Fara í efni

Heilsueflandi forysta og vellíðan í starfi

Til baka

Heilsueflandi forysta og vellíðan í starfi

VIRK, embætti landlæknis og Vinnueftirlit ríkisins buðu upp á morgunfund um heilsueflandi vinnustaði í streymi miðvikudaginn 16. mars kl. 8.30-10.00 - sjá upptöku af fundinum.

Heilsueflandi forysta og vellíðan í starfi var yfirskrift fundarins og fyrirlesari var Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu. 

Mikilvægt er að leiðtogar þekki leiðir til að efla heilsu á vinnustað og nýti tækifæri til að draga úr vanlíðan í starfi. Rannsóknir sýna að samskipti og áherslur leiðtoga hafa afgerandi áhrif á vellíðan starfsfólks. Sannreynd þekking um heilsueflandi forystu byggir á rannsóknum frumkvöðla á sviðinu og sýnir að sálfélagslegir þættir á vinnustað tengjast starfsánægju, vellíðan og geta virkað sem forvarnir kulnunar í starfi.

Sjálfræði í starfi og áhrif á eigin störf geta verndað starfsmann gegn neikvæðum áhrifum álags og sama á við um félagslegan stuðning. Í erindinu verður kynnt tillaga að líkani sem byggir á sannreyndri þekkingu um heilsueflandi forystu með heildrænni nálgun sem eflir heilbrigt starfsumhverfi og vellíðan þar sem áhersla er á 1) sjálfræði og gagnkvæman stuðning; 2) persónulegan styrk og innri starfshvöt og 3) sameiginlegan tilgang og skýra ábyrgðarskyldu.

Fundinum var streymt á vefsíðum stofnanna þriggja - og upptöku af honum má sjá hér.

Morgunfundurinn er sá níundi í fundaröðinni  um heilsueflingu á vinnustöðum og er hluti af samstarfi VIRK, embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum.

Markmið samstarfsins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði.


Fréttir

03.04.2024
29.01.2024

Hafa samband