Fara í efni

Stöðug þróun og skýr sýn til framtíðar

Til baka

Stöðug þróun og skýr sýn til framtíðar

Vigdís Jónsdóttir forstjóri VIRK

Árið 2024 var mjög annasamt ár í starfssemi VIRK. Aldrei hafa fleiri umsóknir þjónustu borist til VIRK og fjöldi nýrra einstaklinga í þjónustu á árinu 2024 er sá mesti frá upphafi.

2.371 einstaklingur hóf starfsendurhæfingu hjá VIRK á árinu 2024. Um er að ræða fjölgun um 3% milli áranna 2023 og 2024 en milli áranna 2020 og 2023 var aðsóknin nokkuð stöðug. Þessi fjölgun hefur síðan haldið áfram á árinu 2025 en um 16% fleiri einstaklingar hafa hafið þjónustu á fyrstu þremur mánuðum ársins 2025 samanborið við sama tíma í fyrra. Þegar þetta er skrifað eru um 2.940 einstaklingar í þjónustu hjá VIRK og hafa aldrei verið fleiri.

VIRK er núna að hefja sitt sautjánda starfsár. Margir þættir starfseminnar eru nokkuð stöðugir í dag en þó er óhætt að fullyrða að síðustu 17 ár hafa einkennst af stöðugri þróun og breytingum þar sem markmiðið er að stofnunin taki alltaf mið af þróun og samfélagslegum breytingum á hverjum tíma. Þetta gerir kröfur til mikils sveigjanleika og góðrar samvinnu við bæði samstarfsaðila um allt land og alla þá sem að VIRK standa.

Stefna og framtíðarsýn

Á þeim 17 árum sem VIRK hefur starfað hefur reglulega átt sér stað stefnumótunarvinna þar sem stjórn, fulltrúaráð, starfsmenn, samstarfsaðilar og ýmsir hagaðilar um allt land fá tækifæri til að ræða saman um starfsemi, framtíðarsýn VIRK og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þessi stefnumótunarvinna fór fram í vetur og afrakstur hennar er meðal annars kynntur í ársritinu – sjá einnig á vefnum

Það var mjög mikilvægt og verðmætt að fá tækifæri til að hlusta á og vinna með öllum þessum ólíku samstarfs- og hagaðilum VIRK í þessari stefnumótunarvinnu og í gegnum hana komu góðar hugmyndir og ábendingar um það hvað VIRK geti gert betur til að þjónusta íslenskt samfélag á komandi árum.

Nýjar áherslur snúa einkum að forvörnum, samskiptum og miðlun upplýsinga.

Í niðurstöðum stefnumótunarinnar eru framtíðarsýn og áherslur VIRK settar fram í fjórum köflum; 1) starfsendurhæfing, 2) forvarnir, 3) samskipti og miðlun og 4) vinnustaðurinn. Nýjar áherslur snúa einkum að forvörnum, samskiptum og miðlun upplýsinga þar sem leggja á meiri áherslu á þessa þætti á næstu árum en áður hefur verið.

Með aukinni áherslu á forvarnir er meðal annars stigið markvisst skref í að veita einstaklingum meiri þjónustu á sviði forvarna og koma þannig í veg fyrir að þeir þurfi að minnka við sig starfshlutfall eða fara í leyfi vegna veikinda. Þetta er ný þjónusta hjá VIRK sem spennandi verður að fylgjast með í framtíðinni. Í grein Guðrúnar Rakelar Eiríksdóttur í ársritinu er gerð betur grein fyrir aukinni forvarnaþjónustu hjá VIRK.

Þá kom einnig fram í stefnumótunarvinnunni ákveðið ákall um aukna upplýsingamiðlun af hálfu VIRK þar sem VIRK þarf bæði að koma þjónustu sinni á framfæri á skýran og fjölbreyttan máta og eins var ákall eftir auknu samstarfi við ýmsa hagsmuna- og hagaðila. Í þessum efnum er meðal annars verið að vinna að samskiptastefnu VIRK og áætlunum um aukin samskipti og miðlun upplýsinga til samstarfsaðila og hagaðila um allt land.

Þegar þetta er skrifað er unnið að því að skilgreina forgangsverkefni út frá þessari stefnumótun. Dæmi um forgangsverkefni snúa t.d. að því að draga úr bið eftir þjónustu, byggja upp öfluga forvarnaþjónustu og tengja betur saman forvarnir og atvinnutengingu með það að markmiði að auka upplýsingagjöf og þjónustu við fyrirtæki og stofnanir sem eru í samstarfi við VIRK. Önnur verkefni snúast síðan um að auka almennt upplýsingagjöf út á við auk þess að styrkja ýmsa innviði VIRK sem hafa þurft að takast á við mikinn vöxt og breytingar á stuttum tíma.

Tími og árangur

Í stefnumótunarvinnunni var mikið rætt um mikilvægi þess að einstaklingum bjóðist starfsendurhæfing snemma í sínu veikindaferli. Þess vegna þyrfti meðal annars að stytta enn frekar biðtíma inn í VIRK og byggja heildarstuðningskerfið þannig upp að einstaklingum bjóðist starfsendurhæfing snemma í ferlinu ef hún er metin viðeigandi. Þetta er mikilvægt og nauðsynlegt og VIRK vill gjarnan leggja sitt af mörkum til að stuðla að þessum kerfisbreytingum. Hér þurfa allir aðilar sem bera ábyrgð á framfærslugreiðslum í veikindum að koma saman og ræða um mögulegar úrbætur, einstaklingum til heilla.

Tímasetningar skipta miklu máli þegar við skoðum árangur í starfsendurhæfingu. Þeir sem koma snemma ná yfirleitt mun betri árangri. Þetta hafa ýmsar tölur hjá VIRK staðfest. Hins vegar getur líka verið flókið að meta réttan tíma hjá hverjum og einum því aðstæður hvers og eins einstaklings eru alltaf einstakar. Flestir sem veikjast komast aftur í vinnu með aðstoð heilbrigðiskerfisins og þurfa ekki starfsendurhæfingu. Hins vegar þegar það er til staðar heilsubrestur af ýmsum toga auk annarra erfiðra aðstæðna og jafnvel áfallasögu þá getur starfsendurhæfing skipt öllu máli og þá getur verið mikilvægt að einstaklingar fái þá þjónustu sem allra fyrst.

Stöðug fagleg þróun til að mæta fjölbreyttum áskorunum

Þjónusta VIRK er alltaf einstaklingsbundin og tekur mið af aðstæðum og líðan hvers og eins þjónustuþega. Þeir sem leita til VIRK eru á öllum aldri og af öllum kynjum, með mismunandi menntun, þjóðerni og búa við mismunandi aðstæður. Öllum þessum einstaklingum þarf að mæta á þeirra eigin forsendum.

Í umhverfi starfsendurhæfingar er því mikilvægt að vera vakandi fyrir samfélagslegum breytingum og þeim áskorunum sem þeim fylgja. Til að tryggja það að fagleg þróun hjá VIRK mæti áskorunum samfélagsins á hverjum tíma þá hafa verið settir af stað sérstakir faghópar hjá VIRK sem sjá um að þróa og meta þjónustuþarfir fyrir mismunandi hópa.

Þannig halda sérstakir faghópar utan um þjónustu við eftirfarandi einstaklinga:

  • Einstaklinga með fíknivanda
  • Einhverfa einstaklinga
  • Einstaklinga sem hvorki tala íslensku eða ensku
  • Ungt fólk í viðkvæmri stöðu
  • Einstaklinga sem glíma við afleiðingar kulnunar

Einstaklingar með fíknivanda

Á undanförnum árum hefur VIRK lagt mikla áherslu á að þróa þjónustu fyrir einstaklinga með fíknivanda. VIRK gerir ekki kröfu um tiltekinn edrútíma við upphaf þjónustu heldur metur stöðu og möguleika hvers og eins út frá aðstæðum hverju sinni. VIRK hefur lagt áherslu á að fylgjast með nýjustu rannsóknum og reynslu á þessu sviði og tryggja þannig að þjónusta VIRK sé í takt við nýja þekkingu og mæti þörfum einstaklinga með fíknivanda. Um er að ræða fjölbreyttan hóp þar sem hver og einn einstaklingur þarf að fá einstaklingsbundna þjónustu eftir aðstæðum hverju sinni.

Í þessu starfi erum við hjá VIRK í mjög góðu samstarfi við ýmsa aðra fagaðila á þessu sviði eins og Grettistak, Hlaðgerðarkot, Krísuvík, SÁÁ og meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma á Landspítalanum. Markmiðið er að tryggja samfellu í þjónustu og veita einstaklingi þann stuðning sem hann þarf á hverjum tíma.

Einstaklingar með fíknivanda ná oft mjög góðum árangri í þjónustu VIRK og ljóst er að hér er til mikils að vinna. Enda sýna bæði rannsóknir og reynsla að atvinnuþátttaka er einn stærsti forspárþáttur árangursríkrar fíknimeðferðar og langvarandi edrútíma hjá þessum hópi.

Einhverfir einstaklingar

Einstaklingar sem fæðast með taugaþroskaröskun eins og einhverfu geta mætt ýmsum hindrunum á vinnumarkaði og þurfa stundum á starfsendurhæfingu að halda. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt að ungu einhverfu fólki gengur verr að fá starf og halda starfi en öðrum ungum einstaklingum með annars konar hindranir.

Beiðnum til VIRK hefur fjölgað töluvert fyrir þennan hóp og samkvæmt óformlegri könnun meðal ráðgjafa VIRK í júní 2024 má áætla að um 16% af þjónustuþegum VIRK hafi verið einhverfir. Þetta er umtalsvert stór hópur sem mikilvægt er að halda vel utan um og tryggja faglega þjónustu við hæfi.

Sérstakur faghópur innan VIRK hefur því unnið að fjölgun úrræða og þróun þjónustunnar fyrir þennan hóp í samstarfi við ýmsa utanaðkomandi fagaðila. Fjölmargir einhverfir einstaklingar hafa þannig nýtt sér þjónustu VIRK á undanförnum árum með góðum árangri. Í ársritinu er að finna grein með nánari upplýsingum um þjónustu VIRK við einhverfa einstaklinga eftir þær Þóreyju Eddu Heiðarsdóttur og Guðrúnu Rakel Eiríksdóttur sem báðar eru sálfræðingar og sviðsstjórar hjá VIRK.

Einstaklingar með annað þjóðerni en íslenskt

Á síðustu 10 árum hefur einstaklingum í þjónustu VIRK með annað þjóðerni en íslenskt fjölgað úr því að vera 3% af þjónustuþegum árið 2014 í að vera um 11% af þjónustuþegum árið 2024. Þessi hópur er fjölbreyttur og þarf þjónustu við hæfi og stundum eru áskoranirnar í starfsendurhæfingu aðrar hjá þessum hópi en öðrum í þjónustu VIRK.

Sérstakur faghópur hefur skoðað aðstæður og þarfir þessa hóps þar sem markmiðið er að veita faglega þjónustu og mæta ólíkum þörfum innan hópsins. Þær áskoranir sem sérstaklega þarf að takast á við í starfsendurhæfingunni snúa bæði að tungumálaerfiðleikum og eins hafa sumir einstaklingar innan hópsins alist upp í menningu sem er mjög frábrugðin menningu okkar samfélags og félagsleg staða þessara einstaklinga er stundum erfið.

VIRK hefur í samstarfi við mikinn fjölda góðra þjónustuveitenda um allt land unnið að því að auka fjölbreytni í úrræðum fyrir þennan hóp og sem dæmi um úrræði sem gefist hafa vel eru starfstengd íslenskunámskeið, sérstakar matsbrautir hjá Hringsjá og öðrum starfsendurhæfingarstöðvum, sérhæfð námskeið og þjónusta hjá símenntunarmiðstöðvum um land allt sem og fjölbreytt einstaklingsbundin úrræði eins og sálfræðimeðferð, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, heilsuefling og markviss atvinnutenging.

Almennt nær þessi hópur góðum árangri í starfsendurhæfingu hjá VIRK og um 76% þessara einstaklinga útskrifast frá VIRK í vinnu, nám eða virka atvinnuleit.

Ung VIRK fyrir ungt fólk í viðkvæmri stöðu

Á undanförnum árum hefur VIRK lagt sérstaka áherslu á að þróa þjónustu sína til að mæta þörfum ungs fólks í viðkvæmri stöðu. Um er að ræða einstaklinga sem hafa litla menntun, litla eða brotna vinnusögu og glíma við heilsubrest af ýmsum toga. Þetta er fjölbreyttur hópur af ungu fólki, oft með þungan vanda, en þau eiga það flest sameiginlegt að hafa flosnað upp úr námi og eiga erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði. Algengt er að í þessum unga hópi séu einstaklingar með fíknivanda og/eða einstaklingar sem eru með taugaþroskaröskun, eins og til dæmis einhverfu.

Á undanförnum árum hefur VIRK lagt sérstaka áherslu á að þróa þjónustu sína til að mæta þörfum ungs fólks í viðkvæmri stöðu.

Þessir einstaklingar fá bæði þétt utanumhald hjá VIRK og eins hefur VIRK samið við ýmsa góða þjónustuaðila um að þróa úrræði sem nýtist þeim sérstaklega vel. Hér má til dæmis nefna aðila eins og Hringsjá og starfsendurhæfingarstöðvar um allt land sem bjóða upp á daglegt utanumhald og mjög fjölbreytta og vandaða þjónustu. Aðrir aðilar eins og Framvegis og ýmsar símenntunarstöðvar hafa einnig boðið upp á mjög góð úrræði sem og ýmsir heilbrigðismenntaðir fagaðilar eins og sálfræðingar, iðjuþjálfar, sjúkraþjálfarar og félagsráðgjafar.

VIRK býður þessum hópi einnig upp á þjónustu samkvæmt IPS hugmyndafræðinni (Individual placement and support) ef það er viðeigandi þar sem lögð er mikil áhersla á að koma á atvinnutengingu snemma í starfsendurhæfingarferlinu. Þessi nálgun er, samkvæmt bæði rannsóknum og reynslu, ein sú árangursríkasta og sú aðferð sem lögð er mest áhersla á í starfsendurhæfingu hjá nágrannalöndum okkar.

Það er til mikils að vinna að halda vel utan um þennan hóp og ávinningurinn af því að koma þessum einstaklingum í nám eða vinnu er mjög mikill, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið allt. Gerð er nánari grein fyrir þjónustu VIRK við þennan hóp í grein í ársritinu eftir Elínu Steinarsdóttur, Elvu Dögg Baldvinsdóttur og Sigurlaugu Lilju Jónasdóttur.

Einstaklingar sem glíma við afleiðingar kulnunar

Frá árinu 2020 hefur átt sér stað mikil vinna hjá VIRK við þekkingaröflun og rannsóknir á kulnun í íslensku samfélagi. Sérstaklega hefur verið haldið utan um þann hóp sem leitar til VIRK vegna kulnunar og áhersla lögð á að þróa þjónustu og úrræði við hæfi fyrir þennan hóp í góðu samstarfi við fjölmarga þjónustuaðila um allt land.

Gengið er út frá skilgreiningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á kulnun. Í skilgreiningu WHO er komið inn á mikilvægi þess að mismunagreina, þ.e. meta þarf hvort einkenni geti betur skýrst af öðrum orsökum. Þannig er mögulegt að veita rétta og viðeigandi meðferð.

Þegar fagteymi VIRK er búið að greina beiðnir um þjónustu hjá VIRK eftir einkennum kulnunar samkvæmt WHO er niðurstaðan sú að um 5% beiðna sem berast til VIRK eru vegna kulnunar í starfi.

Rannsókn á kulnunareinkennum á íslenskum vinnumarkaði

Í október 2023 var gerð rannsókn á vegum VIRK og Háskólans í Reykjavík á algengi kulnunareinkenna á íslenskum vinnumarkaði út frá nýjustu skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Gallup sá um framkvæmd rannsóknarinnar. Tæplega tvö þúsund þátttakendur svöruðu spurningalista sem skimar fyrir hættu á kulnun (e.burnout complaints).

Til þess að meta þá hættu var mælitækið Burnout Assessment Tool (BAT) notað en listinn byggir á traustum fræðilegum grunni. Niðurstöður sýndu að 12,2% svarenda voru í mikilli hættu á kulnun, 12,7% svarenda voru í nokkurri hættu á kulnun og 75% mældust ekki í hættu á kulnun, sjá myndina hér að neðan.

Aðrar þjóðir sem notað hafa sama mælitæki til að meta kulnunareinkenni hafa birt tölur á bilinu 6,6% (Finnland) til 25,7% (Japan) þegar kemur að mikilli hættu á kulnun. Þessar niðurstöður á íslenskum vinnumarkaði benda því til að við séum nokkurn veginn fyrir miðju af þeim löndum sem hafa birt niðurstöður sambærilegra rannsókna.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar eftir kynjum kemur í ljós að hlutfallslega fleiri konur en karlar eru í hættu á kulnun. Þetta má sjá á þessari mynd.

Þegar tölurnar eru skoðaðar eftir aldri kemur í ljós að yngri einstaklingar virðast vera í mun meiri hættu en þeir sem eldri eru. Þannig eru 18% einstaklinga á aldrinum 18-29 ára í mikilli hættu á kulnun borið saman við einungis 9% einstaklinga í aldurshópnum 50-59 ára. Hér er um tvöföldun að ræða og þessi mikli munur vekur ýmsar spurningar um þá þróun sem á sér stað í samfélaginu í dag hjá ungu fólki sem vert er að skoða og greina nánar.

Það sem er einnig áhugavert í þessari rannsókn er að sjá hversu flókið samspil getur verið á milli kulnunareinkenna og aðstæðna í lífi fólks. Tímabundið álag eins og að vera í námi og vinnu á sama tíma getur haft mikil áhrif og sem dæmi um það má nefna að hlutfall þeirra sem flokkast í „mikla hættu á kulnun“ er rúmlega tvöfalt hærra hjá einstaklingum sem voru bæði í námi og vinnu borið saman við þá sem voru í hálfu eða fullu starfi. Það er því ljóst að það að vera í fullu starfi, háskólanámi og jafnvel að sinna fjölskyldu líka getur haft mikil áhrif á líðan og afköst í vinnu.

Það eru einnig skýr tengsl á milli fjárhagserfiðleika og kulnunar. Þeir sem telja sig vera undir álagi vegna fjárhagserfiðleika sýna alvarlegri einkenni kulnunar en aðrir. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.

Önnur áhugaverð niðurstaða úr þessari rannsókn eru tengsl á milli tekna og kulnunar hjá bæði konum og körlum. Samkvæmt rannsókninni þá eru tekjulægri einstaklingar í meiri hættu á kulnun en þeir sem tekjuhærri eru og á það við um bæði konur og karla. Það kemur hins vegar skýrt fram í þessum tölum að hærri tekjur hafa frekar áhrif í þá átt að draga úr kulnunareinkennum hjá körlum, þó tekjur hafi vissulega áhrif á bæði kynin. Þetta má sjá á þessari mynd.

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru mjög áhugaverðar en hér þarf að hafa þann fyrirvara að um er að ræða úrtaksrannsókn á einum tímapunkti. Einnig er samspil á milli tekna og bakgrunnsþátta alltaf flókið og það geta verið fleiri undirliggjandi áhrifaþættir.

VIRK stefnir að því að endurtaka þessa rannsókn næsta haust og þá verður einnig fróðlegt að fylgjast með þróun þessara mála á íslenskum vinnumarkaði. Nánari upplýsingar um þessa rannsókn og upptöku af fyrirlestri Guðrúnar Rakelar Eiríksdóttur um niðurstöðurnar má finna á vef VIRK.

Ávinningur endurhæfingar

Almennt þá skilar endurhæfing miklum árangri, hvort heldur sem um er að ræða starfsendurhæfingu eða endurhæfingu sem á sér stað innan heilbrigðiskerfisins. Ávinningur VIRK er ekki mældur með útgjöldum eða tekjum sjóðsins heldur í því að einstaklingar nái að verða virkir þátttakendur í atvinnulífinu auk þess að ná að bæta lífsgæði sín og líðan. Hægt er að nota ýmsa mælikvarða til að meta árangur af endurhæfingu og það hefur verið gert í gegnum tíðina hjá VIRK.

Í þessu samhengi eru til dæmis skoðaðar upplýsingar um framfærslu einstaklinga í upphafi og lok starfsendurhæfingar og eins skiptir miklu máli að greina það hvernig einstaklingarnir sjálfir upplifa líðan sína og starfsgetu bæði við upphaf og við lok starfsendurhæfingar.

Talnakönnun reiknar síðan árlega út ávinning af starfseminni út frá hóflegum forsendum og niðurstaðan fyrir árið 2024 er 20,2 milljarðar í ávinning á meðan útgjöld VIRK nema um 4,6 milljörðum á sama tímabili. Þessar upplýsingar má finna í ársritinu og á vef VIRK. Ljóst er að árangurinn er mikill sama hvaða mælikvarðar eru notaðir til að meta hann og mæla.

Annar mælikvarði á árangur VIRK og kannski einn sá besti er að fá álit þjónustuþega á því hvaða áhrif þjónustan hefur haft á heilsu þeirra og lífsgæði. Þær mælingar eigum við til hjá VIRK fyrir nokkur tímabil og á myndinni hér að neðan sjá niðurstöðurnar fyrir árin 2017, 2023 og 2024.

Mælingarnar voru framkvæmdar af Gallup árin 2017 og 2023 en voru hluti af þjónustukönnun VIRK árið 2024. Hér eru þátttakendur í lok þjónustu beðnir um að meta sjálfsmynd sína og starfsgetu ásamt andlegri og líkamlegri heilsu annars vegar í upphafi þjónustu og hins vegar í lok þjónustu á kvarðanum 1-10.

Í þessu samhengi er líka áhugavert að rifja upp og benda á niðurstöður úr heildarúttekt á VIRK sem gerð var á árinu 2022 en þar unnu ytri aðilar úr ópersónugreinanlegum gögnum úr gagnagrunni VIRK og keyrðu saman við gögn frá lífeyrissjóðum ásamt því að skoðuð var þróun á örorku og endurhæfingu bæði hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun.

Niðurstaða þessarar skoðunar var að örorkubyrði hjá Tryggingastofnun hafði lækkað um 2,4% og örorkubyrði hjá lífeyrissjóðunum hafði lækkað um 13,7% þegar skoðuð voru tímabil bæði fyrir og eftir VIRK (milli áranna 2000-2004 og 2015-2019). Einnig var í úttektinni bent á að mun fleiri hafi endurhæfst á árunum 2015-2019 en vænta mátti samkvæmt reynslu áranna 2000- 2004 (áður en VIRK var stofnað) og að hjá lífeyrissjóðum hafi aukin endurhæfing náð að eyða áhrifum aukins nýgengis á örorku.

VIRK og eflaust einnig afrakstur af starfi fleiri aðila innan velferðarkerfisins. Hér má heldur ekki gleyma þeim fjölmörgu sjálfstæðu þjónustuaðilum sem vinna í samstarfi við VIRK um allt land. Þeirra framlag er gríðarlega mikilvægur þáttur í starfsemi og árangri VIRK til margra ára. Ásta Sölvadóttir, sviðsstjóri hjá VIRK, gerir grein fyrir samstarfi VIRK við úrræðaaðila um allt land í grein í ársritinu.

VIRK skiptir máli

Gerð var könnun á viðhorfi almennings til VIRK núna í febrúar 2025. Könnunin var framkvæmd af Maskínu og var lögð fyrir í Þjóðgátt Maskínu. Sambærileg könnun var einnig gerð á árinu 2022. Gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum þessara kannana í ársritinu og á vefnum.

Almennt er viðhorf almennings mjög jákvætt í garð VIRK. Þannig eru 75% svarenda með jákvætt viðhorf til VIRK og aðeins um 4% hafa neikvætt viðhorf til VIRK. 75% svarenda telja að VIRK hafi mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag og aðeins 5% telja að VIRK hafi litla þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Af þeim sem þekkja eitthvað til VIRK telja 85% að VIRK hafi mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag.

Um 60% svarenda þekkja einhvern sem hefur leitað til VIRK og um 11% hafa sjálfir leitað til VIRK. Það þýðir að ríflega einn af hverjum 10 einstaklingum í íslensku samfélagi hefur leitað til VIRK á undanförnum 17 árum. Hér er um að ræða tugi þúsunda einstaklinga sem náð hafa að bæta bæði starfsgetu sína og lífsgæði með aðstoð frá VIRK og þeim þjónustuaðilum sem VIRK starfar með.

Mikilvægar kerfisbreytingar

Í september á þessu ári tekur gildi nýtt örorkulífeyriskerfi sem mun án efa bæta mjög stöðu margra einstaklinga í starfsenduræfingu og auka möguleika einstaklinga með skerta starfsgetu til aukinnar atvinnuþátttöku. Framfærsla verður betur tryggð við mismunandi aðstæður með nýjum sjúkra- og endurhæfingargreiðslum og einstaklingar sem ljúka starfsendurhæfingu með skerta vinnugetu munu hafa meiri möguleika til atvinnuþátttöku með greiðslu hlutaörorkulífeyris á móti atvinnutekjum.

Megináhersla þessara kerfisbreytinga verður á færni, valdeflingu og stuðning við fólk til að nýta hæfileika sína og getu.

Einnig mun samhæft sérfræðimat taka við af núgildandi örorkumati sem er löngu tímabært og mikilvægt. Samstarf verður aukið milli ólíkra stofnana og kerfa með sérstökum samhæfingarteymum þar sem markmiðið er að stuðla að því að sem flestir fái þjónustu við hæfi. Megináhersla þessara kerfisbreytinga verður á færni, valdeflingu og stuðning við fólk til að nýta hæfileika sína og getu. Gerð er betur grein fyrir þessum kerfisbreytingum í góðri grein frá sérfræðingum Tryggingastofnunar í ársritinu.

VIRK hefur tekið þátt í undirbúningi þessara kerfisbreytinga í góðu samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðuneytið og undirstofnanir þess. Þar hefur VIRK bæði getað lagt fram mikla þróunarvinnu í tengslum við innleiðingu á ICF (International Classification of Function) flokkunarkerfinu sem hefur verið nýtt í nýju matskerfi auk þess sem VIRK hefur boðið fram bæði þjónustu og þekkingu á sviði starfsendurhæfingar til að stuðla að því að þessar kerfisbreytingar skili árangri fyrir samfélagið í heild sinni. Hér þurfa margir aðilar að vinna saman undir skýrri stefnumörkun aukinnar atvinnuþátttöku og virkni.

Fyrirhugaðar kerfisbreytingar eru mikilvægar og geta skilað miklum árangri ef vel tekst til. Það er þó mikilvægt að við lítum á þær sem eitt skref í langri vegferð því það eru ýmsir aðrir hlutar kerfisins sem einnig þarf að vinna með til að tryggja árangur til framtíðar. Það er líka mikilvægt að meta stöðugt áhrif þessara breytinga og bregðast við ef eitthvað gengur ekki sem skyldi. Þessar breytingar eru mjög viðamiklar og geta haft áhrif á ýmsa þjónustu innan velferðarkerfisins. Það er því í raun ómögulegt að sjá alla hluti fyrir í svona miklum breytingum og því mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni og vera reiðubúin að bregðast við og taka nýjar ákvarðanir og ný skref ef þörf er á.

Ábyrgð og framtíðarsýn

Þegar við skoðum heildarkerfi stuðnings við einstaklinga með skerta starfsgetu þá blandast óhjákvæmilega saman margir ólíkir þættir. Fjárhagslegir hvatar skipta til dæmis miklu máli því öll þurfum við að lifa og ná endum saman. Einstaklingar gera það sem þeir þurfa að gera til að bæta líf sitt og lífsgæði og því er eðlilegt að tilhögun á fjárhagslegum stuðningi geti skipt miklu máli fyrir árangur í endurhæfingu.

Skipulag framfærslukerfa hefur þannig mikil áhrif á árangur í starfsendurhæfingu þó starfsendurhæfingarþjónustan sem slík taki mið af öðrum þáttum þar sem mismunandi fagaðilar vinna saman að því að greina veikleika og styrkleika einstaklinga og veita viðeigandi þjónustu sem hefur það að markmiði að auka vinnugetu og lífsgæði. Það er því mikilvægt að skipuleggja ólíka hluta velferðarkerfisins út frá sameiginlegri sýn og góðu samstarfi sem hlýtur að miðast við það fyrst og fremst að auka vinnugetu og lífsgæði einstaklinganna.

Við berum ábyrgð á hvert öðru þegar við lifum í samfélagi.

Í þessu samhengi skiptir ábyrgð líka máli. Við berum ábyrgð á hvert öðru þegar við lifum í samfélagi. Við viljum hafa gott velferðarkerfi sem grípur okkur þegar við lendum í áföllum og aðstoðar okkur til sjálfshjálpar á nýjan leik. Þegar við getum ekki unnið fyrir okkur þá vitum við að aðrir munu leggja hönd á plóg í gegnum sameiginlega sjóði okkar. En einstaklingarnir verða líka að bera þá ábyrgð að gera það sem þeir geta til að ná heilsu á ný og skilaboðin úr öllu kerfinu verða að vera á þann veg að réttindi, þjónusta og ábyrgð fari saman.

Til að tryggja rétta þjónustu á réttum tíma og auka ábyrgð allra aðila í okkar velferðarkerfi þurfa því ólík kerfi með ólíka sýn, áherslu og menningu að ná samstarfi þar sem fókusinn er bætt lífsgæði, heilsa og líðan einstaklinganna. Þetta getur verið flókið og krefst þess að menn leggi sig fram um að skilja, hlusta, miðla og meðtaka upplýsingar og upplifun út frá mismunandi sjónarhornum og faglegu umhverfi. Til að gera slíkt mögulegt þarf sýnin og stefnan til framtíðar að vera skýr og allir þurfa að axla þá ábyrgð að vinna í samræmi við hana til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2025.


Fréttir

06.05.2025
07.05.2025

Hafa samband