Viktor Rúnarsson
Viktor lauk samstarfi við VIRK fyrir rúmu ári. Hann er innfæddur Kópavogsbúi og leitaði til VIRK að ráði heimilislæknis og ráðgjafa hjá Vogi.
„Ég sótti um samstarfið hjá VIRK sumarið 2023 og var mættur á fyrsta námskeiðið í lok ágúst sama ár. Ég fékk góðan ráðgjafa og mætti í hóp ungs fólks sem kallast víst Ung VIRK, þar er fólk á aldrinum sextán til tuttugu og níu ára. Sjálfur er ég nýlega tuttugu og fimm ára og þetta samstarf við Ung VIRK gaf mér þann tíma sem ég þurfti til að ná mér á strik,“ segir Viktor.
„Ég fékk tíma til að hugsa mig um og rækta sjálfan mig og ég fékk tækifæri til að fara í ræktina og á fundi og á AA-fundi. Þeir fundir hafa gert mikið fyrir mig og hjálpað mér að vera edrú,“ bætir hann við.
Hvaða áætlun lagðir þú upp með hjá ráðgjafa VIRK í upphafi?
„Ég byrjaði hjá Toppnum, námskeiði hjá Framvegis sem Ung VIRK vísaði mér í, það var mjög næs, góð fylling upp í daginn. Reyndar var margt af því sem þar fór fram svipað og ég upplifi á AA-fundum og í meðferðinni á Vík. Hluti af Toppnum var að sækja æfingar, mikil áhersla var lögð á hreyfingu, að minnsta kosti hjá mér. Þetta er samt einstaklingsmiðuð starfsemi og fyrir mig er hreyfingin mikilvæg. Í hálft ár var lífið hreyfing og fundir.“
Hvaða hreyfingu valdir þú?
„Ég valdi að fá kort í heilsurækt og sund og stundaði hvort tveggja af miklum móð. Eftir að Toppnum lauk þá fór ég á lengra námskeið sem heitir Stökkpallurinn. Það námskeið var mjög fróðlegt og hentaði mér vel. Ég fræddist um samskipti, fíknisjúkdóma, heilsu og matarræði. Einnig um mikilvægi rútínu og skipulags.“
Góð stemning í hópnum
Myndaðir þú tengsl við þá sem voru samtíða þér í þessum hópum?
„Já, það var góð stemning í hópnum og ég passaði að vera virkur í starfinu. Jafnframt þessum námskeiðum og hreyfingunni sótti ég alla daga AA-fundi. Ég leit á endurhæfinguna sem fullt starf. Ég hafði nóg að gera allan daginn.“
Ég leit á endurhæfinguna sem fullt starf. Ég hafði nóg að gera allan daginn.
Hvert var langtíma markmið þitt í samráði við ráðgjafa VIRK?
„Að fara aftur í nám. Ég var að læra pípulagnir en hætti. Markmiðið sem ég setti mér var að ljúka við nám í pípulögnum sem fram fer í Tækniskólanum Hafnarfirði. VIRK hjálpaði mér að byrja aftur, ég fór í fimmtíu prósent nám meðfram starfinu í VIRK og mér var leiðbeint að sækja um endurhæfingarlífeyri sem ég fékk. Þetta fyrirkomulag gerði mér kleift að sækja skólann, líkamsrækt og AA-fundi án þess að þurfa að fara strax út á vinnumarkaðinn. Þannig leið vorönnin árið 2024.“
Hreyfing gerir mann heilbrigðari
Hvað fannst þér mikilvægast í því sem þú tileinkaðir þér á námskeiðunum hjá Ung VIRK?
„Rútína, að hafa skipulag á deginum og bara lífinu. Setja sér markmið og vera svolítið í „deginum í dag“. Hreyfingin skipti líka miklu mál. Hún gerir mann hraustari og heilbrigðari og manni líður betur í eigin skinni.“
Leitaðir þú eftir sálfræðiþjónustu á vegum VIRK?
„Nei, ég gerði það ekki, það var alltaf planið að gera það en ég var bara með svo mikið af fólki sem ég gat talað við á þessum tíma. Ég er heppinn með tengslanet, á fjölskyldu sem hefur staðið með mér í þessu ferli.
Leið mín inn í VIRK lá í gegnum meðferðina hjá Vogi og Vík. Þar ræddi ég við lækna og ráðgjafa og aðra vistmenn inni á Vík. Sumir þeirra höfðu farið í endurhæfingu sjálfir og ráðlögðu mér að sækja um hjá VIRK. Ég byrjaði að smakka vín í menntaskóla og neyslan jókst hratt. Ég hætti í skóla árið 2020. Þá fór ég að vinna á veitingastað og við útkeyrslu hjá ýmsum fyrirtækjum og bara það sem bauðst. Ég hóf nám í pípulögnum á kóvíd-tímabilinu en flosnaði upp úr því eftir rúmt ár.“
Af hverju valdir þú pípulagnir?
„Ég fór í grunnnám í Iðnskólanum í Hafnarfirði og heillaðist af þessu námi, það spillti heldur ekki fyrir að ég hafði frétt að það væri vel launað. Þetta virðist flókið í fyrstu en þegar maður fer að vinna við pípulagnir þá raðast þetta upp fyrir manni. Ég tek sveinspróf næsta vetur.“
Ánægður með þá aðstoð sem ég fékk hjá VIRK
Var þetta nám eitthvað sem þú og ráðgjafi VIRK lögðuð upp með?
„Já, ég sagði ráðgjafanum að mig langaði að klára pípulagninganámið og í framhaldi af því hafði ég sjálfur samband við námsráðgjafa og skólastjóra Tækniskólans. Ráðgjafinn minn hjá VIRK var meðmælandi minn. Ég var heiðarlegur við skólayfirvöldin og sagði þeim frá því hvers vegna ég hefði hætt og hvað ég væri búinn að gera í mínum málum. Mér var vel tekið og fékk skólavist. Þá leið mér mjög vel – allt var að smella saman fannst mér.“
Markmiðið sem ég setti mér var að ljúka við nám í pípulögnum sem fram fer í Tækniskólanum í Hafnarfirði.
Hvað viltu segja um það sem þú gerðir hjá VIRK?
„Að það hafi verið rétt ákvörðun hjá mér að leita þangað. Ég er ánægður með að hafa nýtt alla þá möguleika sem það samstarf bauð upp á. Ég nýtti alla möguleika sem ráðgjafinn benti mér á og þótt ég hafi ekki sótt mér sálfræðiþjónustu þá fór ég til markþjálfa og það reyndist mér vel. Ég gerði plan með markþjálfanum þegar ég hitti hann í upphafi og svo hitti ég hann þegar ég lauk samstarfinu við VIRK og við sáum að það sem ég hafði sett mér hafði gengið upp.
Ég er líka ánægður með að hafa spurt þeirra spurninga sem mér lágu á hjarta á námskeiðunum Toppi og Stökkpalli og sömuleiðis spurt ráðgjafann minn hjá VIRK þeirra spurninga sem ég vildi fá svar við.
Ég vil loks leggja áherslu á að ef fólk er að velta fyrir sér að fara í starfsendurhæfingu þá bara að drífa í því, svarið er að gera það óhikað og því fyrr því betra. Ég er ánægður með þá aðstoð sem ég fékk hjá VIRK og ég upplifði góða þjónustu en ég var svolitið smeykur þegar ég hætti þar, hvað tæki við.
Ráðgjafinn minn hringdi í mig og fylgdist aðeins með mér fyrst eftir að ég hætti í samstarfi við VIRK og það veitti öryggi. Fljótlega kom í ljós að það sem ég hafði byggt upp virkaði og þá var óöryggið fljótt að fara.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason
Viðtal úr ársriti VIRK 2025.