Fara í efni

Starfsfólk sent í endurhæfingu á launum

Til baka

Starfsfólk sent í endurhæfingu á launum

VIRK vinnur með LSH og Reykjavíkurborg að endurhæfingu starfsfólks. Snýr aftur í fulla vinnu.

 

Virk starfsendurhæfingarsjóður hefur unnið að tilraunaverkefni með Landspítalanum og fleiri stofnunum og fyrirtækjum að endurhæfingu starfsfólks. Fólkið er þá áfram í vinnu hjá fyrirtækinu en notar hluta vinnudagsins í starfsendurhæfingu. Markmiðið er að starfsfólkið geti farið aftur í fyrra starfshlutfall að starfsendurhæfingu lokinni.

„Við höfum unnið í heilt ár með Landspítalanum. Tekið einstaklinga sem átt hafa í vandamálum með að mæta til vinnu vegna heilsuerfiðleika. Ekki hefur tekist að leysa málið með því að breyta vinnutíma eða verkefnum og trúnaðarlæknir miðlar starfsfólkinu til okkar,“ segir Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri hjá VIRK. Hún segir að starfsmaðurinn haldi áfram í vinnu, til dæmis í 40% starfshlutfalli, og fái full laun en noti það sem eftir er vinnudagsins til að sækja úrræði starfsendurhæfingar á vegum VIRK. Markmiðið sé að viðkomandi geti snúið aftur til fyrra starfs.

Hún segir að þetta hafi komið vel út. Fólk hafi yfirleitt getað snúið til baka í sitt fyrra starfshlutfall eftir þrjá til sex mánuði. Hún getur þess þó að á þessum tíma komi í ljós hvort fólk sé með skerta starfsgetu og geti ekki farið í fullt starf en lítið hafi reynt á það í þessu tilraunaverkefni. VIRK hefur nú tekið upp samskonar samstarf við Reykjavíkurborg.

Þarf að fjölga ráðgjöfum

Jónína tekur fram að ráðgjafi þurfi að halda utan um hvern þátttakanda og takmarki það mjög þann fjölda sem VIRK geti tekið við. Á síðasta ári nutu um 10 starfsmenn þessarar þjónustu. Segir Jónína að ef þetta úrræði ætti að vera í boði fyrir öll fyrirtæki þyrfti að fjölga mjög ráðgjöfum hjá sjóðnum.

Viðtal: Helgi Bjarnason
Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2018.

Sjá frétt um samstarfið við Reykjavíkurborg.


Fréttir

27.04.2024
30.04.2024

Hafa samband