Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa Slys

Ég er glaður í hjarta

Ég er glaður í hjarta

Friðrik Ottó Ragnarsson járnsmiður slasaðist á hrygg og hálsi í bílveltu, náði bata og skipti um starfsvettvang.

Friðrik Ottó Ragnarsson

,,Þegar ég var yngri sá ég engan tilgang með því að greiða stéttarfélagsgjöld. Nú er ég glaður í hjarta vegna allrar aðstoðarinnar frá stéttarfélaginu mínu og VIRK Starfsendurhæfingarsjóði í kjölfar slyssins sem ég lenti í. Nú skil ég mikilvægi þess að hafa gott stéttarfélag á bak við sig. Ráðgjafi VIRK hefur jafnframt reynst mér afar vel.“

Þetta segir Friðrik Ottó Ragnarsson járnsmiður sem fyrir um tveimur árum, eða í byrjun nóvember 2008, slasaðist á hrygg og hálsi í bílveltu. ,,Ég var lánaður í annað fyrirtæki og var uppi á Nesjavöllum á leið í vinnuna. Það var hálka á veginum og bíllinn snerist í þrjá hringi áður en hann fór út í kant og valt. Ég gat skriðið út um gluggann þar sem rúðan hafði brotnað. Bóndi sem sá þegar slysið varð hringdi á sjúkrabíl. Mér fannst ég vera að kafna og reyndi að liggja þannig á jörðinni að ég fyndi sem minnst til,“ greinir Friðrik frá.

Járnsmíðina varð hann að gefa upp á bátinn vegna stöðugra verkja, einkum í hálsinum. ,,Ég er að verða 57 ára og hef alltaf unnið við járnsmíði sem er erfiðisvinna. Ég hef alltaf verið hraustur og unnið 150 prósenta vinnu og vel það og svo lendi í þessu.“

Þriðja áfallið á stuttum tíma

Atvinnumissirinn var þriðja áfallið sem Friðrik varð fyrir á stuttum tíma. ,,Hálfu ári eftir að pabbi minn dó missti ég konuna mína. Hún hafði barist við krabbamein í sjö ár. Svo lenti í bílslysinu og missti vinnuna í kjölfarið. Vissulega var þetta gríðarlega mikið álag en ég hélt alltaf haus. Aðstoðin frá VIRK gegndi miklu hlutverki.“

Friðrik kveðst hafa leitað til stéttarfélagsins síns, Félags vélstjóra og málmtæknimanna, strax eftir slysið. ,,Þeir útveguðu mér lögfræðing til þess að fara í gegnum allt ferlið. Seinna bentu þeir mér svo á að hafa samband við ráðgjafa VIRK. Sjóðurinn hefur greitt sjúkraþjálfun fyrir mig en fyrst greiddi ég sjálfur fyrir hana og fékk síðan endurgreitt hjá stéttarfélaginu mínu. Það eru hins vegar ekki allir sem hafa handbært fé til að leggja sjálfir út fyrir slíku. Þægindin við að þurfa ekki að standa í því eru einnig mikil.“

Að sögn Friðriks fann hann mikið fyrir því að geta ekki hreyft sig eins og áður. ,,Mér hefur alltaf fundist best að vera mikið á ferðinni. Ég var þess vegna ákveðinn í að byggja mig upp með sjúkraþjálfun og gönguferðum. Það hversu hraustur og líkamlega sterkur ég hef verið hefur örugglega hjálpað mér í gegnum tíðina.“

,,Það er svolítið átak að byrja aftur þegar maður er búinn að vera frá vinnu í nær tvö ár og í starfi sem maður hefur aldrei unnið við. En ég held að það sé bara eðlilegt að finna fyrir svolitlum kvíða. En þegar ég fór að tala við fólkið sem ég vinn með þá hvarf allur kvíði. Þetta er bara gott mál.“

Ómetanleg aðstoð

Sjúkraþjálfunin var bara eitt af mörgum úrræðum sem voru í boði,að því er Friðrik greinir frá. ,,Ég hef fengið mikla aðstoð hjá Sigrúnu Sigurðardóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu. Hún hefur stutt mig vel og leiðbeint mér varðandi lífeyrissjóðsmál og annað. Þetta er hálfgerður frumskógur og ekki fyrir hvern sem er að komast í gegnum hann. Sigrún hefur gefið mér tíma og ég hef getað rætt við hana um allt. Ef eitthvað er hringir hún í mann til þess að benda á eitthvað. Hún fylgist vel með mér. Aðstoðin sem hún hefur veitt mér er ómetanleg. Sigrún er rétt manneskja á réttum stað.“

Í nýju starfi

Vegna verkjanna sem Friðrik er enn með stefndi hann að því að skipta um starfsvettvang. ,,Ég hef verið að leita fyrir mér annað slagið og byrjaði að vinna á sambýli 1. október síðastliðinn. Þetta er vaktavinna og mér líst mjög vel á hana.“

Spurður segist Friðrik hafa kviðið því svolítið að fara á nýjan vinnustað. ,,Það er svolítið átak að byrja aftur þegar maður er búinn að vera frá vinnu í nær tvö ár og í starfi sem maður hefur aldrei unnið við. En ég held að það sé bara eðlilegt að finna fyrir svolitlum kvíða. En þegar ég fór að tala við fólkið sem ég vinn með þá hvarf allur kvíði. Þetta er bara gott mál.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband