Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Hjálpar mest að taka slaginn

Hjálpar mest að taka slaginn

Eyrún Huld glímdi við kvíðaröskun í fimmtán ár og var föst í vítahring sem hún náði að rjúfa og snúa aftur inn á vinnumarkaðinn með aðstoð VIRK.

Eyrún Huld Árnadóttir markaðsfræðingur

Stundum hefur fólk liðið mikið áður en það leitar til VIRK og reynt lengi á margvíslegan hátt að finna lausn á vanda sínum.

Eyrún Huld Árnadóttir á að baki fimmtán ára þrautagöngu vegna kvíðaröskunar og reyndi sjálf á ýmsan hátt að bæta líðan sína. Það var ekki fyrr en hún fór í samstarf við VIRK sem tekið var heilstætt á heilsufarsvandamálum hennar með þeim árangri að henni hefur tekist að komast til mun betri heilsu.

„Hið erfiða tímabil ævi minnar byrjaði má segja þegar ég var í fyrsta jólaprófinu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Vafalaust hef ég verið með undirliggjandi kvíða miklu fyrr og hugsanlega er þetta ættgengt. En þegar ég settist þarna í prófið gerðist eitthvað innra með mér sem olli því að ég fékk ofsakvíðakast í fyrsta skipti,“ segir Eyrún Huld Árnadóttir. „Ég gat þó lokið við prófið og náði því. Þeir sem eru kvíðnir fá yfirleitt mjög fínar einkunnir, gjarnan er þetta fólk með fullkomnunaráráttu. Ég lauk BSnámi í ferðamálafræði.“

Eyrún Huld, sem er fædd 1978, er frá Höfn í Hornafirði, þar ólst hún upp þar til hún var sextán ára.

„Ég lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskólanum við Ármúla og þaðan lá leiðin í Háskóla Íslands. Þá var ég orðin tveggja barna móðir, kynntist manninum mínum meðan við enn vorum í menntaskóla. Tvítug átti ég fyrstu dóttur mína og þá næstu þegar ég var tuttugu og tveggja ára.

Hikaði lengi við að leita til læknis

Var þér kvíðaröskunin til vandræða öll námsárin?
„Já, en ég fékk lengri próftíma en aðrir og ég fór yfirleitt ekki í neinar ferðir sem tengdust náminu nema þá á eigin bíl.

Ég hafði þetta svona af því að eftir fyrsta ofsakvíðakastið varð ég mjög lasin líkamlega. Þau veikindi hófust á milli jóla og nýárs árið 2003 og lýstu sér meðal annars í niðurgangi sem stóð samfleytt í þrjá mánuði svo ég gat varla út úr húsi fyrr en leið að vori. Ég gat mætt í tíma í skólanum með því móti að borða ekkert áður en ég fór af stað. Síðan fór ég heim og hélt mig þar.

Ég hikaði lengi vel við að fara til læknis, fannst það hálf vandræðalegt. Loks gerði ég það þó og fór þá til margra lækna. Það leið töluverður tími þar til ég fékk loks útskýrt að ég hefði Fight and Flight viðbragð, sem er eitt afbrigði kvíðaröskunar. Óttinn orsakar þá að líkaminn losar sig sem fyrst við úrgangsefni. Salernisferðir mínar urðu því æði margar. Þetta hafði þau áhrif á líf mitt að ég fór helst ekki neitt nema vera viss um að ég kæmist auðveldlega á salerni. Sem betur fór sýndi maðurinn minn mikinn skilning þessum erfiðleikum mínum og ótrúlega þolinmæði.

Hið jákvæða í þessu var að ég var mikið heima og var helst ekki að vinna á sumrin. Það kom auðvitað börnunum og heimilinu vel. Ég fékk atvinnuleysisbætur sumarið eftir fyrsta veturinn minn í Háskóla Íslands. Ég var ekki vinnufær vegna kvíða en ég gætti þess vel að gera sem minnst úr erfiðleikum mínum. Ekki er langt síðan ég „kom út úr skápnum“ með þetta. Mér fannst bæði vandræðalegt að ræða kvíða minn og afleiðingar hans sem komu auk líkamslegs lasleika einnig fram í örvæntingu og grátköstum.

Mér fannst ég líka mæta ákveðnum fordómum vegna veikinda minna. Ég fór á milli lækna en þeir vissu ekki í fyrstu hvað væri að mér. Svo gerðist það að ég fékk slæmt ofsakvíðakast og fór á bráðadeild, hélt ég væri að kafna. Eldri læknir sem skoðaði mig sagði: „Ætli þú sért ekki bara með kvíðaröskun?“ Í næsta kasti leitaði ég því á geðsvið Landspítalans og fékk aðstoð, svo sem hugræna atferlismeðferð og lyf. Aukaverkanir lyfjanna voru svo slæmar að ég hætti á þeim. Þau deyfðu mig það mikið að mér fannst ég eins og lifandi dauð. Ég hætti að taka þau þegar ég varð ófrísk að þriðju dóttur minni.

„Ég hef komið lífi mínu í góðan farveg og gæti þess að halda mér við efnið.“

Föst í vítahring

Ég skánaði við hugrænu aðferlismeðferðina og fleira sem ég prófaði – en mér batnaði ekki. Ég fór til sálfræðings en fannst hann lítið gera fyrir mig - kom jafnvel ekki þegar ég átti tíma. Mér fannst það þungbær höfnun og ári síðar lagði ég fram kvörtun til umboðsmanns sjúklinga vegna þessa. Fljótlega eftir það hringdi geðlæknir til mín. Mér var svo vísað til geðhjúkrunarfræðings sem gerði mér gott. Ég fór líka í iðjuþjálfun. Ástand mitt skánaði, ég gat gert ýmislegt sem ég gat ekki áður. Geðhjúkrunarfræðingurinn beitti dáleiðslu til að fá mig til að slaka á, setti mig í nálastungur og nýtti þekkingu sína í EMDR, sem er meðferð við áfallastreituröskun eins og illa haldnir hermenn fá stundum. Loks fór ég í iðjuþjálfun.“

Ég hafði fengið mér vinnu á leikskóla og það gekk. Margt treysti ég mér þó ekki í – var alltaf á hálfgerðum flótta undan þessum vandræðum. Réði mig aðeins í vinnu þar sem ég hafði svigrúm. Í raun stjórnaði kvíðaröskunin lífi mínu og smám saman vissi ég hvar öll helstu almenningssalerni voru í Reykjavík. Ég upplifði skömm vegna veikinda minna en hafði líklega sjálf mesta fordóma gagnvart þeim.

Ég vildi ekki segja að ég væri veik heldur fannst mikilvægt að segja umhverfinu að ég væri að sinna ýmsum verkefnum. Á hinn bóginn hef ég gert margt sem ég ella hefði ekki fengist við ef kvíðinn hefði ekki hamlað mér. Ég hætti að reykja og drekka kók, fór í heilsurækt og jóga – hreyfing er mér brýn nauðsyn. Og ekki má gleyma hugleiðslunámskeiði sem ég fór á og gerði mér gott.

Smám saman fékk ég meira sjálfstraust. Þar kom að ég ákvað að hætta að vinna á leikskólanum og fara aftur í nám. Í Háskóla Íslands fór ég í mastersnám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og lauk því árið 2012. Ég var óneitanlega mjög kvíðin meðan á því námi stóð.“

Hvað varð til þess að þú leitaðir til VIRK?
„Eftir námslokin þurfti ég aðstoð við að takast á við kvíðaröskunina. Ég leitaði á geðsvið Landspítalans og fékk þar góða aðstoð. Þar hitti ég mann sem vann sem sjálfboðaliði við að hjálpa fólki að finna vinnu við sitt hæfi. Hann fór yfir málin með mér. Við hittumst af og til í hálft ár, fyrir hans tilstilli fékk ég vinnu. Þessi maður fór síðar að vinna hjá VIRK. Á geðsviðinu var mér bent á að ræða við ráðgjafa VIRK hjá stéttarfélagi mínu svo ég gæti sótt um endurhæfingarlífeyri meðan ég væri að vinna í mínum málum. Ég fékk nöfn á ráðgjöfum sem ég gæti leitað til og skoðaði myndir af þeim sem til greina komu. Valdi svo mannesku sem mér fannst góðleg á myndinni.

Ráðgjafinn minn hjá VIRK sagði mér þegar ég útskrifaðist að í fyrstu hefði hann talið að ég þyrfti ekki aðstoð lengi – ég er yfirleitt róleg og kem vel fyrir. Svo fór þó að ég var í þessu samstarfi við VIRK í tvö ár. Mér fannst þetta ótrúlega erfitt í upphafi og grét oft. Ég var spurð hvers vegna ég væri þarna og hvað ég vildi að gert væri fyrir mig. Þetta var mér afar viðkvæmt því ég átti bágt með að tjá vanda minn – en ég gerði það. „Langar þig að vinna?“ sagði ráðgjafinn. Ég sagði eins og var að helst langaði mig upp í rúm og breiða sængina yfir höfuð.

Á vinnusamningi frá VIRK

Ráðgjafinn fékk fyrir mig sálfræðitíma hjá Kvíðameðferðarstöðinni hjá sálfræðingi sem mér líkaði mjög vel við. Fyrst fór ég til hans einu sinni í viku en smám saman tók að lengjast tímabilið milli funda okkar. VIRK lagði út fyrir þessu öllu. Aðstoðin sem ég fékk hjá VIRK fólst mest í sálfræðitímunum. Satt að segja hefði ég ekki verið tilbúin í þetta samstarf fyrr. Svona sjálfsvinna reynir mikið á.

Ég fékk endurhæfingarlífeyri í eitt og hálft ár. Þar kom svo að ég fór að fara í atvinnuviðtöl í samráði við ráðgjafa VIRK. Ég hef vafalaust verið mjög stíf í þeim viðtölum en ég mætti þó með mína ferilskrá. Ég fékk vinnu hjá sjávarútvegsfyrirtæki við skrifstofustörf. Þar byrjaði ég á vinnusamningi sem VIRK gerði fyrir mig. Eftir að honum lauk fékk ég vinnu þarna áfram. Þetta gekk fínt í þrjú ár en þá fannst mér kominn tími til að breyta. Ég vildi fá vinnu á mínum forsendum og fékk hana. Ég vinn núna hjá fyrirtæki sem framleiðir hollt fæði. Það er skemmtilegt koma í vinnu þar sem maður er algerlega á eigin verðleikum, núna finnst mér ekkert mál að sækja um vinnu.“

Tókst þér að halda heimilis- og fjölskyldulífi í lagi?
„Já, mér hefur tekist það. Ég missti að vísu um tíma dálítið samband við vini mína en hef verið að vinna það upp. Ég gætti þess sem fyrr sagði að hafa alltaf eitthvað viðfangsefni sem ég gæti sagt að ég væri að vinna að. Þannig gat ég komist hjá að viðurkenna að ég væri heima vegna kvíða. Núna er ég í jóga og Crossfit, ég set hreyfingu í forgang. Ég er líka í hugleiðslu, læknir sem ég rakst einu sinni á benti mér á að slíkt gæti hjálpað gegn kvíða og ég hef verið í hugleiðslu síðan. Svo sinni ég auðvitað heimilinu og vinn mína vinnu samviskusamlega.

Tvö ár eru síðan ég hætti í samstarfinu við VIRK. Ég veit að ég gæti leitað til ráðgjafans míns ef ég þyrfti og einnig gæti ég farið í sálfræðitíma, ég er með tölvupóstfang hjá sálfræðingnum. En núna líður mér það vel að ég þarf þess ekki. Ég hef komið lífi mínu í góðan farveg og gæti þess að halda mér við efnið. Ýmislegt er ég þó ekki farin að treysta mér til ennþá – svo sem að standa upp og halda ræðu. En ég tek æ fleiri áskorunum og reyni að lifa sem mest í núinu. Það hjálpar mest að taka slaginn. Ég er þakklát fyrir það sem lífið hefur fært mér og fyrir það sem fyrir mig hefur verið gert.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband