Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Fylltist sjálfstrausti á ný

Fylltist sjálfstrausti á ný

Sólveig Sigurjónsdóttir sneri aftur til starfa á ný eftir eins og hálfs árs veikindaleyfi.

Sólveig Sigurjónsdóttir

,,Það var ekki fyrr en ég hitti Karen ráðgjafa sem ég fékk svör við öllum mínum spurningum um hvað tæki við þegar ég færi af launum vegna veikinda. Ég var búin að fara víða en mér fannst ég hvergi fá nógu greinargóð svör. Ég var alveg ráðþrota og auk þess full af áhyggjum yfir því að fá kannski ekki aftur vinnu. Karen leiddi mig í gegnum þetta allt og ég fylltist sjálfstrausti á ný. Ég fann betur fyrir því að ég væri einhvers virði og að allt væri ekki búið,“ segir Sólveig Sigurjónsdóttir.

Sólveig, sem er 65 ára, er nú komin til starfa á ný eftir eins og hálfs árs veikindaleyfi. Veikindin höfðu reyndar hrjáð hana löngu áður en hún hætti að vinna.

Ofsalega þjáð

 ,,Ég hafði unnið við aðhlynningu alla mína starfsævi þar til ég ákvað að breyta til fyrir nokkrum árum og gerðist skólaliði í Foldaskóla. Ég uppgötvaði það ekki fyrr en ég var byrjuð að vinna þar að það var búið að sameina gangavörslu og ræstingar í eitt starf. Það var endalaust bætt við ræstingarnar og ég gat þetta ekki og sagði upp eftir að hafa unnið þarna í einn vetur. Næsta vetur fór ég að vinna sem skólaliði í Rimaskóla en þar var líka verið að bæta við ræstingarnar. Ég þoldi þær ekki vegna veikindanna og gafst á endanum upp eftir sjö mánuði. Þegar ég fór að ræsta gúlpaðist nefnilega upp úr maganum á mér og upp í lungu og þessu fylgdi mikill sársauki.“

Að sögn Sólveigar voru læknar lengi að komast að því hvað amaði að henni. ,,Þeir greindu mig fyrst sem lungnasjúkling og létu mig á stera. Ég hélt því stöðugt fram að ég væri ekki lungnaveik, heldur væri eitthvað að maganum. Það kom svo loks í ljós að um bakflæði var að ræða og magasár. Ég var búin að vera ofsalega þjáð og þegar svona gerist þá verður maður að hætta að vinna.“

,,Ég á eftir að ráðleggja öðrum sem veikjast að notfæra sér þessa frábæru þjónustu. Ég held að því miður viti ekki margir af þessu.“

Mikið áfall

Sólveig segir það hafa verið mikið áfall að standa allt í einu frammi fyrir því að hafa enga vinnu og vita ekkert hvað væri framundan. ,,Maður fer strax að hafa áhyggjur af framtíðinni þegar maður veikist því að það lifir enginn á loftinu. Sem betur fer sá ég af tilviljun auglýsingu um Starfsendurhæfingarsjóð í Fréttablaðinu. Ég hringdi og spurði hvort hægt væri að fá aðstoð og fékk tíma hjá Karen Björnsdóttur, ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar hjá BSRB, fljótlega eftir að ég var komin í veikindaleyfi. Karen sótti um allt fyrir mig sem ég átti rétt á þegar ég fór af launaskrá og fór í gegnum það allt með mér ásamt læknunum mínum. Það fylgdi því mikil öryggiskennd að njóta aðstoðar hennar við þessar umsóknir. Ég veit ekki hvernig ég hefði annars farið að því að ég var algjörlega ókunnug öllu þessi kerfi.“

Fékk bata og nýtt starf

Það var svo í desember síðastliðnum sem Sólveig fór loks í aðgerð vegna bakflæðisins. ,,Ég gerði síðan sjálf allt sem ég gat til þess að ná mér eftir veikindin. Ég hef alltaf verið mikil útivistarmanneskja og hef farið út að ganga á hverjum degi í fjölda ára. Eftir aðgerðina hélt ég gönguferðunum áfram til þess að missa ekki alveg þróttinn. Nú í haust var ég komin það vel á veg að ég treysti mér til þess að fara að vinna á ný. Ég spurði fyrrverandi vinnuveitanda minn hjá Eir hvort hún vildi mig aftur í aðhlynningarstörf og hún hélt það nú.“

Sólveig kveðst ætla að láta samstarfsmenn sína vita af aðstoðinni sem hægt er að fá hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. ,,Ég á eftir að ráðleggja öðrum sem veikjast að notfæra sér þessa frábæru þjónustu. Ég held að því miður viti ekki margir af þessu. Ég gat og get enn alltaf leitað til Karenar sem vill allt fyrir mig gera. Hún vill fylgjast með mér áfram og það er gott að geta treyst henni fyrir öllu.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband