Fara í efni

Atvinnutenging

VIRK Atvinnutenging er samstarf VIRK við fyrirtæki og stofnanir í tengslum við ráðningar starfsfólks.

Markmiðið er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingum störf við hæfi og fyrirtækjum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi. Sjá stutta kynningu á VIRK Atvinnutenging

Gott samstarf við fyrirtæki er grundvöllur farsællar atvinnutengingar. Atvinnulífstenglar VIRK gegna lykilhlutverki í því að tengja einstaklinga við fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja og aðstoða einstaklinginn, en ekki síður vinnustaðinn, við aðlögun og endurkomu til vinnu. 

Samstarf við fyrirtæki og stofnanir hefur gengið vel og viðtökur verið góðar. Ríflega 1300 fyrirtæki eru skráð inni í upplýsingakerfi VIRK og stór hluti þeirra hefur undirritað sérstaka samstarfssamninga við VIRK. Hundruðir einstaklinga hafa fengið vinnu með aðstoð atvinnulífstengla VIRK.

VIRK leitar stöðugt eftir samstarfi við ný fyrirtæki og stofnanir sem geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar.

Atvinnulífstenglar VIRK

Atvinnulífstenglar VIRK aðstoða einstaklinga við endurkomu til vinnu í lok starfsendurhæfingar. Í starfi sínu vinna þeir að því að tengja saman einstaklinga og fyrirtæki eða stofnanir út frá óskum beggja aðila og brúa þannig bilið milli starfsendurhæfingar og vinnumarkaðar.

Þeir veita fyrirtækjum og einstaklingum fræðslu og stuðning eftir þörfum í upphafi starfs, gera vinnuáætlun í samráði við fyrirtæki og einstakling um fyrstu vikur í starfi og fylgja einstaklingum eftir, aðstoða við að yfirstíga hindranir og leysa úr málum.

Atvinnulífstenglar aðstoða einnig einstaklinga sem eru að ljúka starfsendurhæfingu við undirbúning atvinnuleitar. Í því getur falist aðstoð við starfsleit, markmiðasetningu, ferilskrárgerð, umsóknir um störf og undirbúning fyrir atvinnuviðtöl.

Nokkur góð ráð frá Atvinnulífstenglum - myndband

IPS atvinnutenging

IPS atvinnutenging er samstarf VIRK við fyrirtæki og stofnanir í tengslum við ráðningar einstaklinga samhliða starfsendurhæfingu.

IPS (Individual placement and support) atvinnutenging byggir á gagnreyndri aðferðarfræði sem hefur skilað góðum árangri við að aðstoða einstaklinga sem hafa þörf fyrir sértækari stuðning við að komast í vinnu á almennum vinnumarkaði. 

Markmiðið er að bæta líðan og heilsu einstaklinga og sýna rannsóknir fram á jákvæð áhrif atvinnuþátttöku þegar IPS aðferðafræðinni er fylgt.

Það sem aðgreinir IPS atvinnutengingu frá VIRK atvinnutengingu og almennri vinnumiðlun er að IPS fylgir skýrum og mælanlegum gæðastöðlum og að vinnan sjálf er megin endurhæfingarúrræðið.

VIRK hefur verið í samstarfi við Laugarás – meðferðargeðdeild Landspítalans - um innleiðingu á IPS aðferðafræðinni. Hjá VIRK er unnið að þróun IPS fyrir ákveðna hópa þjónustuþega VIRK. Sjá nánar í upplýsandi grein: Horft til framtíðar: IPS – Individual placement and support

Nánari upplýsingar um IPS (Individual Placement and Support) má finna á vefsíðu Dartmouth Supported Employment Center.

Ávinningur fyrirtækja af atvinnutengingu

Ávinningur fyrirtækja er verðmætur starfsmaður, einfalt ráðningarferli, ráðning byggð á góðum upplýsingum, fræðsla og stuðningur við ráðningu og þjálfun auk þess að hafa jákvæð áhrif á ímynd fyrirtækisins.

Ávinningur fyrirtækja liggur einnig í aukinni þekkingu á leiðum til að styðja fólk til starfa á ný eftir veikindi eða slys. Það er ávinningur samfélagsins alls að gera fólki kleift að vera virkir einstaklingar á vinnumarkaði og þar verður hlutverk fyrirtækjanna seint ofmetið.

Fyrirtæki og stofnanir geta skráð sig/sent inn fyrirspurn eða haft samband við atvinnulífstengla VIRK og fengið nánari upplýsingar.

Hafa samband