Fara í efni

Heilsueflandi viðmið rýnd og mótuð

Til baka

Heilsueflandi viðmið rýnd og mótuð

Sérfræðingar VIRK, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins hafa unnið undanfarna mánuði að gerð viðmiða fyrir heilsueflandi vinnustaði. Með mótun viðmiðanna vilja stofnanirnar tryggja vinnustöðum góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi og efla starfsmenn sína.

Endurgjöf frá stjórnendum og leiðandi aðilum á vinnustöðum er mjög mikilvægur þáttur við gerð viðmiðanna um heilsueflandi vinnustaði og því var fjölbreyttum hópi boðið til morgunfundar þann 14. nóvember þar sem viðmiðin fyrir stjórnendur á vinnustöðum voru kynnt og rýnd.

Fundurinn var með „heimskaffi" sniði þannig að þátttakendur tóku þátt í umræðum á nokkrum borðum með áherslu á mismunandi þemu og komu þannig að mótun viðmiðanna um heilsueflandi vinnustaði.

Viðmiðin koma til með að nýtast tilraunaverkefninu um heilsueflandi vinnustaði en margir þátttakendur á fundinum komu frá fyrirtækjum og stofnunum sem skráð hafa sig til þátttöku í því. Að loknu tilraunaverkefninu þá verða viðmiðin fullmótuð og í framhaldinu kynnt almennt fyrir fyrirtækjum og stofnunum.

Morgunfundurinn var sá þriðji í fundaröð um heilsueflingu á vinnustöðum og hluti af samstarfi VIRK, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum. Markmið samstarfsins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan vinnandi fólks á vinnustöðum, fyrirbyggja kulnun og minnka brottfall af vinnumarkaði.

Næsti morgunfundur um heilsueflingu á vinnustöðum verður miðvikudaginn 15. janúar 2020. 


Fréttir

14.09.2023
01.06.2023

Hafa samband