Auknir möguleikar fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu
Auknir möguleikar fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu
Nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi sem tók gildi 1. september markar tímamót, breytingarnar eru umfangsmiklar og fela í sér nýja nálgun.
Nýja kerfið er einfaldara, greiðslur hækka, dregið er úr tekjutengingum og fólki gert auðveldara að taka þátt á vinnumarkaði kjósi það svo. M.a. er stuðningur aukinn við fólk í endurhæfingu og áhersla lögð á að hindra að fólk falli milli kerfa og endi með ótímabært örorkumat.
„Við hjá VIRK höfum tekið þátt í undirbúningi þessara kerfisbreytinga í samstarfi við aðrar stofnanir og höfum lagt áherslu á það að vera vel undirbúin með fjölgun bæði ráðgjafa og atvinnulífstengla hjá VIRK,“ sagði Vigdís Jónsdóttir forstjóri VIRK á kynningarfundi í Grósku.
Vigdís sagði nýja kerfið fela í sér aukinn sveigjanleika og samvinnu. Nýr bótaflokkur, Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, muni ná betur utan um einstaklinga með fjölþættan vanda og aukin samvinna ólíkra aðila í samhæfingarteymum skapi vettvang sem auðveldi fagaðilum að sjá til þess að einstaklingar fái þjónustu við hæfi.
Þá sagði Vigdís að nýja kerfinu fylgi auknir möguleikar fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Nú verði mögulegt fyrir instaklinga að vera á hlutaörorku og vinna með, möguleiki sé á virknistyrk í allt að tvö ár og tekið verði upp nýtt heildrænt mat á stöðu og möguleikum einstaklinga í stað örorkumats sem hefur verið óbreytt í áratugi.
„Við hjá VIRK fögnum þessum tímamótum og hlökkum til að áframhaldandi góðs samstarfs við að auka lífsgæði og vinnugetu einstaklinga í íslensku samfélagi,“ sagði Vigdís að lokum.
Sjá nánar á vefsíðu Félags- og húsnæðismálaráðuneytisins og vefsíðu TR.