Fara í efni

Ávarp stjórnarformanns

Til baka

Ávarp stjórnarformanns

Ragnar Þór Pétursson formaður stjórnar VIRK 2021-2022

 

Að hnjóta um lífsins hála svið, að hrasa og falla – en upp á við, er ferill að framfara auði.

Svo orti Stephan G. árið 1891. Hann var þá tæplega fertugur, enn í fullu fjöri, en þó nálguðust óðum þau tímamót að hann hætti erfiðisvinnu fyrir aðra, skógarhöggi og járnbrautalagningum, og gerðist eigin herra, landnemi í stóru og dálítið ógnvekjandi landi. Í ljóðinu, sem tilvitnunin er úr, hæðist hann að fullkomleikanum. Honum þykir ekki mikið til þess andlega tíðarfars koma sem predikar fullkomleikann yfir ófullkomnu fólki. Lykillinn að framförum felist ekki í því að vera engill í mannsmynd – heldur manneskja sem þorir að reyna að fóta sig á hinu hála sviði lífsins. Þorir að hrasa en standa upp aftur.

Við erum þó misvel skóuð á svellinu. Afhjúpandi er að lesa hina stórmerku og frumlegu blöndu ævisögu og hugleiðinga í „Samastað í tilverunni“ eftir Málfríði Einarsdóttur. Þar lýsir hún með óvenjulegri hreinskilni (sem hún átti seinna eftir að kalla fífldirfsku) því hlutskipti sem þjóðin, og kannski sérstaklega kvenþjóðin, bjó við. Líf Málfríðar var enginn dans á rósum. Móðir hennar og tvíburabróðir dóu daginn sem hún fæddist og ung var hún send í fóstur. Faðir hennar var afskiptalaus um hana eftir það. Málfríður braust til mennta og kláraði Kennaraskólann en veiktist af berklum og glímdi við andleg og líkamleg veikindi alla tíð sem hömluðu mjög hefðbundinni atvinnuþátttöku.

En Málfríður var skáld og menningarlegur fagurkeri. Undir dulnefni birti hún skrif sín og þau telja á annan tug tungumálin sem hún þýddi úr. Meðal þess sem hún þýddi voru barnabækur, ljóð eftir Baudelaire og Heine – auk kafla úr lykilverki Dantes. Hún leit svo á að hún tilheyrði þjóð sem skorti vilja eða vit til að leita hæfileikum sínum útrásar. Fólki væri kerfisbundið haldið í skefjum með skorti á tækifærum og niðurdrepandi brauðstriti. Hennar eigin fjölskylda, sem rak rætur sínar aftur til þeirrar evrópsku hámenningar sem finna mátti í Reykjadal Snorra Sturlusonar á þrettándu öld fær þessa einkunn í skrifum hennar:

„[L]íkt og gróið getur upp af birkirótum í hlíðum ef þær fá að vera í friði fyrir ágangi sauðfjár, eins held ég hefði mátt glæða fagurt mannlíf af þessum kulnandi stofni. En nú er það of seint.“

Málfríður var tæplega áttræð þegar hún gaf út sína fyrstu bók. Hún vakti þegar mikinn áhuga þjóðar sem farin var að vakna til meðvitundar um eigin mannauð. Þjóðin drakk í sig skrif hennar og hafði mikinn áhuga á þessari manneskju, sem hafði fjölda tungumála á takteinum, var vel lesin í sögu og listum, saumaði út súrrealískar myndir og ræktaði blóm. En virtist á sama tíma vera fátæk húsmóðir sem glímdi við mikla erfiðleika.

Segja má að Málfríður hafi afsannað sín eigin orð. Það var ekki of seint að glæða mannlíf af kulnandi stofni. Þvert á móti hafði fagurt mannlíf brotist fram, í lífshlaupi hennar og verkum, þrátt fyrir erfiðleika og streð.

Það sýnir vel víðsýni og dýpt Málfríðar að eitt af því, sem hún sá helst eftir, voru atburðir sem áttu sér stað undir lok fimmtándu aldar suður í Mílanó. Eftirsjá hennar sneri því ekki að eigin athöfnum eða athafnaleysi heldur leit hún á sig sem lítinn þátt í þéttofnu reipi samfélagsins – og skyldleiki hennar við annað fólk náði ekki aðeins til samferðafólksins, heldur í báðar áttir til framtíðar og fortíðar.

Þær eru líka margar ræturnar, sem fyrst og fremst þurfa vernd og hvíld til að ná aftur að blómgast. Að þessu sinni langar mig að helga leiðara ársritsins rótunum. Fólki sem hefur hrasað, dottið, þarfnast hvíldar. Fólki sem leitar sér stuðnings og aðstoðar – fólki sem leitar að leið til að halda áfram að glæða mannlífið með kröftum sínum og hæfileikum. Við vitum að það er aldrei of seint.

Hin mikla eftirsjá var stytta eftir eftirlætis listamanninn hennar, Leónardó da Vinci. Stytta sem furstinn í Mílanó pantaði og átti að vera stærsta stytta heims. Styttan var af hesti og knapa og er í dag þekkt sem hesturinn sem Leónardó kláraði aldrei, stóra eftirsjáin í lífi listamannsins.

Það er hinsvegar ekki rétt að Leónardó hafi ekki klárað hestinn. Það gerði hann og þarna stóð hinn glæsilegi fákur glitrandi í sólinni og vakti bæði undrun og aðdáun. En styttan var enn úr leir og því þurfti furstinn aðeins að leggja fram eir til að festa hana í sessi fyrir komandi kynslóðir. En furstinn tímdi því ekki. Í stað þess kaus hann að steypa fallbyssu úr málminum og fara í hernað, leggja undir sig meiri auð og meiri völd.

Þess vegna stóð leirhesturinn enn í húsagarði furstans þegar hersveitir óvinarins sigruðu stríðið og lögðu undir sig húsakynnin. Um kvöldið, þegar sigurgleðin hafði staðið um hríð og hermennirnir voru orðnir vel drukknir, gerðu þeir það að gamni sínu að skjóta með vopnum sínum á hestinn. Morguninn eftir, þegar hermennirnir skriðu á fætur, var stærsta stytta heims orðin að ólögulegri leirklessu.

Þessa sögu sagði Málfríður tæplega áttræð þegar Útvarpið mætti til að ræða við hana um daginn og veginn. Þetta var hennar stóra eftirsjá. Að lifa það ekki að sjá besta verk uppáhalds listamannsins síns vegna þess að samtímamenn hans töldu mikilvægara að nota dýrmæt hráefni í stríðstól og eyddu síðan fegurðinni í ófriði.

Þegar þetta er skrifað er heimurinn enn einu sinni kominn í stríð. Við erum enn, með tilkomu nýs stafræns veruleika, of mörg í stöðugri leit að fullkomleikanum sem við munum aldrei finna. Þær eru líka margar ræturnar, sem fyrst og fremst þurfa vernd og hvíld til að ná aftur að blómgast. Að þessu sinni langar mig að helga leiðara ársritsins rótunum. Fólki sem hefur hrasað, dottið, þarfnast hvíldar. Fólki sem leitar sér stuðnings og aðstoðar – fólki sem leitar að leið til að halda áfram að glæða mannlífið með kröftum sínum og hæfileikum. Við vitum að það er aldrei of seint.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband