Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Stökk beint út í djúpu laugina

Stökk beint út í djúpu laugina

Elísabet Inga þurfti að hverfa frá vinnumarkaði vegna margvíslegs heilsuvanda. Hún náði góðum árangri í starfsendurhæfingu sinni og snéri aftur inn á vinnumarkaðinn sem sundlaugarvörður í lauginni þar sem hún stundaði áður sundleikfimi.

Elísabet Inga Ingólfsdóttir sundlaugarvörður

„Ég var búin að heyra talað um VIRK þegar heimilislæknirinn minn nefndi þann möguleika að ég leitaði eftir samstarfi,“ segir Elísabet Inga Ingólfsdóttir sem haustið 2017 lauk vel heppnaðri samvinnu við VIRK. Elísabet Inga er fædd 1955 og hefur lengst af búið í vesturbæ Kópavogs.

„Faðir minn var hér með um tíma eitt stærsta hænsnabú landsins. Einmitt á þessu svæði sem við systkin fimm byggðum okkur síðar fjölbýlishús – ég hef því, ef svo má segja, eiginlega aldrei flutt að heiman,“ segir Elísabet Inga þegar blaðamaður dáist að frábæru útsýni úr gluggum hlýlegrar stofunnar og hefur orð á því.

Þegar ég svo hætti störfum þar sem ég vann vegna veikinda þá ákvað ég í samráði við lækninn minn að fara þessa leið og sjá hvernig það gengi,“ segir Elísabet.

Við sitjum hvor á móti annarri við borð- stofuborð þegar viðtalið hefst fyrir alvöru.

„Ég er sjúkraliði og vann á hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Þetta er erfið vinna. Bæði er starfið sem slíkt erfitt og einnig er mannekla á slíkum stofnunum mikil. Þetta leiðir til þess að ætlast er til æ meiri vinnu af þeim sem eru í starfi. Að við gerum meira og meira. Ég get sagt það hér og nú að gamla fólkið á hjúkrunarheimilinu er aðeins að fá grunnhjúkrun. Það segir við starfsfólkið: „Þið eruð alltaf að flýta ykkur – þið megið aldrei vera að því að staldra við og tala við okkur.“ Og það er alveg rétt. Þetta ástand skapar aukið andlegt álag fyrir starfsfólkið, auk hinnar líkamlegu vinnu sem aðhlynning aldraðra krefst.“

Hvenær laukstu sjúkraliðaprófi?
„Árið 1982. Ég ætlaði raunar að verða hjúkrunarkona. Það var alltaf í höfðinu á mér. En það endaði með að ég fór þessa leið eftir að hafa unnið sem ung stúlka í fjögur ár í Noregi á hóteli. Ég á enn þrjár vinkonur frá þeirri dvöl. Ég sá sem barn mynd frá Lillehammer og þangað ætlaði ég. Eftir að hafa gert þann draum að veruleika sneri ég mér sem sagt að því að læra að verða sjúkraliði. Það var styttra nám en að verða hjúkrunarfræðingur.“

Vannstu víða sem sjúkraliði?
„Ég hóf störf á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi. Þá var það nýtt – opnaði vorið sem ég lauk náminu. Mest hef ég unnið á öldrunarheimilum. Tvö ár vann ég sem sjúkraliði í Noregi – ætlaði raunar að flytja út en hætti við það. Einnig vann ég á Kópavogshæli, svo á „afeitrunardeild“ Landspítalans, eins og það var kallað þá og um tíma starfaði ég á handlæknisdeild á Landspítalanum. Þar fannst mér skemmtilegt að vinna. Lengst af hef ég þó unnið á öldrunarheimilum. Ég hef alltaf haft gaman af þessu starfi en svo kom sú stund að ég gat ekki unnið við þetta lengur. Það var dapurleg reynsla.“

Heilsan brast endanlega við brjósklosið

Hvað varð til þess að þú varðst að hætta?
„Heilsan fór. Gigtin var lengi búin að gera mér lífið erfitt, ég var greind með slitgigt og vefjagigt í kringum árið 2000. Fyrir fjórum árum var ég svo greind með liðagigt. Tveimur árum áður fékk ég viðvarandi taugabólgu í andlitstaug, svokallaða þrítaug. Því fylgir dofi í hálfu andlitinu og miklir verkir. Lengi var ég ekki á neinum lyfjum vegna þessa. Það tók talsverðan tíma að finna út hvað þetta væri sem að mér var. Ég var líka mjög þreytt og uppgefin. Loks fékk ég lyf sem dugðu. Einnig er ég á ýmsum gigtarlyfjum sem hjálpa mér.“

Hvað varði þetta erfiða ástand lengi áður en þú hættir að vinna sem sjúkraliði?
„Ég var búin að hugsa um það í þrjú ár að ég yrði að finna mér eitthvað léttara að gera. Svo fékk ég brjósklos í bak í ágúst fyrir rúmu ári og það gerði útslagið. Ég var með mikla verki sem leiddu niður í báða fætur. Sjúkraliðastarfið reynir mikið á bakið, maður er oft að hjálpa þungum og stirðum einstaklingum og það telur þegar fram í sækir. Ég hélt áfram og bara áfram þar til líkaminn sagði stopp.

Þann 25. ágúst 2016 gerðist það að eitthvað brast í bakinu á mér. Ég fór til deildarhjúkrunarfræðingsins og sagði: „Ég er farin í veikindafrí og ég veit ekki hvenær ég kem til baka.“

Tók þá samstarfið við VIRK við?
„Fljótlega já. Heimilislæknirinn minn hafði fylgst með mér á tveggja mánaða fresti í veikindafríinu. Áður en ég gafst upp á vinnunni þá höfðum við rætt um að ég yrði hugsanlega að sækja um örorkubætur. Ég þrjóskaðist þó við. Það var líka þrjóska sem hindraði mig í nokkurn tíma í að leita til VIRK. Svo kom að því að ég ákvað að láta reyna á samstarf þar. Ég var fyrst og fremst líkamlega veik og þreytt en auðvitað reyndi á andlegu hliðina líka, að vera allt í einu orðin óvinnufær.

Ég hafði samband við ráðgjafa hjá VIRK og einnig Sjúkraliðafélagið og fékk leið- beiningar. Samstarfið við VIRK hófst á því að ég sagði ráðgjafanum að ég gæti ekki farið aftur í mína fyrri vinnu. Það var í nóvember 2016. Ég þurfti ekki að sækja um endurhæfingarlífeyri því ég átti inni veikindafrí í eitt ár.

„Öll meðferðarúrræðin sem mér voru fengin unnu svo vel saman að þau hafa hjálpað mér til betri heilsu og nýs lífs. Framtíðarsýnin er því björt.“

Fékk strax öryggistilfinningu 

Ráðgjafinn hjá VIRK reyndist mér frábærlega. Ég fékk strax öryggistilfinningu þegar ég var komin til hans. Við ræddum saman og ég fékk daginn eftir tíma hjá sálfræðingi. Ég byrjaði einnig fljótlega að fara í sjúkraþjálfun hjá Gáska og sundleikfimi hjá Gigtarfélaginu. Það var mjög gott og einnig hjálpaði sálfræðingurinn mér mikið. Fólk talar oft um að það hafi ekkert að gera til sálfræðings. Mín reynsla er að þar sé mikla hjálp að fá. Sálfræðingurinn tók lausnamiðað á mínum veikindum. Svona var komið fyrir mér, hvað var til ráða og hvert á að stefna? Ég fékk góðan stuðning í bataferlinu og var í tveimur sálfræðitímum eftir að ég hóf störf að nýju. Alls fór ég í fimmtán tíma hjá sálfræðingnum.“ 

Var fleira sem þú gerðir í bataferlinu?
„Já, ég fór á núvitundarnámskeið sem reyndist mér vel. Ég nota talsvert öndunina sem ég æfði þar og næ þannig slökun ef ég verð stressuð. Loks fór ég á tölvunámskeið.“

Hafðir þú tölvukunnáttu áður?
„Nei, það get ég varla sagt. Ég kunni nánast bara að fara á Facebook og inn á netfangið mitt. Ég var lítið betur á vegi stödd eftir námskeiðið en sú niðurstaða skrifast á mig sjálfa. Farið var í Word, Excel og eitthvað fleira á þessu byrjunarnámskeiði – ég hreinlega náði ekki að fylgjast með að gagni. Hugmyndin að baki tölvunáminu var að ef ég hefði tölvukunnáttu gæti ég hugsanlega unnið á skrifstofu. Það hefði ég ekki getað. Ég sagði bæði ráðgjafanum hjá VIRK og kennaranum á námskeiðinu frá þeirri niðurstöðu minni. Eigi að síður þótti mér þetta bæði skemmtileg og áhugaverð reynsla.“

Ertu búin að ná heilsu?
„Ef ég passa mig og geri bakæfingar sem mér voru kenndar þá gengur þetta. Fyrir kemur að ég leggst á bakið í vinnunni og geri æfingar. Um daginn voru tvær dömur í sundlauginni. Þær sáu mig á gólfinu og fóru að hvíslast á. Svo komu þær til mín til að athuga hvort ekki væri allt í lagi með mig. Ég sagði svo vera – ég væri bara að gera æfingar.“

Þú ert sem sagt farin að vinna?
„Já, ég er komin í vinnu og það fyrr en ég bjóst við. Ég fékk starf við Sundlaug Sjálfsbjargarheimilisins að Hátúni 12. Þessi vinna var auglýst. Ég var þá í sundleikfimitímum Gigtarfélagsins í umræddri sundlaug. Ég fór að spyrja um þessa vinnu, í hverju hún fælist og svo framvegis. Svo hugsaði ég: „Æ – ég er ekkert að sækja um þetta.“ Nokkru síðar kom ég í sundleikfimi og frétti að búið væri að ráða í starfið. Í sumar kom ég svo í laugina í leikfimi hjá Gáska. Ég var að fara ofan í laugina þegar sundlaugarvörðurinn kallaði á mig og bað mig að ræða við sig. Ég gerði það. „Þú sóttir aldrei um vinnuna?“ sagði vörðurinn. Nei, ég sagðist ekki hafa gert það. „Hefur þú áhuga á starfinu?“ Já, ég kvaðst hafa það. „Viltu þá ekki bara fara upp og tala við yfirmanninn?“ Jú, ég vildi það. „Má ég samt ekki klára tímann fyrst og fara svo?“ sagði ég. Það var velkomið. Ég ræddi svo við yfirmanninn og niðurstaðan varð að ég gerðist sundlaugarvörður við Sjálfsbjargarlaugina. Segja má að ég hafi farið „upp úr djúpu lauginni og stokkið svo beint út í hana aftur“.

Mér líkar þetta starf harla vel. Það var vel tekið á móti mér. En starfið er ólíkt því sem ég hef áður stundað. Ég hef þurft að venjast því að taka það mun rólegar en áður – miðað við starfið á öldrunarheimilinu.“

Væri ekki í vinnu nema fyrir VIRK

Hvað viltu segja um reynslu þína af samstarfinu við VIRK?
„Þegar ég fékk starfið sem sundlaugarvörður var ég komin á það stig að ráðgjafinn og ég vorum farin að ræða um að ég mætti fara að líta í kringum mig – sækja um og þannig lagað. Svo fékk ég bara þessa vinnu upp í hendurnar. Ég er í hundrað prósent vinnu og ræð við það. Slíkt hefði ég ekki getað hefði ég ekki leitað til VIRK. Gott er líka að vita að ég get rætt við ráðgjafann minn ef ég þarf næsta árið.

Hvað snertir reynslu mína af VIRK þá var það „heildarpakkinn“ sem virkaði fyrir mig. Sú samhæfing sem sérfræðingar VIRK hafa komið á fyrir fólkið sem leitar þar samstarfs. Öll meðferðarúrræðin sem mér voru fengin unnu svo vel saman að þau hafa hjálpað mér til betri heilsu og nýs lífs. Framtíðarsýnin er því björt.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband