefur fengið starf hjá Ungmennafélaginu Fjölni í Grafarvogi og getur þar nýtt alla þá sérþekkingu sem hún hefur á bókhaldi íþróttafélaga. Hún var valin úr 30 manna hópi umsækjenda og er stolt af þeim árangri sínum. „Mér finnst mjög mikilvægt að tilheyra vinnustað og hitta góða vinnufélaga. Ég er heppin að fá starf sem menntun mín og reynsla nýtist í. Samskiptin við VR á því erfiða ári, sem ég þraukaði eftir uppsögnina, verða mér alltaf ofarlega í huga. Ég er afskaplega þakklát fyrir þau.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband