Fara í efni

Aukum atvinnuþátttöku – Hlutaveikindi í starfi

Til baka

Aukum atvinnuþátttöku – Hlutaveikindi í starfi

Jónína Waagfjörð sviðsstjóri hjá VIRK

Langvarandi fjarvera frá vinnu vegna veikinda eða slysa er kostnaðarsöm fyrir samfélagið auk þess sem hún getur haft skaðleg áhrif á heilsu einstaklinga þegar til lengri tíma er litið1. Rannsóknir hafa sýnt að tíð og/eða langvarandi fjarvera einstaklinga frá vinnumarkaði auka líkurnar á atvinnuleysi, getur dregið marktækt úr tekjumöguleikum þeirra og möguleikum á að fá vinnu síðar2,3,4. Við þetta aukast líkur á því að einstaklingar verði óvirkir og háðir örorkulífeyri varanlega.

Eftir því sem tíminn líður í veikindafjarveru því minni líkur eru á því að einstaklingar snúi aftur á vinnumarkaðinn. Vinnan uppfyllir mikilvægar sálfélagslegar þarfir, er mikilvæg fyrir sjálfsmynd einstaklinga og inniheldur ákveðna þætti sem geta verið til bóta fyrir andlega heilsu og vellíðan5.

Vegna lýðfræðilegrar öldrunar vinnuaflsins hjá vestrænum þjóðum og þeim efnahagslega þrýstingi sem því fylgir hafa mörg vestræn lönd lagt aukna áherslu á að auka atvinnuþátttöku og lengja vinnualdurinn6. Ein leið til að ná þessum markmiðum er að auka þátttöku þeirra einstaklinga sem eru með skerta starfsgetu en þeir eru almennt með minni þátttöku á vinnumarkaði í samanburði við þá sem eru með fulla vinnugetu.

Á síðustu árum hafa Norðurlöndin og einhver lönd á meginlandi Evrópu byrjað að innleiða ákveðnar vinnumarkaðsstefnur sem leggja áherslu á hlutastörf á meðan á veikindafjarveru stendur.

Á síðustu árum hafa Norðurlöndin og einhver lönd á meginlandi Evrópu byrjað að innleiða ákveðnar vinnumarkaðsstefnur sem leggja áherslu á hlutastörf á meðan á veikindafjarveru stendur7. Rannsóknir hafa sýnt að aukin notkun hlutaveikinda eða stigvaxandi endurkoma til vinnu samhliða hlutastörfum tengist aukinni atvinnuþátttöku, minni nýtingu á bótum og minna atvinnuleysi. Margir telja að þetta sé áhrifaríkasta inngripið til að bæta atvinnuþátttöku einstaklinga sem hafa verið fjarverandi af vinnumarkaði.

Rannsóknir tengdar hlutaveikindum

Rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif á endurkomu til vinnu þegar einstaklingar fá tækifæri til að vera fjarverandi í hlutaveikindum samhliða því að vinna í hlutastarf en til eru rannsóknir sem draga þessar niðurstöður í efa. Lesendum er bent á að skoða grein Standal og félaga5 frá árinu 2021 til að kynna sér þessa umræðu betur. Í grein þeirra er fjallað um þetta misræmi og hversu erfitt það er að komast að ákveðnum niðurstöðum um ágæti þessa inngrips vegna t.d. áhrifa þess hvernig einstaklingar veljast í þann hóp sem fer í hlutaveikindi og þá sem fara alveg af vinnumarkaðinum og í fulla veikindafjarveru. Þeir starfsmenn sem geta nýtt sér hlutaveikindi eru t.d. með öðruvísi persónuleg einkenni en þeir sem fara í fulla veikindafjarveru (t.d. aldur, kyn, menntun og sjúkdómsgreiningar) og/eða koma frá vinnustöðum með mismunandi vinnustaðaeinkenni (t.d. verkamanna- eða skrifstofustarf og almennur eða opinber vinnustaður) og því mismunandi líkur á árangursríkri endurkomu til vinnu8.

Aðrir hafa bent á að lítill sveigjanleiki í vinnunni, lítil sjálfstjórn á sínum vinnuhögum og lélegt samstarf voru helstu hindranirnar fyrir því að einstaklingar fóru í hlutaveikindi samhliða hlutastarfi. Ofangreindir þættir geta því haft áhrif á bæði tilhneiginguna til þess að nota hlutaveikindi sem úrræði og líkurnar á því að það efli endurkomu til vinnu.

Það er því augljóst að ekki er auðvelt að segja með vissu að þetta úrræði virki fyrir alla einstaklinga og mun líklegra er að það séu hópar sem geta nýtt sér þetta úrræði betur en aðrir. Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á hvaða breytur geta haft þarna áhrif þannig að hægt sé að velja úrræðið fyrir þá sem það mun auðvelda endurkomu til vinnu. Ef það er ekki gert þá gæti notkun úrræðisins leitt til rangra niðurstaðna sem gætu síðan haft áhrif á tillögur og stefnur í framhaldinu sem mundu ekki styðja við notkun á hlutaveikindum. Aukin þekking á þeim þáttum sem geta haft áhrif mun hins vegar bæta ýmsar aðgerðir sem hægt er að fara í til að auka atvinnuþátttöku og auka traust á niðurstöðum þegar úrræðið er metið.

Starfsmönnum í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Finnlandi stendur í dag til boða að taka hlutaveikindi samhliða hlutastarfi Á síðustu árum hafa Norðurlöndin og einhver lönd á meginlandi Evrópu byrjað að innleiða ákveðnar vinnumarkaðsstefnur sem leggja áherslu á hlutastörf á meðan á veikindafjarveru stendur.

Rannsókn frá Danmörku

Rehwald og félagar3 birtu rannsókn í Labour Economics árið 2018 þar sem þeir fjalla um hvaða áhrif það hefur á vinnumarkaðinn að nýta starfsmenn sem eru í veikindaleyfi. Í Danmörku fjármagnar vinnuveitandinn fyrstu 21 dagana af veikindafjarverunni, eftir það tekur sveitafélagið við greiðslum en þessar greiðslur eru að jafnaði í boði að hámarki 52 vikur innan átján mánaða tímabils.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna í heild sinni hvort starfsmenn sem voru í veikindaleyfi en tóku á þeim tíma þátt í öflugri virkniáætlun, myndu sýna meira sjálfræði þegar kom að því að snúa aftur til vinnu og haldast í vinnu. Leitast var við að meta áhrif öflugrar virkniáætlunar á veikindaskráða starfsmenn og atvinnuþátttöku hjá þeim síðar og að bera saman hlutfallslega virkni hvers úrræðis fyrir sig í virkniáætluninni.

Notaðar voru niðurstöður úr umfangsmikilli slembivalsstýrðri rannsókn (meðferðar- og samanburðarhópur) sem framkvæmd var árið 2009 meðal starfsmanna sem voru nýlega skráðir í veikindaleyfi. Meðferðin stóð yfir í fjóra mánuði og samanstóð af vikulegum fundum með málastjórum og þátttakendur skuldbundu sig að taka þátt í öflugri virkniáætlun sem var annað hvort stigvaxandi endurkoma til vinnu (hlutaveikindi) og/eða hefðbundin virkjun (t.d. starfsráðgjöf, námskeið til að byggja upp færni, starfsþjálfun) og/eða úrræði hjá fagaðilum (t.d. sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf, sálfræðiráðgjöf). Viðmiðunarhópurinn fékk venjulega staðlaða virkniáætlun.

Þegar skoðaðar eru niðurstöður rannsóknarinnar m.t.t. meðferðarpakkans í heild (þ.e. þátttaka í úrræðum með auknum virknikröfum) þá hafði þátttakan óhagstæð áhrif á veikindaskráða starfsmenn og atvinnuþátttöku hjá þeim síðar. Þeir sem voru í meðferðarhópnum vörðu skemmri tíma í vinnu og ýmiskonar sjálfsbjargarviðleitni en jafningjar þeirra í samanburðarhópnum (sem fékk staðlaða virkniáætlun). Niðurstöður rannsakenda voru þær að meðferðin stuðlaði að „yfirfærslu í snemmbúin eftirlaun og „fleksjobs“, sem bæði eru farseðlar beina leið í ótakmarkað tímabil opinberrar framfærslu og þannig blindgata á veginum til farsællar endurkomu á vinnumarkaðinn“ eins og sagt er orðrétt í greininni.

Hinsvegar þegar skoðuð voru áhrif hvers virkniúrræðis fyrir sig í meðferðarpakkanum og áhrifin á atvinnuþátttöku sjúkraskrifaðra starfsmanna síðar þá kom í ljós að aukin notkun hlutaveikinda eða stigvaxandi endurkomu til vinnu tengdist aukinni atvinnuþátttöku, minni nýtingu á bótum og minna atvinnuleysi. Hefðbundin virk vinnumarkaðsúrræði eins og starfsnám eða sjúkraþjálfun virtust aftur á móti hafa annað hvort engin eða jafnvel slæm áhrif. Samanlagt þá benda niðurstöður til þess að stigvaxandi endurkoma til vinnu (hlutaveikindi) sé áhrifaríkasta inngripið til að bæta síðari atvinnuþátttöku einstaklinga sem hafa verið fjarverandi í veikindaleyfi.

Rannsókn frá Noregi

Standal og félagar5 gerðu þversniðskönnunarrannsókn meðal einstaklinga sem voru skráðir í langtíma veikindi í Noregi og birtu niðurstöður í BMC Public Health árið 2021. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort munur væri á milli einstaklinga sem voru í hlutaveikindum og þeirra sem voru alveg fjarverandi í veikindaleyfi m.t.t. sjálfsmats á heilsufari, úrræða á vinnustað og sálrænnar seiglu. Samhliða var tekið tillit til þekktra þátta sem hafa áhrif á að einstaklingar velji að fara í hlutaveikindi (s.s. aldur, menntun, kyn, vinnugeiri, sjúkdómsgreining og líkamleg vinna).

Samkvæmt rannsakendum þá eru gögn, sem lýsa því hvernig ákveðnir þættir eins og heilsa og vinnu- og persónutengdir þættir hafa áhrif á val einstaklinga um hlutaveikindi, bæði af skornum skammti og ósamræmd. Nánari vitneskja um hvernig þessir þættir spila inn í þá ákvörðun gætu verið upplýsandi fyrir ýmsa hagsmunaaðila eins og heimilislækna, vinnuveitendur, samræmingaraðila fyrir endurkomu til vinnu og almannatryggingakerfið og þannig aðstoðað við að þróa lausnir til að auka vinnuþátttöku.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þeir sem tóku hlutaveikindi voru frekar konur, með meiri menntun, unnu við minna líkamlega krefjandi störf og voru frekar að starfa í opinbera geiranum. Einnig var sjaldgæfara að þeir yngstu og þeir elstu veldu að fara í hlutaveikindi. Niðurstöður sýndu tengsl milli sjálfsmats á heilsufari og líkunum á því að starfsmaður veldi að fara í hlutaveikindi. Tengslin voru öfug U-laga lína þar sem þeir sem voru við bestu og verstu heilsuna voru ekki eins líklegir að hafa valið að fara í hlutaveikindi. Sá kostnaður sem leggst á vinnuveitandann við það að auðvelda töku á hlutaveikindum gæti átt þátt í þessum tengslum því einstaklingar sem eru við bestu heilsuna eru nær því að snúa aftur til vinnu og sleppa þá alveg að taka hlutaveikindi, á meðan þeir sem eru við verstu heilsuna eru yfirleitt of veikir til að geta unnið.

Niðurstöður sýndu einnig að meira svigrúm til aðlögunar á vinnustað og gott sálfélagslegt vinnuumhverfi tengdist aukinni töku á hlutaveikindum. Þeir sem tóku hlutaveikindi töluðu einnig um að vera með meira sjálfræði í vinnunni og áttu erfiðara með að ráða við kröfur starfsins. Í fyrri rannsóknum þá greindu einstaklingar sem voru í hlutaveikindum að samhliða styttingu á vinnutímanum fylgdi ekki alltaf samsvarandi lækkun á framleiðnivæntingum sem gæti stuðlað að auknum vinnukröfum fyrir þá sem eru í hlutaveikindum. Enginn munur var á hópunum með tilliti til sálfræðilegrar seiglu eða áður tekinna veikindaleyfa.

Niðurstöður benda til þess að meira ætti að skoða sjálfsmat á heilsufari og eiginleika vinnustaðarins þegar skoðuð eru áhrif hlutaveikinda á endurkomu til vinnu.

Rannsókn frá Finnlandi

Hartikainen og félagar6 birtu grein í Scandinavian Journal of Work Environment & Health árið 2023 þar sem þeir fjalla um væntingar um lengd á starfsævi og töpuð starfsár meðal einstaklinga sem nýttu sér hluta- og fullt veikindaleyfi í Finnlandi.

Í Finnlandi greiða vinnuveitendur fyrstu 10 dagana sem starfsmenn eru fjarverandi vegna veikinda en eftir það tekur almannatryggingakerfið við greiðslum. Starfsmenn sem eiga rétt á fullri veikindafjarveru geta eftir þessa 10 daga valið að fara í hlutaveikindi ef vinnuveitandinn getur skipulagt slíkt og ef læknisfræðilegt mat telur starfsmenn geti það án þess að þeir geti skaða heilsu sína. Í Finnlandi hefur aðgengi að hlutaveikindum verið þróað til að hjálpa einstaklingum með skerta starfsgetu að vera áfram í vinnunni í hlutastarfi og til að auðvelda endurkomu til vinnu eftir veikindafjarveru.

Markmið þessarar rannsóknar var að gera hálftilraun (e. quasi-experiment) til að meta áhrif hlutaveikinda og fullrar veikindafjarveru. Reiknuð voru bæði áhrif á væntingar um lengd mögulegrar starfsævi (e. working life expenctancy) og töpuð starfsár (e. working years lost) hjá starfandi finnskum einstaklingum. Niðurstöður þessarar rannsóknar eiga aðeins við um einstaklinga sem eru fjarverandi vegna andlegra og stoðkerfisvandamála og geta niðurstöður því verið öðruvísi fyrir aðra sjúkdómahópa.

Niðurstöður þeirra voru í samræmi við fyrri rannsóknir sem bentu til þess að hlutaveikindi eða stigvaxandi endurkoma til vinnu hefur jákvæð áhrif á atvinnuþátttöku4,8,9. Það sem kom nýtt fram í rannsókninni voru vísbendingar um að það að fara í hlutaveikindi, í samanburði við fulla veikindafjarveru, væri áhrifaríkari leið til að lengja tímann sem einstaklingar vörðu í vinnunni yfir eftirstandandi starfsferil sinn meðal fólks með andlegan vanda eða stoðkerfissjúkdóma.

Niðurstöður rannsakenda voru þær að alltaf ætti að mæla með að starfsmenn nýttu sér hlutaveikindi í stað fullrar veikindafjarveru, þegar það er mögulegt, fyrir einstaklinga með andlegan vanda eða stoðkerfissjúkdóma.

Niðurstöður sýndu að ákvörðunin að nýta hlutaveikindi frekar en að vera í fullri veikindafjarveru leiddi til lengri starfsævi vegna þess að minni tíma var varið í atvinnuleysi og örorkulífeyri. Sérstaklega átti þetta við um einstaklinga með andlegan vanda og þá sem unnu í einkageiranum. Það að nýta sér hlutaveikindi virtust fjölga starfsárunum með því að efla endurkomu til vinnu í fullt starf aftur. Fyrir einstaklinga með stoðkerfissjúkdóma voru einnig jákvæðu áhrifin en ekki eins mikil, en sé litið til þess að stoðkerfissjúkdómar eru ein helstu orsök skertrar starfsgetu getur samfélagslegur ábati verið töluverður þegar á heildina er litið. Niðurstöður rannsakenda voru þær að alltaf ætti að mæla með að starfsmenn nýttu sér hlutaveikindi í stað fullrar veikindafjarveru, þegar það er mögulegt, fyrir einstaklinga með andlegan vanda eða stoðkerfissjúkdóma.

Samvinna eykur þátttöku

Á Íslandi á launafólk rétt á launum frá vinnuveitanda vegna veikinda og slysa í tiltekinn tíma en fjöldi veikindadaga er þó mismunandi eftir kjarasamningum og því hvort starfsmaðurinn er opinber starfsmaður eða vinnur á almennum vinnumarkaði. Veikindaréttur á opinberum markaði er mun betri en á almennum markaði og er fjöldi veikindadaga t.d. mun meiri hjá starfsmönnum opinberra fyrirtækja eftir 1 ár í starfi (www.asi.is). Í kjarasamningum hjá ríki og sveitarfélögum er heimildarákvæði um hlutaveikindi og má finna þetta ákvæði t.d. hjá mörgum fyrirtækjum og sjálfseignarstofnunum sem aðildarfélög BSRB semja við en almennt er ekki slíkt ákvæði í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum (www.bsrb.is). Samkvæmt þessu ákvæði þá eru veikindi talin líkt og um tvo starfsmenn sé að ræða. Laun eru greidd fyrir það hlutfall sem unnið er, en veikindagreiðslur koma á móti fyrir það hlutfall sem eftir er og dragast þeir frá áunnum veikindarétti starfsmanns.

Það er alltaf undir vinnustaðnum komið hvort starfsmaður geti fengið tækifæri til að vinna í skertu starfhlutfalli og þiggja hlutaveikindalaun á móti. Einnig má nýta þetta ákvæði þegar starfsmaður er að snúa aftur til vinnu eftir langtíma fjarveru vegna veikinda. Þá fær starfsmaður tækifæri til að koma til baka í vinnu á stigvaxandi máta en eins og sjá má í textanum hér á undan þá er slíkt fyrirkomulag að skila betri árangri í mörgum tilfellum.

Það hefur alltaf staðið einstaklingum til boða að koma í starfsendurhæfingu hjá VIRK samhliða því að vera áfram í vinnunni. Lögð er áhersla á að einstaklingar séu ekki í meira en 60 – 70% starfshlutfalli til þess að þeir hafi tíma og getu til að taka þátt í viðeigandi úræðum í starfsendurhæfingunni. Samstarf við vinnustaðinn er mikilvægt þar sem oft þarf að draga enn frekar úr starfshlutfalli í byrjun og skipuleggja aðlögun á vinnustað (t.d. á vinnutíma, verkefnum eða vinnuaðstöðu) og svo þarf að skipuleggja stigvaxandi endurkomu til vinnu til að einstaklingar komist aftur í sitt fyrra starfshlutfall í lok starfsendurhæfingar.

Á síðasta ári lagði VIRK áherslu á að kynna þennan möguleika fyrir fyrirtækjum sem úrræði fyrir starfsmenn þeirra sem eiga erfitt með að skila vinnu sinni á fullnægjandi hátt vegna heilsubrests af ýmsum toga. Farið var í heimsóknir til fjölda fyrirtækja og stefnt er að enn frekari kynningu á þessu úrræði - starfsendurhæfingu samhliða vinnu - núna á þessu ári.

Eins og kom fram hér að framan þá mun Ísland einnig horfa upp á þessar lýðfræðilegu breytingar á vinnuaflinu í framtíðinni eins og í öðrum vestrænum löndum og þurfum við því einnig að leggja áherslu á að auka atvinnuþátttöku sem flestra10. Því er mikilvægt að nýta möguleikann með starfsendurhæfingu samhliða vinnu þar sem starfsmaðurinn fer aldrei alveg frá vinnustaðnum en fær tækifæri til fara í hlutastarf og á móti að taka hlutaveikindi. Þannig aukast líkurnar á því að hann nái aftur sinni fyrri starfsgetu sem dregur úr líkum á því að hann fari alfarið af vinnumarkaðinum.

Lögð er áhersla á þetta í grein Pálsson og félaga11Vinna og verkir“ í ársriti VIRK 2023. Í greininni er talið að vinnustaðurinn sé góður vettvangur fyrir endurhæfingu fyrir einstaklinga með verki og getur verið forsenda þess að verkirnir minnki eða hverfi alveg ef einstaklingar fá tækifæri til að snúa aftur til fyrri starfa. Í dag eru einnig margir einstaklingar að reyna að snúa til baka á vinnumarkaðinn eftir að hafa fengið COVID en hafa ekki náð sér að fullu12. Þessir einstaklingar myndu geta nýtt sér þennan möguleika að vera í hlutaveikindum samhliða hlutastarfi og að sett sé upp virkniáætlun innan raunhæfs tímaramma þar sem þeir fá tækifæri til að koma á stigvaxandi máta inn í sitt fyrra starfshlutfall.

Í grein Tompa13 Ávinningur af þátttöku allra á vinnumarkaði fangaður: Leiðin fram á við fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og vinnumarkaður 21. aldarinnar“ í ársriti VIRK 2023 kemur fram að útilokun hóps fólks með skerta starfsgetu frá þátttöku á vinnumarkaðinum er mjög kostnaðarsöm fyrir bæði einstaklinginn og þjóðfélagið í heild sinni. Samstarf milli vinnustaðar, einstaklings og starfsendurhæfingar eða heilbrigðiskerfisins, eftir atvikum, er mikilvægt til að auðvelda og auka þátttöku þessa hóps á vinnumarkaðinum þannig að hún gangi upp á farsælan hátt fyrir alla hagsmunaaðila.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Heimildir

  1. Waddell G & Burton A. Is Work Good for Your Health and Well-being? 2006, TSO (The Stationery Office), London.
  2. Hesselius P. Does sickness absence increase the risk of unemployment? J. Socio Econ. 2007;36(2): 288-310.
  3. Rehwald K, Rosholm M, Rouland B. Labour market effects of activating sick-listed workers. Labour Econ. 2018; 53:15-32.
  4. Markussen S, Mykletun A, Röed K. The case for presenteeism – evidence from Norway´s sickness insurance program. J Public Econ. 2012;96(11-12):959-72.
  5. Standal MI, Hjemdal O, Aasdahl L, Foldal VS, et al. Workplace flexibility important for part-time sick leave selection-an exploratory cross-sectional study of longterm sick listed in Norway. BMC Public Health 2021;21(1):732. H.
  6. Hartikainen E, Solovieva S, Viikari-Juntura E, Leinonen T. Working life expectancy and working years lost among users of part- and full-time sickness absence in Finland. Scand J Work Environ Health 2023;49(1):23-32.
  7. Leoni T. Graded work, the activation of sicklisted workers and employer participation in continental Europe. Soc Policy & Soc 2020;21(3):385-404.
  8. Kausto J, Viikari-Juntura E, Virta E, Gould R, et al. Effectiveness of new legislation on partial sickness benefit on work participation: a quasi-experiment in Finland. BMJ Open. 2014;4: e006685.
  9. Maas ET, Koehoorn M, McLeod CB. Does gradually returning to work improve time to sustainable work after a work-acquired musculoskeletal disorder in British columbia, Cananda? A matched cohort effectiveness study. Occup Environ Med 2021;78(10:715-23.
  10. Hannes G. Sigurðsson. Ísland 2050: Eldri þjóð – Ný viðfangsefni. Samtök Atvinnulífsins: Apríl 2007.
  11. Pálsson Th, Högh M, Christensen S. Vinna og verkir. Ársrit VIRK, 2023: bls. 58-61.
  12. Bratun U, Svajger A, Domajnko B et al. Return to work among workers recovering from severe COVID-19 in Slovenia: a focus group study. Disability and Rehab. 2022:1–10.
  13. Tompa E. Ávinningur af þátttöku allra á vinnumarkaði þangað: Leiðin fram á við fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og vinnumarkaður 21. aldarinnar. Ársrit VIRK, 2023: bls. 33-37.

Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband