Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

Hef góða sögu að segja af VIRK

Hef góða sögu að segja af VIRK

Vilbergur kemur í strætisvagni að hitta blaðamann. Yfir kaffibolla segir hann frá hvaða úrræði hann nýtti sér í samstarfinu við VIRK og hvað olli því að hann leitaði þangað. 

Segja má að að ég hafi leitað til VIRK eftir fjórða skiptið sem ég „brann yfir“, segir Vilbergur.

Vilbergur Flóvent Sverrisson

Vilbergur kemur í strætisvagni að hitta blaðamann. Yfir kaffibolla segir hann frá hvaða úrræði hann nýtti sér í samstarfinu við VIRK og hvað olli því að hann leitaði þangað.  Segja má að að ég hafi leitað til VIRK eftir fjórða skiptið sem ég „brann yfir“, segir Vilbergur.

„Mér var bent á að þetta úrræði myndi henta mér af bæði lækni og sálfræðingi. Áður hafði ég tekið mér smá hlé frá vinnu og sett svo hausinn undir mig og farið af stað í vinnu aftur, það var allan tímann alltof fljótt,“ bætir hann við.

Hvenær var það að þú leitaðir til VIRK?
„Það var árið 2023 um haustið. Ég þurfti að bíða eftir samstarfinu í tvo mánuði. Fyrst fór ég á kynningarnámskeið og svo beið ég rólegur – eða þannig. Ég hef reyndar alltaf verið að flýta mér og líklegast lent í þessu endurtekið vegna þess,“ segir Vilbergur og brosir.

„Á þessum tíma ákvað ég að fara alla leið. Nýta mér alla þá hjálp sem í boði væri. Það hafði ég aldrei gert áður. Ég var að vinna á stjórnstöðinni hjá Strætó BS og leið mjög illa en fékk mjög góða hjálp þar og skilning á aðstæðum mínum. Ég hafði þá unnið hjá Stætó í tvö ár í þessu starfi og áður í akstri.

Á þessum tíma ákvað ég að fara alla leið. Nýta mér alla þá hjálp sem í boði væri. Það hafði ég aldrei gert áður. 

Ég mætti hjá ráðgjafa VIRK sem fór með mér yfir mína sögu. Það var þægileg stund og mér fannst einhvern veginn að það væri strax tekið utan um mig. Í kjölfarið var farið yfir mína áfallasögu og úrræði kynnt eftir stuttan tíma, það er að segja það sem ráðgjafinn lagði til. Ég lét ráðgjafann talsvert ráða hvað hann teldi best í mínu tilviki.“

Og hvað taldi hann best?
„Heyrðu, nú þarf ég að líta aðeins í símann til upprifjunar,“ segir Vilbergur og dregur upp símann sinn.

„Efst á listanum hjá mér er námskeiðið „Sigrum streituna,“ hjá Primal sem er líkamsræktarstöð. Þar hélt ég áfram að sækja tíma eftir að því námskeiði lauk í boði VIRK. Þetta reyndist frábært start. Síðan fór ég á námskeiðið „Streita og kulnun – birtingarmyndir og bjargráð,“ í Heilsuklasanum á Bíldshöfða. Það var eiginlega svakalega gott námskeið. Maður lærði að nýta sér verkfæri til að hjálpa sér þegar streitueinkenna varð vart. Jafnframt að laga svefn.“

Hafðir þú sofið illa í streituástandinu?
„Já, ég var lengi að sofna og var alltaf að vakna. Svefngæðin voru engin. Ég er fimmtíu og átta ára gamall og hef lengst af átt auðvelt með svefn svo þetta voru slæm viðbrigði,“ segir Vilbergur.

Var eins og hengdur upp á krók

Hvaða ráð fékkstu?
„Í báðum þessum námskeiðum var lögð áhersla á öndun og slökun ásamt því að kortleggja streituvalda, ég mætti mjög vel í öll úrræði og leit bara á þetta sem mína vinnu á þeim tíma. Ég var ekki í slökunarástandi á þessum tíma, var nánast eins og hengdur upp á krók. Áður en ég mætti á námskeiðið fór ég í sálfræðiviðtal sem meðal annars snerist um hvort þetta námskeið hentaði, ég tók próf bæði áður en ég mætti og eftir að námskeiðinu lauk. Munurinn var mjög mikill.

Í báðum þessum námskeiðum var lögð áhersla á öndun og slökun ásamt því að kortleggja streituvalda, ég mætti mjög vel í öll úrræði og leit bara á þetta sem mína vinnu á þeim tíma.

Sálfræðingurinn var afskaplega ánægður með framfarir mínar. Þarna voru kortlagðir streituvaldar, hversvegna þeir komu og hvað væri hægt að gera. Námskeiðsgögnin á ég og rúlla reglulega yfir þau til þess að viðhalda jafnvægi.“

Hvernig reyndist þér sálfræðiaðstoðin?
„Mjög vel. Ég var búinn að vera í samtalsmeðferð hjá sálfræðingi áður en ég fór til VIRK og hef haldið því áfram með reglulegu millibili síðan ég útskrifaðist til þess að halda mér góðum. Ég fór fyrst í kulnun árið 2015, þá var ég með eigið fyrirtæki en einn góðan veðurdag fór ég bara að grenja og gat ekki meira eftir tíu ára samfellt álag.

Ég seldi minn hlut í fyrirtækinu og var frá vinnu skamman tíma en fór alltof fljótt af stað aftur. Þá fór ég á sjóinn, ég þurfti að vinda ofan af mér en var fljótlega komin aftur í mitt gamla umhverfi, ég er kjötiðnaðarmeistari og fór aftur að vinna sem framleiðslustjóri með sextíu til áttatíu manns undir minni stjórn. Þetta reyndi á. Ég fór aftur í kulnun og fór aftur á sjóinn.“

Hvað varð til þess að þú fórst aftur í svona ástand í þriðja skipti?
„Mér leið vel á sjónum en hélt að mér væri bara batnað og það væri ekkert mál að takast á við stjórnun í kjötiðnaði að nýju. En þar skjátlaðist mér enn og aftur. Ég hafði áður tekið meirapróf í bifreiðaakstri og keyrt eitt sumar hjá Strætó og líkað það vel. Fór til Strætó aftur og byrjaði í akstrinum en svo beðinn um að fara í flotastýringu og á stjórnstöð Strætó BS.

Eftir tvö ár í því starfi fannst mér álagið aftur orðið yfirþyrmandi og þá fuðraði ég upp í fjórða skiptið. Þá loksins leitaði ég almennilegrar aðstoðar, sá að þetta myndi ég ekki geta lagað á stuttum tíma. Þá kom VIRK til sögunnar.“

Að setja mörk í lífi og starfi

Hvað fleira nýttir þú þér af úrræðum hjá VIRK?
„Ég fór á námskeið sem heitir: „Að setja mörk í lífi og starfi“, hjá Starfsleikni. Þetta var hópnámskeið sem byggðist á kennslu og samtölum, æfa fólki í að geta sagt nei. Ég hef alla tíð verið bóngóður og átt erfitt með að segja nei – þannig er ég ekki lengur.“

Ég vil þakka VIRK og mínum ráðgjafa fyrir þau ráð, úrræði og námskeið sem ég fékk á þeirra vegum. Ég get hiklaust mælt með þessari þjónustu. Án hennar væri ég líklega ekki á þeim stað sem ég er í dag.

Hvernig æfðir þú þig?
„Ég hafði verið mikið beðinn um að taka þátt í allskonar sjálfboðaliðastörfum og stjórnunarstörfum en nú áskil ég mér alltaf rétt til að segja nei ef ég get ekki það sem ég er beðinn um. Þetta hefur komið sumum á óvart. Þetta er eitt af bjargráðunum, að segja nei. Ef þú segir alltaf já þá ertu kominn með svo mikið af verkefnum að þú keyrir þig í klessu. Ég viðurkenni að ég hef viljað stjórna en í dag vil ég ekki stjórna, legg áherslu á það.“

Hélt ég væri alltaf með bestu lausnirnar

Af hverju vildir þú endilega stjórna?
„Ég hélt alltaf að ég væri með bestu lausnirnar en hef komist að því að svo er ekki,“ segir Vilbergur og hlær.

Hvað viltu segja um samstarfið við VIRK?
„Ég vil þakka VIRK og mínum ráðgjafa fyrir þau ráð, úrræði og námskeið sem ég fékk á þeirra vegum. Ég get hiklaust mælt með þessari þjónustu. Án hennar væri ég líklega ekki á þeim stað sem ég er í dag.

Nú líður mér vel, hættur að vera of duglegur en sinni mínu starfi sem bílstjóri hjá Strætó vel. Þess má geta að fyrirtækið reyndist mér gríðarlega vel í að breyta mínu starfi í það sem hentaði mér best. Sama má segja um konuna mína, börn, fjölskyldu og vini sem hafa staðið gríðarlega vel við bakið á mér og hvatt mig áfram. Takk fyrir mig.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtal úr ársriti VIRK 2025.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband