Fréttir
11.09.2009
Viltu fá fréttir ?
Sú nýjung er komin inn á heimasíðu okkar að það er hægt að skrá sig á póstlista efst á
síðunni. Til að skrá sig á listann er þarf að smella á póstlistar, skrá netfangið sitt og haka við fréttir. Hægt er
að skrá sig á póstlistann með því að smella hér.
11.09.2009
Námskeið 7-11. september
Vikuna 7.-11. september eru allir ráðgjafar sem starfa á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs hjá stéttarfélögum um allt land á
námskeiði hjá sjóðnum.
Á námskeiðinu er fjallað um grunnþætti í starfi ráðgjafanna s.s. hugmyndafræði, mat og mælitæki, siðareglur og
persónuvernd, helstu orsakir skertrar starfshæfni, velferðarkerfið, úrræði og tengsl við atvinnulífið, samskipti og samvinnu,
upplýsingakerfi , fjármálaráðgjöf og samtalstækni.
25.08.2009
Ráðgjafar hittast
Þann 11.-13. ágúst sl.fóru þeir ráðgjafar sem eru í samstarfi við Starfsendurhæfingarsjóð á þriggja daga
námskeið í jákvæðri sálfræði.
Við nýttum tækifærið og buðum ráðgjöfunum í morgunkaffi hjá okkur í Sætúni 1. Þetta er orðinn stór
hópur ráðgjafa og þarna voru samankomnir 10 ráðgjafar sem starfa hjá stéttarfélögum á mismundndi stöðum á landinu,
m.a frá Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Selfossi, Vestmannaeyjum, Akranesi o.fl.
Þann 7.-11. september mun Starfsendurhæfingarsjóður svo halda námskeið fyrir alla ráðgjafana.
20.08.2009
Ráðgjafar hjá BSRB
Búið er að ganga frá ráðningu tveggja ráðgjafa hjá BSRB og munu þeir hefja störf í byrjun september. Þeir
einstaklingar sem urðu fyrir valinu í þessi störf eru Karen Björnsdóttir náms- og starfsráðgjafi og Soffía Eiríksdóttir
hjúkrunarfræðingur. Starfsstöð þeirra verður hjá sjúkrasjóðum BSRB að Grettisgötu 89 Reykjavík en
þær munu einnig eiga góða samvinnu við ráðgjafa utan höfuðborgarsvæðisins vegna félagsmanna aðildarfélaga BSRB á
landsbyggðinni.
07.08.2009
Ráðgjafar hefja störf
Í þessari viku hófu þrír nýjir ráðgjafar störf á vegum VIRK. Þetta eru Ágústa Guðmarsdóttir, Hrefna
Óskarsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir. Hrefna er staðsett í Vestmannaeyjum og starfar fyrir stéttarfélögin þar,
Ágústa starfar fyrir stéttarfélög á Suðurlandi og er með aðsetur á Selfossi. Sigrún starfar fyrir
iðnaðarmannafélögin á höfuðborgarsvæðinu og er með aðsetur í Borgartúni og á Stórhöfða í
Reykjavík. Netföng þeirra og símanúmer er hægt að sjá hér.
Við bjóðum þær velkomnar til starfa.
Á næstunni munu síðan þrír ráðgjafar í viðbót hefja störf hjá BSRB og BHM.
23.07.2009
Minni fjarvistir frá vinnu í einkageiranum í kreppunni í Bretlandi
Minni fjarvistir eru frá vinnu í einkageiranum í kreppunni í Bretlandi, en kreppan virðist hafa lítil áhrif á fjarvistir í opinbera
geiranum.
Fjarvistir í einkageiranum hafa minnkað mjög frá því á síðasta ári, en samkvæmt tölum frá CIPD (Chartered Institute
of Personnel and Development) eru fjarvistir nánast jafn miklar og áður í opinbera geiranum .
Samkvæmt fjarvistakönnun CIPD hefur fjarvistum fækkað úr 7,2 dögum á starfsmann á árinu 2008 í 6,4 daga á þessu
ári. Fjarvistir í opinbera geiranum halda áfram að vera háar, þ.e. 9,7 dagar á starfsmann á þessu ári miðað við 9,8 daga
í fyrra.
Ben Willmott, stefnumótunarráðgjafi hjá CIPD segir það vonbrigði að fjarvistir í opinbera geiranum séu enn svo margar. CIPD
reiknaði út meðalkostnað á fjarvistir starfsmanna á ári og telur meðalkostnað vera 784 pund (163.072 Ikr) á opinberan starfsmann
ári og 666 pund (138.528 Ikr) á starfsmann í einkageiranum.
Ástæður þessa mismunar milli opinbera geirans og einkageirans eru flóknar. Önnur dreifing á starfsfólki, kynjaskipting, aldursskipting, krefjandi
starfsemi og öðru vísi stjórnun, réttindi og skyldur. Fjarvist er t.d. ólíklegri til að hafa áhrif á laun starfsmanns í opinbera
geiranum og veikindaréttindi eru meiri.
Ben telur að árangursrík fjarvistastjórnun feli í sér að finna jafnvægið á milli þess að veita stuðning við
að hjálpa starfsmönnum með heilsuvanda að vera áfram í vinnu og koma fljótt aftur til vinnu og að hafa harða afstöðu gegn þeim sem
misnota veikindarétt sinn. Mikill misbrestur sé á að þessu jafnvægi sé náð.
Þessi könnun sem vitnað er í var gerð áður en Svínaflensan varð fréttaefni, en CIPD sagði að meðalkostnaðartölur
vegna fjarvista gætu gefið til kynna þann efnahagslega skaða sem Svínaflensufaraldur gæti valdið. (People Management Magazine 20. júlí
2009)
Hinsvegar varar SWASH (Survey of Workplace Absence Sickness and ill Health) við því árið 2005 að tölur um fjarvistir frá vinnu segi ekki alltaf alla
söguna. Þar er bent á að ef leiðrétt er fyrir breytum sem Ben Willmott nefnir sem hugsanlegum skýringum á þeim mismun sem kemur fram í
skýrslu CIPD, auk annarra breyta s.s. stærðar fyrirtækis þá komi í ljós að munurinn sé 0,3 dagar á starfsmann á ári
að meðaltali. Það breytir þó ekki því að enn er mikið óunnið í fyrirtækjum bæði opinberum og
einkafyrirtækjum í Bretlandi á svið fjarvistastjórnunar og það sama á við um Ísland.
15.07.2009
Ráðgjafi ráðinn í Vestmannaeyjum
Hrefna Óskarsdóttir iðjuþjálfi hefur verið ráðin í stöðu ráðgjafa í Vestmannaeyjum. Hún mun
veita einstaklingum í Vestmannaeyjum þjónustu á sviði starfsendurhæfingar auk þess að starfa náið með
stéttarfélögum starfsmanna, atvinnurekendum og öðrum hagsmunaaðilum á svæðinu. Hrefna hefur störf í byrjun
ágúst nk. Við bjóðum Hrefnu velkomna til starfa og hlökkum til samstarfsins.
24.06.2009
Samningur við stéttarfélög í Vestmannaeyjum
Skrifað hefur verið undir samning við stéttarfélög í Vestmannaeyjum um þjónustu ráðgjafa. Átta
stéttarfélög í Vestmannaeyjum skrifuðu undir samninginn en samningurinn nær til allra félagsmanna þessara stéttarfélaga.
Þessi félög eru Drífandi stéttarfélag, Deild VR í Vestmannaeyjum, Félag iðn- og tæknigreina, Sjómannafélagið
Jötunn, Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar, Skiptsjóra og stýrimannafélagið Verðandi, Verkstjórafélag Vestmannaeyja og Félag
vélstjóra og málmtæknimanna. Starfsorka, Starfsendurhæfing Vestmannaeyja, mun taka að sér ráðgjafastarfið fyrir hönd
stéttarfélaganna og mun, í samvinnu við þau, bjóða félagsmönnum upp á þjónustu á sviði
starfsendurhæfingar. Auglýst verður eftir umsóknum um starf ráðgjafa á næstu dögum.
18.06.2009
Ráðgjafi á Suðurlandi
Ágústa Guðmarsdóttir sjúkraþjálfari hefur verið ráðin í stöðu ráðgjafa á Suðurlandi.
Ágústa hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði vinnuvistfræði og vinnuumhverfis. Hún mun veita einstaklingum á Suðurlandi
þjónustu á sviði starfsendurhæfingar auk þess að starfa náið með stéttarfélögum starfsmanna og atvinnurekendum á
svæðinu. Ágústa hefur störf í byrjun ágúst nk.