Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun Líkamleg heilsa

VIRK gaf mér nýtt líf

VIRK gaf mér nýtt líf

„Ég var farin að vera oft frá vinnu, bæði var ég sjálf oft veik og einnig börnin mín tvö. Yfirmaður minn á hjartadeild bað mig að fara til trúnaðarlæknis og hann beindi mér til VIRK,“ segir Eydís Inga Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur sem lauk starfsendurhæfingu hjá VIRK í lok árs 2019.

Eydís Inga Sigurjónsdóttir aðstoðarhjúkrunarforstjóri

„Ég var farin að vera oft frá vinnu, bæði var ég sjálf oft veik og einnig börnin mín tvö. Yfirmaður minn á hjartadeild bað mig að fara til trúnaðarlæknis og hann beindi mér til VIRK,“ segir Eydís Inga Sigurjónsdóttir hjúkrunarfræðingur sem lauk starfsendurhæfingu hjá VIRK í lok árs 2019.

Ég varð óneitanlega tortryggin og komst í mikla vörn þegar deildarstjórinn minn vildi endilega að ég hitti trúnaðarlækninn. En ég fór samt. Ekki síst vegna þess að mamma, sem er líka hjúkrunarfræðingur, sagði við mig að ég skyldi bara fara og nýta mér öll þau úrræði sem í boði væru.

Ég fór því og hitti lækninn sem byrjaði að spyrja út í ýmislegt varðandi heilsu mína. Hann má segja togaði upp úr mér sögu mína sem óneitanlega er töluvert áfallatengd. Ég reyndi meira að segja að gera sem minnst úr veikindum mínum.“

Varstu mikið lasin á þessum tíma?
„Já. Ég var þegar þetta var hætt að sofa. Undanfari þess var ofurálag. Maðurinn minn vann í Noregi í þrjú ár, kom aðeins heim í stuttum fríum. Ég var því ein með eldri dóttur okkar frá því hún fæddist og þar til ég eignaðist yngri dóttur okkar hjóna þremur árum seinna. Ég vann þessi ár vaktavinnu og hafði enga dagmömmu fyrir yngri dótturina. Ég valdi því að vinna sem mest kvöldvaktir svo ég gæti sinnt stelpunum á daginn. Það, að komast til vinnu, var á við erfitt púsluspil. Auk þessa sváfu stelpurnar mínar báðar lítið á nóttunni frá fæðingu. Ég var því er þarna var komið sögu nánast ósofin alla daga og hafði verið í þannig ástandi í mörg ár.

Jafnframt hafði ég orðið fyrir dálitlu áfalli í einkalífi, frændi minn, sem mér þótt mjög vænt um, dó – og okkar hjónum var sagt upp leigusamningi svo við, þannig séð, stóðum á götunni. Loks gerðist það að manninum mínum bauðst starf á Skagaströnd, þar sem ég er fædd og uppalin. Hann tók við þessu starfi en ég varð eftir með börnin í eitt ár. Ég óneitanlega átti bágt með að ákveða hvort ég vildi setjast að fyrir norðan. Mér fannst erfitt að hætta að vinna á hjartadeildinni. Það var enn einn streituvaldurinn.“

Hætti að geta sofið

Hvað gerðir þú í þessum erfiðleikum?
„Sótti um þjónustu hjá VIRK. Þá var ég hætt að geta sofið. Líkaminn var kominn á slíkan yfirsnúning að mér tókst ekki að festa svefn. Ekki bætti úr skák að ég hafði verið með ógreinda gigt frá barnæsku sem versnaði mjög við barneignirnar. Ég komst varla fram úr rúmi. Í mínum genum er gigtin fyrirferðarmikil. Ég dróst samt á fætur. Í minni fjölskyldu tíðkast ekki að fólk liggi í rúminu nema það sé við dauðans dyr, ef svo má segja. Gigtin sem þjáir mig er ekki sýnileg öðrum, fólki finnst því ótrúlegt að ég sé eins slæm og raun ber vitni.

Trúnaðarlæknirinn sem ég fór til fékk upp úr mér alla þessa sögu, sem ég alls ekki ætlaði að segja. Í framhaldi af því sagði hann: „Eydís, þú þarft hjálp. Þú getur ekki meira.“ Þegar læknirinn sagði þetta gerðist það sem ég hafði lengi í leynum hjartans óttast – ég brotnaði saman. Hann var mjög undrandi á að ég væri enn að vinna og lagði til að sótt yrði um fyrir mig í þjónustu hjá VIRK samhliða hlutavinnu á hjartadeildinni. Vinnan var vissulega ekki alltaf auðveld. Skömmu áður en ég heimsótti trúnaðarlækninn þá upplifði ég hræðilega erfiða vakt, þá verstu í starfssögu minni. Ég fékk áfallastreitu í kjölfar þeirrar upplifunar. Enda þá illa undir það búin að mæta miklum hremmingum vegna heilsufarsástands míns – er ég þó ýmsu vön úr starfi mínu á hjartadeild og víðar í heilbrigðiskerfinu.“

Ráðgjafinn minn hjá VIRK gaf mér eitt mjög mikilvægt – sjálfstraust til að berjast fyrir sjálfri mér. Ég áttaði mig á að ég yrði að setja súrefnisgrímuna á sjálfa mig í stað þess að vera alltaf að setja hana á aðra.

Var veikari en ég gerði mér grein fyrir

Hvaða úrræði buðust þér hjá VIRK?
„Ég var má segja send til ráðgjafa VIRK þótt mér fyndist innra með mér að deildarstjórinn og læknirinn væru á einhvern hátt að taka fram fyrir hendurnar á mér. Ég hafði fordóma gagnvart þessu úrræði. Ég sá ekki sjálf hvernig fyrir mér var komið. Ráðgjafinn sýndi mér fram á að ég væri miklu veikari en ég gerði mér sjálf grein fyrir. Ég hefði þó mátt segja mér það sjálf því ég var á þessu tímabili að hitta sálfræðing á vegum heilsugæslunnar. Haldið var ranglega að ég þjáðist af fæðingarþunglyndi en hið sanna var að ég var með D-MER syndrome, það er hormónabrenglun sem kemur stundum í kjölfar brjóstagjafar hjá konum. Ég var mjög heppin að lenda hjá þessum sálfræðingi og hélt áfram að hitta hann eftir að ég kom í þjónustu hjá VIRK. Síðar vildi ráðgjafinn reyndar að ég færi í meðferð hjá öðrum sálfræðingi.“

Hvað var gert til að hjálpa þér varðandi stoðkerfisvandann og svefnleysið?
„Ráðgjafi VIRK sá að ég var afar þreytt og lagði til að ég myndi nýta tímann til að hvíla mig. Hún vissi að ég hafði lengi stundað líkamsrækt, kannski af full miklum ákafa. Ég var vinsamlega beðin að nota hvert tækifæri til að hvíla mig. Smám saman sá ráðgjafinn að eitthvað mun meira var að mér en einskær þreyta. Í framhaldi af því var ég beðin að fara til læknis. Það var ekki nýtt fyrir mig, ég hafði gengið á milli lækna vegna gigtarinnar frá unga aldri. Ég fór samt fyrir orð ráðgjafans til læknis sem sagði mér að fara út að ganga. Ég sagði þessum lækni að ég sjálf teldi að ég væri með hryggikt. Þá spurði hann mig: „Varstu að gúggla?“ Ég játti því en teldi eigi að síður að þetta væri rétt greining. Ég er jú hjúkrunarfræðingur. Þessi heimsókn og greiningin mín leiddu til myndatöku sem ekki var búið að vinna úr þegar ég fékk mér jógúrt. Varla var ég búin að renna henni niður þegar ég bólgnaði öll upp og endaði á bráðamóttöku með fjörutíu stiga hita. Grunur vaknaði um að ég væri með sjálfsofnæmissjúkdóma. Ég var þá send á dagdeild gigtarlækninga og það beinlínis bjargaði lífi mínu. Þar greindist ég með hryggikt og Crohn‘s-meltingarfærasjúkdóm sem hefur töluverð áhrif á líf mitt.“

Næringu minni var ábótavant

Hvaða ráða var gripið til?
„Á vegum VIRK hitti ég næringarfræðing sem sá í hendi sér hvað af næringu minni væri ábótavant. Ég er með laktosa- og glútenóþól og verð að passa mjög vel hvað ég set ofan í mig,“ segir Eydís.

„Ég get ekki borðað bólgumyndandi mat. Í þokkabót er ég með vanvirkan skjaldkirtil. Það greindist ekki fyrr en ég var tvítug og hafði mikil áhrif á næringu mína. Ég hef löngum verið í nokkurri yfirvigt, mér fannst það leiðinlegt þegar ég var yngri en nú finnst mér skipta mestu að vera heilbrigð. Þyngdin segir lítið um úthald eða heilsufar fólks.

Hvað gigtina varðar þá fékk ég líftæknilyf í æð sem ég þarf að fá á sex vikna fresti. Þessi lyf hafa bjargað mér. Ég get ekki ímyndað mér hvernig tilvera mín væri án þeirra lyfja. Ég fann breytingu við fyrsta skammt, ég næstum hoppaði upp úr stólnum. Ég varð allt í einu hraust, ástand sem ég hafði ekki komist í undanfarin fimm ár.“

Ráðgjafinn gaf mér aukið sjálfstraust

Fórstu að geta sofið betur?
„Já, ég fékk lyf sem hjálpuðu mér með svefninn. Ráðgjafinn minn hjá VIRK gaf mér eitt mjög mikilvægt – sjálfstraust til að berjast fyrir sjálfri mér. Ég áttaði mig á að ég yrði að setja súrefnisgrímuna á sjálfa mig í stað þess að vera alltaf að setja hana á aðra. Það var mér dýrmætt að ráðgjafinn minn gerðist minn málsvari og aðstoðaði mig við að hugsa um sjálfa mig en ekki deildina – eða setja þarfir allra í fjölskyldunni á undan mínum. Ég skildi að ég þurfti að setja mig í fyrsta sæti til að ná að sinna þeim verkefnum í lífinu sem ég vil sinna af heilindum. Einnig bjargaði það stoðkerfi mínu talsvert að ráðgjafinn sendi mig til sjúkraþjálfara sem hefur hjálpað mér hvað mest við að koma líkamanum í lag. Af öllum þeim sjúkraþjálfurum sem ég hef kynnst um ævina er hann hreinlega bestur. Ég fer ennþá til hans þótt ég sé nú flutt á Skagaströnd og vinni þar sem stendur sem aðstoðarhjúkrunarforstjóri.“

Sagði grátandi upp vinnu á hjartadeildinni

Hvernig var að flytja á gömlu heimaslóðirnar?
„Beinlínis ævintýri líkast. Það byrjaði sem fyrr sagði með að maðurinn minn fékk vinnu fyrir norðan sem hann er mjög ánægður með. Foreldrar mínir og systir mín búa á Skagaströnd. Ég sá, eftir að hafa farið á fyrirlestur um kulnun, að ég þyrfti að stokka upp tilveru mína. Mér vitraðist að hið rétta fyrir mig væri að flytja norður alfarin og taka þannig ábyrgð á eigin heilsu og einfalda hlutina. Ég lærði hjá VIRK að enginn getur hjálpað manni til sjálfsábyrgðar nema maður sjálfur.

VIRK gaf mér tæki og tól til þess að taka þá ákvörðun að láta einskis ófreistað til að ná heilsu. Þetta var ekki átakalaus ákvörðun. Ég sagði grátandi upp vinnu minni á hjartadeild 14EG. Þar var ég hluti af frábæru teymi sem ég get ekki annað en saknað. Ég get enn tárast þegar ég hugsa til vina minna á deildinni, þess frábæra starfsfólks og snillinga í sinni grein. Þó ég segi sjálf frá þá var ég nokkuð góður hjartahjúkrunarfræðingur. Það hlutverk var sterkur þáttur í sjálfsmynd minni og er raunar enn. En maður verður oft að taka erfiðar ákvarðanir í þessu lífi og ég tel að ég hafi gert hið rétta fyrir heilsu mína og fjölskyldu.“

Niðurstaðan varð að ég fékk líf mitt aftur og tól til að takast á við streituþætti ef þeir koma upp. Ég sé hlutina í allt öðru ljósi og lít mjög jákvæðum augum fram á við og hef í handraðanum allt það sem VIRK kenndi mér.

Tilveran núna er bara frábær

Hvernig er þá staðan núna?
„Ég er enn að jafna mig eftir kulnunarástand en er þó sem betur fer orðin nánast heil heilsu. Ég þarf þó að minna mig á að fara ekki fram úr sjálfri mér og hugsa vel um líkamann. Fyrir norðan er allt miklu auðveldara fyrir mig. Öldrunarheimilið þar sem ég vinn núna er á bak við húsið okkar.

Við hjónin búum í sama húsi og foreldrar mínir og fáum mikla aðstoð með börnin. Ég er eina mínútu að ganga til vinnu, tvær mínútur að fara í leikskólann með yngri dótturina og þrjár mínútur að fara með eldri stelpuna í skólann. Börnin mín blómstra og ekki síður við foreldrarnir í þessu frábæra samfélagi. – Ekki skaðar að ég fæ hærri laun fyrir norðan en á hjartadeildinni. Eiginmaður minn er sömuleiðis harðánægður með þessi umskipti þannig að staðan mín í tilverunni er bara frábær.

Ég er afskaplega fegin að hafa leitað til VIRK þótt mér fyndist í upphafi að ég ætti ekki heima í slíkri þjónustu. Niðurstaðan varð að ég fékk líf mitt aftur og tól til að takast á við streituþætti ef þeir koma upp. Ég sé hlutina í allt öðru ljósi og lít mjög jákvæðum augum fram á við og hef í handraðanum allt það sem VIRK kenndi mér.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2021.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband