Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

VIRK kenndi mér að virkja hæfileikana

VIRK kenndi mér að virkja hæfileikana

Magnús Halldórsson missti heilsuna og hvarf af vinnumarkaði en náði árangri í starfsendurhæfingu sinni og sneri aftur til vinnu.

Magnús Halldórsson framhaldsskólakennari, smiður og iðnfræðingur

„Til þess að gera langa sögu stutta þá hrundi lífið hjá mér allt í einu en nú er ég kominn á beinu brautina fyrir tilverknað VIRK og vinnumálastofnunar sem beindi mér þangað,“ segir Magnús Halldórsson smiður og iðnfræðingur.

„Fyrst missti ég vinnuna og svo fékk ég í ofanálag heilsubrest, eftir rösklega ár klemmdist taug í hálsinum á mér og leiddi verkurinn út í handlegg. Ég fékk ranga greiningu fyrst en fór fljótlega til annars læknis, þá kom hið sanna í ljós í sneiðmyndatöku. Ég þurfti að bíða rúma tvo mánuði eftir myndatökunni, það eru jú bara tvö svona tæki í landinu að því er ég best veit. Læknirinn minn hvatti mig til að fara til sjúkraþjálfara og ég gerði það.“

Varstu kominn í samstarf í VIRK þegar þetta var?
„Nei, það gerðist skömmu síðar í framhaldi af heimsóknum mínum til Vinnumálastofnunar. Þar var ráðgjafi sem beindi mér til VIRK. Hann sagði: „Viltu fara í samstarf við VIRK?“ Svo lýsti ráðgjafinn fyrir mér hvað mér gæti staðið til boða í slíku samstarfi og ég ákvað að sækja um þetta.

Ég var um þetta leyti orðinn eins og drukknandi maður, leitandi að hjálp alls staðar. Ég var þarna búinn að vera atvinnulaus í nærri eitt og hálft ár og orðinn mjög örvæntingarfullur."

VIRK lausnamiðað

Hvað gerði VIRK fyrir þig í upphafi?
„Í fyrsta lagi fór ráðgjafinn með mig í gegnum harða greiningu með það að markmiði að komast að hvað hefði gerst í mínu lífi undanfarin ár. Í kjölfar þess fékk ég sex tíma hjá sálfræðingi. Hann hlustaði á mig en ég hafði ekki eins mikið gagn af þessu úrræði og ég hafði vænst. Ég var heldur ekki tilbúinn til þess að koma með lausnir sjálfur á þessum tíma.

En ráðgjafinn hjá VIRK var mjög lausnamiðaður. Þegar ég gat farið að snúa baki við fortíðinni þá sagði hann við mig: „Nú skulum við fara að greina hvar styrkleikar þínir og veikleikar liggja og hvað þér finnst ógna þér og einnig hvar þú sérð tækifæri til beita þér.“ Þetta skilaði mér miklu og var stærsti liðurinn í að koma mér út á vinnumarkaðinn á ný.“

Hvar sástu tækifærin?
„Ráðgjafinn sannfærði mig um að það væri aðeins tímaspursmál hvenær ég fengi vinnu. Ég vil geta þess að auk þess að hafa lokið kennaranámi er ég útlærður smiður og iðnfræðingur frá Tækniskóla Íslands. Annað hjálpaði mér, ég var þegar þarna var komið sögu búinn að ná mér alveg í hálsinum. Það var fyrir gott starf sjúkraþjálfarans sem hafði greint nákvæmlega hvar klemman væri. Ég var búin að vinna með sjúkraþjálfaranum þegar ég komst í samstarfið við VIRK, annars hefði það verið greitt fyrir mig. Ég hafði leitað eftir aðstoð hjá Kennarasambandinu þegar ég missti kennslustarf í byggingagreinum í framhaldsskólum sem ég hafði sinnt í átta og hálft ár en komst að því að réttindi mín þar þurrkuðust út alveg þegar ég missti kennsluna og atvinnuleysisbætur. Það kom mér á óvart. Þegar ég kom í samstarfið við VIRK átti ég því engin réttindi hjá stéttarfélagi en ég var ekki látinn gjalda þess, þvert á móti var mér tekið eins og ég hefði full réttindi. Fólk sem lendir í þessari stöðu á athvarf hjá VIRK samkvæmt minni reynslu.

Annað vil ég að komi sérstaklega fram. Hjá VIRK er starfsfólk sérhæft í að hjálpa fólki til þess að finna hæfileika og styrkleika og þar fær maður mikla hvatningu.“

„Eitt var mér kennt af ráðgjafanum sem verður mér veganesti: „Hafðu ekki of miklar áhyggjur, þær eru bara til að gera hlutina verri.“ Ef eitthvað er að plaga fólk þá á það ekki að láta áhyggjurnar halda fyrir sér vöku heldur gera eitthvað í sínum málum."

Sótti um allt mögulegt

Hvað gerðir þú til þess að fá vinnu?
„Ég sótti um allt sem ég mögulega gat hugsað mér að ég gæti unnið við. Það gerði ég frá fyrsta degi sem ég missti vinnuna en ég fékk höfnun ofan á höfnun. Komst í fjögur viðtöl en þau skiluðu engu. Það er mjög erfitt fyrir fólk sem er að nálgast sextugsaldurinn að fá vinnu. Ég fékk hvað eftir annað þau svör að verið væri að leita að yngra fólki en ég var.

Þetta var erfitt en ég gerði mér fljótt grein fyrir því hve þýðingarmikið það væri að vera virkur í svona aðstöðu. Ég vann í því. Ég hafði verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum áður en ég missti vinnuna, nú hellti ég mér út í það starf. Ég var skipaður þar í stjórn og endaði sem formaður í þrjú ár þegar Álftanesdeildin var sameinuð Garðbæjardeildinni. Þetta hjálpaði mikið en höfnunin sem ég upplifði við atvinnumissinn var samt þungbær.

Ráðgjafi VIRK blés mér hins vegar baráttuvilja í brjóst, hann sagði mér að ég myndi fá vinnu, þetta væri bara spursmál um vikur eða fáeina mánuði. Hann sagði: „Þú ert svo jákvæður og virkur að ég trúi ekki öðru en þú fáir fljótlega starf.“ Þessi ummæli byggði ráðgjafinn á niðurstöðum úr greiningunni á styrkleikum mínum. Hann hjálpaði mér líka að móta rétt viðhorf og stefnu í atvinnuviðtölum. Það er lykilatriði. Maður þarf að sannfæra atvinnurekandann um að maður sé einmitt rétti maðurinn. Þeir ráða þann sem er mest sannfærandi.“

 Og fékkstu vinnu?
„Já, það var loks hringt í Vinnumálastofnun frá fyrirtæki sem vantaði mann sem hafði reynslu í öryggismálum. Mér var boðið í viðtal, sem var skemmtileg tilbreyting frá því að vera alltaf að sækja um sjálfur. Í öryggismálum var ég á heimavelli, ég hafði kennt það fag í skólanum árum saman. Ég var orðinn umsjónarmaður skólans í öryggismálum þegar mér var sagt upp.“  

Hvernig var andleg líðan þín þegar þú fórst að vinna?
„Þá kom í ljós að ég þurfti aðstoð við að komast aftur í gang eftir að hafa verið frá vinnu í eitt og hálft ár. En fyrirtækið hjálpaði mér í gegnum það ferli.

Ég vil geta þess að í þessum hremmingum öllum hef ég haft mikinn stuðning af trúnni. Ég er trúaður maður og var búinn að syngja í kirkjukór í þrjátíu ár, þar hafði ýmislegt síast inn sem kom að gagni þegar á móti blés. Trú, von og kærleikur hafa verið ráðandi afl í öllu þessu ferli. Ég glataði aldrei voninni og mér var mikill styrkur í að lesa í hinni góðu bók Biblíunni. Staða mín var heldur ekki slæm að mörgu leyti. Efnahagsmálin voru til dæmis í lagi, en þetta sá ég ekki fyrr en ráðgjafi VIRK benti mér á það í greiningunni. Nú er ég búinn að vera í vinnu í tæp tvö ár og allt hefur gengið vel.“

Hvaða úrræði finnst þér þú hafa haft mest gagn af frá VIRK?
„Að finna í hverju ég væri sterkastur og beita þeirri vitneskju. Það var líka fróðlegt og hollt að gera sér grein fyrir veikleikum sínum og hafa fengið stuðning frá ráðgjafa VIRK til að vinna í veikleikunum svo þeir væru ekki að þvælast fyrir mér.

Satt að segja þá fór það illa með mig andlega að ég var hvattur til af Kennarasambandinu og samkennurum að fara í mál við vinnustað minn vegna uppsagnarinnar, sem sögð var vegna samdráttar, en tapaði því máli hundrað prósent. Í ljós kom eftir á að lögfræðingurinn hefði mátt segja sér það sjálfur fyrirfram, vegna þeirra upplýsinga sem fyrir lágu, að ég gæti aldrei unnið þetta mál. Þetta var eitt áfallið í viðbót við uppsögnina, skilnaðinn og þá breytingu sem hann hafði í för með sér. Ekki aðeins hvað húsnæði snertir heldur ekki síður þann einmanaleika sem fylgdi í kjölfarið.“

Heimsóknarvinur hjá Rauða krossinum

Hvað gerðir þú til að vinna gegn einsemdinni?
„Ég gerðist heimsóknarvinur hjá Rauða krossinum. Ég fór í heimsókn á þjónustumiðstöð fyrir aldraða einu sinni í viku, á þriðjudögum eftir hádegi og hlakkaði til hverrar heimsóknar. Fólkið þar var bæði frótt og skemmtilegt.“

Hvernig er staðan hjá þér núna?
„Ég er kominn í þessa fínu vinnu. Ég hét því þegar ég fór að vinna sem sölumaður með öryggisvörur að ég skyldi gera allt sem ég gæti til þess að fyrirtækið myndi ekki sjá eftir því að hafa ráðið mig. Það hefur gengið eftir hingað til sem betur fer.

Auk þess er einkalífið í miklum blóma. Ég hitti dásamlega konu fyrir einu og hálfu ári svo ég er ekki lengur einmana. Ég á tvær dætur sem ég hef haft gott og stöðugt samband við í gegnum allt þetta, það hefur hjálpað mikið. Ég einangraðist því aldrei þótt ég byggi einn. Og húsnæðismálin eru komin í lag. Það gekk þó ekki þrautalaust. Ég átti fyrir útborgun en af því að ég hafði ekki fasta vinnu fékk ég ekki greiðslumat. Ég þurfti því um tíma að skrá lögheimili mitt hjá aldraðri móður minni. En þegar ég var kominn með fasta vinnu fékk ég greiðslumat og hef nú keypt mér íbúð sem ég er að gera upp.

Samstarfið við VIRK hefur verið ómetanlegt, VIRK er að vinna ótrúlega gott starf. Það var á mörkum þess að ég þætti tækur í samstarf því staða mín var ekki eins slæm og margra annarra. En það var mín gæfa að ég var tekinn inn í þá endurhæfingu sem þetta samstarf hefur skilað mér og komið mér á þann stað sem ég er nú. Ráðgjafinn minn var ótrúlega vel að sér, lausnamiðaður og flinkur að finna út með mér hvar mín tækifæri lægju. Samstarf okkar reyndist mér á við bestu sálfræðiaðstoð. Eitt var mér kennt af ráðgjafanum sem verður mér veganesti: „Hafðu ekki of miklar áhyggjur, þær eru bara til að gera hlutina verri.“ Ef eitthvað er að plaga fólk þá á það ekki að láta áhyggjurnar halda fyrir sér vöku heldur gera eitthvað í sínum málum.

Ég leyfi mér að bæta hér að lokum við tilvitnun í Biblíuna: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? (Matt. 6, 20.). Ég hef margt að þakka fyrir um þessar mundir, ég á mér ýmsa drauma og fæ að vakna frískur til starfa dag hvern. Eins og ráðgjafi VIRK sagði: „Það kemur nýr dagur og ný tækifæri.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband