Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Með jákvæðnina að vopni

Með jákvæðnina að vopni

Katrín Björg Andersen glímir við vefjagigt en fyrir tilstilli VIRK hefur hún tileinkað sér ýmis tæki og úrræði til að láta sér líða eins vel og mögulegt er.

Katrín Björg Andersen

Heimilislæknir í Efastaleiti í Reykjavík benti mér á VIRK. Ég hafði verið að vinna hjá Heimaþjónustunni, en gat engan veginn sinnt þeirri vinnu fyrir verkjum, svo ég fór í veikindaleyfi. En í staðinn fyrir að mér batnaði varð ég verri og verri. Þá sagði þessi læknir við mig að ég skyldi snúa mér til VIRK, það væri greinilega meira sem ég þyrfti en veikindaleyfi í einn mánuð. Læknirinn sagði mér að hjá VIRK fengi ég þá aðstoð sem ég þyrfti til þess að koma aftur í vinnu eða finna mér annan vettvang. Ég sé ekki eftir því, aðstoðin frá VIRK hefur komið mér ansi langt.“

Greindist með vefjagigt

„Ég hafði verið tæpt ár að vinna í Heimaþjónustunni, en áður hafði ég unnið á leikskóla. Ég var ánægð í Heimaþjónustunni, en líkamlega reyndist mér vinnan of erfið. Ég var á þessum tíma einstæð með lítinn dreng. Ég hafði fundið fyrir verkjum allar götur frá því ég var um fermingu, mismiklum þó, en vorið 2011 var é sem sagt í orðin afskaplega slæm. Ég taldi það stafa af álagi, en smám saman skýrðist hvað að mér væri, og eftir að hafa talið við marga lækna, þar með talið gigtarlækna, fékk ég þá greiningu að ég væri með vefjagigt. Mér hafði á köflum liðið betur áður, einkum ef ég stundaði hreyfingu, göngur eða sund, og hugsaði um mataræði mitt. Ég sé núna, þegar ég lít aftur, að þessir þættir, auk álags, hafa haft mikið að segja um líðan mína á hverjum tíma.“

Katrín Björg er 27 ára gömul og á 8 ára gamlan son og eiginmann sem hún segir að hafi stutt sig mikið þessi tvö ár sem hún hefur verið í samvinnu við VIRK.

„Það má raunar segja að ég eigi það VIRK að þakka að ég og maðurinn minn hittust. Vegna veikinda minna þurfti ég, fyrir jólin 2011, að koma syni mínum til dvalar hjá móður minni og stjúpföður. Um svipað leyti innritaði ég mig í grafíska miðlun í Tækniskólanum – það tækifæri bentu ráðgjafar VIRK mér á. Þar hitti ég manninn minn. Við höfum nú verið í sambandi í eitt og hálft ár og fljótlega eftir að ég fór að lagast tók ég drenginn minn aftur til mín og við eigum gott og náið samband, öll þrjú.

Segja má að ástand mitt hafi versnað mjög hratt þegar ég datt út af vinnumarkaði í júní 2011. Þótt ég synti á hverjum einasta degi í tvo mánuði hélt mér áfram að versna. Þannig var ég á mig komin þegar ég hitti ráðgjafa hjá VIRK eftir að hafa haft samband við sjúkrasjóðinn hjá Eflingu. Á fyrsta fundinum var staðan metin, hvernig ástandið væri hjá mér og hvað ég sæi framundan. Allt var miðað út frá því hvað ég vildi gera og hvað ég sæi fyrir mér. Mér fannst mér aldrei neydd í neitt eða sett í þvingaðar aðstæður. Ég fékk að stjórna ferðinni, sem er mér mikilvægt.“

„Eftir þá frábæru þjónustu og aðstoð sem ég hef fengið hjá VIRK langaði mig til að miðla reynslu minni. Reyndar álít ég ekki að einhver annar geti farið alveg sömu leið og ég, það verður hver að finna sína eigin leið, en ég veit núna að með jákvæðnina að vopni er hægt að vinna ýmsa sigra með stuðningi ættingja, vina - og ekki síst VIRK og þess fagfólks sem þar starfar.“

VIRK hafði mörg úrræði

„Ráðgjafinn útvegaði mér tíma hjá sjúkraþjálfara. Fyrst fór ég tvisvar í viku, svo vikulega, og einnig fékk ég sálfræðitíma. Mér fannst erfitt að heimsækja sálfræðinginn fyrst. Mér voru úthlutaðir sex tímar, og ég taldi að ég myndi ekki þurfa að nota þá, en þegar til kom og ísinn hafði verið brotinn, fannst mér mikil hjálp í því að ræða við sálfræðinginn.

Ég hef ýmis úrræði reynt sem VIRK hefur boðið mér uppá, flest hefur hentað mér, en þó ekki allt. En ég var óhrædd við að prófa allt eigi að síður, þótt mér litist ekkert sérstaklega vel á það, og því var vel tekið þótt ég drægi mig til baka eða vildi ekki byrja þegar til átti að taka. Mér stóð til dæmis til boða að fara í Heilsuborg, en fannst tækjaleikfimi ekki árennileg og hætti því við og það var allt í stakasta lagi. Fyrir ári var fyrir milligöngu heimilislæknis og VIRK sótt um vist fyrir mig á Reykjalundi. Þar dvaldi ég svo í fimm vikur í sumar og sú dvöl gerði mér afskaplega gott. Áður hafði ég helst viljað synda og ganga, en á Reykjalundi kynntist ég tækjaleikfimi og er alls ekki afhuga henni núna og gæti því vel hugsað mér að skoða Heilsuborg á ný. Ég hef átt mína góðu og slæmu daga og tímabil, ég hef reynt með opnun huga að nýta mér það sem til boða hefur staðið og það hefur fleytt mér áfram til þeirrrar heilsu sem ég nú hef.

Ég veit nú að vefjagigtin mun ekki batna, en fyrir tilstilli VIRK og þeirra sem ráðgjafar þar hafa bent mér á, hef ég áttað mig á að ég hef ýmis tæki og úrræði til að láta mér líða eins vel og mögulegt er. Ég er fremur hugmikil að eðlisfari og hef jafnan gert miklar kröfur til sjálfrar mín, nú hef ég lært að ætla mér af, taka einn dag í einu og reyna að fara ekki framúr mér.

Ég hélt matardagbók á Reykjalundi og komst að því að það sem ég hafði borðað hentaði mér ágætlega, hins vegar hafði ég ekki borðið nægilega reglulega, en það geri ég núna. Þegar mér leið sem verst átti ég erfitt með að sofa, svaf óreglulega, stundum langt fram á dag, en með bættri heilsu hefur mér tekist að koma lagi á svefninn. Mér hafa verið boðin ýmsis lyf og ég hef prófað þau, en ég tek engin lyf núna, ég vil vera laus við lyf ef ég mögulega get.

Eftir þá frábæru þjónustu og aðstoð sem ég hef fengið hjá VIRK langaði mig til að miðla reynslu minni. Reyndar álít ég ekki að einhver annar geti farið alveg sömu leið og ég, það verður hver að finna sína eigin leið, en ég veit núna að með jákvæðnina að vopni er hægt að vinna ýmsa sigra með stuðningi ættingja, vina - og ekki síst VIRK og þess fagfólks sem þar starfar.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband