Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Fékk markvissa hvatningu og aðstoð

Fékk markvissa hvatningu og aðstoð

Hildur Sigurðardóttir hefur átt við bakveiki að stríða frá unglingsárum. Hún var greind með brjóskeyðingu og hefur tvisvar sinnum fengið brjósklos þótt hún sé aðeins 41 árs. Verkir í baki hafa lengi háð henni í starfi.

Hildur Sigurðardóttir leikskólakennari

Hildur Sigurðardóttir, leikskólakennari á Akureyri, hefur átt við bakveiki að stríða frá unglingsárum. Hún var greind með brjóskeyðingu og hefur tvisvar sinnum fengið brjósklos þótt hún sé aðeins 41 árs. Verkir í baki hafa lengi háð henni í starfi.

„Ég gat yfirleitt stundað vinnu en þó komu dagar sem ég varð mjög slæm,“ segir Hildur sem er nýútskrifuð frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði. „Það komu tímabil þar sem ég þurfti að minnka við mig starfshlutfall vegna bakverkja.“

Hildur hefur starfað á leikskóla í tuttugu ár en hún útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2006. „Ég hef þurft að hreyfa mig reglulega en var ekki nægilega dugleg við það. Leikskólastarfið er erfitt, sérstaklega þegar unnið er með ungum börnum. Maður getur ekki valið að vinna með elstu börnunum sem hefði hentað mér betur. Það þarf meira að lyfta þeim yngri og bogra yfir þau. Það reynir töluvert á bakið,“ útskýrir Hildur.

Í september á síðasta ári fékk Hildur hnykk á sig í vinnunni og það fór með bakið. Í framhaldinu þurfti hún að hætta að vinna. Hildur var svo þjökuð að hún lagðist í rúmið um tíma þótt hún viðurkenni að það sé ekki besta lækningin. „Ég haltraði um íbúðina skökk og snúin, gat til dæmis ekki sest inn í bíl. Ég gat eiginlega ekkert gert í langan tíma,“ segir Hildur sem er gift og þriggja barna móðir. Börn hennar eru 22, 15 og 10 ára. „Bæði eiginmaður minn og börnin hafa verið afskaplega dugleg að hjálpa við heimilisstörfin,“ segir hún.

Ómetanleg aðstoð

„Fljótlega byrjaði ég í sjúkraþjálfun og vinnuveitandi minn benti mér á VIRK. Ég fór og ræddi við Elsu Sigmundsdóttur ráðgjafa og það var algjörlega frábært. Ég hitti Elsu síðan einu sinni í viku. Hún beitti sér fyrir því að haldið var betur utan um sjúkraþjálfunina sem varð fljótt markvissari en áður. Einnig útvegaði hún tíma hjá sálfræðingi og upplýsti mig um veikindarétt minn. Auk þess var Elsa í beinu sambandi við lækni og þjálfara. Ég hafði aldrei áður farið til sálfræðings og það kom mér á óvart hversu tímarnir hjá sálfræðingnum gerðu mér gott og auðvelduðu mér að tala um líðan mína.

Hjá VIRK fékk ég mjög góða ráðgjöf og ómetanlega aðstoð varðandi réttindi mín. Ég fékk þess utan mikla hvatningu til að hreyfa mig reglulega og hef síðan farið út að ganga á hverjum degi. Áður var ég hrædd við hálku því ég óttaðist að skrika fótur en það er hræðilegt ef það kemur fyrir baksjúklinga. Þess vegna fór ég sjaldnar út en ég þurfti. Nú er ég með ákveðið skipulagt plan hvernig best er fyrir mig að hreyfa mig og það er ótrúlega gott að hafa það.

„Ég er ánægð með lífið í dag. Ég var vonsvikin þegar ég veiktist og mér fannst fótunum kippt undan mér. Það sem skiptir mestu máli er að gefast ekki upp og vita að hjálpin er til staðar“

Nýtt starf

Það var haldið vel utan um öll mín mál hjá VIRK. Ég fékk strax greiningu á stöðu minni og síðan viðeigandi meðferð. Fyrstu mánuðina fór ég tvisvar í viku til sjúkraþjálfara en eftir því sem ég náði bata var þeim tímum fækkað. Ráðgjafinn hvatti mig meðal annars til að synda sem hentaði mér ágætlega,“ segir Hildur.

Hún viðurkennir að andlega hliðin verði fyrir hnjaski þegar ekki er hægt að stunda vinnu. „Þá skiptir gríðarlegu máli að vera jákvæður og gefast ekki upp. Mér hefur gengið vel að halda í jákvæðnina og hugsa gjarnan til þess að ég eigi enn rúm tuttugu ár eftir á vinnumarkaði. Ég er ekki tilbúin að leggja árar í bát. Þess vegna vil ég gera allt sem ég get til að ná bata.

Vegna veikindanna hentaði mér ekki lengur að vinna á sama stað og áður. Ég fékk aðra vinnu með eldri börnum og hóf þar 70% starf í ágúst. Nýja starfið hentar mér miklu betur þótt ég verði alltaf að fara gætilega. Ég hef hins vegar haldið áfram að æfa reglulega og er stöðugt að styrkja mig.“

Hildur útskrifaðist frá VIRK fyrir stuttu og segist tvímælalaust hvetja alla þá sem detta úr vinnu sökum veikinda að hafa samband við ráðgjafa. „Best er að gera það strax því ráðgjafinn leiðir mann áfram. Ég tel að vinnuveitendur séu að vakna til meðvitundar um þessa starfsemi og það er mjög jákvætt.“

Lífið er dásamlegt

„Ég er ánægð með lífið í dag. Ég var vonsvikin þegar ég veiktist og mér fannst fótunum kippt undan mér. Það sem skiptir mestu máli er að gefast ekki upp og vita að hjálpin er til staðar,“ segir Hildur. „Það var ákaflega gott að fá þessa uppörvun og lífið varð miklu léttara. Í framhaldinu hef ég farið óhefðbundna lækningaleið og nota nú heilun, hugleiðslu og dáleiðslu. Ég vil helst ekki taka lyf og þessar aðferðir hafa gefist mér vel. Ég heillaðist fljótt af þessum aðferðum og fór á námskeið til að læra meira. Ég hlusta til dæmis töluvert á sjálfshjálpardiska,“ segir hún.

 „Ég hef alltaf haft áhuga á andlegum málefnum og hann hefur aukist í veikindum mínum. Núna hlakka ég til hvers dags og lífið er dásamlegt,“ segir Hildur Sigurðardóttir.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband