Fara í efni

Pepp Upp – Framtíð til farsældar

Til baka
Elísabet og Kolbrún
Elísabet og Kolbrún

Pepp Upp – Framtíð til farsældar

Elísabet Gísladóttir og Kolbrún Ingibergsdóttir stofnendur og ráðgjafar hjá Ljósbroti

Lýðheilsusetrið Ljósbrot hefur um allt langt skeið unnið og þróað með sér hugmyndafræðí sem hentar ungu fólki frá 18 ára aldri, undanfarin 5 ár hefur hugmyndafræðin verið nýtt til þróunar á Pepp Upp verkefninu.

Pepp Upp var eitt þeirra verkefna sem hlutu verðlaun árið 2017 í hugmyndasamkeppni um þróun starfsendurhæfingarúrræðis fyrir ungt fólk í þjónustu VIRK og í kjölfarið hlaut lýðheilsusetrið þróunarstyrk frá VIRK.

Ársrit VIRK tók þær Elísabet Gísladóttur og Kolbrúnu Ingibergsdóttur, stofnendur og ráðgjafa hjá Ljósbroti, tali um Pepp Upp.

„Við leggjum áherslu á að vinna eftir HOLOS hugmyndakerfinu sem lítur til allra þarfa einstaklingsins. Byggt er á lýðheilsulegum sjónarmiðum og heilsueflingu þar sem unnið er með mikilvægi næringar, hreyfingar, líðanar og lífsstíls. Markmiðið er að koma þeim út í lífið, út í virkni og sjá þau blómstra,“ segir Elísabet.

Þeir sem vinna með þessum aldurshópi vita að öðruvísi áskoranir fylgja því að eiga í samskiptum við hann en fyrri kynslóðir. Hvað hefur reynst áhrifaríkast í samskiptum við þá sem svara helst ekki í síma?
„Samskiptin fara eftir ákveðnu og skýru ferli, aðallega í gegnum samskiptaforritið Messenger en við þurfum stundum að hringja. Yfirleitt svara þau ekki í fyrstu en þá sendum við SMS og þá hringja þau oftast strax. Aðalatriðið er að fá þau til að mæta í fyrsta tíma á námskeiðinu og mynda tengsl,“ segir Kolbrún. „Við viljum að þau mæti á réttum tíma og það getur verið erfitt til að byrja með. Þau sofa aðeins yfir sig í byrjun en skipulag námskeiðsins hjálpar þeim að vinda ofan af því,“ bætir hún við.

Nýtt viðfangsefni í hverri viku

„Við erum öll með einhverskonar kvíða og það að stíga skrefið inn í nýjan hóp getur verið skelfileg tilhugsun í fyrstu en við notum léttan húmor og tökum okkur ekki alvarlega, ég er bara manneskja að hitta aðra manneskju. Við tökum niður allar faglegar grímur í samskiptum við þennan hóp en vinnum eftir mjög skýrum strúktúr.

Hugmyndafræðin og verklagið er úthugsað, við byrjum á því að fá þau til að svara okkur, tengjast okkur. Síðan tökum við einstaklingsviðtalið, þá fyrsta tímann á námskeiðinu þar sem við kynnum hugræktina sem er undirliggjandi allar 16 vikurnar í námskeiðinu. Næst er það líkamsræktin og næringarfyrirlestrarnir og svo koll af kolli, nýtt viðfangsefni og nýir fyrirlesarar í 8 vikur, sérvalið fólk í hverju rúmi. Fyrirlestrarnir eru stuttir og markvissir og brotnir upp með hreyfihléum og næringu,“ segir Elísabet.

„Seinni 8 vikurnar notum við til að meta hvert þau vilja fara, hvað þau vilja gera, skoðum hvernig þau sækja um vinnu og æfum t.d. atvinnuviðtöl. Markmiðið er að við lok námskeiðsins verði næstu skref þátttakenda skýr, ráðningarsamningur liggi fyrir eða skólavist,“ segir Kolbrún.

Hvernig er hópurinn samsettur á Pepp Upp námskeiðunum?
„Núna eru kynjahlutföllin jöfn en á síðasta námskeiði voru strákar fleiri en stelpurnar og yfirleitt kemur um 85% af hópnum til okkar í gegnum VIRK,“ segir Elísabet.

Þær segja unga fólkið oft mjög uppburðarlítið í upphafi námskeiðs. Tekið sé tillit til þess og horft til hvers og eins fyrir sig. Þótt unnið sé með hópinn þá sé nálgunin einstaklingsmiðuð.

Skilgreina út frá styrkleikum

„Þegar við hittum þau fyrst í einkaviðtölum í byrjun námskeiðs viljum við m.a. gera okkur grein fyrir því af hverju viðkomandi er kominn á námskeiðið en eftir það horfum við fram á veginn. Undirliggjandi markmið alllra fyrirlestranna er að hjálpa þeim, kenna þeim, að skilgreina sjálfan sig útfrá styrkleikum sínum,“ segir Kolbrún.

„Undir lok námskeiðsins eru þau búin að vinna ferliskrá og umsögn um sjálfan sig og eru komin með hugmynd um það hvert þau vilja halda, hvað þau vilja gera. Og hugmyndir þeirra taka oft miklum breytingum frá byrjun námskeiðs til útskriftar,“ segir Elísabet.

Pepp Upp verkefnið er í stöðugri þróun. Að loknu hverju námskeiði gefa þátttakendur endurgjöf sem er mikilvæg til frekari þróunar á námskeiðinu. Endurgjöfin hefur einnig verið nýtt til þess að þróa opin sjálfstyrkingarnámskeið fyrir ungt fólk sem Ljósbrot býður upp á.

Kolbrún segir vinnuna með unga fólkinu vera næringu fyrir sálina. „Fólk hefur svo oft gefist upp á þeim, þau eru orðin vanvirk og skilgreind út frá greiningum sínum. Þau sjá ekki útúr öllum þessum hörmungum. Við sleppum aldrei hendinni af krökkunum, erum að senda þeim skilaboð reglulega og ef þau þurfa þá geta þau komið aftur til okkar.“

„Þetta er Non-profit verkefni, það sem við fáum út úr þessu er að sjá þessa krakka blómstra. Við sleppum þó ekki hendinni alveg af þeim þótt námskeiðinu sé lokið. Einu sinni í himnaríki, alltaf í himnaríki,“ segir Elísabet og brosir. „Þetta er ekki meðferð, þetta er heilsueflingarprógramm og starfsendurhæfing. Ef eitthvað kemur upp á þá er þeim velkomið að hafa samband og þau gera það.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2019 - sjá fleira áhugavert úr ársritinu hér.


Hafa samband