Ragnheiður Hannesdóttir
Þegar vinkona Ragnheiðar Hannesdóttur sá að hún var við það að detta út af vinnumarkaðnum vegna andlegrar vanlíðunar hvatti hún hana til þess að leita eftir aðstoð hjá ráðgjafa stéttarfélags síns.
,,Mér leið óskaplega illa og var eiginlega orðin þunglynd án þess að ég gerði mér grein fyrir því. Vinkona mín sá það hins vegar. Hún vinnur á sama stað og Ágústa Guðmarsdóttir, ráðgjafi í starfsendurhæfingu hjá stéttarfélögunum á Suðurlandi. Þær voru að tala um að hætta væri á að ég dytti út af vinnumarkaðnum fengi ég ekki hjálp. Vinkona mín hvatti mig til þess að tala við Ágústu sem bjargaði mér alveg. Mér finnst það frábært framtak að koma svona þjónustu á,“ leggur Ragnheiður áherslu á.
Hún kveðst hafa átt erfitt vegna fíkniefnaneyslu sonar síns. ,,Þetta er búið að vera rosalega erfitt en ég hef alltaf verið það hörð af mér að ég hef mætt í vinnu, alveg sama hvað hefur plagað mig.“
Ragnheiður, sem hefur starfað í íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn í um það bil tvö ár, segist hafa verið afar þakklát vinkonu sinni fyrir að hafa gripið í taumana. ,,Við getum alltaf sagt allt hvor við aðra þannig að ég tók það alls ekki stinnt upp þegar hún sagðist hafa áhyggjur af mér og að ég yrði að leita mér hjálpar. Ég fór að hugsa að það væri líklega alveg rétt hjá henni að ég þyrfti aðstoð.“
,,Ég er alveg endurnærð. Ég er eins og ný manneskja. Mér var farið að leiðast svo mikið í vinnunni en nú finnst mér gaman að starfa í íþróttamiðstöðinni og hugsa um hvað ég sé heppin að hafa svona góða vinnu. Ég er orðin miklu þakklátari og kann að meta lífið miklu betur, heldur en áður.“
Hringdi hvorki í fólk né heimsótti
Að sögn Ragnheiðar var hún farin að loka sig af, eins og hún orðar það. ,,Ég var alltaf heima fyrir utan þær stundir sem ég var í vinnunni. Ég umgekkst bara þá sem ég þurfti og leitaði ekki eftir neinum samskiptum við aðra. Ég hringdi hvorki í fólk né heimsótti það að fyrra bragði. Tilhugsunin um slíkt var eins og tilhugsunin um að þurfa að klífa heilt fjall. Svona var illa komið fyrir mér í haust þótt ég gerði mér enga grein fyrir ástandinu fyrr en vinkona mín benti mér á það. Þegar ég lít til baka held ég að þetta ástand hafi verið búið að vara í nokkur ár að meira eða minna leyti. “
Ragnheiður fékk viðtalstíma hjá Ágústu ráðgjafa og segir hún samtöl þeirra hafa gert sér mjög gott. ,,Við ræddum um vandamál mín. Fjármálin mín voru til dæmis öll komin í rugl eins og annað í lífi mínu. Um þetta leyti var fjármálanámskeið að byrja á vegum stéttarfélaganna sem ég tók þátt í. Mér tókst að koma fjármálunum mínum alveg í lag og þetta gerði mér allt svo gott að það er ekki hægt að lýsa því.“
Auk þessarar aðstoðar fékk Ragnheiður tíma hjá sálfræðingi. ,,Ég fór einu sinni í viku um sex vikna skeið til sálfræðings í Reykjavík. ,,Sálfræðingurinn leiðbeindi mér við að vinna úr reiðinni sem hafði búið um sig hjá mér. Ég var reið út í strákinn minn og almennt reið út í lífið og tilveruna. Þegar maður er fullur af reiði er ekki pláss fyrir neitt annað. Það er ekki pláss fyrir hið góða.“
Eins og ný manneskja
Núna líður Ragnheiði miklu betur, að því er hún greinir frá. ,,Ég er alveg endurnærð. Ég er eins og ný manneskja. Mér var farið að leiðast svo mikið í vinnunni en nú finnst mér gaman að starfa í íþróttamiðstöðinni og hugsa um hvað ég sé heppin að hafa svona góða vinnu. Ég er orðin miklu þakklátari og kann að meta lífið miklu betur, heldur en áður. Það koma að vísu dagar sem mér líður ekki sem best en það er þá af því að ég þarf að hvíla mig. Ég fer stundum fram úr sjálfri mér en slíkir dagar eru miklu færri en áður. Þetta allt annað líf.“
Ragnheiður er full þakklætis vegna þjónustunnar sem hún fékk á vegum VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs. ,,Ég er afar þakklát. Ég vona bara að sem flestir fái upplýsingar um VIRK og þá frábæru þjónustu sem hann veitir. Þegar fólk er orðið jafnilla haldið og ég var síðastliðið haust þá finnur það engin úrræði sjálft.“