Heiðbjört Ýrr Guðmundsdóttir
Fjallasýnin er fögur til að sjá út um eldhúsgluggann á heimili Heiðbjartar Ýrr Guðmundsdóttur og það er líka á margan hátt bjart yfir þeirri sögu hvernig hún endurheimti vinnugetu í samstarfi við VIRK eftir erfiða reynslu.
„Ég frá Akureyri og er þrjátíu og fimm ára gömul. Ég stundaði nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri. Ég flutti til Reykjavíkur árið 2019 og ætlaði að taka masterspróf í sálfræði en fór þess í stað beint að vinna, lengst af við liðveislu í þjónustumiðstöð hjá Reykjavíkurborg. Þetta reyndist mér erfitt starf á margan hátt og það var ein ástæða þess að ég leitaði til VIRK,“ segir Heiðbjört Ýrr.
„Af því ég hafði lært sálfræði kom oft í minn hlut að sinna erfiðum einstaklingum, fólki sem var verulega andlega veikt. Sumir jafnvel í geðrofi. Þetta tók æ meira á mig. Útslagið gerði þó þegar einstaklingur sem oft hafði hótað að taka líf sitt reyndi það skyndilega heima hjá sér. Ég brá við skjótt og tókst að halda viðkomandi á lífi. Þetta atvik fékk svo á mig að ég titraði og skalf í tvo daga.
Eftir þetta var mér ljóst að ég væri ekki örugg. Oft hafði ég þurft að fara ein inn á heimili andlega veikra einstaklinga og lent í ýmsum óþægilegum aðstæðum – en engu þessu líkt. Ég áttaði mig á að þetta starf var ekki fyrir mig. Ég hafði alltaf reynt að bíta á jaxlinn, hugsað „vertu sterk“, en nú hætti ég næstum að geta sofið og leið mjög illa. Loks því kom þar að ég brotnaði alveg niður. Það gerðist á einum sólarhring. Ég var yfir mig stressuð, næstum kastaði upp af kvíða í vinnunni.
Í framhaldinu hafði ég samband við heimilislækninn, sagði honum hversu illa mér liði og ég yrði að fara í veikindaleyfi. Hann gaf mér strax vottorð og sendi inn beiðni til VIRK fyrir mig í endurhæfing
Morguninn eftir grét ég og grét og hringdi í foreldra mína. Þau voru undrandi því mér er ekki tamt að gráta. Í framhaldinu hafði ég samband við heimilislækninn, sagði honum hversu illa mér liði og ég yrði að fara í veikindaleyfi. Hann gaf mér strax vottorð og sendi inn beiðni til VIRK fyrir mig í endurhæfingu. Þetta gerðist um miðjan október 2022 og í byrjun febrúar 2023 komst ég í samstarf við VIRK. Þá var ég orðin nær svefnlaus, orkulaus og næstum hætt að borða.“
Var tilbúin að notfæra mér þau úrræði sem buðust
„Ég var stressuð þegar ég fór fyrst á fund ráðgjafans hjá VIRK – vissi ekki við hverju ég átti að búast. Þótt ég hefði þá verið í veikindaleyfi í rúma þrjá mánuði þá leið mér ennþá mjög illa. Ég fékk frábæran ráðgjafa, það fann ég strax á okkar fyrsta fundi. Ég sagði sögu mína, ráðgjafinn kom með hugmyndir um hvað ég gæti gert. Ég hlustaði með opnum huga.
Ég fékk frábæran ráðgjafa, það fann ég strax á okkar fyrsta fundi.
Frá því læknirinn lagði inn beiðni hjá VIRK var ég ákveðin í að gera allt sem ég gæti til að ná bata. Ég var því mjög tilbúin til að notfæra mér þau úrræði sem mér og ráðgjafanum leist á. Ég vildi alls ekki lenda í svona ástandi aftur í framtíðinni. Ég hafði fram að þessu alla tíð verði mjög orkumikil.
Ég byrjaði á að fara á slökunarnámskeið, í heilsurækt og Jóga-nidra. Í samráði við ráðgjafann ákvað ég að fara hægt af stað, gera ekki of mikið í einu. Þrátt fyrir orkuleysið hafði ég þó farið í gönguferðir og hélt því áfram. Og þótt ég hafi alltaf verið frekar félagsfælin og langaði ekki til að vera í hóp gerði ég það samt – fór á jóganámskeiðin sem reyndust mér frábærlega.
Nokkru síðar fékk ég að velja mér sálfræðing. Ég valdi konu sem ég sæki tíma hjá enn í dag, núna á eigin vegum á fjögurra til sex vikna fresti. Hún hefur hjálpað mér mikið. Á þessum tíma hefði ég ekki haft efni á því að sækja svona marga sálfræðitíma, eða yfirleitt fá alla þá hjálp sem ég fékk hjá VIRK.
Ég hrapaði svolítið í launum við þetta allt saman, en þetta gekk alveg, enda er ég ekki óvön því að lifa spart. Ég hafði átt inni veikindarétt þegar ég fór í leyfi og var enn á honum þegar ég fór til VIRK. Eftir það átti ég réttindi hjá lífeyrissjóði og loks fékk ég endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins.“
Tókst að slaka á og finna gömul og ný áhugamál
„Það var ákaflega skrýtið og eiginlega erfitt að venjast því að hafa ekkert sérstakt að gera fyrst eftir að ég fór í veikindaleyfi. Ég á ungan son. Eina sem ég gerði var að skutla honum í skólann og svo hafði ég bara ekkert sérstakt að gera. Læknirinn hafði sagt við mig að þótt mig langaði mikið til að liggja fyrir og hvíla mig þá skyldi ég samt finna mér verkefni. Ég skrifaði lista, tíndi til ýmislegt, svo sem að taka til í skápum og selja flöskur. Þegar til kom lauk ég þessu öllu á einum degi og var svo alveg búin að vera daginn eftir.
Ég fann verulega fyrir því hvað ég var óskaplega orkulítil. Það var mikil breyting því ég hef alltaf viljað drífa strax í öllum hlutum. Það tók mig marga mánuði að venjast því að þurfi að dreifa orkunni í hæfilega skammta og var mjög óþægilegt.
En eitt af því frábæra sem kom út úr þessu öllu saman var að ég fann aftur mín gömlu áhugamál. Ég fór að prjóna og lesa – ég er alger alæta á bækur og hlusta mikið. Auk þess fann ég mér ný áhugamál, ég fór að hekla, mála og teikna. Ég hafði tínt sjálfri mér svolítið, en í þessu ferli fann ég sjálfa mig aftur. Það var ný og þægileg tilfinning að hafa allt í einu tíma fyrir sig en eigi að síður fann ég hvað ég var óskaplega þreytt.“
Mér fannst ansi skrýtið að liggja bara uppi í rúmi og eiga að gera ekki neitt nema bara slaka á. En ég lærði það smám saman.
Hvernig gekk þér að læra að slaka á?
„Á námskeiðinu lærðum við alls konar æfingar sem átti líka að gera heima. Mér fannst ansi skrýtið að liggja bara uppi í rúmi og eiga að gera ekki neitt nema bara slaka á. En ég lærði það smám saman. Slökunin hjálpaði mér að venjast aðgerðarleysinu, jafnframt því sem ég náttúrlega hvíldist.“
Lærði að sofa eins og venjulegt fólk
„Eftir jóganámskeiðin fór ég í svefnráðgjöf. Ég hafði frá fyrstu tíð átt erfitt með svefn en nú þjáðist af svefnleysi og læknirinn hafði gefið mér töflur svo ég gæti sofið. En ég vildi ekki vera háð slíkum töflum – vildi bara sofa eins og venjulegt fólk. Þetta var sex vikna námskeið og töluvert erfitt, einkum í fyrstu. Til þess að svefninn gæti orðið betri þá þurfti ég að minnka hann, mátti í upphafi ekki fara upp í rúm fyrr en klukkan þrjú um nóttina – í staðinn fyrir að fara uppí klukkan ellefu og liggja vakandi í fjóra tíma. Við vorum látin halda svefndagbók og smám saman lengdist sá tími sem ég svaf þar til loks ég var komin upp í sjö til átta tíma svefn.
Við vorum látin halda svefndagbók og smám saman lengdist sá tími sem ég svaf þar til loks ég var komin upp í sjö til átta tíma svefn.
Ég losnaði við töflurnar, sem voru raunar ekki svefnlyf heldur melatónín og gamalt ofnæmislyf sem maður verður þreyttur af. Okkur var líka uppálagt að horfa ekki á skjá eða síma eða neitt slíkt tveimur tímum fyrir svefn og drekka ekki kaffi eða koffíndrykki síðari hluta dags. En maður mátti hlusta á sögur og það gerði ég óspart. Líka þurfti að gæta þess að hafa ekki of bjart í kringum sig og almennt að hafa umhverfið rólegt. Ég hugsaði ansi mikið fyrstu næturnar sem ég mátti ekki fara uppí fyrr en klukkan þrjú! En slökunin hjálpaði mér að ná mér niður.“
Kom mér á óvart hve meðvirk ég var
Hvernig gekk hjá sálfræðingnum?
„Mjög vel. Ég fór fljótlega að segja henni frá ýmsu sem hafði komi fyrir mig, alveg frá barnæsku. Það hjálpaði mér að gera upp ýmis áföll. Auðvitað var erfitt að rifja upp óþægileg atvik en það skilaði sér í betri líðan þegar fram í sótti. Það er svo gott að tala við einhvern sem tengist manni ekki persónulega. Ég hef fundið hjá sálfræðingnum hald og traust og ég vona að ég eigi eftir að gera það lengi. Ég er raunar þeirrar skoðunar að allir þyrftu að eiga aðgang að sálfræðingi. Þótt vinir séu góðir þá eru þeir oft flæktir í „afstöðu“ í ýmsum málum.“
Fórstu í fleiri úrræði á vegum VIRK?
„Já. Ég fór á meðvirkninámskeið. Ég hafði lært um meðvirkni í námi mínu í sálfræði en ég hafði alls ekki gert mér grein fyrir að ég væri sjálf eins meðvirk og raun bar vitni. Ég áttaði mig á að ég hafði verið ansi meðvirk allt mitt líf og hef tekið mig veruleg á í þeim efnum. Ef ég tengi þetta til dæmis við gömlu vinnuna – að fara ein heim til fólks – þá sá ég þar ýmislegt slæmt en ég gerði ekkert í því. Ég lét það bara vera eins og það var í staðinn fyrir að segja: „Þetta gengur ekki, þetta þarf að laga!“ Og þótt ég væri kvíðin að fara ein heim til sumra einstaklinga þá lét ég það yfir mig ganga.
Nú er ég miklu duglegri að segja hvað mér finnst og búin að læra að segja nei.
Nú er ég miklu duglegri að segja hvað mér finnst og búin að læra að segja nei. Ég er einfaldlega miklu opnari en ég var. Ég hef breyst. Ég hef lært að standa upp fyrir sjálfri mér og líka fyrir öðrum.“
Þakklát fyrir þá aðstoð sem ég fékk hjá VIRK
Settirðu þér markmið hjá ráðgjafanum hvað þú ætlaðir þér að stefna að þegar meðferð lyki?
„Já, ég var allan tímann ákveðin að snúa aftur á vinnumarkaðinn. Alls var ég í samstarfi við VIRK í eitt ár. Ég nýtti mér ekki atvinnutengingu VIRK heldur ákvað ég við útskrift þar að snúa aftur í gömlu vinnuna í þrjátíu prósent hlutastarf, ég vildi vita hvort ég gæti unnið þar eftir að hafa fengið þessa hjálp. En eftir þrjá mánuði fór ég inn á tölvuna og skoðaði auglýsingar frá Reykjavíkurborg og fann mér það starf sem ég vinn núna og er mjög ánægð með.
Já, ég var allan tímann ákveðin að snúa aftur á vinnumarkaðinn.
Byrjaði í sjötíu prósent vinnu og fór svo í fullt starf. Ég vinn í dagvistun fyrir fatlaða og líkar það mjög vel. Það er mikill munur að vera hluti af heild í dagvistarumönnun heldur en að þurfa að fara ein heim til fólks. Hins vegar hefur reynslan af fyrra starfi mínu nýst mér vel í hinu nýja. Ég var óneitanlega ansi stressuð að fara í fullt starf, en það hefur gengið ágætlega.“
Er líf þitt betra en það var hér áður?
„Já, mér finnst ég allt önnur manneskja en ég var áður og það á góðan hátt. Ég er sennilega dramatískari núna en ég var, en það er af hinu góða. Nú sýni ég tilfinningar og tala um hlutina. Ég hafði ekki fordóma fyrir því að fara í samstarf við VIRK en mér fannst óþægilegt fyrst að segja að ég væri í veikindaleyfi. Það var óþarfi, allir tóku þessu vel og studdu mig.
Og ég er líka þakklát fyrir að það skuli vera til svona starfsemi eins og hjá VIRK þar sem hægt er að sækja sér mikilvæga aðstoð.
Ég er mjög, mjög þakklát fyrir þá aðstoð sem ég fékk hjá VIRK. Og ég er líka þakklát fyrir að það skuli vera til svona starfsemi eins og hjá VIRK þar sem hægt er að sækja sér mikilvæga aðstoð. Þótt slíkt ferli sé erfitt kemur það manni á fæturna aftur.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason