Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Þakklæti er mér efst í huga

Þakklæti er mér efst í huga

„Ég var send í veikindaleyfi af heimilislækni mínum í lok febrúar 2023. Hann sótti um fyrir mig hjá VIRK, en það tók tíma að staðfesta umsóknina. Fyrst var ég í fullu veikindaleyfi í einn og hálfan mánuð. Fór síðan í þrjátíu prósent starfshlutfall á mínum vinnustað, Háskóla Íslands, þar sem ég vinn í inntökuteymi. Í ágúst sama ár fór ég í þjónustu hjá VIRK og hækkaði samhliða starfshlutfallið upp í fimmtíu prósent,“ segir Tatiana er við hittum hana á heimili hennar til að ræða um þau úrræði sem hún nýtti sér í samstarfi við VIRK.

Tatiana Saavedra

„Ég var send í veikindaleyfi af heimilislækni mínum í lok febrúar 2023. Hann sótti um fyrir mig hjá VIRK, en það tók tíma að staðfesta umsóknina. Fyrst var ég í fullu veikindaleyfi í einn og hálfan mánuð. Fór síðan í þrjátíu prósent starfshlutfall á mínum vinnustað, Háskóla Íslands, þar sem ég vinn í inntökuteymi. Í ágúst sama ár fór ég í þjónustu hjá VIRK og hækkaði samhliða starfshlutfallið upp í fimmtíu prósent,“ segir Tatiana er við hittum hana á heimili hennar til að ræða um þau úrræði sem hún nýtti sér í samstarfi við VIRK.

„Þannig var að mér var boðin staða hjá HÍ sem ég vildi alls ekki hafna og reyndi því að haga þessu svona. Þegar ég hitti frábæran ráðgjafa VIRK byrjuðum við á að setja upp áætlun. Ég fékk fyrst kort hjá jógastöð þar sem ég stundaði slökun og hugleiðslu. Ástand mitt var slæmt, ég gat hreinlega ekki slakað á og átti erfitt með svefn, þjáðist af minnisleysi og einbeitingarskorti.

Ég var satt að segja alveg búin að keyra mig upp að vegg. Það var þó ekki neinn einn atburður sem olli því að ég var svona á mig komin heldur nokkur áföll. Lengi vel hélt ég öllum boltum á lofti en smám saman bættist í og loks kom síðasta kornið sem fyllti mælinn. Gríman féll og ég var orðin að „brunarúst“.“

Ástand mitt var slæmt, ég gat hreinlega ekki slakað á og átti erfitt með svefn, þjáðist af minnisleysi og einbeitingarskorti.

Og hvað var tekið til bragðs?
„Ráðgjafinn byrjaði reyndar á að spyrja mig; „hvað heldurðu að þú þurfir?“ Ég svaraði; „ég hef ekki hugmynd um það.“ Smám saman var ástand mitt greint og í framhaldi af því var ákveðið að ég færi til sálfræðings sem er sérfræðingur í áföllum og kulnun. Ég fór í svokallaða EMDR-meðferð og var í því úrræði þangað til ég hætti í VIRK um áramótin 2024 og reyndar hélt ég áfram hjá sálfræðingnum dálítið lengur á eigin vegum eftir að ég var útskrifuð.

Ég hafði ýmislegt reynt að gera mér til hjálpar áður en ég fór til VIRK, meðal annars verið hjá sálfræðingi, en sá sem ég fór til á vegum VIRK hentaði mér miklu betur. Mér fannst þetta merkileg reynsla líðan minnar vegna en líka hafði ég faglegan áhuga því ég er með BA-próf í sálfræði,“ segir Tatiana.

En hvað var svona áhugavert í þessari sálfræðimeðferð?
„EMDR-meðferð er endurtenging á taugakerfinu, snýst um að mynda nýjar tengingar vegna áfalla. Það sem áður var neikvætt er gert jákvætt. Í raun er búin til ný tenging. Maður tekur sig í huganum til áfalls og reynir að róa sig niður. Þetta tókst ágætlega hjá mér.

Inni í þessu er svo líka samtalsmeðferð, áföll rædd og líka þannig tekist á við þau. Málið snýst um að finna út hvað „triggerar“ mann og hvað er hægt að gera. Með þessari aðferð er manni kennt að bregðast við á afslappaðan hátt í stað þess að fara í kvíðahnút – sem felur í sér hraðslátt hjartans, oföndun og í versta tilfelli ofsakvíða. Ég átti lengi erfitt með að átta mig á vanlíðan minni, bar mig vel svo fólk í umhverfinu trúði því varla að mér liði svona illa.

Þetta erfiða ástand mitt ágerðist á löngum tíma – líkt og snjóbolti sem sífellt hleðst meira og meira utan á vegna áfalla og erfiðra kringumstæðna.“

Var í hlutverki „ofurkonunnar“

Fékkstu sjálf þá hugmynd að leita til VIRK?
„Nei, satt að segja fór ég til heimilislæknisins bara til að fá svefntöflur þótt ég tæki þær alls ekki allajafna. Ég var þá enn í hlutverki „ofurkonunnar“ og ætlað að bjarga mér fyrir horn með pillunum, var illa sofin og þurfti að standa mig í vinnu.

En í stað þess að gefa mér lyfseðil upp á svefnpillur þá tók læknirinn sér heilan klukkutíma til að ræða við mig og beindi mér til VIRK að því samtali loknu. Fyrst fannst mér þetta ómöguleg hugmynd, sagði að ég þyrfti að fara á fund. Smám saman áttaði ég mig þó á hve illa ég væri stödd og féllst á að læknirinn sendi inn fyrir mig beiðni um að komast í samstarf við VIRK.

Veikindaleyfið hjálpaði mér að öðlast svolitla ró og lenda, ef svo má segja. Sálfræðingurinn sem ráðgjafi VIRK beindi mér til sagði að ég hefði komið á réttum tíma, aðeins farin að átta mig á ástandinu þegar ég kom til hans. Þegar verst lét var ég beinlínis í hvirfilvindi. Veikindaleyfið sem ég fékk kom að gagni og því var ég tilbúin til að fara í þessa meðferð sálfræðingsins. Þú vinnur ekki úr neinu meðan þú grætur, getur ekki sofið, varla staðið upp úr sófanum eða talað við fólk í síma.“

Gastu unnið þessa fimmtíu prósent vinnu meðfram úrræðum VIRK?
„Já. Það krafðist vissulega aðlögunar þegar ég hækkaði starfshlutfallið. Það var samt ekki starfið sem slíkt sem gerði mér erfitt fyrir. Ég vildi alls ekki skipta um starfsvettvang og þurfti því ekki á atvinnutengingu að halda. Ég fékk mikinn stuðning í vinnunni hjá HÍ, var meðal annars færð í annað verkefni þar sem var rólegt umhverfi og mátti mæta eftir því sem ég gat. Þetta fyrirkomulag hentaði vel með úrræðunum hjá VIRK, svigrúmið skipti miklu máli, ella hefði ég sennilega þurft að vera lengur í fullu veikindaleyfi.“

Hvers vegna varstu orðin svona uppspennt og kvíðin?
„Ofurspennan og kvíðaástandið hlóðst upp á mörgum árum. Fólk þarf að upplifa erfiðleika og afgreiða þá, það er ekki hægt að forðast þá. Hjá VIRK var heildræn og samfelld meðferð sem skilaði sér. Það sem ég hafði reynt að gera sjálf var álíka og að setja litla plástra á stórt svöðusár. Ég held ég hefði ekki getað komist í gegnum þetta ein.“

Fræddist um áhrif streitu og áfalla á heila og líkama

Fórstu í fleiri úrræði á vegum VIRK?
„Já. Ég fór á hópnámskeið sem taugasálfræðingur hélt á netinu, það heitir: „Aukin einbeiting og betra minni“. Þar er farið yfir áhrif streitu og áfalla á heila og líkama. Þetta námskeið var í fyrirlestraformi, fjögur skipti sem hvert um sig stóð í einn til tvo klukkutíma. Margt sem þar kom fram varpaði ljósi á ýmislegt sem ég hafði verið að glíma við. Við vorum frædd um af hverju fólk er og verður með ýmsu móti eftir áföll og ofálag og hvað hægt sé að gera við slíku ástandi.“

Stundaðirðu hreyfingu af einhverju tagi?
„Bara göngur. Það snerist í raun allt um að ég hægði á mér. Ég þurfti að ná púlsinum niður. Eina sem ég gat gert varðandi hreyfingu var að fara í göngutúra í allt að klukkutíma í senn, eftir því sem veður leyfði.

Þess má geta að eitt af því sem ég gerði áður en ég fór til VIRK var að sækja námskeið þar sem kennd var sérstök öndunartækni. Þetta nýttist mér við spennulosun og þegar ég var alveg að fara yfir um fór ég út að ganga. Þá gat ég andað þegar ég kom inn. Í miklu spennuástandi hættir manni við oföndun og í kjölfar þess getur komið ofsakvíðakast. Til að koma í veg fyrir slíkt er þekkt aðferð að anda í poka, ég hef lent í slíku. Ef fólk fer að finna fyrir þannig einkennum þarf að grípa fljótt inn í, þetta ætti að kynna betur og þá hættu sem þessu er samfara.

Þetta fyrirkomulag hentaði vel með úrræðunum hjá VIRK, svigrúmið skipti miklu máli, ella hefði ég sennilega þurft að vera lengur í fullu veikindaleyfi.

Um áramótin 2024 fór ég í hundrað prósent stöðu hjá Háskóla Íslands. Tímarnir sem ég hélt áfram í hjá sálfræðingnum og jógastöðinni hjálpuðu mér að ráða við fulla vinnu.“

Beitir þú þessum úrræðum sem þú lærðir hjá VIRK?
„Já. Nú veit ég hvað ég þarf að gera til að halda mér góðri. Það hefur komið fyrir að ég hef þurft að fara frá skamma stund til að hugleiða og slaka á og þá geri það og ef ég á slæma nótt þá mæti ég aðeins seinna til vinnu – að öðru leyti hefur þetta gengið ágætlega.“

Hluti af bataferlinu var að læra að segja nei

Hefurðu notað lyf í bataferlinu?
„Nei. Eiginlega læddist þetta ástand aftan að mér. Þegar ég skildi fyrir ellefu árum fannst mér allt ganga mjög vel; þetta var „góður“ skilnaður. Eigi að síður hætti ég eftir skilnaðinn að geta einbeitt mér að lestri eða horfa á bíómyndir. Ég sá síðar að þarna var upphafið að þessu streituástandi. Samt áttaði ég mig ekki þá á vaxandi vanda.

Það kemur alltaf eitthvað fyrir alla. Ef maður heldur bara áfram án þess að vinna úr neinu – kastar öllu yfir öxlina og getur jafnframt ekki sagt nei við neinu sem maður er beðinn um að gera – þá getur maður endað svona eins og ég gerði. Ég var lengi með ótal bolta á lofti og það var hluti af bataferlinu að læra að segja nei og fækka boltunum.

Ég áttaði mig á því í starfsendurhæfingunni hjá VIRK að ég breyttist talsvert eftir að ég skildi. Frítíma minn fyllti ég með ótal viðburðum, félagslífi og ferðalögum. Þetta varð á endanum alltof mikið og ég réði engan veginn við þessa keyrslu. Ég þurfti að átta mig á því að ég gat ekki verið hundrað prósent alls staðar. Slíkt getur enginn til lengdar.“

Gæti þess að ofgera ekki sjálfri mér

Finnst þér þú hafa þroskast við að horfast í augu við áföll og kvíða?
„Já, það hef ég gert. Ég hef lært mikið, en ég tel að ég sé enn í bataferli, verð að gæta þess að halda jafnvægi, taka ekki of mikið að mér af verkefnum. Ég sleppi yfirvinnu og reyni að gæta þess að taka starfið ekki með mér heim. Og ef ég finn að ég er að fara út af sporinu þá sest ég niður og reyni að tæma hugann. Ég reyni að sitja í hugleiðslu svona hálftíma á dag og gera ekki neitt annað en að vera til. Að hreinsa hugann og ýta frá sér verkefnum er vinna sem maður þarf að æfa sig í.

Nú þekki ég einkennin – hef hemil á samviskusemi og fullkomnunaráráttu og gæti þess að ofgera ekki sjálfri mér með ábyrgðartilfinningu. Ég var kominn á ofsalegan hraða og festist í því ástandi. Þessu hef ég snúið við. Ég er alin upp við að fara með bænir og geri það enn, það hjálpar líka.

Ég er óskaplega þakklát fyrir það sem var gert fyrir mig hjá VIRK. Þegar ég kom til ráðgjafans þá leið mér eins og einhver hefði gripið mig. Ég fór að hágráta þegar ráðgjafinn sagði við mig: „Nú ertu komin hingað og við tökum á þessu saman.“ Það var svo mikill léttir að vera ekki lengur „ein úti í skógi“.

Þakklæti er mér efst í huga hvað VIRK snertir. Og ég get bætt við, að ég hefði aldrei haft peninga fyrir þessum úrræðum öllum. Þeim peningum sem varið er í endurhæfingarferli hjá VIRK er vel varið. Ég hefði aldrei komist í fullt starf á vinnumarkaði án aðstoðar frá VIRK.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtal úr ársriti VIRK 2025.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband