Ung VIRK
Ung VIRK
Elva Dögg Baldvinsdóttir sérfræðingur hjá VIRK
Sigurlaug Lilja Jónasdóttir verkefnastjóri hjá VIRK
Elín Steinarsdóttir verkefnastjóri hjá VIRK
Í byrjun árs 2019 var sett af stað samstarfsverkefni um bætt lífskjör og lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu á vegum Félagsmálaráðuneytisins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Tryggingastofnunar ríkisins, Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs.
Ákveðið var að markmið verkefnisins væri að hækka virknihlutfall ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára með aukinni samvinnu þjónustukerfa á höfuðborgarsvæðinu. VIRK tók þetta verkefni strax alvarlega og hefur lagt sitt af mörkum til að auka hlutfall ungs fólks sem er í námi eða vinnu. Árið 2024 lækkaði VIRK aldursviðmiðið niður í 16 ára aldur.
Ung VIRK er þverfaglegt teymi innan VIRK sem samanstendur af sérfræðingum, ráðgjöfum og atvinnulífstenglum sem öll hafa mikinn áhuga á að vinna með ungu fólki.
Seinustu fimm árin hefur verkefnið þróast og bæði þjónustan og úrræðin verið endurmetin í takt við þörfina hverju sinni. Til að mynda var stóraukið framboð af fjarúrræðum á meðan á covid takmörkunum stóð og var ákveðið að halda mörgum þeim úrræðum inni eftir að covid lauk. Þetta hefur nýst ungmennum á landsbyggðinni sérlega vel. Er þá alltaf verið að skoða hvaða úrræði henta best til að hjálpa unga fólkinu að ná sínum markmiðum.
Ung VIRK er þverfaglegt teymi innan VIRK sem samanstendur af sérfræðingum, ráðgjöfum og atvinnulífstenglum sem öll hafa mikinn áhuga á að vinna með ungu fólki.
Í dag skilgreinir VIRK hópinn út frá eftirfarandi viðmiðum:
- Hafa grunnskólapróf eða minna (ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu)
- Eru með litla eða brotna vinnusögu og/eða hafa verið langan tíma frá vinnumarkaði (u.þ.b. 6 mánuði)
- Glíma við heilsubrest, t.d. andlegan eða líkamlegan vanda
VIRK veitir ungmennum í þessum hópi ýmsan stuðning umfram þá þjónustu sem venjulega er veitt í starfsendurhæfingu. Lögð er áhersla á að koma þeim að hjá ráðgjafa VIRK sem fyrst, þar sem þau fá þéttara utanumhald hjá sínum ráðgjafa og aðeins meiri sveigjanleika í þjónustunni.
Eins og komið var inn á hér að ofan er VIRK ávallt að skoða hvaða úrræði hjálpa hvað mest og hafa samstarfsaðilar okkar þróað úrræði sem nýtast þessum hóp sérstaklega vel. Hægt er að nefna nokkra af okkar helstu samstarfsaðilum, t.d. Hringsjá, starfsendurhæfingarstöðvar um allt land, Framvegis og ýmsa heilbrigðismenntaða fagaðila s.s. sálfræðinga, iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og íþróttafræðinga.
Það er fjölbreyttur hópur sem fellur undir skilgreininguna Ung VIRK en þau eiga það sameiginlegt að hafa flosnað upp úr námi og átt erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera að glíma við einhvern heilsubrest. Undanfarin ár hefur beiðnum fjölgað bæði fyrir einstaklinga með greinda taugaþroskaröskun eða grun um slíka, og þar sem fíknivandi hefur verið til staðar.
Einstaklingar með fíknivanda
Mikilvægt er að styðja ungt fólk með fíknivanda út á vinnumarkaðinn því að atvinna er í raun, samkvæmt rannsóknum, einn stærsti forspárþáttur árangursríkrar fíknimeðferðar og langvarandi edrútíma að meðferð lokinni. Einstaklingar sem hafa fasta atvinnu eftir meðferð virðast sinna meðferðinni af meiri metnaði og áhuga, og ná lengri edrútíma en þeir sem ekki hafa vinnusamband.
Einstaklingar sem hafa fasta atvinnu eftir meðferð virðast sinna meðferðinni af meiri metnaði og áhuga, og ná lengri edrútíma en þeir sem ekki hafa vinnusamband.
Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að þeir einstaklingar sem voru með atvinnu eða fengu starf á meðan á meðferð stóð, voru ólíklegri til að falla aftur í neyslu heldur en þeir sem voru atvinnulausir. Einstaklingar með fíknivanda sem hafa atvinnu eru einnig ólíklegri til að fremja glæpi og sýna aðra áhættuhegðun, heldur en þeir sem eru atvinnulausir3,4.
Í kringum 30% einstaklinga sem falla undir skilmerki Ung VIRK eru að glíma við fíknivanda. Ekki er gerð krafa um tiltekinn edrútíma heldur er horft til stöðugleika í edrúmennsku.
Við hjá VIRK erum í góðu samstarfi við Grettistak, Hlaðgerðarkot, Krísuvík, SÁÁ og meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma til að hægt sé að hafa sem bestu samfellu í þjónustu og veita einstaklingi þann stuðning sem hann þarf á að halda á þeim tímapunkti.
Einstaklingar með taugaþroskaröskun
Einstaklingar sem fæðast með taugaþroskaröskun geta í sumum tilfellum þurft aukinn stuðning eða aðlögun að vinnu. Þar sem taugaþroskaröskun fylgir einstaklingi út ævina er mikilvægt að kortleggja vel styrkleika og hindranir hvers einstaklings fyrir sig. Samkvæmt rannsóknum gengur ungu fólki á einhverfurófinu verr að fá starf og halda starfi en öðrum ungum einstaklingum með annars konar hindranir1.
VIRK tekur við öllum beiðnum fyrir einstaklinga á einhverfurófi sem hafa hug á að stefna í nám eða út á almennan vinnumarkað.
VIRK tekur við öllum beiðnum fyrir einstaklinga á einhverfurófi sem hafa hug á að stefna í nám eða út á almennan vinnumarkað. Fjölmargir einstaklingar á einhverfurófi hafa nýtt sér þjónustu VIRK undanfarin ár með góðum árangri. Aukning hefur verið á beiðnum fyrir einstaklinga á einhverfurófi og hefur VIRK lagt upp með að vinna ennþá betur með þennan hóp. Í dag er verið að skoða að fjölga úrræðum sérsniðnum að þeirra þörfum.
VIRK hefur komið sér upp góðu samstarfi við ýmsa aðila sem hafa sérhæft sig í að vinna með fólki á einhverfurófi, má þar t.d. nefna Heimastyrk, sjálfstætt starfandi sérfræðinga t.d. sálfræðinga og iðjuþjálfa.
IPS hugmyndafræðin
Eitt af þeim úrræðum sem boðið er upp á fyrir ungmenni sem falla undir skilmerki Ung VIRK hópsins er einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit. Þessi þjónustuleið kallast IPS og stendur fyrir Individual placement and support. Hér er lögð megináhersla á að koma af stað atvinnutengingu á almennum vinnumarkaði snemma í starfsendurhæfingarferlinu samhliða annarri endurhæfingu. Vinnan telst þá vera eitt af úrræðum í starfsendurhæfingunni. Í starfi gefst tækifæri til þess að þjálfa færni einstaklings í raunaðstæðum, úti á vinnumarkaði5.
Áhugahvöt til vinnu er hér lykilþáttur. Ef einstaklingur lýsir yfir áhuga á að prófa sig áfram á vinnumarkaði er ekki verið að bíða eftir því að búið sé að endurhæfa einstaklinginn svo hann sé tilbúinn til þess að fara að vinna. Í IPS byrjum við snemma í ferlinu að hugsa um að fara að vinna því slík virkni hefur oft gott endurhæfingarlegt gildi5. Stundum vilja einstaklingar byrja í hlutastarfi og reynir IPS atvinnulífstengill þá að aðstoða þjónustuþega við að finna starf við hæfi út frá áhugasviði og þörfum hvers og eins.
Stuðningur og eftirfylgd IPS atvinnulífstengils inn í starf er einnig mikilvægur þáttur í hugmyndafræðinni. Rannsóknir sýna að með því að fá þéttan stuðning og góða eftirfylgd eftir að einstaklingur er kominn inn í starf er mun líklegra að viðkomandi haldist í starfi og líði vel2. Lögð er áhersla á að kortleggja styrkleika einstaklings samhliða því að vinna með hindranir til vinnu. Einstaklingurinn sjálfur, IPS atvinnulífstengill og ráðgjafi einstaklings mynda einskonar teymi sem styðja þjónustuþegann í starfsendurhæfingunni og við endurkomuna inn á vinnumarkað.
IPS hugmyndafræðin er gagnreynd aðferðarfræði sem hefur skilað góðum árangri 5 og erum við hjá VIRK stolt að geta boðið upp á slíka þjónustu.
Ung VIRK er viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að hlúa vel að til að tryggja farsæla starfsendurhæfingu. Ávinningurinn af að koma þessum einstaklingum í nám eða vinnu er óumdeilanlegur, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið allt.
Samantekt
UNG19 verkefnið var sett á fót hjá VIRK árið 2019 með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku hjá ungu fólki. Samkvæmt rannsóknum skilar það bestum árangri að starfsendurhæfingin sé markviss og ekki sé löng bið eftir þjónustu. Nýtt verklag var tekið upp og sérstöku UNG19 teymi komið á laggirnar hjá VIRK, sem nú heitir einfaldlega Ung VIRK. Þar eru ráðgjafar, sérfræðingar og atvinnulífstenglar sem sérhæfa sig í málefnum hópsins og úrræðum ætluðum honum.
Frá 2019 hafa ýmsar breytingar orðið á bæði þjónustunni og skilyrðum inn í hana. Í dag er mikið horft til áhugahvatar til vinnu eða náms burtséð frá greiningum. VIRK hefur lækkað aldursviðmið og tekur nú við yngri einstaklingum eða frá 16 ára aldri. Aðal markmið VIRK er að auka getu einstaklinga með því að vinna með hindranir þeirra til vinnu eða náms. VIRK er alltaf að reyna að betrumbæta þjónustuna með því að skoða úrræði sem eru í boði og meta hvort nýrra úrræða sé þörf.
Ung VIRK er viðkvæmur hópur sem mikilvægt er að hlúa vel að til að tryggja farsæla starfsendurhæfingu. Ávinningurinn af að koma þessum einstaklingum í nám eða vinnu er óumdeilanlegur, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og samfélagið allt.
Sjá nánar um Ung VIRK og viðtal við þjónustuþega Ung VIRK.
Greinin birtist í ársriti VIRK 2025.
Heimildir
- Anderson, C., Butt, C. & Sarsony, C. Young Adults on the Autism Spectrum and Early EmploymentRelated Experiences: Aspirations and Obstacles. J Autism Dev Disord 51, 88–105 (2021).
- Bond GR, Drake RE, Becker DR. (2012). „Generalizability of the Individual Placement and Support (IPS) model of supported employment outside the US.“ World Psychiatry. 11(1):32–39.
- Doostian Y, Bahmani B, Farhoudian A, Azkhosh M, Khanjani MS. Vocational Rehabilitation for Individuals With Substance-Related Disorders. Iranian Rehabilitation Journal. 2019; 17(2):105-112.
- Sprong M, Melvin A, Dallas B, Koch S, D. Substance Abuse and Vocational Rehabilitation: A Survey of Policies & Procedures. Journal of Rehabilitation. 2014; 80(4):4-9.
- Sveinsdottir V, Lie SA, Bond GR, et al. (2020). „Individual placement and support for young adults at risk of early work disability (the SEED trial). A randomized controlled trial.“ Scandinavian Journal of Work, Environment & Health. 46(1):50–59.